Leiðtogafundur 20 stærstu iðnvelda heims, G20-ríkjanna, hefst í Hamborg í dag. Þar mun Vladimír Pútín, forseti Rússlands, hitta starfsbróður sinn frá Bandaríkjunum, Donald Trump, í fyrsta sinn eftir að sá síðarnefndi var svarinn í embætti.
Trump var í opinberri heimsókn í Póllandi í gær. Í ávarpi sem hann flutti var hann gagnrýninn á stjórnvöld í Kreml og sagðist ætla að leggja áherslu á að Rússar myndu láta af öllum vöðvasýningum við landamæri grannríkja sinna, hætta afskiptum sínum í átökunum í Úkraínu og hætta stuðningi sínum við óvinveitt stjórnvöld í Sýrlandi og Íran.
Fyrir fundinn hafði Angela Merkel, kanslari Þýskalands og gestgjafi þjóðarleiðtoganna í Hamborg, lagt til að á dagskrá fundarins yrði fjallað um loftslagsmál og flóttamanna umfram annað. Þetta væru stærstu verkefnin sem þessi 20 öflugustu hagkerfi heims ættu við að etja.
Gert er ráð fyrir að Donald Trump muni fá að heyra gagnrýni á loftslagsstefnu sína úr mörgum hornum á ráðstefnunni. Merkel hefur sagst telja mismunandi leiðir færar þegar kemur að úrlausn ágreiningsins þar á milli.
„Við erum enn að semja,“ sagði Merkel þegar hún var spurð um hver umræðuefni ráðstefnunnar yrðu í gær. „Það eru mörg mál sem við eigum möguleika á að ræða. Við vitum að Bandaríki hafa dregið sig úr Parísarsamkomulaginu. Allir aðrir, í það minnsta sem mér og fleirum er kunnugt um, standa enn með samkomulaginu. Hvernig þetta fer allt saman er eitthvað sem við látum ykkur svo vita þegar við höfum lokið okkar samskiptum.“
Löggæslan í Hamborg er gríðarlega mikil og hefur verið í aðdraganda ráðstefnunnar. Auk þess að þjóðarleiðtogar efnahagslega öflugustu ríkja heims leggi land undir fót, hafa mótmælendur og andkapítalískar hreyfingar flykkst til Hamborgar. Lögreglan gerir ráð fyrir að nærri því 100.000 mótmælendur muni láta sjá sig á götum borgarinnar um helgina.
Nú þegar hefur hlaupið í kekki milli lögreglu og mótmælenda. Í gær, fimmtudag, sprautuðu lögreglumenn úr brunaslöngum að mótmælendum til að dreifa þeim.
Fríverslun stórmál
Annað mál sem Merkel mun þurfa að koma á dagskrá eru viðfangsefni fríverslunar í heiminum. Forseti Bandaríkjanna hefur talað fyrir frekari einangrun Bandaríkjanna í efnahagslegum skilningi. Merkel mun þurfa að beita öllum ráðum til það láta ekki biturð eða heift ráða ferðinni í samræðum leiðtoganna.
Merkel tók á móti Donald Trump á flugvellinum í Hamborg og ræddi við hann um ráðstefnuna fram undan, Norður-Kóreu, Mið-Austurlönd og átökin í Úkraínu.
Kjarninn mun segja frá framvindu ráðstefnunnar hér á vefnum um helgina.