Stjórnarskrárnefndir hafa verið stofnaðar í Grænlandi og á Færeyjum, en kosið verður í báðum löndum um nýja stjórnarskrá á næstu árum. Svo gæti farið að báðar þjóðir öðlist sjálfstæði frá Dönum í náinni framtíð, en litið er á nýja stjórnarskrá sem mikilvægt skref í þeirri baráttu.
Kosið um stjórnarskrána í apríl 2018
Tímaritið The Economist birti á þriðjudaginn fréttaskýringu um stjórnarskrárgerð Færeyinga og fyrirhugaða atkvæðagreiðslu um hana í apríl á næsta ári. Samkvæmt fréttaskýringunni gæti atkvæðagreiðslan markað fyrsta skref landsins í átt að sjálfstæði, en ekki er minnst á Danmörku í drögum að stjórnarskránni sem birt voru af Lögmanni Færeyja í júlí síðastliðnum.
Færeyingar eru að ganga í gegnum mikið hagvaxtarskeið þessa stundina, en vegna hækkandi markaðsverðs á fiski er landsframleiðsla á mann þar orðin jafnhá og á Íslandi. Samhliða batnandi efnahagsstöðu eyjanna hefur opinber styrkur frá danska ríkinu einnig minnkað hlutfallslega, en nú nemur hann 3,3% af landsframleiðslu, miðað við 11,2% árið 2000.
Á hinn bóginn er óvíst hvort nýja stjórnarskráin verði samþykkt. Ríkisstjórnin stendur höllum fæti og andstæðingar sjálfstæðis Færeyja krefjast stórra breytinga áður en hún verður lögð í atkvæðagreiðslu.
Enn óljósara er hvort Færeyjar muni öðlast sjálfstæði í bráð, jafnvel þótt ný stjórnarskrá verði samþykkt. Andstæðingar sjálfstæðis benda á einhæfni færeyska hagkerfisins og hversu viðkvæmt það er framboði og eftirspurn á fiski. Þannig telji margir það vera efnahagslega ábatasamt fyrir Færeyjar að halda áfram ríkjasambandi við Danmörku, en samkvæmt skoðanakönnun Gallup Føroya í fyrra studdi meirihluti íbúanna sambandið.
80% hlynnt sjálfstæði
Á Grænlandi kveður við annan tón, en í viðtali við RÚV sagði Vivian Motzfeld, formaður grænlensku stjórnarskrárnefndarinnar, um 80% landsmanna vera fylgjandi sjálfstæði. Stuðningurinn er mun meiri en í Færeyjum, jafnvel þótt landsframleiðsla á mann sé um fjórðungi lægri þar í landi og Grænlendingar fái sex sinnum hærri árlega styrki frá danska ríkinu.
Vinna að nýrri stjórnarskrá er hins vegar komin skemur á veg í Grænlandi, en engin drög hafa verið gerð að nýrri stjórnarskrá þar, líkt og í Færeyjum. Þó hefur sjö manna þverpólitísk stjórnarskrárnefnd verið skipuð og búist er við því að hún skili drögum á næstu þremur árum. Ekki er hægt að segja til um hvenær verði svo kosið um stjórnarskrárbreytingu enn sem komið er, samkvæmt Motzfeld.
Nefndin var í heimsókn á Íslandi fyrr í vikunni og heimsótti þar meðal annars forsetann í opinberri heimsókn. Samkvæmt grænlenska miðlinum Sermitsiaq var tilgangur Íslandsheimsóknarinnar að fá sérfræðiráðgjöf um uppbyggingu stjórnarskrár og læra af reynslu lands sem áður tilheyrði Danmörku.