Mikið er rætt og ritað um pólitíska misklíð þessi misserin. Engu máli skiptir hver litið er; alls staðar blasa við harðar deilur, meiri öfgar og meiri klofningur milli fylkinga. Óvíða í hinum vestræna heimi er ástandið þó eins slæmt um þessar mundir og í Bandaríkjunum þar sem gjáin milli repúblikana og demókrata virðist gliðna dag frá degi.
Ýmsar skýringar liggja þar að baki. Bandaríkin eru gríðarstórt og fjölbreytt land þar sem tveggja flokka kerfi hefur verið við lýði, meira eða minna frá lokum nítjándu aldar, með mismunandi formerkjum þó. Frá stofnun Repúblikanaflokksins árið 1854 hafa liðsmenn hans att kappi við Demókrataflokkinn og þeir, undantekningalítið, skipt með sér embættum á öllum stigum, allt frá bæjarstjórnarkosningum upp í forsetaembættið.
Kosningakerfið er enda hannað til þess arna, þar sem kosið er í einmenningskjördæmum, sem gerir frambjóðendum annarra flokka erfitt um vik að komast að, hvað þá í nægilegum fjölda kjördæma til að gera sig gildandi að nokkru marki á nokkru stigi.
Lengi vel framan af tuttugustu kynntu báðir flokkar sig sem „Big Tent“-flokka – flokka sem teygðu sig báðir yfir á miðjuna þar sem hinir fjölbreyttustu hópar þjóðfélagsins gátu fundið eitthvað fyrir sig og munurinn milli manna á landsvísu lá frekar í heimaríki en flokki. Til dæmis vildi svo til að demókratar í Suðurríkjunum börðust margir harkalega gegn mannréttindabaráttu þeldökkra upp úr miðri öldinni, en það var í forsetatíð demókratans Lyndons B. Johnson sem stærstu skrefin voru tekin í þá átt með samþykkt Civil Rights Act árið 1964.
Ekki þarf að fara mörgum orðum um stöðuna á Bandaríkjaþingi í dag þar sem þykir algjör goðgá að „teygja sig yfir ganginn“, eða vinna með þingmönnum hins flokksins. Margt liggur þar að baki, en ekki síst endurröðun kjördæma sem hefur dregið úr mikilvægi miðjunnar í pólitískri orðræðu og þar af leiðandi skerpt skilin milli flokka, en þar kemur líka til stóraukinn fjáraustur hagsmunaaðila í vasa stjórnmálafólks, sem veit hvað til síns friðar heyrir ef það vill halda áfram að maka krókinn.
Þótt köpuryrði, svívirðingar og fullkomið viljaleysi til samstarfs, jafnvel (og raunar einna hæst og ófyrirleitnast) úr æðsta embætti landsins, sé normið frekar en undantekningin má segja núverandi þingmönnum á Bandaríkjaþingi eitt til varnar: Þeir hafa ekki (enn) reynt að myrða kollega sína í þingsal eins og gerðist árið 1856 þegar fulltrúardeildarþingmaðurinn Preston Brooks gerði sér ferð í sal öldungadeildarinnar þar sem hann tók til að kaghýða öldungadeildarþingmanninn Charles Sumner með göngustaf og linnti ekki látum fyrr en hann var dreginn af fórnarlambinu, sem var nær dauða en lífi.
Deilan um þrælahald
Fyrstu áratugina eftir að Bandaríkin fengu sjálfstæðir lá brotalínan í stjórnmálaumræðunni fyrst og fremst um það sem áhrærir hlutverk alríkisstjórnarinnar gagnvart ríkjunum. Með tíð og tíma umverptist sú umræða og fór að snúast að miklu leyti um þrælahald sem viðgekkst, sérstaklega í Suðurríkjunum þar sem það var grundvöllur iðnaðar og efnahags, en var sem eitur í æðum margra í norðurríkjunum.
Framan af nítjándu öldinni var meðvitað reynt að búa svo um hnútana að þegar ný ríki voru tekin inn í Bandaríkin myndi ekki raskast það jafnvægi sem var milli þrælahaldararíkja og frjálsra ríkja. Væri eitt ríkið tekið inn úr öðrum hópnum skildi annað tekið sem fyrst úr hinum.
Árið 1848 voru hlutföllin jöfn; fimmtán ríki leyfðu þrælahald og fimmtán bönnuðu slíkt, líkt og evrópsk ríki höfðu þegar gert (innan eigin landamæra að minnsta kosti).
Engum duldist þá að framhaldið gæti skipt sköpum og var tekist svívirðilega á um hvernig fyrirkomulagið ætti að vera í næstu ríkjum sem tekin yrðu inn.
Kalifornía kom inn sem frjálst ríki árið 1850 (en þó var annar öldungadeildarmaður ríkisins stuðningmaður þrælahalds) og mikil spenna ríkti um afdrif Kansas og Nebraska sem voru næst í röðinni. Árið 1854 voru samþykkt lög (Kansas-Nebraska Act) sem kváðu á um að íbúar Kansas skyldu kjósa um hvort ríkið kæmi inn sem þrælaríki eða ekki. Það gerði ríkið að brennipunkti í deilum milli afnámssinna og þrælahaldssinna og olli nær stríði innan ríkisins þar sem hagsmunaaðilar úr röðum beggja streymdu þangað til að hafa áhrif á niðurstöður kosninganna.
Svo fór að Kansas fór inn sem frjálst ríki árið 1861, en áður höfðu Minnesota (1858) og Oregon (1859) farið inn sem frjáls ríki og þannig breytt varanlega valdahlutföllum innan þingsins, afnámssinnum í hag, sem varð til þess að ellefu ríki þrælahaldara sögðu sig úr lögum við Bandaríkin, árið 1861, vegna meints ofríkis alríkisstjórnarinnar.
Upp úr því braust borgarastyrjöldin sem geysaði allt til 1865 þegar Bandaríkjaher vann fullnaðarsigur á uppreisnarliði Suðurríkjanna.
En ég er kominn langt, langt fram úr mér… Við snúum aftur til ársins 1856 þar sem deilan um málefni Kansas stendur enn sem hæst í þingsölum í Washington DC.
Stór orð, sem segja svo margt
Dagana 19. og 20. maí árið 1856 steig öldungadeildarþingmaðurinn Charles Sumner í pontu í þingsal. Sumner var frá Massachusetts, 45 ára gamall fulltrúi hins nýstofnaða Repúblikanaflokks, sem var andsnúinn þrælahaldi. Hann var annálaður ræðumaður og baráttumaður fyrir mannréttindum um árabil.
Í ræðu sinni um ástandið í Kansas, sem var síðar gefin út undir yfirskriftinni „Crime Against Kansas“, fór Sumner meðal annars ófögrum orðum um tvo nafngreinda demókrata í öldungadeildinni og fylgismenn þrælahalds, þá Stephen Douglas frá Illinois, sem var annar höfunda hins áðurnefnda Kansas-Nebraska Act og Andrew Butler frá Suður Karólínu.
Ádrepa Sumners var afar persónuleg, sérstaklega hvað sneri að Butler.
„Senatorinn frá Suður-Karólínu hefir lesið margar bækur um riddaramennsku og telur sig sjálfsagt slíkan riddara sem hafi til að bera heiður og hugrekki. Vitaskuld hefur hann lagt lag sitt við hjákonu eina, sem er íðilfögur í hans augum þó öðrum finnist hún ófríð, og þrátt fyrir að aðrir sjái hana sem sauruga er hún honum dyggðum prýdd – þessi drós er þrælahaldið sjálft.“
Í ofanálag sneiddi Sumner að málhelti Butlers sem orsakaðist af nýlegu heilablóðfalli.
Sumner sló ekkert af og lét vaða á súðum, en á meðan ræðunni stóð lét Stephen Douglas þau orð víst falla að „þetta fjandans fífl á eftir að láta eitthvað annað fífl drepa sig“.
Blóðbað í þingsal
Það var þó ekki fyrr en nokkrum dögum seinna sem dró til tíðinda. Ræða Sumners hafði reitt marga til reiði, enda var þar ekki tekið sérstakt tillit til tilfinninga þeirra sem um var rætt.
Á meðal þeirra sem tóku ræðuna nærri sér var fulltrúadeildarþingmaðurinn Preston Brooks, náfrændi Andrews Butler og sveitungi frá Suður-Karólínu. Hann var átta árum yngri en Sumner og mikill baráttumaður fyrir þrælahaldi og sjálfsákvörðunarrétti ríkjanna til að viðhalda þrælahaldi.
Brooks hugðist fyrst skora Sumner á hólm, en hann og félagar hans álitu að Sumner hefði með níði sínu sannað hann væri enginn herramaður og ætti ekki skilið neitt skárra en að vera laminn fyrir allra augliti.
Síðdegis hinn 22. maí var Sumner niðursokkinn í vinnu við skrifborð sitt í sal öldungadeildarinnar, að búa afrit af ræðunni alræmdu til dreifingar, þegar Brooks steig inn í salinn, og með honum voru tveir aðrir þingmenn, Laurence M. Keitt og Henry A. Edmundson.
Brooks gekk upp að Sumner og sagði lágri röddu: „Herra Sumner, ég hefi lesið ræðu þína vandlega í tvígang. Hún felur í sér níð í garð Suður-Karólínu og herra Butlers, sem er ættingi minn.“
Þegar Sumner hugðist rísa upp sló Brooks hann leiftursnöggt í höfuðið með gylltum hnúði göngustafs sem hann hafði með sér. Sumner féll strax í gólfið undir skrifborðið sitt. Brooks lét höggin dynja á honum hvað eftir annað. Sumner reyndi að skjögra á fætur og bera hendur fyrir höfuð sér, en það var til lítils. Það var eins og æði rynni á árásarmanninn sem sló hann hvað eftir annað í höfuð andlit og axlir af öllu afli. Í öllum látunum hrökk stafurinn í tvennt, en Brooks greip þann hlutann með hnúðnum og hélt áfram að berja hvað eftir annað. Sumner féll í gólfið milli sætaraða, en Brooks lét ekki segjast heldur reif hann upp á jakkaboðungnum og hélt yfirhalningunni áfram.
Ekki voru margir þingmenn viðstaddir, en þegar nokkrir þeirra ætluðu að skerast í leikinn dró Laurence Keitt upp skammbyssu og skipaði þeim að halda sig frá.
Loksins náðu tveir þingmenn að draga Brooks af Sumner og lét hann þá loks af árásinni og lét sig hverfa orðalaust úr salnum ásamt þeim Keitt og Edmundson.
Sumner var komið fram í fordyri þinghússins þar sem hann fékk aðhlynningu, nær rænulaus, og var svo settur á vagn heim til sín þar sem hann fékk læknismeðferð. Hann hafði hlotið mikil höfuðmeiðsl og blætt mikið, og sneri ekki aftur til starfa í þinginu fyrr en um þremur árum síðar.
Svo einkennilega vildi til að þó að Brooks hafi verið ákærður og dæmdur sekur fyrir árásina, þurfti hann ekki að fara í fangelsi, heldur einungis að greiða sekt og var ekki einu sinni vísað frá störfum á þinginu. Sér til varnar sagðist hann hvorki hafa ætlað að drepa Sumner, enda hefði hann þá valið sér hentugra árásartól, né heldur vanvirða þingið. Hann sagði þó af sér til að leggja stöðu sína í dóm kjósenda sem kusu hann snarlega aftur á þing í aukakosningum og svo aftur í reglubundnum kosningum árið eftir.
Viðbrögðin við árásinni létu ekki á sér standa og voru nokkuð fyrirsjáanleg. Í Norðurríkjunum brást fólk við með hryllingi, en sunnanmenn töldu margir að árásin hafi verið réttlætanleg, enda hafi hann þar verið að verja heiður ættingja síns og heimaríkis.
Ólík afdrif árásarmanns og fórnarlambs
Örlög þeirra tveggja, Brooks og Sumners voru ólík.
Brooks lést árið eftir, úr öndunarfærasjúkdómi, 38 ára að aldri, en hafði fyrir það stutt inngöngu Kansas í Bandaríkin hvort sem þrælahald yrði leyft þar eða ekki.
Eins og áður sagði var Sumner lengi að ná sér og sneri ekki til starfa fyrr en þremur árum síðar. Hann þjáðist alla tíð síðan af afleiðingum árásarinnar, en náði þó að láta til sín taka í þinginu um árabil. Hann var meðal hörðustu talsmanna þess að þrælahald yrði gert ólöglegt í öllum ríkjum, og þrýsti mjög á Abraham Lincoln, sem tók við forsetaembættinu árið 1861, í þeim málum. Lincoln var hins vegar talsvert hófsamari í stefnu sinni og lagði meiri áherslu á að halda ríkjasambandinu saman.
Eftir stríð var Sumner með harðari mönnum í að láta Suðurríkin gjalda fyrir uppreisnina, en lagði mesta áherslu á baráttu fyrir auknum mannréttindum blökkufólks. Hann var auk þess einn af helstu talsmönnum þess að Andrew Johnson, sem tók við forsetaembættinu eftir að Lincoln var myrtur, yrði settur úr embætti (impeached).
Sumner lést úr hjartaáfalli árið 1874, 63ja ára að aldri.