Hinn umdeildi Hugh Hefner, stofnandi tímaritsins Playboy, dó 27. september síðastliðinn 91 árs að aldri. Hann græddi á tá og fingri á útgáfu sinni og skildi eftir sig mikið veldi. Eftir andlát hans hafa margir dásamað hann sem hálfgerða frelsishetju. Hann á að hafa frelsað hinn vestræna heim úr viðjum gamaldags siðferðis sem var gegnumsýrt af hræsni og bælingu.
Á hinn bóginn hefur alda radda risið sem fordæmir það sem hann stóð fyrir, þar á meðal kvenfyrirlitningu og að hafa nýtt sér kvenlíkamann til að uppfylla eigin fantasíur og græða í leiðinni. Ganga margir svo langt að segja að hann hafi verið hórmangari. Einnig hafa fjölmargir mótmælt síðustu fréttum eftir andlát Hefners en hann keypti grafarstæði við hliðina á fyrstu fyrirsætunni sem birtist á forsíðu Playboy-tímaritsins árið 1953; sjálfri Marilyn Monroe.
Ólst upp á íhaldsömu heimili
Hugh Marston Hefner fæddist í Chicago í Bandaríkjunum árið 1926. Í heimildamyndinni Hugh Hefner Playboy Activist and Rebel segist hann sjálfur hafa alist upp á heimili þar sem honum var sýndur lítill kærleikur og hafi hann ekki verið faðmaður sem barn. Foreldrar hans voru hreintrúarfólk og telur hann þess vegna að hann hafi leitað í fantasíuheiminn sem hann sá í kvikmyndum og tónlist. Hann hafi verið mjög meðvitaður um bælinguna í Bandaríkjunum og tabúin enda var landið mjög íhaldsamt um miðja 20. öldina.
„Verður líf mitt aðeins endurtekning á lífi foreldra minna? Er þar ekkert meira,“ spurði hann sig eftir að hann gifti sig, átti börnin og vann í vinnu sem hann kunni ekki við. Hann tók ákvörðun um að breyta lífi sínu og láta drauma sína rætast. Þá ákvað hann að stofna karlatímaritið Playboy.
Tileinkaði sér líf glaumgosans
Fyrsta eintakið kom út í desember 1953. Hann tók 600 dollara bankalán, safnaði frekari fjárfestingum og stofnaði sitt eigið tímarit. Upphaflega átti það að heita Stag Party sem þýðist sem steggjapartí á íslensku.
Hann giftist Mildred Williams árið 1949 og eignaðist með henni tvö börn. Þau skildu 10 árum seinna. Eftir skilnaðinn lifði hann eins og sönnum glaumgosa sæmir, hann skemmti sér og varð einn eftirsóttasti piparsveinninn í Chicago. Hann gaf út tímarit sitt við miklar vinsældir og stýrði sjónvarpsþáttum. Nær undantekningarlaust svaf hann hjá fyrirsætunum sem birtust í Playboy.
Breytti lífi sínu eftir hjartaáfall
Þetta líferni hefur frá upphafi verið mér ástríðufólgið. Það er auðvelt fyrir mig að segja því ef þú elskar ekki þetta allt þá ertu flón
Árið 1985 fékk hann minniháttar hjartaáfall og endurskoðaði lífstíl sinn í kjölfarið. Þá var hann orðinn 59 ára gamall og fjórum árum seinna giftist hann Kimberley Conrad. Þau eignuðust tvo syni en skildu að borði og sæng 1998 og flutti hún í hús við hliðina á Playboy-setrinu. Tólf árum seinna gekk skilnaðurinn síðan endanlega í gegn.
Hefnar flutti til Las Angeles um miðjan áttunda áratuginn í stórhýsi sitt sem varð frægt fyrir stórfengleg og tilkomumikil partý. Á Playboy-setrinu bjuggu oft og tíðum margar konur með Hefner, iðulega mun yngri en hann. Hann giftist í þriðja sinn Crystal Harris árið 2012 og var giftur henni til dauðadags.
Karlmenn frelsaðir frá kynferðislegri kúgun
Auk þess að gefa út tímaritið Playboy þá lifði hann líka undir ímyndinni og varð fyrir vikið gríðarlega vinsæll. Hann er af sumum talinn hafa víkkað út landamæri hins siðlega og verið mest öfundaðasti karlmaðurinn í Bandaríkjunum. Hann sé þannig hið mikla poppmenningar-goð sem frelsað hefur karlmenn undan því að vera kynferðislega kúgaðir.
Hann er líka sagður hafa komið af stað byltingu og að konur væru meðtaldar í henni, þ.e. að hún kæmi þeim einnig til góða. Konur færu sjálfviljugar í hlutverk kanínunnar með eyrun á höfðinu og dindilinn á rassinum en það er eitt aðalsmerki Playboy. Konan fengi vissulega borgað og væri það henni í sjálfsvald sett að taka þátt; enginn neyddi hana í eitthvað sem hún vildi ekki.
George Lucas lýsti því þannig í heimildamynd um kappann að allir hafi fantasíur, langanir og þrár. Það sem Hefner gerði var að draga þessar fantasíur fram: opinbera þær. Hefner sagði sjálfur að sitt viðhorf væri heilbrigðara viðhorf til kynlífs.
Fantasían einungis fyrir karla
Ekki allir líta arfleifð Hefners þessum augum og hefur fólk bent á að hann hafi byggt upp og viðhaldið óheilbrigðri sýn á kvenlíkamann. Að líkami konunnar væri einungis eitthvað fyrir karlmanninn að njóta. Blaðamaðurinn Suzanne Moore lenti í vandræðum fyrir að kalla Hefner hórmangara en að hennar mati lá það í augum uppi. Hefner hótaði að lögsækja hana fyrir meiðyrði. Hún segist hálft í hvoru hafa viljað að hann myndi láta verða af því. Þá hefðu dómstólar þurft að taka afstöðu til gjörða hans.
Ég fékk aldrei þakkir frá þeim sem græddu milljónir á Marilyn-nektarljósmyndinni. Ég þurfti meira segja að kaupa eintak af tímaritinu til að sjá sjálfa mig í því
Hún segir að það hefði verið áhugavert að rökræða hvort maður sem græðir á konum, sem selja kynlíf, væri hórmangari. Hún segir að fantasían sem hann seldi væri ekki fyrir konur heldur einungis karla. Hlutverk hans hafi verið að gera ljósblátt klám aðgengilegt og að viðtekinni venju.
Nýtti sér gamla nektarmynd
Eins og áður segir og fjallað hefur verið um í fjölmiðlum úti um allan heim þá keypti Hefner grafarstæði við hliðina á fyrstu forsíðufyrirsætu sinni, Marilyn Monroe, árið 1992 fyrir 75 þúsund dollara.
Mikil reiðialda hefur risið í kjölfarið en Hefner hitti Monroe aldrei og líta margir svo á að hann hafi misnotað hana og frægð hennar þegar hann setti hana á forsíðu fyrsta tímaritsins. Hann keypti nektarmynd af henni, sem var tekin áður en hún varð fræg, og birti hana í blaðinu. Hún var aldrei spurð og fékk hún aldrei borgun fyrir. „Ég fékk aldrei þakkir frá þeim sem græddu milljónir á Marilyn-nektarljósmyndinni. Ég þurfti meira segja að kaupa eintak af tímaritinu til að sjá sjálfa mig í því,“ greindi hún frá í ævisögu sinni.