Þrátt fyrir að áherslur flokkanna séu oft og tíðum sambærilegar í heilbrigðismálum þá ber þó oft á milli þeirra. Á vefsíðunni Betra Ísland er hægt að lesa helstu stefnumál flokkanna og taka þátt í rökræðum.
Tilgangurinn með síðunni er að tengja saman almenning og þingmenn, hvetja til góðrar rökræðu og að fá fólk til að tala saman og byggja upp traust. Þetta segir Róbert Bjarnason, framkvæmdastjóri Íbúa ses. en lesa má frekar um verkefnið í frétt Kjarnans um vefsíðuna.
Kjarninn tók saman helstu áherslumál í heilbrigðismálum en allir flokkarnir nema einn hafa skilað inn stefnumálum á Betra Ísland. Hægt er að lesa um fleiri stefnumál og taka þátt í umræðum á síðunni sjálfri.
Alþýðufylkingin
Allir eiga að hafa rétt á gjaldfrjálsri heilbrigðisþjónustu, í heimahéraði eftir því sem hægt er. Það þýðir massífa uppbyggingu heilsugæslu og sjúkrahúsaþjónustu um allt land. Og heilbrigðisþjónusta er ekki fyrsta flokks nema allir geti notið hennar. Í dag leitar fimmti hver Íslendingur sér ekki læknishjálpar vegna kostnaðar. Á meðan svo er, er okkar kerfi ekki fyrsta flokks. Þetta segir í stefnu Alþýðufylkingarinnar.
Þau vilja einnig leggja niður Sjúkratrygginar Íslands og veita peningunum, sem þær borga núna fyrir læknisaðgerðir hvort sem þær eru framkvæmdar á opinberu sjúkrahúsi eða einkarekinni stofu. Þau vilja veita þeim peningum beint til opinberra sjúkrahúsa, einkum Landspítalans, til þess að hann geti annað hlutverki sínu betur.
Á stefnuskrá þeirra segir það þurfi að hækka laun margra heilbrigðisstétta verulega til að laða hæft fólk að, umbuna því sem skyldi og draga úr undirmönnun. Lág laun í litlu atvinnuleysi þýði einfaldlega að fólk fer annað. Álagið á þá sem eftir eru verði óþolandi og geti auk þess orðið hættulegt.
Miðflokkurinn
Miðflokkurinn ætlar að byggja nýjan Landspítala á nýjum og betri stað, aðlaðandi vinnustað sem stuðlar að betri líðan sjúklinga. Hann biðlar til fólksins að móta framtíðina með þeim.
Viðreisn
Viðreisn segist vilja stórefla geðheilbrigðisþjónustu á Íslandi. Færa skuli sálfræðiþjónustu undir kerfi almannatrygginga í skrefum en forgangsraða í þágu yngstu og viðkvæmustu hópanna.
Þau vilja að tryggt verði aðgengi að sálfræðiþjónustu fyrir nemendur á öllum skólastigum. Fjölga þurfi stöðugildum sálfræðinga á heilsugæslustöðum. „Við þurfum líka að efla þjónustuna um allt land og við megum ekki vera hrædd við nýjar útfærslur á þjónustunni,“ segir í stefnu þeirra.
Píratar
„Heilbrigðismálin fyrst og fremst: Framsýn stjórnvöld tryggja að allir fái bestu mögulegu heilbrigðisþjónustu þegar þörf krefur, óháð efnahag og óháð búsetu,“ segir í stefnu Pírata.
Píratar líta svo á að öruggt aðgengi að heilbrigðisþjónustu sé ekki til staðar fyrir alla fyrr en í fyrsta lagi að heilsugæsla sé í nærumhverfi fólks, í öðru lagi að fólk geti sótt læknisaðstoð þó það hafi ekki efni á því og í því þriðja að biðlistar séu ekki það langir að heilsa fólks sé í hættu.
Þau vilja setja af stað faglega, óháða staðarvalsgreiningu á helstu mögulegum staðsetningum nýja Landspítalans á höfuðborgarsvæðinu. „Þeirri úttekt ætti að vera lokið innan árs og ætti að taka mið af svæðisskipulagi höfuðborgarsvæðisins og þróun íslenskrar heilbrigðisþjónustu til framtíðar. Í kjölfarið verði landsmönnum falið að velja milli helstu valkosta í vandaðri viðhorfskönnun eða þjóðaratkvæðagreiðslu.“
Framsóknarflokkurinn
Framsókn telur að almenn eining ríki um að gera þurfi betur í heilbrigðismálum á Íslandi. Flokkurinn segir að hann hafi staðið fyrir samþykkt heilbrigðisáætlunar fyrir Ísland. Þrjú verkefni þoli ekki bið: Hjúkrunarheimilum þurfi að fjölga, reisa þurfi þjóðarsjúkrahús og efla þurfi heilsugæslu. Þau vilja greina hvar brýnasta þörfin sé fyrir grunnþjónustu.
Þau benda á að kostnaðarþátttaka sjúklinga á Íslandi sé hærri en á Norðurlöndunum. Núverandi kerfi sé íþyngjandi sérstaklega ef fólk er búið að greiða hámark kostnaðar vegna læknisþjónustu og lyfja. Sameina þurfi þessi tvö kerfi. Framsókn segist enn fremur vilja að tannlækninga-, sálfræði- og ferðakostnaður sjúklinga falli undir greiðsluþátttökukerfið. Framtíðarmarkmið sé að veikir borgi ekki.
Sálfræðiþjónustu á að greiða niður strax, að þeirra mati. „Um 20 prósent barna og ungmenna hafa einhvern tíma fyrir 18 ára aldur þurft að leita aðstoðar vegna geðrænna erfiðleika. Bregðast þarf snemma við þegar geðrænir erfiðleikar gera vart við sig hjá börnum og fullorðnum. Framsókn vill fjölga sálfræðingum í heilsugæslunni og að sálfræðiþjónusta verði niðurgreidd og verði hluti af greiðsluþátttökukerfinu eins og önnur heilbrigðisþjónusta.“
Þau segja jafnframt að geðlækna vanti á heilbrigðisstofnanir. Framsókn vilji fjölga geðlæknum á heilbrigðisstofnunum víðsvegar um landið og létta álaginu af Landspítalanum. Hörmulegt sé að horfa upp á að stór hluti af ungu fólk glími við geðræna erfiðleika. Geðlæknum þurfi að fjölga strax.
Að endingu telur Framsókn að framtíðarstaður Landspítalans sé ekki við Hringbraut. Þrátt fyrir að framkvæmdir við Hringbraut klárist þurfi að huga tímanlega að því að nýr spítali verði byggður á nýjum stað sem rúmi allar deildir, m.a. geðdeild, en það sé ekki í boði við Hringbraut. Sjúklingar þurfi betri aðstöðu og horfa þurfi bæði til líkamlegra og andlegra veikinda. Starfsfólk þurfi betri aðstöðu.
Vinstri græn
VG telur að sálfræðiþjónusta eigi að vera niðurgreidd eins og önnur heilbrigðisþjónusta og að tryggja eigi slíkra þjónustu í öllum framhaldsskólum nemendum að kostnaðarlausu.
Á heimasíðu Vinstri grænna koma auk þess fram að fjöldi annarra heilbrigðistengdra mála sem flokkurinn leggur áherslu á. Á meðal þeirra eru þau að auka þurfi framlög ríkisins til heilbrigðisþjónustu þannig að þau verði sambærileg við það sem gerist á hinum Norðurlöndunum, að setja þurfi kraftí að ljúka við byggingu nýs Landspítala við Hringbraut og efla um leið sjúkraflutninga og sjúkraflug um land allt.
Þá skuli stefnt að því að öll heilbrigðisþjónusta á sjúkrahúsum og heilsugæslustöðvum verði gjaldfrjáls og draga markvisst úr kostnaðarþátttöku sjúklinga á kjörtímabilinu. Styrkja þurfi heilsugæsluna, ekki síst á höfuðborgarsvæðinu, þannig að hún verði alltaf fyrsti viðkomustaðurinn.
Þá sé stórátaks þörf í geðheilbrigðismálum, tryggja þurfi fíklum viðunandi meðferðarúrræði með samvinnu dóms-, félags- og heilbrigðiskerfis og að notendastýrð persónuleg aðstoð þurfi að verða raunverulegt val fyrir þá sem það kjósa og tími til kominn að festa það verkefni í sessi með lögum.
Björt framtíð
Björt framtíð segist vilja nýjan Landspítala og nýtt sjúkrahótel. Þau vilja byggingju meðferðarkjarna við Hringbraut samkvæmt fyrirliggjandi áætlun og hefja starfsemi nýs sjúkrahótels. Þau vilja jafnframt að heilsugæsla um land allt verði styrkt sem fyrsti viðkomustað með fjölgun sálfræðinga.
Þau telja mikilvægt að tryggja skuli aukna vellíðan og betri geðheilsu barna og ungmenna og virkari samfélagsþátttöku einstaklinga sem glíma við geðraskanir til skemmri eða lengri tíma.
Jafnframt álítur Björt framtíð mikilvægt að heilbrigðisþjónustan tryggi aðgengi að þjónustu og ráðgjöf sem felur í sér fjölbreytilega þjónustu allra heilbrigðisstétta og hæfir einstaklingum best hverju sinni.
Björt framtíð segist leggja áherslu á forvarnir og meðferð sem miðast við að efla lífsgæði, sjálfstæði, val og ábyrgð hvers einstaklings. Við lýðheilsu sé átt við aðgerðir sem miða að því að viðhalda og bæta heilbrigði, líðan og aðstæður einstaklinga.
Sjálfstæðisflokkurinn
Sjáfstæðisflokkurinn segist ætla að halda vel utan um eldri kynslóðina og gera sérstakt átak í að fjölga hjúkrunarheimilum. „Við ætlum að styrkja heimaþjónustuna og gera sérstakt átak í fjölgun hjúkrunarheimila. Þrír milljarðar á ári munu renna úr Þjóðarsjóði í það átak á næstu árum,“ segir í stefnu þeirra.
Þau telja að styrkja þurfi stöðu Landspítalans sem rannsókna- og kennslusjúkrahús. Þau segjast vilja efla fjarheilbrigðisþjónustu og nýta upplýsinga- og samskiptatækni betur.
Í stefnu þeirra á Betra Ísland segja þau að fjárhagsaðstæður fólks megi ekki vera nokkrum hindrun í að leita sér lækninga og ná bata. Nýju greiðsluþátttökukerfi hafi verið komið á, þar sem sett hefur verið þak á kostnað einstaklinga vegna heilbrigðisþjónustu og börn eiga kost á gjaldfrjálsri þjónustu. Sjálfstæðisflokkurinn telur mikilvægt að lækka kostnað sjúklinga enn frekar.
Þau segjast enn fremur vilja ljúka framkvæmd geðheilbrigðisstefnunnar og fylgja henni eftir. Greina verði og takast á við vandamál á fyrstu stigum og tryggja aðgengi allra að sálfræðiþjónustu, óháð búsetu. Leggja þurfi aukna áherslu á forvarnir og auðvelda heilsugæslunni að sinna frumþjónustu við fólk með geðræn vandamál. Sérstaklega þurfi að huga að brýnni þörf ungmenna á þessu sviði.
Samfylkingin
Samfylkingin segist vilja að opinber hluti heilbrigðisþjónustunnar verði gjaldfrjáls í það minnsta Landspítalinn. Það kosti 6 milljarða að gera hann gjaldfrjálsan en hægt sé að vinna það í skrefum á næstu árum að lækka gjöldin. Hinn hlutinn væri heilsugæslan en það kosti 1 milljarð á ári.
Flokkur fólksins hefur ekki skilað inn stefnumálum sínum á síðuna og áherslur Dögunar vantar varðandi heilbrigðismálin.
Tekið skal fram að þessi listi er ekki tæmandi. Á næstu dögum mun Kjarninn einnig vera með umfjöllun um önnur mál sem varða atvinnuvegi og auðlindir, umhverfismál, dómstóla, stjórnarskrá og lýðræði.
25.10.2017 kl. 11:20.
Fréttaskýringunni var breytt eftir athugasemd frá Vinstri grænum sem báðu um að fleiri stefnumálum þeirra yrði bætt við. Þau stefnumál höfðu ekki verið sett inn á Betra Ísland.