Mengun frá skemmtiferðaskipum sem liggja við bryggju á Íslandi hefur verið til umræðu undanfarna daga eftir að Náttúruverndarsamtök Íslands boðuðu til blaðamannafundar á miðvikudag og kynntu niðurstöður mælinga Dr. Axel Friedrich.
Dr. Friedrich dvaldi hér á landi ásamt þremur sérfræðingum þýsku náttúruverndarsamtakanna Nature and Biodiversity Union (NABU). Í samstarfi við íslensku náttúruverndarsamtökin mældu vísindamennirnir mengun í útblæstri skemmtiferðaskipa í Reykjavíkurhöfn.
Niðurstöður mælinganna eru að magn örsmárra agna í útblæstri skipa var um 200 sinnum meira en eðlilegt má teljast. Helsta ástæða þess að mengunin er svo mikil er að skemmtiferðaskipin brenna nær öll svartolíu þegar þau liggja við bryggju, til þess að framleiða raforkuna sem knýr siglingatæki, ljósavélar og raftæki farþega skipanna.
Náttúruverndarsamtök Íslands hafa bent á að sótagnirnar sem verða til við ófullkominn bruna svartolíu hafi mjög mikinn gróðurhúsamátt. Þær leggjast á jökla og ís sem kasta fyrir vikið frá sér minna sólarljósi en ella og það hraðar bráðnun.
Það er auðvitað alveg óboðlegt á Íslandi, því við búum við mjög góð loftgæði og við eigum að halda í þau og fá að upplifa þauÞá er ótalinn sá heilsuskaði fyrir menn sem getur hlotist af mengun á borð við þessar sótagnir svartolíunnar. Rætt var við Björtu Ólafsdóttur, umhverfis- og auðlindaráðherra, í fréttum RÚV á fimmtudagskvöld. „Það er auðvitað alveg óboðlegt á Íslandi, því við búum við mjög góð loftgæði og við eigum að halda í þau og fá að upplifa þau,“ segir Björt.
Ekki bara skemmtiferðaskip
Það eru hins vegar ekki aðeins skemmtiferðaskipin sem menga í höfnum. Það hefur verið til umræðu í þónokkur ár að skynsamlegt væri að ráðast í uppbyggingu innviða í höfnum svo skip – hvort sem það eru togarar eða skemmtiferðaskip – geti sótt rafmagn úr landi. Þannig má koma í veg fyrir einn stærsta hluta þeirrar raforkuframleiðslu sem verður til við bruna jarðefnaeldsneytis hér á landi.
Það kom fram í aðgerðaáætlun stjórnvalda í loftslagsmálum árið 2010 (sem enn er í gildi) að gera ætti átak til að skapa þannig aðstöðu að skip geti tengst rafmagni úr landi þegar þau liggja við bryggju. Skemmst er frá því að segja að þetta átak hefur ekki enn verið gert.
Síðasta opinbera stefnumótunarplagg íslenskra stjórnvalda var sóknaráætlun í loftslagsmálum sem gerð var í aðdraganda loftslagsráðstefnunnar í París 2015. Þar var rafvæðing skipa í höfn lögð til. Í stöðuskýrslu um sóknaráætlunina sem kom út í október í fyrra segir svo að unnið sé að heildstæðri yfirsýn yfir orkuþörf og tengibúnað og samstarfi komið á við útgerðaraðila, Samgöngustofu, hafnaryfirvöld og þá sem sjá um dreifingu og sölu á raforku.
Rándýrt
Það er hins vegar ljóst að rafvæðing skipaflotans í höfnum landsins verður rándýr framkvæmd. Það er jafnframt það sem stendur þessari lausn helst fyrir þrifum. Gísli Gíslason, hafnarstjóri Faxaflóahafna, sagði í samtali við Bylgjuna á fimmtudag að það væri svo kostnaðarsamt að landtengja stærri skip með meiri orkuþörf að ríkið verði að koma að fjármögnun þess.
Áður en hægt verður að grípa til þeirra ráðstafana að landtengja skip sem hingað koma við rafmagn þá hvetur Gísli til þess að svartolía verði bönnuð í efnahagslögsögu Íslands.
„Það hefur verið ákall Faxaflóahafna að það verði ekki einungis settar strangari reglur um svartolíu; Heldur að svartolía verði bönnuð í efnahagslögsögu Íslands,“ sagði Gísli í samtali í fréttum RÚV á fimmtudag.
„Við eigum að hafa forystu um það og fá nágrannalöndin – Grænland, Danmörk, Færeyjar – með okkur í lið. Horfa þannig á Norðurslóðir sem viðkvæmt lífríki og að við tökum ekki áhættu með svartolíu og svartolíuagnir, hvort heldur fyrir fólk eða náttúruna.“
„Þó það myndi fækka skipum, þá er það auðvitað svo að við eigum að uppfylla bestu kröfur varðandi mengunarvarnir og umgengni um hafsvæðin. Það eru strangari kröfur í Norðursjó, Eystrasalti og þeim svæðum vegna þess að þar var allt komið í óefni. Við eigum að grípa til ráðstafana áður en til þess kemur.“
Umhverfisráðherra tók í sama streng í sama fréttatíma RÚV. „Þangað til [að skip verði tengd landi] eigum við að búa svo um hnútana að það sé ekki hægt að brenna svartolíu við höfnina, hvar sem er, og auka mengun svona dramatískt. Við þurfum að byrja á því að mæla þetta bara betur,“ sagði Björt.
Hér gilda evrópskar reglur
Um skipaeldsneyti hafa gilt sömu reglur á Íslandi og í evrópska efnahagssvæðinu (EES), en þær renna út árið 2020. Almennt mega skip nota svartolíu með hámarks brennisteinsinnihald allt að 3,5 prósent, en strangari kröfur gilda um farþegaskip sem flytja fleiri en 12 farþega og eru í áætlunarsiglingum. Slík skip mega bernna olíu með meira brennisteinsinnihald en 1,5 prósent.
Eftir árið 2020 verður ekki hægt að nota skipaeldsneyti með meira brennisteinsinnihald en 0,5 prósent. Í reglugerðinni sem þegar er í gildi eru settar kröfur um að skip sem liggi við bryggju „noti rafmagn úr landi í stað skipaeldsneytis eftir því sem kostur er“.
Á þessu er víðast hvar á Íslandi ekki kostur, sérstaklega þegar um er að ræða stærri skip. Þá gilda enn strangari skilyrði um eldsneytið sem nota má til þess að framleiða rafmagn, á meðan skip liggur við bryggju.
Unnið að nýrri aðgerðaáætlun um loftslagsbreytingar
Íslensk stjórnvöld vinna nú að því að búa til nýja aðgerðaáætlun um loftslagsbreytingar. Eins og áður sagði þá er sú aðgerðaáætlun sem er í gildi orðin nokkuð gömul, þó ekki hafi verið ráðist í allar þær aðgerðir sem þar er fjallað um.
Líta má á aðgerðaáætlunina sem einskonar leiðarvísi fyrir íslensk stjórnvöld í baráttunni við loftslagsbreytingarnar, enda er áætlunin mikilvægt stefnumótunarplagg í þessum málaflokki.
Í kjölfar þess að sagt var frá niðurstöðu þýsku vísindamannanna um mengun frá skemmtiferðaskipum sem leggjast að bryggju hér á landi sendi Kjarninn fyrirspurn í fjórum liðum til umhverfis- og auðlindaráðuneytisins. Svör spurninganna má lesa hér að neðan.
Verkefnastjórn nýrrar aðgerðaáætlunar heyrir undir sex ráðuneyti og er stefnt að því að áætlunin verði klár í lok þessa árs eða byrjun þess næsta. Samkvæmt upplýsingum frá umhverfis- og auðlindaráðuneytinu er verið að skoða raftengingu stærri skipa í nýju aðgerðaáætluninni, en það mun vera tæknilega erfitt verkefni.
Í stuttu máli telur ráðuneytið að einfaldasta leiðin til þess að bregðast við þessu vandamáli sé að setja þrengri skilyrði um bruna svartolíu í íslenskri efnahagslögsögu. Til stendur að fullgilda sjötta viðauka MARPOL-samningsins um mengun frá skipum; Það er á lokasprettinum. Flóknara verkefni sé hins vegar að setja enn hertari reglur um alþjóðlega skipaumferð í íslenskri lögsögu enda er það háð samþykki alþjóðastofnana.
Hefur það verið rætt hvernig bregðast megi við megnun frá erlendum skemmtiferðaskipum sem liggja við bryggju á Íslandi?
Mengun frá skipum er vissulega rædd og hefur m.a. verið unnið að því að styrkja reglugerðir og starf Umhverfisstofnunar á því sviði á þessu ári. Nú er í burðarliðnum fullgilding á 6. viðauka MARPOL-samningsins, sem fjallar um mengun frá skipum. Í kjölfar þess má skoða hvort hægt sé að setja hertar reglur um alþjóðlega skipaumferð í íslenskri lögsögu. Það er hins vegar langt ferli og háð samþykki alþjóðastofnana. Því er rétt að skoða sérstaklega losun við bryggju út af heilsuverndarsjónarmiðum. Þar væri besta lausnin raftenging í höfn, sem mun vera tæknilega erfið varðandi svo stór skip, en er í skoðun m.a. í tengslum við gerð aðgerðaáætlunar í loftslagsmálum.
Ef svo er, hvernig er talið að best sé að bregðast við?
Það er þegar í gangi vinna við að skoða almennt mengun frá skipum, eins og áður segir, með fullgildingu á alþjóðasamningi um mengun frá skipum og í kjölfarið skoðun á uppsetningu á sk. ECA-svæði við Ísland. Það er verið að skoða uppsetningu á landrafmagni fyrir skip almennt og þá skemmtiferðaskip sérstaklega í vinnu við aðgerðaáætlun í loftslagsmálum; ráðherra mun biðja um stutta stöðuskýrslu um þá vinnu. Það þarf líka að ræða við Umhverfisstofnun um loftgæðin út frá heilsuverndarsjónarmiðum. UST mælir loftgæði í Reykjavík og víðar, en það er rétt að skoða hvort mæla þurfi betur í nágrenni skemmtiferðaskipa til að fá betri mynd af þessari mengun og afleiðingum hennar.
Hefur komið til greina að heimta hærri hafnargjöld af skipum sem menga mikið?
Almennt gildir mengunarbótareglan í umhverfismálum: Sá sem mengar borgar. Það hefur ekki verið skoðað sérstaklega í ráðuneytinu hvernig gjaldtaka varðandi þessi mál gæti farið fram. Þarna er spurning hvort krafa verður gerð um notkun landrafmagns eða aðrar lausnir þegar skip eru við bryggju í íbúabyggð. Það væri svo útfærsluatriði hvaða leiðir eru til þess að borga fyrir slíkar lausnir.
Hefur komið til greina að setja auknar kröfur og herða eftirlit með mengandi skipum í íslenskri landhelgi?
Það hefur verið settur aukinn kraftur almennt í starf Umhverfisstofnunar á þessu sviði að undanförnu. Það var sett ný reglugerð um mengun frá skipum nú í vor og verið er að efla þátttöku Íslands í alþjóðlegu samstarfi, m.a. með fullgildingu á öllum viðaukum MARPOL-samningsins, sem er á lokasprettinum. Því þarf að halda til haga að hér gilda almennt sömu reglur um mengun og almennt gilda á evrópsku hafsvæði, ef undanskilin eru Eystrasalt, Norðursjór og Ermarsund – þar sem eru strangari kröfur skv. ákvörðun Alþjóða siglingamálastofnunarinnar. Hér gilda líka sömu reglur um skipaeldsneyti og innihald þess og eru almennt í gildi á Evrópska efnahagssvæðinu. Fyrir liggur að kröfur um brennisteinsinnihald skipaeldsneytis hér verða hertar 2020. Það er því vinna í gangi á þessu sviði, en það sem þarf að skoða sérstaklega betur er hvort og hvernig hægt er að taka sérstaklega á mengun frá skemmtiferðaskipum í höfn og nágrenni byggðar; það þarf að meta hana betur út frá heilsufarssjónarmiðum, skoða hvort farið sé að reglum um að lágmarka mengun þegar skip leggjast að bryggju og leita leiða til að draga frekar úr mengun.