Frumkvöðlar í Bandaríkjunum hafa komið í veg fyrir frekari nýsköpun þar síðustu þrjá áratugi, samkvæmt grein sem birtist nýlega í Harvard Business Review. Samkvæmt höfundum greinarinnar, Robert E. Litan og Ian Hathaway, felst vandinn í rentusókn frumkvöðlanna.
Skapandi eyðilegging
Flestir líta svo á að frumkvöðlastarfsemi hafi góð áhrif á samfélagið. Sprotafyrirtæki frumkvöðlanna hrista upp í markaðnum með betri vörum og þjónustu og bola í leiðinni út eldri fyrirtækjum sem ekki er þörf á. Þetta ferli er nefnt „skapandi eyðilegging,“ og er hún talin hafa verið nauðsynleg fyrir þá framleiðniaukningu sem átt hefur sér stað í heiminum á síðustu árhundruðum.
Hins vegar eru sumar tegundir frumkvöðla ekki af hinu góða. Hagfræðingurinn William Baumol kom með kenninguna um „hinn óframleiðna frumkvöðul,“ en það eru þeir sem nýta sér tengsl við ríkisstjórnina til þess að skapa regluverk í þeirra hag eða til að tryggja ríkisútgjöld í sinn vasa. Með slíkum samningum væru frumkvöðlafyrirtæki að stunda rentusókn þar sem þau gætu heft samkeppni og tryggt sér markaðsráðandi stöðu með hjálp ríkisins.
Uggvænleg þróun í Bandaríkjunum
Samkæmt kenningum Baumol er aukin rentusókn meðal frumkvöðla mun sennilegri skýring á stöðnun efnahagslífs heldur en minnkun á frumkvöðlastarfsemi.
Litan og Hathaway hefur opnun nýrra fyrirtækja fækkað hratt og örugglega á síðustu þrjátíu árum, sérstaklega eftir árið 2000. Dregið hefur úr nýliðun á nánast öllum þéttbýlissvæðum og í flestum atvinnugreinum þar í landi, þar á meðal hjá hátæknifyrirtækjum. Minna virðist vera um þá „skapandi eyðileggingu“ sem drifið hefur hagvöxt áfram.
Samhliða fækkun nýrra fyrirtækja eru ýmsar vísbendingar um aukna rentusókn í Bandaríkjunum. Til dæmis hefur arðsemi fyrirtækja aukist á undanförnum árum, sérstaklega meðal stærstu fyrirtækjanna, en samkvæmt greininni hefur stór hluti hagnaðarins verið vegna „pólitískra ástæðna.“
Google, Uber og AirBnB
Greinin nefnir sérstaklega að erfitt sé að finna afdráttarlausar sannanir fyrir því hvort rentusókn hafi aukist meðal frumkvöðla. Grunsemdir höfunda ættu þó ekki að koma á óvart, margar af frægustu tækninýjungum síðari ára hafa leitt til samþjöppunar á markaðnum.
Markaðshlutdeild leigubílafyrirtækisins Uber mældist 77% í maí síðastliðnum og hlutdeild Alphabet (Google) á leitarvélamarkaðinum mældist 76% í fyrra. Markaðsráðandi stöðu fylgir gjarnan rentusókn, en fyrirtækin hafa bæði eytt milljónum dala til bandarískra löggjafa til þess að tryggja hagsmuni sína. Svipaða sögu er að segja um gistimiðlarann Airbnb, en fyrirtækið hefur ráðið ýmsa aðila til að standa í hagsmunagæslu fyrir sig í Washington.
Sjálfskaðandi rentusókn
Ekki er nýtt að frumkvöðlafyrirtæki hafi markaðsráðandi stöðu á fyrstu árum sínum. Mörg þeirra búa yfir nýrri tækniþekkingu sem aðrir hafa ekki og geta því boðið betri vörur og þjónustu. Hins vegar er áhyggjuefni að margar uppfinningar síðustu ára hafi leitt til uppgangs risafyrirtækja sem halda í stöðu sína með því að reyna að hafa áhrif á ákvarðanir stjórnvalda. Alphabet, AirBnB og Uber voru öll frumkvöðlar á sínu sviði, en eru nálægt því að vera einokunarfyrirtæki núna. Rentusókn fyrirtækjanna getur leitt til þess að erfiðara sé að veita þeim samkeppni, en þannig geta þau komið í veg fyrir frekari nýsköpun á markaðnum sem þau breyttu sjálf.