Föstudagurinn 15. september var viðburðaríkur dagur. Fjölmiðlar kepptust við að fá úr því skorið hvort ríkisstjórnarsamstarfi Sjálfstæðisflokksins, Viðreisnar og Bjartrar framtíðar væri raunverulega lokið, sem það svo reyndist vera og vel það.
Útlit er fyrir að þessir flokkar geti ekki einu sinni starfað saman lengur í starfsstjórn, enda skutu flokksráð og forkólfar flokkana fast á samstarfsflokka sína í lok dags í gær.
Bjarni Benediktsson, formaður Sjálfstæðisflokksins, virtist síður en svo ánægður með framgöngu Bjartar framtíðar í þessu máli. Hann kallaði flokk Óttarrs Proppé „smáflokk“ og lagði áherslu á að við stjórn þessa lands þyrftu að vera flokkar með „djúpar rætur, sem legðust ekki eins og strá í vindi“. Það þykir varla góður dómur um stjórnmálaflokk.
Ráðgjafaráð Viðreisnar ályktaði í gær að Bjarni Benediktsson, Sigríður Andersen væri ekki stætt á ráðherrastóli á meðan rannsakað væri hvernig farið hafi verið með persónuupplýsingar í stjórnarráðinu. Þau verði að víkja fram að kosningum. Viðreisn þykir Brynjar Níelsson, formaður stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar, einnig þurfa að segja af sér sem slíkur.
Guðni á leik
Nú er komið að Guðna Th. Jóhannessyni, forseta Íslands. Hann hyggist funda með öllum formönnum stjórnmálaflokka sem eiga sæti á Alþingi í dag. Hann ætlar að gefa sér 45 mínútur með hverjum og einum. Bjarni Benediktsson gengur fyrstur á fund hans klukkan 11 í dag og svo koma þau koll af kolli til Bessastaða eins og svo oft áður.
Það er ekki úr vegi að líta aðeins á þá leiki sem bjóðast forsetanum í þeirri stöðu sem upp er komin.
Það verður örugglega ekki mikilla tíðinda að vænta fyrr en að þessum fundum Guðna með stjórnmálaforingjunum loknum. Þá mun forsetinn hafa fengið góða mynd á það hvernig er í pottinn búið.
Hlutverk Guðna verður í meginatriðum að tryggja að hér starfi ríkisstjórn. Stjórnarkreppur á borð við þá sem virðist blasa við – þegar aðstandendur meirihlutastjórnar þriggja flokka virðast vera svo í nöp við samstarfsfólk að það sýður upp úr með þeim hætti sem gerði í gær – eru fátíðar á Íslandi.
Guðni hefur nokkur spil á hendi í þeirri stöðu. Hans fyrsta útspil verður eflaust að bjóða sitjandi ríkisstjórn að sitja áfram fram að kosningum, hvenær sem þær verða. Ef sú tillaga fær ekki undirtektir mun forsetinn reyna að setja saman ríkisstjórn með aðkomu annarra flokka.
Sú stjórn gæti þess vegna brugðið sér í allra kvikinda líki; Hún gæti verið meirihlutastjórn, minnihlutastjórn eða þjóðstjórn ef Guðni nær að beisla óvildina sem ríkir milli stjórnmálaflokka á Alþingi.
Utanþingsstjórn er lokaúrræði
Eflaust er það aðeins lokaúrræði í huga forsetans að skipa utanþingsstjórn. Aðeins ein slík ríkisstjórn hefur setið á Íslandi. Sú stjórn sat í tvö ár á stríðsárunum 1942 til 1944, áður en Lýðveldið Ísland var stofnað.
Utanþingsstjórn kann hins vegar að hljóma sem kunnuglegt hugtak enda hefur slíkt stjórnarfyrirkomulag borið á góma í gegnum tíðina þegar einstaklega erfiðlega hefur gengið að mynda ríkisstjórn með hefðbundnum hætti. Stundum er talað um að forseti geti beitt tali um utanþingsstjórn sem svipu á flokksformenn til það reka þá áfram í samningaumleitan og stjórnarmyndun.
Dagskráin á Bessastöðum í dag
- 11:00 – Bjarni Benediktsson, formaður Sjálfstæðisflokksins
- 13:00 – Katrín Jakobsdóttir, formaður Vinstri hreyfingarinnar græns framboðs
- 13:45 – Birgitta Jónsdóttir, formaður þingflokks Pírata
- 14:30 – Sigurður Ingi Jóhannsson, formaður Framsóknarflokksins
- 15:15 – Benedikt Jóhannesson, formaður Viðreisnar
- 16:00 – Óttarr Proppé, formaður Bjartrar framtíðar
- 16:45 – Logi Már Einarsson, formaður Samfylkingarinnar