Seðlabanki Íslands ætlar að birta skýrslu um neyðarlánveitinguna til Kaupþings í miðju bankahruninu í janúar næstkomandi, komi ekkert óvænt upp í verkefnastöðu bankans. Þetta kemur fram í svari Seðlabankans við fyrirspurn Kjarnans um málið.
Már Guðmundsson seðlabankastjóri greindi frá því í febrúar 2015 að hann ætlaði að láta taka saman skýrslu um tildrög þess að Kaupþing fékk neyðarlán upp á 500 milljónir evra frá bankanum 6. október 2008, sama dag og neyðarlög voru sett og Geir H. Haarde, þáverandi forsætisráðherra, bað guð að blessa Ísland í sjónvarpsávarpi. Það eru því næstum þrjú ár liðin frá því að skýrslan var boðuð.
Þegar Kjarninn spurðist fyrir um skýrslugerðina í júlí síðastliðnum fengust þau svör að gert væri ráð fyrir að hún myndi verða kynnt í bankaráði hans „á næstu mánuðum“. Þá kom einnig fram að Seðlabankinn hefði ákveðið að bæta söluferli FIH bankans – en sá danski banki var tekinn sem veð fyrir láninu – við skýrsluna. „Sá hluti er mjög umfangsmikill og snertir m.a. þróun efnahags- og bankamála í Danmörku. Vegna mikilla anna starfsmanna við önnur verk hefur verið erfiðleikum bundið að tryggja næga krafta í þetta verk – en það er sem sagt langt á veg komið,“ sagði í svari bankans.
Skoðun á birtingunni framundan
Nú er ljóst að skýrslan mun ekki verða birt fyrr en í fyrsta lagi rúmum sex mánuðum eftir að upphafleg fyrirspurn Kjarnans barst Seðlabankanum.
Morgunblaðið birti á laugardag afrit af símtali Geirs H. Haarde, þáverandi forsætisráðherra, og Davíðs Oddssonar, þáverandi seðlabankastjóra, frá 6. október 2008 þar sem neyðarlánveitingin var ákveðin. Seðlabankinn hefur ætið neitað að afhenda fjölmiðlum þetta afrit og borið fyrir sig þagnarskylduákvæði laga um bankann. Kjarninn stefndi Seðlabanka Íslands vegna þessa í síðasta mánuði og bankinn hefur ákveðið að taka til varna í því máli til að verja rétt sinn til að neita fjölmiðlum um aðgengi að símtalinu eða afriti af því.
Hannes frestar fram í janúar
Önnur skýrsla er væntanleg þar sem fjallað verður meðal annars um söluferli FIH. Sú er skrifuð af stjórnmálafræðiprófessornum Hannesi Hólmsteini Gissurarsyni, en honum var falið að stýra rannsóknarverkefni á vegum fjármálaráðuneytisins á erlendum áhrifaþáttum hrunsins í júlí 2014. Áætlaður kostnaður verkefnisins var tíu milljónir króna og áætluð verklok voru í byrjun september 2015.
Ráðning Hannesar til verksins var afar umdeild sökum mikilla tengsla hans við áhrifamenn innan Sjálfstæðisflokksins, sérstaklega fyrrverandi seðlabankastjórann, og núverandi ritstjórann, Davíð.
Skýrslu Hannesar hefur enn ekki verið skilað en greint var frá því í júní að hún sé nú í yfirlestri. Til stóð að kynna skýrsluna 8. október næstkomandi, eða rúmum tveimur árum eftir upphafleg áætluð verklok og rúmum þremur árum eftir að Hannesi var falið verkefnið. Þeirri kynningu var svo enn frestað og til stóð að hún færi fram í dag, 20. nóvember. Hannes skrifaði hins vegar pistil á vefinn Pressuna fyrir helgi og tilkynnti að þótt skýrslugerðinni væri lokið ætlaði hann að fresta skilum til að „gefa þeim, sem minnst er á í henni, kost á að skýra mál sitt, leiðrétta og gera athugasemdir.“ Hannes ætlar nú að birta sína skýrslu 16. janúar. Birting á skýrslu Seðlabankans ætti því að eiga sér stað á nánast sama tíma og Hannes birtir sínar niðurstöður.
Þess má geta að Davíð Oddsson á afmæli, verður sjötugur, þann 17. janúar 2018, eða daginn eftir að Hannes ætlar að birta sína skýrslu.
Fjallað um FIH með mismunandi hætti
Í báðum skýrslunum verður fjallað um neyðarlánsveitingu Seðlabanka Íslands til Kaupþings og veðtöku hans í hlutafé FIH-bankans.
Hannes skrifaði grein í Morgunblaðið 21. apríl 2015 þar sem hann opinberaði í fyrsta sinn hluta af því sem hann er að skrifa um í skýrslu sinni. Í greininn fjallaði hann í löngu máli um söluna á FIH-bankanum, sem tekin var sem veð fyrir neyðarláni Seðlabanka Íslands til Kaupþings 6. október, þegar Davíð Oddsson stýrði enn Seðlabankanum. Kjarninn greindi frá því 2. október 2014 að tap íslenskra skattgreiðenda vegna FIH væri 35 milljarðar króna.
Hannes komst að þeirri niðurstöðu að FIH hafi verið gott veð. Már Guðmundsson seðlabankastjóri hafi hins vegar verið plataður í málinu með þeim afleiðingum að Ísland varð af 60 milljarða króna ágóða vegna FIH, og sat þess í stað uppi með ofangreint tap.
Már svaraði grein Hannesar skömmu síðar. Hann sagði Hannes misskilja margt í málinu og fullyrti að ef Seðlabankinn hefði knúið FIH bankann í slitameðferð haustið 2010 hefði allt neyðarlánið sem bankinn veitti Kaupþingi 6. október 2008 tapast. Með því að selja bankann takist Seðlabankanum að innheimta liðlega helming lánsins, sem var upp á 500 milljónir evra.
Söluferli FIH verður á meðal þess sem fjallað verður um í væntanlegri skýrslu Seðlabankans.