Ofbeldi og átök einkenndu eftirmála forsetakosninga í landinu árið 2007-2008 og var búist við því að það sama gæti orðið uppi á teningnum í ár eftir að fyrstu tölur gáfu til kynna að hinn sitjandi forseti, Uhuru Kenyatta, hefði borið sigur úr býtum. Kenyatta, sem var endanlega sýknaður í Alþjóða sakamáladómstólnum (ICC) í Haag árið 2015 af ákæru um að hafa átt hlut í að kynda undir ofbeldi í kjölfar kosninganna árið 2007, virtist hafa unnið þægilegan sigur í forsetakosningunum og tjáðu bæði innlendir og erlendir kosningaeftirlitsmenn að kosningarnar hefðu verið frjálsar og réttmætar. Engu var til sparað í skipulagi kosninganna en þær kostuðu um einn milljarð bandaríkjadala og eru því meðal dýrustu kosningum sem framkvæmdar hafa verið, ekki bara í Afríku heldur í heiminum öllum þegar miðað er við höfðatölu.
Forsetaframbjóðendurnir tveir koma báðir úr pólitískri elítu landsins en flokkar þeirra tveggja, Jubilee-flokkur Kenyatta og Nasa-flokkur Odinga, eru oft kenndir við þjóðflokka. Kosningamynstur í landinu fer oft á tíðum eftir þjóðflokkslínum og hefur Luo-þjóðflokkur Odinga stundum upplifað að vera jaðarsettur af Kikuyu-þjóðflokki Kenyatta sem hefur verið við völd lengi.
Sjálfstæði dómstóla
Þó svo að það hafi ekki komið á óvart að forsetaframbjóðandinn Raila Odinga, sem laut einnig í lægri hlut bæði í kosningunum 2007 og 2013, hafði áfrýjað niðurstöður kosninganna til hæstaréttar kom það sem þruma úr heiðskíru lofti að hæstiréttur hefði, með fjórum atkvæðum gegn tveimur, ákveðið að dæma niðurstöðurnar ógildar og boða til nýrra kosninga innan sextíu daga.
Í úrskurði hæstaréttar sagði að kosningaeftirlitsnefnd Keníu hefði mistekist að framkvæma forsetakosningarnar samkvæmt ákvæðum stjórnarskrár landsins. Hæstiréttur kenndi hins vegar ekki Kenyatta um að hafa haft áhrif á framkvæmd kosningarinnar né samþykkti hann gagnrýni Odinga um að hið rafræna kosningakerfi í landinu hefði verið „hakkað“. Þó svo að eftirlitsmenn tilkynntu að kosningarnar hefðu verið frjálsar og réttmætar voru ýmsir vankantar við framkvæmd þeirra; einna helst olli það áhyggjum þegar Chris Msando, yfirmaður upplýsingadeildar kosningaeftirlitsnefndarinnar, fannst myrtur í útjaðri Naíróbí í lok júlí.
Boðað hefur verið til nýrra kosninga þann 17. október en Odinga hefur krafist þess að sex háttsettir starfsmenn kosningaeftirlitsnefndarinnar verði reknir áður en nýjar kosningar geti átt sér stað. Aðilar úr ríkisstjórn Kenyatta hafa sagst muna koma í veg fyrir að starfsmönnum nefndarinnar verði vikið úr embætti enda hefur Kenyatta sjálfur gefið sterkt til kynna að hann sé ósammála úrskurðinum þrátt fyrir að hann muni virða ákvörðunina.
Ummerki um sterkara lýðræði
Ákvörðun hæstaréttar Keníu hefur verið túlkuð sem merki um það að stofnanakerfi landsins sé að eflast og megi líta á hana sem sögulega stund í lýðræðissögu landsins. Þetta er í fyrsta sinn í Afríku að hæstiréttur dæmi ógilt endurkjör sitjandi forseta og má setja ákvörðunina í samhengi við lýðræðislega þróun fjölmargra landa í álfunni. Stjórnarandstöðuflokkar hafa sigrað í kosningum á síðustu fimm árum í Nígeríu, Gana, Gambíu og Senegal, en það gæti verið til marks um auknar væntingar til pólitískra breytinga.
Forsetar Keníu hafa frá því að landið fékk sjálfstæði, eins og víðsvegar annars staðar í álfunni, átt það sameiginlegt að sitja lengi í embætti, þar á meðal var faðir Uhuru Kenyatta, Jomo Kenyatta, sem varð fyrsti forseti landsins árið 1964 og gegndi því embætti þar til ársins 1978. Þó svo að úrskurður hæstaréttar landsins leiði ekki endilega til þess að valdatíð Kenyatta hins yngri líði undir lok – búist er við því að hann beri sigur af hólmi í kosningunum í október – og þrátt fyrir þann umtalsverða kostnað sem felst í því að halda nýjar kosningar ásamt þeim efnahagslega ófyrirsjáanleika sem fylgir skorti á pólitískri forystu, þá gæti úrskurðurinn leitt til aukins traust almennings á kerfinu til lengri tíma litið og styrkt þá viðleitni að kosningar í landinu séu almennt frjálsar. Sjálfstæði dómstóla er lykilatriði í skilvirkni lýðræðislegs stofnanakerfis og þá sérstaklega í löndum þar sem framkvæmdarvaldið er öflugt. Þróun mála í Keníu á síðustu vikum og vel heppnaðar kosningar í október gæti orðið mikil efling fyrir lýðræði í landinu og eflt enn frekar væntingar kjósenda til pólitískra leiðtoga víðs vegar í álfunni.