Með því að framkvæma þjóðaratkvæðagreiðslu um sjálfstæði Katalóníu eru stjórnarflokkarnir tveir í héraðsstjórninni, Junts pel Sí (JxSí) og Candidatura d'Unitat Popular (CUP), að efna kosningaloforð sitt frá árinu 2015. Carles Puigdemont, héraðsforseti Katalóniu úr JxSí, hefur verið í vígahug síðustu vikur og sérstaklega í kjölfar þjóðhátíðardags Katalóníu sem haldinn er 11. september á ári hverju en hundruðir þúsunda gengu úti á götum Barselóna, höfuðborgar Katalóníu, til að setja pressu á ríkisstjórn spánar í aðdraganda þjóðaratkvæðagreiðslunnar.
Í byrjun september úrskurðaði stjórnarskrárdómstóll Spánar að þjóðaratkvæðagreiðslan væri ólögleg daginn eftir að héraðsþing Katalóníu samþykkti löggjöf sem heimilaði hana. Stjórnarskrá landsins leyfir ekki atkvæðagreiðslu um sjálfstæði af þessu tagi og hefur forsætisráðherra landsins, Mariano Rajoy úr hægriflokknum Partido Popular (PP), tilkynnt að ríkisstjórnin muni reyna að koma í veg fyrir atkvæðagreiðsluna. Spænska ríkisstjórnin hefur tekið yfir fjárstjórn Katalóníu, skipað þúsundum lögreglumanna bæði frá Katalóníu og öðrum héruðum landsins að koma í veg fyrir atkvæðagreiðsluna með eftirliti og með því að eyða kosningagögnum og loka vefsíðum sem upplýsa kjósendur um atkvæðagreiðsluna, og gert húsleit í húsakynnum héraðsstjórnar Katalóníu og handtekið fjórtán starfsmenn hennar. Þá hefur ríkissaksóknari hafið málaferli gegn Puigdemont fyrir misnotkun á opinberum fjármunum.
Hvers vegna er kosið?
Samkvæmt skoðanakönnunum er meirihluti Katalóna hlynntur því að halda þjóðaratkvæðagreiðsluna þó meirihluti þeirra styðji ekki endilega sjálfstæði héraðsins, og hefur fylgi sjálfstæðissinna dvínað heldur á undanförnum misserum.
Katalónía er eitt ríkasta hérað Spánar og hefur það, ásamt Baskalandi, sterkari sjálfstjórn en nokkuð annað hérað á Spáni og jafnvel þótt víðar væri leitað. Héraðið hefur yfirumsjón með mennta-, heilbrigiðs- og velferðarmálum ásamt því að það hefur eigin lögreglu, eigið þing, héraðsstjórn og dómstóla. Héraðsstjórn Katalóníu hefur áskilið sér rétt til að krefjast sjálfsákvörðunarréttar og sjálfstæðis en alþjóðalög viðurkenna einungis þann rétt fyrir svæði sem lúta stjórn nýlenduvalds, hafa orðið fyrir innrás eða orðið fyrir alvarlegum brotum á mannréttindum vegna aðgerða stjórnvalda en það krefst mikils ímyndunarafls til að halda því fram Katalónía uppfylli einhverja af þeim kröfum.
Hins vegar eru margir Katalónar ósáttir með það hvernig ríkisstjórnin í Madríd kemur fram við héraðið. Stjórnarskrárdómstóll Spánar dróg í 2010 til baka ákvöruðun um að skilgreina Katalóníu sem þjóð frekar en hérað og veita katalónska tungumálinu forgangsstöðu og fór það illa í Katalóna. Þá jókst óánægja við Madríd í kjölfar efnahagskreppunnar á Spáni árið 2009 vegna þess að bilið milli þess sem Katalónar greiða í skatta og þess sem fjárfest er í héraðinu af ríkinu nemur um 8-10 milljarða evra á ári. Tilfinningin að ríkisstjórnin í Madríd steli frá Katalónum er sterk og algeng en meðaltekjur á íbúa eru umtalsvert hærri í Katalóníu en í landinu sem heild, eða um 19% þó að þessi munur hefur minnkað úr um 50% í byrjun sjöunda áratugarins. Réttindi Katalóna til sjálfsstjórnar voru mjög takmörkuð í stjórnartíð einræðisherrans Francisco Franco 1936-1975. Þegar lýðræði komst á í landinu eftir dauða Franco endurheimti Katalónía mörg af sérréttindum sínum og var héraðinu veitt umtalsverð sjálfsstjórn.
Vafasamur hljómgrunnur
Árið 2014 var haldin óbindandi þjóðaratkvæðagreiðsla um sjálfstæði Katalóníu þar sem 80% kjósenda kusu sjálfstæði. Sjálfstæðissinnar benda á þá atkvæðagreiðslu sem réttlætingu til að halda atkvæðagreiðsluna um helgina sem, samkvæmt héraðsstjórninni, er bindandi. Hins vegar verður að taka fram að aðeins um 37% kjósenda tóku þátt í atkvæðagreiðslunni árið 2014 og ákvaðu andstæðingar sjálfstæðissinnana upp til hópa að sitja hjá. Það er ekki ólíklegt að svipað verði uppi á teningnum að þessu sinni en samkvæmt reglum héraðsstjórnarinnar þarf einungis einfaldan meirihluta óháð kosningaþátttöku til þess að ráðist verði í að lýsa einhliða yfir sjálfstæði.
Það verður óljóst fram á síðustu stundu hvernig og hvort atkvæðagreiðslan muni fara fram en líklegt þykir að sjálfstæðissinnar „sigri“ í atkvæðagreiðslunni eftir því sem margir andstæðingar segjast ætla að sitja hjá. Þó er nokkurn veginn óhætt að segja að niðurstaða atkvæðagreðlsunnar muni ekki leiða til sjálfstæðis Katalóníu, að minnsta kosti ekki um sinn. Atkvæðagreiðslan hefur ekkert lagalegt gildi og brýtur á ákvæðum stjórnarskrárinnar auk þess sem það er mjög vafasamt að krefjast einungis einfalds meirihluta óháð kosningaþátttöku um málefni af þessu tagi.
Niðurstaða atkvæðagreiðslunnar mun hins vegar að öllum líkindum valda meiri höfuðverki en áður fyrir spænsku ríkisstjórnina og gæti haft afdrifarík áhrif á stöðu minnihlutastjórnar Rajoy og hina veiku meirihlutastjórn Puigdemont í Katalóníu. Hvað varðar sjálfstæði Katalóníu til lengri tíma litið er erfiðara að segja til um hvaða áhrif atkvæðagreiðslan mun hafa en hún vekur að minnsta kosti athygli stjórnvalda á óánægju Katalóna á stjórnarskrá landsins og gæti opnað fyrir umræðu um breytingar á henni.