Bjarni Benediktsson, forsætisráðherra og formaður Sjálfstæðisflokksins, hefur ákveðið að boða til kosninga eins fljótt og auðið er. Samkvæmt kosningalögum verða að líða um það bil sex vikur frá því að þing er rofið og kosningar eru haldnar.
Guðni Th. Jóhannesson, forseti Íslands, mun taka á moti Bjarna á Bessastöðum klukkan 11:00 á morgun, laugardag. Bjarni mun eflaust ræða um þingrof við forsetann. Guðni mun svo, ef öllum hefðum verður fylgt, óska eftir því við Bjarna að ráðuneyti hans sitji áfram í starfsstjórn þar til myndaður verður nýr meirihluti á Alþingi.
Það er þess vegna tímabært að taka punktstöðu á fylgi flokka sem sitja á Alþingi.
Síðasti þjóðarpúls 4. september
Þjóðarpúls Gallup er alla jafna gerður á mánaðarfresti. Síðasti þjóðarpúls var birtur 4. september síðastliðinn. Þar mældist Sjálfstæðisflokkurinn stærstur allra flokka með 26,3 prósent fylgi á landsvísu.
Ríkisstjórnin hafði 34 prósent fylgi, það lægsta sem ríkisstjórn Bjarna Benediktssonar hafði mælst með síðan hún tók við 11. janúar. Það var í samræmi við samanlagt fylgi stjórnarflokkana þriggja, Sjálfstæðisflokks, Viðreisnar og Bjartrar framtíðar.
Viðreisn mældist með 4,8 prósent fylgi í þessari nýjustu könnun Gallup og Björt framtíð með 2,8 prósent fylgi. Til samanburðar þá er miðað við að flokkur þurfi að fá fimm prósent atkvæða á landsvísu til þess að ná kjöri á Alþingi.
Vinstri græn eru stærsti stjórnarandstöðuflokkurinn sem fyrr með 19,5 prósent fylgi. Píratar eru næstir með 13,1 prósent fylgi, þá Framsóknarflokkurinn með 10,8 prósent.
Flokkur fólksins mældist með 10,6 prósent fylgi í þessari könnun, meira en Samfylkingin sem mældist með 9,7 prósent fylgi.
Könnunin sem bjó að baki nýjustu niðurstöðum var gerð dagana 10. til 30. ágúst síðastliðinn.
Myndin svipuð hjá MMR
Niðurstöður nýjustu könnunar MMR var birt 18. ágúst síðastliðinn. Þar mældist fylgi flokkana svipað og hjá Gallup. Sjálfstæðisflokkurinn var stærstur með 24,5 prósent atkvæða, Vinstri græn næst stærst með 20,5 prósent, þá Píratar með 13,5 prósent, Samfylkingin með 10,6 prósent og Framsóknarflokkurinn með 10,1 prósent.
Stjórnarflokkarnir Viðreisn og Björt framtíð mældust með minnst fylgi þeirra flokka sem eiga sæti á Alþingi. Viðreisn mældist með 6,0 prósent fylgi, og Björt framtíð með 3,6 prósent.
Miðað við kosningar fyrir ári
Séu nýjustu kannanirnar bornar saman við niðurstöðu kosninganna 2016 má sjá að Sjálfstæðisflokkurinn hefur minnkað aðeins, eins og sést á töflunni hér að neðan. Það sama má segja um hina flokkana sem setið hafa í ríkisstjórn.
Á sama tíma hafa Vinstri græn og Samfylkingin bætt við sig fylgi síðan í kosningunum.
Flokkur | Kosningar 2016 | MMR | Gallup |
---|---|---|---|
Sjálfstæðisflokkur | 29,0% | 24,5% | 26,3% |
Vinstri græn | 15,9% | 20,5% | 19,5% |
Píratar | 14,5% | 13,5% | 13,1% |
Framsóknarflokkur | 11,5% | 10,1% | 10,8% |
Viðreisn | 10,5% | 6,0% | 4,8% |
Björt framtíð | 7,2% | 3,6% | 2,8% |
Samfylkingin | 5,7% | 10,6% | 9,7% |