Vladimír Pútín, forseti Rússlands, er kominn í sumarfrí eins og kollegi hans í Bandaríkjunum. Það er hins vegar ólíkt með þeim tveimur að á meðan Donald Trump sprangar um á einkagolfvelli sínum í New Jersey er Pútín ber að ofan í Síberíu í fjallgöngu og veiðiferð.
Myndirnar af fáklæddum Pútín á hestbaki síðan 2009 eru frægar. Nú er forsetinn aftur ber að ofan í sumarfríi. Pútín heldur sér í fínu formi með reglulegri karate-iðkun. Pútín verður 65 ára í október.
Þessa myndir, teknar af ljósmyndara forsetans Aleksey Nikolskyi, eru birtar opinberlega með það að markmiði að styrkja ímynd Pútíns sem hrausts leiðtoga gróskumikils lands.
Forsetinn ákvað að njóta náttúrunnar í kringum Baíkal-vatn í sjálfstjórnarhéraðinu Búrjatíu í sunnanverðri Síberíu. Baíkal-vatn er vatnsmesta stöðuvatn í heimi. Þar er talið að 22-23 prósent alls ferskvatns á yfirborði jarðar sé að finna. Vatnið geymir jafnframt meira magn ferskvatns en í öllum Vötnunum miklu í Norður-Ameríku.
Það er kannski engin tilviljun að Pútín fari í þetta opinbera sumarfrí sitt núna en forsetakosningar eru á næsta leyti í Rússlandi. Pútín hefur reyndar ekki enn sagt hvort hann ætli að gefa kost á sér eða ekki. Á föstudaginn talaði hann fyrir framan hóp fólks nærri Baíkal-vatni í Síberíu og sagðist þar vera að velta framboði fyrir sér.
Ef Pútín ákveður að gefa kost á sér er talið líklegt að framboð hans verði sjálfstætt, þe. ekki undir merkjum Sameinaðs Rússlands, stjórnmálaflokksins sem stjórnar bæði framkvæmdavaldi og löggjafarvaldi í Rússlandi. Sjálfstætt framboð muni hjálpa hinum vinsæla leiðtoga í forsetakjörinu.
Pútín hefur bæði gengt embætti forseta og forsætisráðherra Rússlands síðan árið 2000. Fréttaskýrendur telja líklegast að Pútín bjóði sig á endanum fram og vinni. Það yrði fjórða kjörtímabil hans sem forseta.
Kosningum í Rússlandi er yfirleitt stjórnað vandlega af stjórnvöldum í Kreml. Strangar reglur eru um hverjir fá að vera í kjöri og aðgengi að fjölmiðlum er skert. Þá er ekki sjálfsagt mál að fá að reka kosningabaráttu án inngrips frá ráðandi stjórnvöldum.
Kjörstjórn í Rússlandi hefur sagt að aðal stjórnarandstæðingnum í Rússlandi, Aleksei Navalny, muni ekki vera leyft að gefa kost á sér eftir að hann var ákærður fyrir fjárdrátt.