Nawaz Sharif sagði af sér forsætisráðherrastólnum í Pakistan eftir að hæstiréttur landsins úrskurðaði hann óhæfan til að sinna embættinu vegna „óheiðarleika“. Sharif er ásakaður um að fela upplýsingar um eigin fjárhag í kjölfar upplýsinga sem komu í ljós í Panamaskjölunum í fyrra og er því annar ríkisstjórnarleiðtoginn í heiminum til hverfa úr embætti af sökum lekans á eftir Sigmundi Davíð Gunnlaugssyni, fyrrverandi forsætisráðherra Íslands.
Sharif tjáði í vikunni að pakistönsk stjórnmál myndu enda í harmleik ef kjörnir fulltrúar í landinu héldu áfram að vera vikið úr embætti af öðrum orsökum en kosningaósigri. Það má segja að með brotthvarfi Sharif úr forsætisráðherrastól haldi stjórnmál í landinu uppteknum hætti; aldrei hefur forsætisráðherra klárað kjörtímabil með eðlilegum hætti í 70 ára sögu landsins. Þetta er í þriðja sinn sem Sharif er vikið úr embætti forsætisráðherra en tvenn kjörtímabil hans á níunda áratugnum enduðu með því að pakistanski herinn – sem hefur sögulega haft mikil ítök í stjórnmálum í landinu – hrakti hann frá völdum; í seinna skiptið með valdaráni leitt af hershöfðingjanum Pervez Musharraf.
Ísland austursins
Brotthvarf Sharif að þessu sinni er með öðru sniði þó hann sjálfur vilji meina að sömu öfl standi á bak við og áður. Hæstiréttur landsins var einróma í úrskurði sínum um að það að Sharif hafi verið á skrá sem stjórnarformaður í fyrirtæki sonar síns í Dubai og fengið þrjú þúsund Bandaríkjadali í mánaðarleg laun fyrir vikið – þó án þess að snerta peninginn að eigin sögn – án þess að upplýsa um það hafi verið nægileg ástæða til að dæma hann óhæfan til að sinna embættinu af sökum „óheiðarleika“. Ákvæðið í stjórnarskránni sem hæstiréttur notaðist við til að ígrunda ákvörðun sína setur kröfur til stjórnmálamanna um „heiðarleika“ en það hefur verið hunsað að miklu leyti frá því að fyrrverandi einræðisherrann Muhammad Zia-ul-Haq setti það í stjórnarskránna á níunda áratugnum vegna þess hversu erfitt er að túlka hugtakið.
Það sem liggur að baki brotthvarfi Sharif kann að virðast smávægilegt en tengist stærri spillingarásökunum sem eru nú í rannsókn og til komnar vegna leka Panama-skjalanna í fyrra. Nawaz Sharif kemur sjálfur aldrei fram með nafni í Panama-skjölunum en þrjú barna hans, þau Maryam, Hasan og Hussain, gera það í tengslum við kaup á lúxúsíbúðum í Mayfair-hverfinu í Lundúnum með peningum sem geymdir voru í skattaskjólum. Kaupin á íbúðum áttu sér stað í byrjun tíunda áratugarins en Maryam, sem var undir lögaldri á þeim tíma, var skráð sem eigandi tveggja fyrirtækja á Bresku Jómfrúareyjum sem stóðu fyrir kaupunum. Maryam, sem var lengi talin efnileg stjórnmálakona og líkleg til að taka við af föður sínum, var fyrr í sumar grunuð um að falsa skjöl sem sýna takmarkaða hlutdeild hennar í fyrirtækjunum umræddu í „fontgate“-málinu svokallaða; skjöl sem áttu að vera frá árinu 2006 voru skrifuð með Calibri-leturgerð Microsoft sem kom ekki formlega út fyrr en 2007. Umfang tekja og eigna Sharif-fjölskyldunnar á eftir að koma betur í ljós en það virðist sem þær nema langt umfram það sem Nawaz Sharif, sem hefur samanlagt setið lengur en nokkur annar forsætisráðherra í Pakistan, hefur upplýst um. Nawaz Sharif hefur þannig hlotið þann vafasama heiður að verða annar ríkisstjórnarleiðtoginn í heiminum til hverfa úr embætti af sökum Panama-skjalanna á eftir Sigmundi Davíð Gunnlaugssyni, fyrrverandi forsætisráðherra Íslands.
Lengi lifi Sharif?
Stuðningsmenn Sharif hafa sakað herinn um að standa á bak við réttarhöldin og tala þeir opinskátt um samsæri gegn sér. Sérstaklega hefur stefna Sharif að bæta tengsl við Indland fallið illa í kramið hjá hernum en stjórnmálasamband landanna tveggja hefur verið mjög stirt í áratugi. Sharif hefur brugðist við úrskurðinum með því að efna til eins konar mótmælagöngu með því að ferðast í bílalest frá höfuðborginni Islamabad til Lahore, höfuðborg Punjab-héraðs og bakland Sharif, til að sýna styrk sinn og vinsældir.
Þá hefur Nawaz Sharif tilkynnt að yngri bróðir hans, Shehbaz Sharif, sem er ríkisstjóri í Punjab-héraði, muni taka við keflinu sem forsætisráðherra og leiðtogi flokksins Pakistan Muslim League (PML-N). Búist er við að Shehbaz muni taka við eftir tæpa tvo mánuði en hann þarf fyrst að verða formlega kosinn í þingsæti bróður síns og í millitíðinni er það eldsneytisráðherra Pakistan, Shahid Khaqan Abbasi, sem mun gegna embættinu.
Imran Khan, fyrrverandi krikkethetja og leiðtogi stjórnarandstöðuflokksins Pakistan Tehreek-e-Insaf (PTI), var í broddi fylkingarinnar sem kallaði eftir rannsókn á meintri spillingu Sharif og segir brotthvarf forsætisráðherrans styrkingu fyrir lýðræðið í Pakistan. Líklegt er að Khan muni njóta góðs af skandalanum í kosningum sem eiga að fara fram á næsta ári og mun hann eftir bestu getu bjóða sig fram sem valkost við hinn spillta flokk Sharif-fjölskyldunnar, PML-N, sem hann segir hafa rænt landið í þrjátíu ár.
Þó svo að Nawaz Sharif hafi horfið úr embætti eru það ákveðin ummerki um framför lýðræðis í landinu að það hafi gerst án beinnar tilkomu hersins. Þegar Sharif vann stórsigur í kosningunum 2013 var það í fyrsta sinn sem lýðræðislega kjörin ríkisstjórn tók við af annarri. Ef kjósendur frekar en herinn fá að ákveða hvernig eigi að hreinsa til í stjórnmálum landsins í næstu kosningum gæfi það landinu stöðugleika sem það hefur ekki haft lengi.
Þörf á jafnvægi innan lands sem utan
Þó ber að nefna að hvort sem forsætisráðherra Pakistan eftir næstu kosningar heiti Shehbaz Sharif eða Imran Khan er búist við að tengsl ríkisstjórnarinnar við herinn bætist. Það gæti skipt sköpum fyrir utanríkisstefnu landsins og hvernig rætist úr stríðinu í Afganistan. Bandaríkin hafa áður kennt pakistanska hernum um að styðja Talíbana, þó svo að pakistanski herinn hafi þvertekið fyrir það, en álíta hann samt sem áður sem lykilsamstarfsaðila í stríðinu gegn hryðjuverkum. Þá er ólíklegt að tengsl Pakistan og Indlands haldi áfram að bætast ef herinn fær aukin ítök í stefnumótun.
Efnahagur Pakistan hefur vænkast töluvert í stjórnartíð Nawaz Sharif og mun áframhaldandi aukning í hagvexti velta mikið á kínverskum fjárfestingum í hinu þrjú þúsund kílómetra löngu innviðabelti China-Pakistan Economic Corridor (CPEC) sem mun teygja sig frá landamærunum í norðri til hafnarborga við Arabíuhaf í suðri. Að finna jafnvægi á milli nánari tengsla við Kína og þess að reyna í auknum mæli að njóta góðs af hinu ört vaxandi hagkerfi á Indlandi verður áskorun fyrir næstu ríkisstjórn, sérstaklega í ljósi þess að Kína og Indland hafa lengi eldað grátt silfur saman í alþjóðasamskiptum. Pakistan er í öryggis-, stjórnmála- og efnahagsstöðu sem hefur ýmsar hættur í för með sér en jafnframt gríðarlega möguleika. Það er vonandi að atburðir sumarsins hafi ekki langvarandi neikvæð áhrif á lýðræðislegan og efnahagslegan stöðugleika landsins.