Ég er skráður á póstlista minningarsjóðs um Layne Staley, sem var söngvari og forsprakki hljómsveitarinnar Alice In Chains. Sjóðurinn heitir Layne Staley Memorial Fund, og var stofnaður eftir að söngvarinn lést, einangraður og yfirgefinn, 5. apríl 2002. Hann hefur í seinni tíð einkum verið nýttur til að styrkja fjölskyldur fíkla á Seattle svæðinu, og eru tíðindum af styrkjum og viðburðum deilt með þúsundum sem skráð eru á póstlista sjóðsins.
Staley var sprautufíkill undir það síðasta og lést úr of stórum skammti fíkniefna. Móðir hans, Nancy McCallum, barðist fyrir son sinn og reyndi að hjálpa honum, en sú rimma tapaðist að lokum, eins og svo oft áður þegar fíklar finna ekki lækningu.
Barðist í stríði
Á minningartónleikum um Staley í ágúst síðastliðnum, var þess minnst að rúm fimmtán ár væru frá því að þessi óvenjulegi og hæfileikaríki söngvari lést. Hann hefði orðið fimmtugur 22. ágúst.
Móðir hans notaði tækifærið og tók til máls. Hún lét orðin lítið snúast um son sinn, en benti gestum á að hún hefði barist í „stríðinu gegn fíkniefnum“ og þekkti sársaukann og eymdina. En hún sagði það sorglegra en orð fá lýst, að staðan hefði versnað jafn hratt og mikið og hún hefur gert undanfarin ár í Bandaríkjunum. „Fíknin er eins og hver annar sjúkdómur,“ sagði Nancy og kallaði eftir ábyrgð á þeirri skelfingu sem ætti sér nú stað í Bandaríkjunum. „Áherslan ætti að vera á rannsóknir og meðferð,“ sagði hún í viðtali við Seattle Times af þessu tilefni. Hún lýsti líka skelfingunni sem hún upplifði þegar lögreglan kallaði hana á vettvang, þar sem sonur hennar fannst látinn, í Seattle borg. Lögreglan sagði henni að fara ekki inn í herbergið en hún lét það sem vind um eyru þjóta og örmagnaðist af sorg við sófann þar sem sonur hennar lá. „Ég ætlaði alltaf að vera til staðar fyrir börnin mín,“ sagði hún, og rifjar upp ásakanir og erfiðar hugsanir sem fylgdu dauðsfalli hans.
Nancy segir að fíknin sé dauðans alvara og að hún muni ekki hætta að berjast fyrir fíkla og aðstandendur þeirra, fyrr en skilningur er orðinn útdbreiddari á alvarleika málsins.
Ótrúlegar tölur
Tölurnar eru ógnvekjandi. Í Bandaríkjunum létust 64 þúsund manns úr of stórum skammti fíkniefna, þar af fleiri en 20 þúsund úr læknadópi, í fyrra. Um margföldun er að ræða sé mið tekið af þróun mála síðustu 16 ár.
Árið 2000 létust innan við 15 þúsund manns úr of stórum skammti. Meira en fjórföldun á 17 árum er ógnvænlegt, og hafa einstök ríki Bandaríkjanna verið að glíma við faraldur í þessum efnum undanfarin ár.
Ohio er það ríki sem hefur verið að glíma við hvað alvarlegastan vanda. Á árunum 2013 til og með 2016 létust 11,244 úr of stórum skammti í ríkinu, og hefur lögreglan í landinu sent frá sér hálfgerð neyðaróp vegna þess sem hefur verið að gerast. Hvað er til bragðs að taka? er spurt í örvæntingu.
Hefðbundin og óhefðbundin efni
Því fer raunar fjarri að vandinn í Bandaríkjunum sé bundin við einstök ríki, því alls staðar hefur orðið mikil aukning á dauðdögum milli ára. Í fyrra létust 44.800 karlar og 19.200 konur, samkvæmt upplýsingum sem stjórnvöld í Bandaríkjunum tóku saman þegar átaki var hrint úr vör, til að reyna að sporna gegn þessari hrikalegu þróun. Donald J. Trump Bandaríkjaforseti sagði við það tilefni, að nú þyrftu Bandaríkjamenn að standa saman. „Þessu verður að linna,“ sagði Trump.
Eitt af því sem nú hefur verið ákveðið að ráðast í hratt, um öll Bandaríkin, er að byggja upp húsaskjól fyrir fíkla sem búa á götunni í borgum. Þar mun í fyrstu verða mögulegt að fá aðgang að snyrtingu en til framtíðar er að því stefnt að koma upp meiri heilbrigðisþjónustu.
Eitt af því sem hefur flækt baráttu yfirvalda í Bandaríkjunum gegn fíkniefnum er að framboð af tegundum hefur aukist til muna. Þannig hefur lyfseðilsskyldum lyfjum (læknadópi) í umferð á svarta markaðnum fjölgað gífurlega og verksmiðjuframleiddum fíkniefnum sömuleiðis.
Þá sýna tölur, sem teknar eru saman í skýrslu stofnunar Sameinuðu þjóðanna sem berst gegn fíkniefnum og skipulagðri glæpastarfsemi, UNODC, að mikil aukning er nú á heimsvísu þegar kemur að framboði á ópíumlyfjum, eins og heróíni, og síðan kókaíni. Framleiðsla á þessum efnum er að aukast hratt og svo virðist sem nýir markaðir séu að verða til, ekki síst í Asíu, eftir því sem efnahagsleg velsæld verður meiri. Oft hefur hagsveiflan í svarta hagkerfinu haldist í hönd við það sem er að gerast uppi á yfirborðinu, og má sérstaklega nefna framboð á kókaíni því til stuðnings.
Framleiðsla á því lyfi er að miklu leyti bundin við tiltekin svæði í Kólumbíu, Perú og Bolivíu, þó fleiri staðir í heiminum séu einnig þar undir. Alls staðar er mikil aukning milli ára, og þrátt fyrir að fjármunir hafi verið settir í hertara landamæraeftirlit í Bandaríkjunum, vopnaða baráttu við fíknefnabaróna og lögregluaðgerðir af ýmsum toga, þá hefur lítill sem enginn árangur náðst. Þvert á móti hafa vandamálin dýpkað mikið og svarta hagkerfið stækkað.
Endastöð stríðsins?
Í júní 1971 lýsti Repúblikaninn Richard W. Nixon, þáverandi forseti Bandaríkjanna, yfir stríði gegn fíkniefnum, og greip til ýmissa aðgerða í því, sem síðan áttu eftir að móta það hvernig yfirvöld í Bandaríkjunum hafa nálgast baráttuna gegn fíkniefnum.
Aukin harka lögreglu, skipulagðar aðgerðir með öðrum þjóðum, ekki síst í Suður-Ameríku, og þyngri dómar í fíknefnamálum, var eitthvað sem fylgdi þessari stefnumörkun. Gríðarlega hröð fjölgun fanga liggur ekki síst í þessum aðgerðum gegn fíkniefnatengdum glæpum, því stór hluti þeirra 2,5 milljóna sem eru í bandarískum fangelsum er þar inni vegna dóma fyrir slíka glæpi.
Ekkert þróað ríkið í heiminum er neitt nálægt því að vera með svo hátt hlutfall borgara í fangelsi. Til samanburðar þá er Þýskaland með 78 fanga á hverja 100 þúsund íbúa en Bandaríkin rúmlega 700.
Áratugabarátta hefur litlum sem engum árangri skilað, öðrum en þeim að upplýsingasöfnun er orðin einfaldari og betri nú en áður, og þar með kortlagning á hinu risavaxna svarta hagkerfi. En það blómstrar sem aldrei fyrr, með skelfilegum afleiðingum og ótímabærum dauðsföllum.
Í fyrrnefndri skýrslu UNODC, sem byggir á frumgögnum frá aðildarríkjum Sameinu þjóðanna, má til dæmis greina nákvæmlega hvar fíkniefnaframleiðsla fer fram og hvaða leiðir efnir fara inn á markað og að endingu til neytenda, þar af stóru leyti til fíkla.
En hvers vegna er þá ekki framleiðslunni eytt? Kókaínframleiðslan í Kólumbíu eyðilögð og ópíumsvæði í Afganistan hernumin og framleiðsla stöðvuð?
Þetta er ekki alveg svo einfalt, svo ekki sé meira sagt.
Reynslan sýnir að því meiri hörku og krafti sem beitt er gegn skipulagðri framleiðslu þessara „grunn“ efna fíkniefnahagkerfisins, því meiri verður framleiðslan á verksmiðjuframleiddum efnum. Þá eykst einnig eftirspurn eftir læknadópinu, en í mörgum tilvikum eru það miklu sterkari og hættulegri efni fyrir fíkla.
Þetta er raunar talin vera ein ástæða þess að vandamálin hafa stigmagnast í Bandaríkjunum á undanförnum árum. Svarta hagkerfið hefur orðið erfiðara viðfangs, skipulögð glæpastarfsemi hefur náð enn betri tökum á fíkniefnamarkaðnum og gert yfirvöldum - og fólki vitaskuld - erfiðara fyrir.
Tímamót
Í inngangi að skýrslu UNODC segir að það séu töluverð tímamót fyrir aðildarþjóðir Sameinuðu þjóðanna, að hafa sammælast um að nú sé þörf á breyttum aðferðum. Þar er helst horft til þess að byrja á öfugum enda, sé mið tekið af stríðinu gegn fíkniefnum. Það er að hjálpa fíklum, hlúa að þeim með betri heilbrigðisþjónustu og reyna að stuðla að enn betri upplýsingaflæði milli ríkja um hvað er að virka vel og hvað illa.
The devastating spread of opioid overdose deaths pic.twitter.com/BbakgXkUl9
— Conrad Hackett (@conradhackett) November 19, 2017
Þrátt fyrir lítinn árangur og vaxandi útbreiðslu fíkniefna þá telur UNODC að tilefni sé til bjartsýni. „Í þessi skýrslu er sérstaklega dregið fram að þörf sé á því að efla forvarnir og þjónustu við fíkla,“ segir Yuri Fedotov, framkvæmdastjóri UNODC, í innganginum.
Nancy McCallum, móðir Layne Staley, sagði í ræðu sinni á fundinum þar sem minningu Layne Staley var haldið á lofti, að dauðsföll fíkla væru alvarlegasti vandi Bandaríkjanna um þessar mundir. Sviðin jörð dauðans blasir við hvert sem litið er. Það þyrfti að breyta um aðferðir og hjálpa fíklum með áhrifameiri hætti.