Í frumvarpi að fjárhagsáætlun borgarinnar fyrir næsta ár er hins vegar aðeins gert ráð fyrir að 100 milljónir króna renni í verkefni tengd Borgarlínunni. Þess vegna má gera ráð fyrir að þungi framkvæmda við fyrsta áfanga Borgarlínunnar verði í lok fimm ára áætlunarinnar.
Borgarlínan er heiti á samstarfsverkefni sveitarfélaganna á höfuðborgarsvæðinu um afkastamikið almenningssamgöngukerfi. Búið er að kortleggja helstu samgönguása á höfuðborgarsvæðinu þar sem þetta nýja samgöngukerfi mun liggja. Borgarlínan mun teygja sig í gegnum öll sveitarfélögin á höfuðborgarsvæðinu og vera allt að 57 kílómetrar að lengd. Ekki verða allir kílómetrarnir lagðir í einu heldur verður verkefnið áfangaskipt.
Jafnvel þó tillögur um hvar Borgarlínan skuli liggja hafi verið samþykktar á enn eftir að ganga frá ýmsum þáttum innan stjórnsýslu sveitarfélaganna svo hægt sé að byrja að leggja brautir fyrir almenningsvagnana. Gera þarf nýtt svæðisskipulag þar sem gert er ráð fyrir þessari nýju samgönguæð. Í því samhengi hefur verið talað um að taka þurfi frá svæði í borgarlandinu fyrir Borgarlínuna.
Borgarstjóri ræddi Borgarlínu í þætti Kjarnans á Hringbraut
Við ákvörðun um legu Borgarlínunnar var tekið mið af valkostagreiningu sérfræðinga sem unnin hafði verið fyrir Samtök sveitarfélaga á höfuðborgarsvæðinu (SSH). Þær leiðir sem fýsilegast er talið að fara byggja á atriðum sem mikilvægt er að uppfylla svo hægt sé að skapa hagkvæmt samgöngukerfi.
Þar skipta mestu máli atriði eins og raunþéttleiki byggðar, íbúafjöldi, hvort um sé að ræða atvinnusvæði eða íbúðabyggð og svo framtíðaráform á svæðinu. Þessum þáttum var svo stillt upp til þess að betur mætti greina hugsanlega nýtingu nýja samgöngukerfisins.
Aðalskipulag höfuðborgarsvæðisins til ársins 2040 verður að endingu uppfært með þetta í huga og framkvæmdir eiga að hefjast á næsta ári.
Hagkvæmasta lausnin
Aukinn samgönguvandi á höfuðborgarsvæðinu hefur verið til umræðu á undanförnum árum og um leið lausnir við þeim vanda. Verkfræðistofan Mannvit vann kostnaðarmat á samgöngusviðsmyndum fyrir sveitarfélögin á höfuðborgarsvæðinu árið 2014. Þar kemur í ljós að fjárfesting í bættum almenningssamgöngum og fjárfesting í vegakerfisins er hagkvæmasta lausnin. Það er jafnframt sú lausn sem skilar bestum árangri.
Ef ráðast á í uppbyggingu stofnvega innan höfuðborgarsvæðisins eingöngu til þess að takast á við auka bílaumferð innan og á milli sveitarfélaganna á suðvesturhorni landsins, mun það verða mun óhagkvæmara en að blanda saman uppbyggingu almenningssamgangna-, bílaumferðar- og hjólreiðainnviða.
Kostnaður við Borgarlínuna mun á endanum verða á bilinu 63 til 70 milljarðar króna. Sá kostnaður mun dreifast yfir nokkur ár.
Á aðalfundi SSH 3. nóvember síðastliðinn kom fram að ef ráðist verði í framkvæmdir við helming Borgarlínunnar í fyrsta áfanga yrði það fjárfesting upp á 30 til 35 milljarða króna.
Fimm vandamál enn til staðar
Jafnvel þó búið sé að ákveða hvar Borgarlínan eigi að liggja eru enn fimm hlutar leiðakerfisins sem enn á eftir að taka ákvörðun um. Þar eru augljósar hindranir eða mismunandi valmöguleikar sem á eftir að taka tillit til.
Í Hafnarfirði stendur valið um hvernig farið verður úr miðbæ Hafnarfjarðar að Hafnarfjarðarvegi. Valið stendur um að fara um Fjarðargötu og Reykjavíkurveg eða um Lækjargötu, Álfaskeið og Fjarðahraun.
Í Garðabæ og Kópavogi eru mismunandi valkostir um hvernig farið verður frá Arnarneshálsi að Hamraborg. Hægt er að fara áfram eftir Hafnarfjarðarvegi yfir Kópavogslæk eða hafa viðkomu í Smáralind eftir Arnarnesvegi og Fífuhvamsvegi eða Smárahvamsvegi.
Úr Fossvoginum eru lagðar til tvær leiðir að Kringlunni. Önnur heldur áfram eftir núverandi legu Hafnarfjarðarvegar en hin tekur krók að Landspítalanum, og liggur svo eftir Háaleitisbraut og Listabraut.
Á milli Miklubrautar og Suðurlandsbrautar er lagt til að mögulega mætti tengja leiðirnar áfram eftir Kringlumýrarbraut.
Fimmti og síðasti valkosturinn fjallar þá um hvernig Borgarlínan fer frá BSÍ að Fríkirkjuvegi. Annar möguleikinn væri að línan lægi eftir Sóleyjargötu en hinn möguleikinn er að Borgarlínan fari eftir Hringbraut, fram hjá Háskóla Íslands og eftir Suðurgötu og yfir Tjörnina á Skothúsvegi.
Í tillögunum er gert ráð fyrir að ein leið liggi út á Kársnes og þveri svo Fossvoginn að Háskólanum í Reykjavík og gangi svo yfir Vatnsmýrina þar sem Reykjavíkurflugvöllur er nú. Í aðalskipulagi Reykjavíkur er gert ráð fyrir blandaðri byggð í Vatnsmýrinni og að flugvallarstarfsemin hverfi þaðan.
Engin lest til að byrja með
Þeir Íslendingar sem muna eftir starfhæfri lest á höfuðborgarsvæðinu eru orðnir fáir. Tvær eimreiðar gengu á milli Öskjuhlíðar og niður á ströndina undir Arnarhóli þegar framkvæmdir við Reykjavíkurhöfn stóðu yfir árin 1913 til 2017. Árið 1928 var hætt að nota síðustu eimreiðina og síðustu teinarnir hurfu í heimsstyrjöldinni.
Lestir hafa hins vegar víðar verið notaðar á Íslandi í takmarkaðan tíma og þá helst í tengslum við stórar framkvæmdir. Lestir var til dæmis notaðar til að ferja fólk og nauðsynjar í tengslum við byggingu Kárahnjúkavirkjunar á síðasta áratug, svo aðeins eitt dæmi sé nefnt.
Ekki er gert ráð fyrir að lestarteinar verði lagðir á höfuðborgarsvæðinu fyrir Borgarlínuna fyrst um sinn. Þéttleiki byggðarinnar og fjöldi farþega uppfyllir einfaldlega ekki þau þarfaviðmið sem þurfa að vera til staðar fyrir járnbrautalestir. Þess vegna verða vagnarnir sem þjóna á Borgarlínunni hefðbundnir strætisvagnar.
Helsti munurinn verður hins vegar að vagnarnir stoppa tíðar á hverri stoppistöð fyrir sig og hafa greiða leið um borgarlandið, enda verður Borgarlínan aðskilinn frá annarri bílaumferð. Hönnun kerfisins á hins vegar ekki að útiloka að hægt verði að breyta því í léttlestarkerfi síðar meir ef þess gerist þörf.