Ríkisstjórn Bjarna Benediktssonar er komin á endastöð. Stjórn Bjartrar framtíðar sleit sig frá ríkisstjórnarsamstarfinu skömmu eftir miðnætti, en 87 prósent fulltrúa í stjórn flokksins vildu hætta samstarfi við Sjálfstæðisflokkinn og Viðreisn, og varð það niðurstaðan.
Þá hefur þingflokkur Viðreisnar sent frá sér yfirlýsingu, þar sem hvatt er til þess að boðað verði til kosninga sem fyrst.
Þetta var kvöld merkilegra tímamóta í íslenskum stjórnmálum, og nóttin var örlagarík.
Lygileg atburðarás
Atburðarásin var hröð í gær. Eftir að Vísir greindi frá því að Benedikt Sveinsson, faðir Bjarna Benediktssonar forsætisráðherra og formanns Sjálfstæðisflokksins, hefði verið meðal meðmælenda Hjalta Sigurjóns Haukssonar, barnaníðings, vegna umsóknar hans um uppreista æru, þá sendi Benedikt frá sér yfirlýsingu.
Í henni sagðist hann hafa talið sig vera að vinna góðverk fyrir þennan mann, en svo baðst hann einnig afsökunar á því að hafa valdið þolendum brota hans tjóni. „Ég hef aldrei litið svo á að uppreist æru væri annað en lagalegt úrræði fyrir dæmda brotamenn til að öðlast að nýju tiltekin borgaraleg réttindi. Sá hugur bjó ekki að baki að rétta stöðu Hjalta gagnvart fórnarlambi hans. Hjalta hef ég sagt að horfast í augu við gjörðir sínar og iðrast þeirra. Það sem átti hér að vera lítið góðverk við dæmdan mann hefur snúist upp í framhald harmleiks brotaþola. Á því biðst ég enn og aftur afsökunar,“ sagði Benedikt.
Upplýsti forsætisráðherra
Eftir þetta tók við kafli þar sem þetta nýja púsl í mynd, sem teiknaðist upp í gegnum umræðu um það ferli sem fer í gang þegar mönnum er veitt uppreist æra, leiddi til spurninga sem beindust að dómsmálaráðherra, Sigríðar Á. Andersen.
Hún upplýsti um það í viðtali við Stöð 2 að hún hefði í júlí sagt Bjarna Benediktssyni frá því að faðir hans væri meðal meðmælenda Hjalta Sigurjóns, um uppreista æru. „Hann kom af fjöllum,“ sagði Sigríður.
Þessar upplýsingar voru strax ræddar innan samstarfsflokka Sjálfstæðisflokksins í ríkisstjórn, Viðreisnar og Bjartrar framtíðar.
Mikil óánægja var með stöðu mála, enda hafði umfjöllun um ferlið, uppreista æru, verið mikið til umræðu á þingi og í fjölmiðlum, ekki síst eftir að mál Roberts Downey komst í hámæli.
Dómsmálaráðuneytið neitaði að afhenda gögn um þá sem vottuðu góða hegðun hans í því ferli, og skaut fréttastofa RÚV neituninni til úrskurðarnefndar um upplýsingamála.
Niðurstaða lá ekki fyrir í því máli fyrr en nokkru eftir að Sigríður hafði upplýst Bjarna um að faðir hans væri meðal meðmælenda Hjalta Sigurjóns.
Dómsmálaráðuneytinu var með úrskurðinum gert að upplýsa um hverjir væru vottar í umsóknum um uppreista æru, og er ráðuneytið nú að vinna að því að gera upplýsingarnar opinberar aftur í tímann.
Þessi staða skapaði mikla tortryggni í garð Sjálfstæðisflokksins í baklandi Bjartrar framtíðar og Viðreisnar.
Trúnaðarbrestur
Þessum upplýsingum, um samskipti Sigríðar og Bjarna, var hins vegar ekki deilt með neinum innan ríkisstjórnarinnar, eða stjórnarflokkanna. Eins og áður segir var mikil óánægja með þessa stöðu á stjórnarfundi Bjartrar framtíðar sem haldinn var seint í gærkvöldi og stóð fram á nótt. Skilaboðum var í kjölfar fundarins komið til forystumanna Sjálfstæðisflokksins og Viðreisnar, að Björt framtíð hefði ákveðið að slíta sig frá ríkisstjórnarsamstarfinu. Innan flokksins var það metið svo að um alvarlegan trúnaðarbrest hefði verið að ræða. Leynimakk um meðmælendabréf fyrir barnaníðing var kornið sem fyllti mælinn.
Fundað í nótt
Frá Sjálfstæðisflokknum heyrðist ekkert. Engin viðtöl eða yfirlýsingar.
Fundahöld stóðu yfir fram eftir nóttu, þar sem ræddir voru kostir í stöðunni og hvernig væri best að halda á spilunum. Samkvæmt heimildum Kjarnans kom útspil Bjartrar framtíðar eins og köld vatnsgusa framan í flokkinn.
Hann var ekki undir það búinn að svona gæti farið, að ríkisstjórnin myndi einfaldlega liðast í sundur vegna þessa máls.
Hjá Viðreisn var staðan rædd á fundi, og voru þingmenn sammála um að í kortunum væri það helst að boða til kosninga sem fyrst. Þingflokkurinn ræddi það með hreinskiptum hætti að málið sýndi glögglega að fara þyrfti að öllu með gát í málum þar sem uppreist æra væri til meðferðar, og í þessu tilviki hefði það ekki verið gert. Beindust spjótin ekki síst að dómsmálaráðherra, Sigríði Á. Andersen.
Ákvörðun Bjartrar framtíðar kom líka á óvart hjá Viðreisn, en umræðan innan flokksins var þó fremur á þeim nótum, að þetta mál sýndi mikilvægi þess að vanda til verka og ástunda góð vinnubrögð í viðkvæmum málum í stjórnsýslunni.
Á fjórða tímanum í nótt var síðan birt yfirlýsing frá þingflokki Viðreisnar, þar sem lagt var til að boðað yrði til kosninga sem fyrst.
Í dag má gera ráð fyrir að staða mála skýrist enn frekar, ekki síst þegar Bjarni Benediktsson ákveður að stíga út úr þagnarmúrnum og tjá sig um stöðu mála og það sem fram hefur komið á undanförnum sólarhring. Ríkisstjórn hans er á endastöð og leiðin fram á við á þessum krossgötum er ekki augljós.