Ein stærsta stífla Indlands, Sardar Sarovar-stíflan, var vígð sunnudaginn 17. september eftir áratuga langar deilur. Stíflan hefur vægast sagt verið umdeild og hafa náttúruverndar- og mannréttindasamtök verið iðin við að mótmæla framkvæmdunum. Hornsteinn stíflunar var lagður árið 1961 en bygging hennar hófst árið 1987. Síðan þá hafa oft verið uppi vangaveltur um að hætta við hana.
Forsætisráðherra Indlands Narendra Modi vígði stífluna þrátt fyrir mikil mótmæli á þessu ári og tileinkaði hana fólkinu á Indlandi. Hann sagði í tísti að þetta verkefni muni vera þúsundum bænda til bóta og hjálpa til við að uppfylla hugsjónir fólks.
Stíflan mun veita vatni til 9.000 þorpa
Mótmælendur létu sig aftur á móti ekki vanta en telja þeir að þúsundir manna muni missa lífsviðurværi sitt með tilkomu stíflunnar. Stíflan mun aftur á móti veita vatni til níu þúsund þorpa í allt að þremur fylkjum; Madhya Pradesh-, Maharashtra- og Gujarat-fylkis.
Háværustu mótmælendurnir eru í röðum samtakanna The Narmada Bachao Andolan eða NBA en leiðtogi þeirra er aðgerðasinninn Medha Patkar. Hún og fylgismenn hennar mótmæltu vígslunni um helgina. Þegar byrjað verður að nota stífluna mun vatnsborð hækka og telja þau að það muni setja þorp á svæðinu í mikla hættu.
Slæmar afleiðingar sagðar verri en búist var við
Andstaðan við stífluna á rætur sínar að rekja aftur til miðbiks síðustu aldar. Gagnrýnin hefur aðallega beinst að því hvernig farið var að framkvæmdunum sjálfum og stjórnvöld verið gagnrýnd fyrir fljótfær og vanhugsuð vinnubrögð.
Náttúruverndarsamtök hafa barist fyrir því að landið verði ósnert en einnig hafa þau barist fyrir þær þúsundir manna sem misst hafa heimili sín vegna stíflugerðarinnar. Slæmar afleiðingar í Narmadadalnum eru sagðar vega mun þyngra en þeir kostir sem stíflan var sögð hafa í upphafi. Telja andstæðingar framkvæmdanna að tekið hafi verið fram fyrir hendurnar á fólki, upplýsingar ekki verið veittar, misskipting gæða hefi aukist og svo mætti lengi telja.
Tvöfalt öflugri en Kárahnjúkavirkjun
Eins og fyrr segir hefur ýmsilegt gengið á við byggingu stíflunnar. Henni var frestað árið 1996 en Hæstiréttur á Indlandi úrskurðaði þá að framkvæmdir þyrftu að bíða. Þeim var haldið áfram fjórum árum seinna.
Stíflan er staðsett í Narmadadalnum í Gujarat-fylki og er hún með stærstu stíflum heims. Stíflan sjálf er 1210 metra að lengd og 163 metra að hæð þar sem hún er hæst. Til samanburðar er Kárahnjúkastífla 193 metra há og 700 metra löng.
Hún safnar vatni á yfir 214 kílometra svæði sem nær yfir þrjú fylki; Gujarat, Maharashtra og Madhya Pradesh. Stíflan er sögð eiga að framleiða allt að 1450 megavött af rafmagni sem er tvöfalt meira en uppsett afl Kárahnjúkavirkjunar.
Alþjóðabankinn dró sig út úr framkvæmdum
Alþjóðabankinn leikur almennt stórt hlutverk í stórframkvæmdum á Indlandi. Hann fjármagnar og hjálpar t.d. til við að leysa ýmis vandamál sem fylgja slíkum framkvæmdum. Þar ber að nefna þá bótaskyldu sem fellur á ríkið þegar fólk er flutt af jörðum sínum eða úr þorpum. Takmarkið er þó að sem fæstir þurfi að þjást eða missa heimili sín vegna stíflunnar.
Bankinn orðar það svo að grundvallarmarkmið í stefnuskrá Alþjóðabankans sé að ná aftur þeim lífsgæðum og tekjugetu þeirra sem brottfluttir eru. Markmiðið með lánveitingu fyrir Sardar Sarovar-stíflunni var einnig að bæta hag Indverja og sjá þeim fyrir rafmagni, vatni o.s.frv. og vinna að sem hagkvæmustum lausnum með ríkisstjórninni.
Alþjóðabankinn dró sig aftur á móti út úr verkefninu árið 1993 eftir að harðorð skýrsla kom út þar sem fram kom að Sardar Sarovar-framkvæmdin væri gölluð. Sá fólksflutningur og endurhæfing fólksins á vegum verkefnisins hafi ekki verið ásættanlegur undir þessum kringumstæðum og umhverfisáhrif verkefnisins hafi ekki verið fyllilega könnuð eða nógu vel staðið að þeim.
Framkvæmdum ábótavant
Niðurstaða skýrslunnar var afdráttarlaus, þ.e. að þessi meðferð á fólki og umhverfi réttlætist ekki af mikilvægi framkvæmdanna og þá sérstaklega vegna þess að fólksflutningurinn var stórlega vanmetinn. Ekki voru nægar upplýsingar til staðar eða rannsóknir gerðar, bæði hvað varðar svæðið sjálft og sjálfa stíflugerðina, áður en framkvæmdir hófust.
Miklu var ábótavant í framkvæmd og skipulagningu hennar, t.d. voru rafknúin kerfi, sem áttu að mæla vatnsmagn, sett upp eftir byggingu stíflunnar og þótti það mjög varasöm og erfið framkvæmd. Þó var ekki hætt við framkvæmdirnar í miðjum klíðum; ríkisstjórnin og fylkisstjórn Gujarat tilkynntu að lokið yrði við stífluna og að fjármunum yrði safnað til þess.
Umhverfisáhrif gríðarmikil
Miklum landsvæðum var sökkt við gerð stíflunnar og mun halda áfram. Skóglendi og tún fara undir vatn og mikil röskun verður á dýralífi við svona aðstæður. Lífríki fiska raskast mikið sem hefur svo aftur áhrif á bæði dýr og menn á svæðinu.
Einnig hefur stíflugerðin áhrif á farvegi áa. Þegar hinum náttúrulega farvegi er raskað hefur það áhrif á fólk á mjög stóru svæði þannig að miklar erjur hafa skapast milli fylkja. Vandana Shiva, heimspekingur og rithöfundur, hefur fjallað um þetta efni og hefur hún bent á að nánast allar ár á Indlandi hafi orðið að ágreiningsefni.
Shiva segir að árnar Sutlej, Yamuna, Ganges, Narmada, Mahanadi, Krishna og Kaveri hafi verið miðpunktur mikilla deilna milli fylkja sem eru ósammála um eignarhald og úthlutun vatns. Vegna mikilvægis vatnsins eru deilurnar hatrammar og sérstaklega þegar svo stórar ár eiga í hlut því að afleiðingarnar eru miklar þegar þeim er beint úr sínum eðlilega farvegi með t.d. stíflugerð.
Hundruðir þúsundir manna þurft að flytja sig um set
Þúsundir manna hafa þegar misst heimili sín og segja mannréttindasamtök að fleiri verði heimilislausir. Fólk er neytt til að flytja og margir enda á götunni. Opinberar tölur, sem til eru um þann fjölda fólks sem hefur þurft að flytja sig um set, eru 40.000 til 41.500 en þær þykja mjög fjarri sanni. Líklegra þykir að allt frá 240.000 til hálfrar milljónar manna hafi þurft að flytja vegna framkvæmdanna.
Borið hefur á mikilli óánægju vegna þess að lífi fólks hefur verið raskað á þennan hátt; land, sem gengið hefur milli margra ættliða, er horfið og mikil tilfinningaleg bönd, sem tengja saman fólkið og landið, rofna. Bændurnir hafa sumir enga aðra reynslu en að vinna á akrinum eða annast búfénað. Þetta veldur því að margar fjölskyldur enda á götunni vegna þess að fyrirvinnan er horfin og peningabætur endast ekki lengi. Þetta kemur fram í úttektum á vegum mannréttindasamtaka.
Flutningar bitna á þeim sem minnst mega sín
Í rannsóknum á fólksflutningum sem þessum kemur fram að þeir bitna gjarnan mest á konum og börnum. Konan verði oftar en ekki að sjá fyrir fjölskyldu sinni og reynist það mörgum erfitt vegna þjóðfélagshátta þar sem fátækt og stéttaskipting er mikil.
Hvort sem þú elskar stífluna eða hatar, hvort sem þú vilt hana eða ekki, þá er mikilvægt að skilja þá fórn sem færð er
Einnig er því haldið fram að ástandið bitni mjög illa á þeim öldruðu, því forsendur fyrir að byrja nýtt líf við svo erfiðar aðstæður eru varla til staðar. Aðstæður í nýju þorpunum geti verið hryllilegar, bæði vegna þess að allt of mörgum er troðið saman á lítið svæði og að matur er af skornum skammti.
Fjöldi manns hefur líka einfaldlega horfið, þ.e. engin skrá er yfir fólkið og enginn veit í rauninni um afdrif þeirra. Mjög líklegt þykir að margir hafi endað á götum stórborganna í fátækt og örbirgð.
Arundhati Roy, rithöfundur og aðgerðasinni, hefur verið ötull talsmaður mótmælenda og gagnrýnt stífluna og framkvæmdina í heild sinni. Hún segir að hvort sem fólk elski stífluna eða hati; hvort sem fólk vilji hana eða ekki, þá sé mikilvægt að skilja þá fórn sem færð er.