Ríkisstjórn Bjarna Benediktssonar er skammlífasta meirihlutastjórn sem ríkt hefur á Íslandi síðan Lýðveldið Ísland var stofnað árið 1944. Aðeins þrjár aðrar ríkisstjórnir hafa setið skemur, en allar hafa verið minnihlutastjórnir.
Nýtt Íslandsmet hefur þess vegna verið sett með atburðum dagsins. Ríkisstjórnin sat í 247 daga.
Síðan Ísland varð lýðveldi árið 1944 hafa 18 ráðuneyti verið mynduð með stuðningi aðeins tveggja flokka. Ellefu þessara ráðuneyta hafa verið mynduð síðan 1991. Hér er rétt að taka fram að jafnvel þó að ríkisstjórnir á Íslandi séu skilgreindar og taldar eftir því hver fór með forsætisráðuneytið hverju sinni þá segir það ekki alla söguna. Davíð Oddsson myndaði til dæmis fjórum sinnum ráðuneyti, þrisvar með stuðningi sömu flokka. Það fæst hugsanlega betri mynd ef litið er á fjölda ríkisstjórnarsamstarfa síðan 1991.
Ráðherra | Dagar við völd | Ár | Stjórnarmyndun | # flokkar |
---|---|---|---|---|
Ólafur Thors III | 98 | 0,3 | 1949 | 1 |
Jóhanna Sigurðardóttir I | 98 | 0,3 | 2009 | 2 |
Benedikt Gröndal | 116 | 0,3 | 1979 | 1 |
Bjarni Benediktsson, jr. | 247 | 0,7 | 2017 | 3 |
Sigurður Ingi Jóhannsson | 280 | 0,8 | 2016 | 2 |
Emil Jónsson | 332 | 0,9 | 1958 | 1 |
Geir Haarde I | 343 | 0,9 | 2006 | 2 |
Steingrímur Hermannson II | 347 | 1 | 1988 | 3 |
Jóhann Hafstein | 369 | 1 | 1970 | 2 |
Ólafur Jóhannesson II | 409 | 1,1 | 1978 | 3 |
Þorsteinn Pálsson | 448 | 1,2 | 1987 | 3 |
Davíð Oddsson IV | 481 | 1,3 | 2003 | 2 |
Steingrímur Hermannson III | 597 | 1,6 | 1989 | 4 |
Geir Haarde II | 619 | 1,7 | 2007 | 2 |
Halldór Ásgrímsson | 638 | 1,7 | 2004 | 2 |
Ólafur Thors II | 836 | 2,3 | 1944 | 3 |
Hermann Jónasson | 882 | 2,4 | 1956 | 3 |
Stefán Jóhann Stefánsson | 1036 | 2,8 | 1947 | 3 |
Sigmundur Davíð Gunnlaugsson | 1050 | 2,9 | 2013 | 2 |
Ólafur Thors IV | 1109 | 3 | 1953 | 2 |
Ólafur Jóhannesson I | 1141 | 3,1 | 1971 | 3 |
Gunnar Thoroddssen | 1203 | 3,3 | 1980 | 3 |
Steingrímur Steinþórsson | 1277 | 3,5 | 1950 | 2 |
Davíð Oddsson I | 1454 | 4 | 1991 | 2 |
Ólafur Thors V | 1455 | 4 | 1959 | 2 |
Davíð Oddsson III | 1456 | 4 | 1999 | 2 |
Geir Hallgrímsson | 1465 | 4 | 1974 | 2 |
Jóhanna Sigurðardóttir II | 1474 | 4 | 2009 | 2 |
Davíð Oddsson II | 1496 | 4,1 | 1995 | 2 |
Steingrímur Hermannson I | 1504 | 4,1 | 1983 | 2 |
Bjarni Benediktsson | 2430 | 6,7 | 1963 | 2 |
Ef við gefum okkur að ríkisstjórnarsamstarfi sé sjálfkrafa lokið við kosningar þá hafa orðið til sjö meirihlutasamstörf með tveimur flokkum síðan 1991. Davíð Oddsson var forsætisráðherra í ríkisstjórnum Sjálfstæðisflokksins og Framsóknarflokksins þrisvar sinnum sinnum frá 1995 til 2004 þegar hann gerðist utanríkisráðherra og fól Halldóri Ásgrímssyni forsætisráðuneytið. Halldór sat í 638 daga þar til hann hætti í stjórnmálum og Geir Haarde varð forsætisráðherra í 343 daga. Á kjörtímabilinu 2003 til 2007 sátu þess vegna þrjár ríkisstjórnir með stuðningi sömu flokka.
Ríkisstjórn Bjarna mun hugsanlega sitja áfram sem starfsstjórn fram að kosningum. Það mun, í þessum samanburði, lengja líftíma ríkisstjórnarinnar um sex vikur eða svo. Það mun hins vegar ráðast í dag eða á næstu dögum hvernig stjórn landsins verður háttað fram að kosningum.
Sé tekið tillit til þess þá hefur líftími ríkisstjórnarsamstarfa síðustu 25 árin verið að meðaltali 3,6 ár. Þar til árið 2007 var meðallíftími samstarfanna 4,0 ár, eða jafn lengi og kjörtímabil eru hér á landi. Hér eru tvö samstörf sem draga meðaltalið niður. Eftir aðeins 619 daga baðst annað ráðuneyti Geirs Haarde lausnar og minnihlutastjórn Samfylkingar og Vinstri grænna tók við og sat fram að kosningum í apríl árið 2009. Þessir sömu flokkar mynduðu svo meirihluta sem sat í fjögur ár. Þá var kjörtímabilið sem hófst 2013 stytt um um það bil hálft ár eftir að Sigmundur Davíð Gunnlaugsson hrökklaðist frá völdum í apríl 2016.