Hinn 1. september síðastliðinn varð þriðja sería af Narcos þáttunum aðgengileg í efnisveitu Netflix og gátu þá um hundrað milljónir áskrifenda Netflix um heim allan horft á þættina. Í fyrstu tveimur seríunum, samtals tuttugu ríflega 50 mínútna þáttum, var rakin saga eiturlyfjabarónsins Pablo Escobar fram að dramatískum dauða hans, 2. desember 1993.
Hann byggði veldi sitt á grimmilegu ofbeldi, járnaga í her sínum í heimaborginni Medellín og síðan gegndarlausu peningaþvætti kókaín viðskipta frá Kolumbíu til Bandaríkjanna og Evrópu.
Þessi sanna saga er efniviður í spennuþætti eins og þeir gerast bestir, og hefur þriðju seríunnar verið beðið með mikilli eftirvæntingu. Hún hefur víðast fengið góðar viðtökur gagnrýnenda fyrir vönduð efnistök og góðan leik.
Cali
Að þessu sinni beinast spjótin að eiturlyfjahringnum í Cali (Cali cartel), sem var orðinn erkióvinur Escobars undir það síðasta. Ekki síst eftir að Escobar lét gera sprengjuárás á brúðkaup dóttur Gilberto Rodriguez, sem lengi vel var æðsti maður Cali hringsins.
Eftir að Escobar lést, og bandarísk stjórnvöld blésu í herlúðra og sögðu „erkióvininn“ í stríðinu við fíkniefnin vera fallinn, þá tók Cali hringurinn við stjórnartaumunum.
Umsvifin voru með ólíkindum og mun meiri en þegar veldi Escobars stóð semhæst. Lykilmenn Cali hringsins voru fjórir. Bræðurnir Gilberto og Miguel Rodriguez, hinn ofbeldis- og lostafulli Pacho Herrara og lyklhlekkurinn í New York, José Santacrus Londano (Chepe). Hann stýrði kókaínmarkaðnum í New York frá framleiðslustofum í Queens, en talið er að Cali hringurinn hafi ráðið yfir 80 prósent af kókaínmarkaðnum í heiminum.
Hægt og hljótt
Út á við var Cali hringurinn lengi vel undir radar og notaðist við allt aðrar aðferðir en Escobar. Ofbeldið var ekki mikið sjáanlegt, en peningaþvættið var mun umsvifameira og háþróað. Mútugreiðslur til embættismanna í Kolumbíu voru gífurlega miklar, net dótturfélaga teygði sig um allan heim og hafnarsvæði voru á mörgum svæðum algjörlega undir stjórn hringsins.
En í heimi fíknar og svartrar atvinnustarfsemi er ekki á vísan að róa. Leyniþjónusta Bandaríkjanna CIA var umsvifamikil í hinu blóðuga og áratugalanga borgarastríði í Kolumbíu, og það tengdist beint valdabaráttu yfir kókaínframleiðslu í landinu, eins og rakið er vel í þessari þriðju seríu. Fulltrúi eiturlyfjadeildar lögreglunnar í Bandaríkjunum (DEA), Péna - leikinn vel af Pedro Pascal - eltist við alla lausa þræði allt enda, en líkt og með veldi Escobars þá hrundi Cali hringurinn niður og voru höfuðpaurarnir handteknir. Atburðarásin var spennuþrungin í raunheiminum, og er henni skilað vel inn í þættina.
Ekkert breytist
Líkt og með annað vel leikið sjónvarpsefni þar sem stríðið gegn fíkniefnum er í forgrunni - þar sem myndir eins og Traffic koma upp í hugann - þá er ekki síst spennandi að hugsa til þess hvað gerist næst. Því þrátt fyrir ótal handtökur, fyrirsagnir og fagnaðarlæti stjórnvalda í Kolumbíu, Mexíkó og Bandaríkjunum, þá hefur ekkert breyst þegar kemur að fíkniefnaheiminum, nema það eitt, að svarta hagkerfið stækkar sífellt.
Því meiri sem harkan var hjá yfirvöldum, á þessu sögulegu tímabili á áttunda og níunda áratugnum í Kolumbíu, því stærri urðu vandamálin. Ekkert hefur náð að hefta útflutning á kókaíni til Bandaríkjanna eða annað. Fangelsin eru yfirfull víðast hvar og gengdarlaust ofbeldi hefur haldið áfram að grassera í samfélögum, þar sem svarta hagkerfinu er viðhaldið.
Þó afþreyingin í Narcos þáttunum sé fyrst og fremst það sem hefur gildi, þá eru sögurnar úr þessu óvinnandi stríði yfirvalda í Bandaríkjunum við straum fíkniefnanna frá Suður-Ameríku, áhrifamiklar og skilja eftir stórar spurningar um hvort það sé verið að beita réttum aðferðum. Í stuttu máli sagt er svarið við þeim spurningum, nei, alls ekki. Vandamálin dýpka, svarta hagkerfið stækkar, peningaflæðið vex.