Síle og Suður-Afríka hafa lengi þótt fyrirmyndarríki í Suður-Ameríku og Afríku, tveimur heimsálfum þar sem lítið er um efnahagsframfarir. Hins vegar lítur út fyrir að hraður efnahagsvöxtur beggja landa hafi stoppað, en síðustu ár hafa verið þeim sérstaklega erfið. Hver er ástæða kulnunarinnar og hvað er til ráða fyrir fyrrum vonarstjörnur þróunarlandanna?
Fjögurra ára kólnun
Seðlabanki Síle býst við 1-2% hagvexti í ár, sem er mun lægri en vöxtur fyrri ára. Til dæmis var hann 7% árið 2004 og 5,8% árin 2011 og 2012, skömmu eftir alþjóðakreppuna.
Raunar hefur hagvöxtur síðustu fjögurra ára í Síle verið sá minnsti í þrjá áratugi. Lægðina má að miklu leyti skýra með samdrætti á koparmarkaði, en landið er mjög háð útflutningi á rauðmálmum. Teikn eru hins vegar á lofti um að sú lægð sé á enda, sem gæti leitt til frekari fjárfestinga í kopariðnaði á næstunni.
Forseti Síle, Michelle Bachelet, hefur einnig verið gagnrýnd harðlega fyrir aukna skattheimtu, en árið 2014 ákvað hún að hækka fyrirtækjaskatt um þriðjung á fimm árum. Líkt og andstæðingar hækkunarinnar bentu á hefur hún leitt til minni fjárfestinga erlendis frá og hægt á hagkerfi sem átti nógu erfitt fyrir.
Bachelet naut mikilla vinsælda þegar hún var kosin og hlaut hún 62% atkvæða. Þó hefur stuðningur hennar dalað hratt með versnandi efnahagsstöðu landsins og mældist um 24% í mars síðastliðnum.
Skuggi Pinochet vofir yfir
Stjórnmálaumhverfi Síle hefur verið tvískipt eftir valdatíð einræðisherrans Augusto Pinochet. Flestir forsvarsmenn í stjórnarandstöðu hafa stutt ógnarstjórn Pinochet á meðan margir innan ríkisstjórnarinnar hafa barist gegn honum.
En nú, 27 árum eftir valdatíð einræðisherrans, sjást fyrstu vísbendingar um breytingar innan beggja fylkinga. Vegna efnahagsvandræða undanfarinna ára eru kristilegir demókratar byrjaðir að efast um tryggð við stjórnmálafylkingu sem inniheldur bæði kommúnista- og sósíalistaflokk. Einnig hafa sprottið upp nýir miðjuflokkar sem reyna að höfða til frjálsyndrar félagsmála- og efnahagsstefnu án þess að tengjast gömlu fasistastjórninni. Í fyrsta skiptið virðast kosningar í Síle ekki lengur vera barátta milli tveggja einsleitra valdablokka sem skilgreindar eru eftir viðhorfi gagnvart ógnarstjórn sem endaði fyrir aldarfjórðungi síðan.
Svipuð vandamál í Suður-Afríku
Annað land sem hefur þurft að þola lægð í efnahagslífinu er Suður-Afríka, en þótt landið sé talið vera hávaxtarland hefur árlegur hagvöxtur þar ekki verið hærri en 2% síðustu fimm árin. Margir þættir eru taldir hafa áhrif þar, en aðallega þó lágt hrávöruverð og pólítískar hræringar.
Líkt og Síle er Suður-Afríka háð námuvinnslu, en útflutningur á jarðefnum og málmum var 40% af heildarútflutningi landsins árið 2015. Þar sem heimsmarkaðsverð á hrávörum hefur verið í nokkurri lægð undanfarin ár hefur það komið sérstaklega niður á Suður-Afríkumönnum. Þar að auki hafa grimmir þurrkar haft neikvæðar afleiðingar á landbúnaðargeirann og matvælaframleiðsla hefur dregist verulega saman.
Fyrir Zuma en ekki aðra
Kreppan í Suður-Afríku er ekki bara tilkomin vegna ytri aðstæðna, en margar ákvarðanir Jacob Zuma, forseta landsins, hafa leitt til lægra lánshæfismats ríkisins og mikillar veikingar suður-afríska randsins. Vantraustið náði hámarki í apríl síðastliðnum, en þá lækkaði Standard & Poors lánshæfismat ríkisskuldabréfa þeirra niður í ruslflokk í kjölfar þess að Zuma endurskipaði tíu ráðherra í ríkisstjórn sinni. Forsetinn hefur verið sakaður um að ýta undir spillingu en flokkur hans, ANC, hefur tögl og hagldir í opinbera geira landsins.
Vinsældir forsetans hafa dvínað nokkru að undanförnu, en í apríl síðastliðnum var honum mótmælt víða um landið.
Hins vegar nýtur Zuma enn mikilla vinsælda meðal margra Suður-Afríkubúa, einna helst vegna stjórnmálaflokksins sem hann stendur fyrir. Flokkur Zuma, ANC, var helsta baráttuafl fyrir útrýmingu aðskilnaðarstefnunnar sem gilti í landinu til ársins 1994. Samkvæmt frétt BBC telja margir stuðningsmenn ANC hvers konar breytingar á stjórnmálakerfinu geta ýtt landinu aftur í „myrka tíma aðskilnaðar“. Ekki er búist við því að Zuma stigi af stóli á næstunni, en næstu allsherjarkosningar í Suður-Afríku verða árið 2019.
Fram á veginn
Síle og Suður-Afríka eru lík að mörgu leyti. Þrátt fyrir að hafa verið efnahagsfyrirmyndir tveggja heimsálfa standa þau nú frammi fyrir svipuðum vandamálum. Lágt hrávöruverð og pólítískar hræringar undanfarinna ára undirstrika veikleika lands þar sem frumvinnsla náttúruauðlinda er stór hluti landsframleiðslu þeirra.
Vilji ríkin ekki reiða sig á óstöðuga hrávöruframleiðslu er mikilvægt að þau efli gagnsæi í stjórrnsýslu og verði opin fyrir erlendum fjárfestingum, en til þess þarf stjórnmálaumhverfi beggja landanna að breytast. Hræðsla við ógnarstjórnir sem lauk fyrir meira en tveimur áratugum síðan ætti ekki að vera ráðandi þáttur í uppbyggingu efnahagskerfisins, líta þarf fram á veginn.