Íbúðin litla á Völlunum í Hafnarfirði minnir á upplýstan helli þegar okkur ber að á myrku vetrarkvöldi í kulda og snjó. Þarna er ekkert líf að sjá, aðeins upplýst ný hús á stangli og hraunbreiðan rennur saman við myrkrið. Back! birtist á símaskjánum meðan við hringsólum villtar á bílnum. Í dyragættinni stendur Ali skælbrosandi og beinir okkur í áttina að fjölbýlishúsi, umkringdu vinnusvæði.
Lítill drengur horfir á barnatímann í sjónvarpinu. Á borðinu eru kökur, möndlur og te að fornum persneskum sið en allt úr íslenskri matvörubúð. Foreldrar drengsins horfa brosmild en sýnilega áhyggjufull á hann sem er aðeins nítján mánaða gamall. Áhyggjurnar eru ekki að ástæðulausu. Íslensk stjórnvöld hafa ekki fallist á að taka mál þeirra til efnismeðferðar hér á landi og þau bíða þess nú að það verði kveðinn upp úrskurður um áfrýjunina. Þau óar við að fara aftur til Noregs af því að allt bendir til að þau yrðu send þaðan til Afganistan. Milad litli er sá eini sem ber ekki áhyggjurnar með sér, óafvitandi um hætturnar sem mögulega bíða fjölskyldunnar.
Réttindalaus á æskuslóðum
Móðirin, Zahra, er nítján ára og faðirinn, Ali, er ekki viss hvort hann sé tuttugu og eins eða tveggja því að í Afganistan er venja hjá fólkinu hans að miða aðeins við árið sem barnið fæðist en ekki dagsetningu. „Foreldrarnir segja bara: Nú ertu níu ára, nú ertu tíu ára,“ útskýra þau sem eru búin að vera á flótta síðan hún var sautján ára og hann líklega nítján ára.
Bæði eru þau með afganskt vegabréf. Zahra fæddist í Afganistan en var sjö eða átta ára þegar hún flutti til Íran. Ali fæddist líka í Afganistan en þau eru bæði alin upp í Íran í sitthvorum bænum, réttindalaus því foreldrar þeirra voru ólöglegir í landinu svo þau höfðu hvorki vegabréf þar né stöðu flóttafólks.
En hvað bíður þeirra ef þau snúa aftur til Afganistan?
„Við höfum engan samastað þar, það er vandamál með fjölskyldu mína,“ segir Zahra. „Því móðir mín og stjúpfaðir vildu að ég giftist eldri manni upp í skuld stjúpa míns. Ég myndi aldrei samþykkja það.“
Þau Ali flýðu Íran þar sem henni stafar hætta af fjölskyldu sinni en þau gátu ekki farið til Afganistan því þar stendur þeim ógn af þessum manni.
„Það er hættulegt fyrir okkur að fara til Afganistan því þessi maður þykir mikilvægur maður og fjölskyldan mín sagði honum að ég myndi giftast honum. Við Ali flúðum frá Íran og héldum að það yrði betra í Afganistan, í Herat við landamæri Íran og Afganistan,“ útskýrir Zahra. „Þar hringdum við í frænku mína en hún sagði mér að vera ekki í Afganistan áfram því hann væri að leita mín. Hvar er Zahra? hafði hann spurt. Frænka mín sagði: Flýðu!“
Auðvitað vil ég vera á Íslandi. Við fórum til Noregs í leit að öryggi, allir þurfa öruggt líf. Hér leitum við líka eftir öryggi. Við viljum ekki fara aftur.
Í leit að öryggi
Þau lögðu á flótta vorið 2015 og ferðuðust, ýmist í rútu, bíl eða lest, í gegnum Íran, Tyrkland, Grikkland, Makedóníu, Serbíu, Ungverjaland, Austurríki, Þýskaland, Danmörku og Svíþjóð. Loks komust þau til Noregs þar sem mál þeirra var tekið til efnismeðferðar. Þau fengu synjun en það er algengt í Noregi að Afgönum sé synjað um hæli. Raunar er synjunarhlutfall Afgana svo hátt þar að í skýrslu Amnesty International hefur það verið harðlega gagnrýnt.
Fjölskyldan fór þá frá Noregi til Danmerkur með báti og þaðan til Þýskalands en flugu síðan til Íslands frá Hamborg. Nú eru þau búin að dvelja í sex mánuði á Íslandi og vonast til þess að fá að búa hér áfram. Þau eru örvæntingarfull í leit sinni að samastað fyrir fjölskylduna.
„Auðvitað vil ég vera á Íslandi,“ segir Zahra. „Við fórum til Noregs í leit að öryggi, allir þurfa öruggt líf. Hér leitum við líka að öryggi. Við viljum ekki fara aftur.“
Zahra var hrædd allan tímann meðan á ferðinni stóð. „Ég var svo ung, einu sinni í Tyrklandi bauðst maður til að hjálpa okkur en hann vann við að pikka út fólk til að flytja til Grikklands. Ég var í litlu herbergi með fjölda fólks, ólíkum hópum en allir voru frá Afganistan. Konurnar voru allar á einum stað, mennirnir á öðrum stað. Konurnar töluðu saman og ég sagði: Ég og maðurinn minn flúðum. Þá segir kona þarna að í Íran og Afganistan þurfi að vera haldin brúðkaupsveisla til að hjónabandið sé gilt og því sé ég ekki raunverulega í hjónabandi. Það var vont hvernig þær sáu mig sem vonda konu og vonda stelpu. Ég var baktöluð og ég var svo ein og grét svo mikið. Eftir þetta nefndi ég aldrei sögu okkar Ali,“ segir hún mædd.
Í Afganistan getur lögreglan ekki gert neitt fyrir ástina.
Hjónabandið ekki löglegt samkvæmt íslam
Hvað bíður Milad? spyr Zahra sig daglega. „Ég er svo hrædd um hann. Við erum múslimar og í íslam verður faðir að samþykkja ráðahaginn, það er svo mikilvægt fyrir múslima. Hjónaband okkar er ekki með samþykki föður. Ég hugsa aftur á móti ekki þannig. Við Ali vildum hvort annað og hjónabandið er hið sanna. Ef ég fer aftur til Afganistan verðum við kannski aðskilin því hjónaband okkar er ekki löglegt samkvæmt íslam og þessi mikilvægi maður vill aðskilja okkur. Fjölskyldan mín lofaði honum því. Og ég gæti neyðst til þess. Í Afganistan getur lögreglan ekki gert neitt fyrir ástina. Við erum Hazarar og þeir eru undirokaðir í Afganistan. Aðrir hópar fólks eru ekki hrifnir af Hazörum og talíbanar drepa þá,“ segir hún.
Zahra varð ennþá hræddari eftir að hafa séð frétt á BBC um aðra afganska konu sem hafði verið í þriggja ára sambandi og átti þrjú börn þegar hún hafði samband við fjölskyldu sína sem myrti hana í kjölfarið.
„Í Afganistan er ástin ekki liðin. Fólkið vill hana en…“ segir Zahra og yppir öxlum vonlítil.
Ákveðin í að læra ensku
Ali og Zahra eru frændsystkini en hjá fólkinu þeirra í Afganistan þykir það eðlilegt að svo náskylt fólk taki saman – líkt og tíðkaðist á Íslandi hér áður fyrr. Þau urðu ástfangin í Íran. Þar gekk Zahra í skóla sem barn en það þurfti að greiða sérstaklega fyrir að hún fengi að sitja tíma. Í bænum þar sem hún bjó var aðeins einn skóli og hún var aldrei skráð í hann svo hún fékk ekki að taka nein próf. Hún sótti þó skólann frá sjö ára aldri og þangað til hún varð fimmtán ára. Þá voru ekki til peningar fyrir frekara námi.
En Zahra var ákveðin í að læra ensku og það gerði hún þegar hún var komin til Evrópu. Fyrst í stað skildi hún ekkert. Í Noregi bjuggu þau í flóttamannabúðum þar sem var fólk af ólíkum þjóðernum en þar lærði hún nóg til að geta haft samskipti. Hún segist líka hafa lært heilmikið af youtube.
Þau voru færð alls fimm sinnum á milli flóttamannabúða í mismunandi bæjum og borgum í Noregi, bæði meðan hún var ófrísk og eftir að Milad fæddist en henni fannst það sérstaklega erfitt þegar hún var alveg að fara að eiga. „Ég segi að við höfum flutt á milli húsa en hús var bara eitt herbergi og eitt herbergi er hús fyrir mér,“ segir hún.
Ali er duglegur að hitta annað fólk í Andrými, stað fyrir til að mynda fólk af erlendum uppruna til að koma saman, fræðast og miðla af menningu sinni með orðum, matreiðslu og list. Þar tekur hann þátt í ýmiss konar dagskrá en þangað fer hún ekki.
Alltaf hrædd um barnið sitt
Zahra er rólyndisleg, áberandi ákveðin og auðheyrilega klár. Af fasinu að dæma virðist hún taka aðstæðurnar meira inn á sig en hann og viðurkennir að hún þjáist af kvíða. Hún er byrjuð á lyfjum við kvíða og þunglyndi og er nú í fyrsta skipti hjá sálfræðingi að vinna með reynslu sína. Hún segist vera þjökuð af samviskubiti. Hún hefur gengið í gegnum mikið svo ung að árum, henni líður þess vegna ekki alltaf vel. Meðferðarþörfin er mikil og segir hún gott að leita sér hjálpar.
„Ég er alltaf hrædd um Milad á flóttanum, hvert augnablik óttast ég um líf hans og afdrif. Þetta er sagan mín og vandamálið mitt, hugsa ég. Það er svo vond tilfinning að ákvörðun mín hafi þessi áhrif á Ali og Milad. Ef ég hefði ekki tekið þessa ákvörðun hefðu þeir átt öðruvísi líf, þetta er vandamálið mitt og nú vandamálið okkar allra. Mér líður illa út af því. Út af Milad, að þurfa að eiga svona líf. Og Ali hefði átt að eiga gott líf. Það er erfitt að ákvörðun mín hafi orðið til þessa. Svo erfitt að hugsa til vandamálanna sem bíða Milad í framtíðinni.“
Ég er alltaf hrædd um Milad á flóttanum, hvert augnablik óttast ég um líf hans og afdrif. Þetta er sagan mín og vandamálið mitt, hugsa ég.
Óvissan algjör
Milad fæddist 23. maí 2016. Foreldrarnir fengu fæðingardag í Noregi en eins og fyrr segir vita þau sjálf ekki hvenær þau eiga afmæli. Milad fékk ekki vegabréf í Noregi, þar var bara skráð að hann væri fæddur. Zahra segir að ef hann hefði vegabréf myndu þau búa í Noregi. Honum sé líka vísað úr landi, þrátt fyrir að fæðast þar. „Milad deport!“ segja þau hvort ofan í annað og geta ekki að sér gert að brosa að fáránleika kringumstæðnanna þegar þau sýna okkur plaggið. Hver vill vísa svona litlum kúti burt!
„Af því að við erum flóttamenn er hann líka flóttamaður,“ segir Zahra og brosir meyr.
Zahra ber með sér fádæma styrk, augun eru öldungsins, þrátt fyrir ungan aldur. Óvissan er algjör, samt er fas hennar áberandi yfirvegað. Við fáum sterklega á tilfinninguna að hún hafi neyðst til að fullorðnast á mettíma og bæla niður hvers konar varnarleysi og viðkvæmni – sem hljóta að leita stöðugt á hana. Á íslenskan mælikvarða er hún ennþá táningur og mestu áhyggjurnar ættu með réttu að vera hvað hún ætlaði að gera eftir stúdentspróf. Viljastyrkur hennar er svo sýnilegur að eftir heimsóknina höfum við orð á því hversu sterkur karakter hún virðist vera. Hún ætlar ekki að lúffa fyrir lífinu. Hún ætlar að koma sér og þeim sem hún elskar í öruggt skjól.
Af því að við erum flóttamenn er hann líka flóttamaður.
Er #metoo-byltingin fyrir alla?
Í ljósi atburða síðustu mánaða, þar sem konur víða um hinn vestræna heim hafa stigið fram og greint frá kynferðislegu áreiti, ofbeldi og mismunun, er ekki annað hægt en að velta því fyrir sér hvort byltingin nái til allra kvenna og allra landa. Guðbjörg Ottósdóttir, lektor í félagsráðgjöf og doktor í mannvistarlandafræði, spyr sig að þessu í samtali við blaðamenn, og hvort #metoo-byltingin sé kannski forréttindi vestrænna kvenna.
„Nú hafa Sameinuðu þjóðirnar lagt áherslu að á að veita vernd fyrir kynbundnu ofbeldi – ekki satt? Á þessi bylting eftir að ná til þessara landa á einn eða annan hátt með tíð og tíma? Mun þetta verða til þess að ríki fari viðurkenna þessa tegund af ofbeldi, þar sem konur geta ekki gifst þeim sem þær elska og þurfa að flýja land. Fyrir allar konur ætti þetta að duga til að þær fengju vernd,“ segir hún og bætir við að fyrirliggjandi séu ýmiss konar sáttmálar og alþjóðlegar yfirlýsingar um afnám mismununar og ofbeldis gagnvart konum og flóttamannastofnun Sameinuðu þjóðanna leggi m.a. áherslu á að aðildarríki bregðist við kynbundnu ofbeldi. „Ísland er aðili að ýmsum af þessum sáttmálum en mér finnst samt eins og það tryggi konum ekki vernd.“
Guðbjörg bendir á að kynbundið ofbeldi sé því miður ekki einn af þeim þáttum sem nefndir eru í skilgreiningu flóttamannasamnings Sameinuðu þjóðanna á þeim sem skilgreindir eru flóttamenn, þó að stofnunin leggi þessa áherslu á það. „Frelsi þeirra er heft, þær geta ekki gifst þeim sem þær elska út af íhaldssömum viðhorfum til kynjahlutverka og þeim er hótað með ofbeldi og jafnvel lífláti. Það að elska getur valdið þeim gríðarlegri hættu. Í ýmsum löndum búa konur einmitt við þessa hættu sem við búum ekki við á Vesturlöndum. Þær geta verið drepnar fyrir að elska mann sem fellur ekki að gildum samfélagsins,“ segir hún.
––––––––––
Jólahugvekja
Við erum mæður tveggja drengja sem eru saman í sex ára bekk í Austurbæjarskóla. Báðar vitum við, af fenginni reynslu, hversu næm samlíðan nýbakaðs foreldris getur orðið við að verða vitni að eymd annarra barna. Hjartað er svo galopið þegar maður á lítið barn – síðan lagast það! er gjarnan viðkvæði fólks, eins og samlíðan sé á pari við fæðingarþunglyndi.
Það þykir eðlilegra sálarástand að horfa á líf alls þessa fólks – mæðra, feðra og barna á lífshættulegu ferðalagi í leit að alþjóðlegri vernd – eins og nokkurs konar hliðarveruleika sem við þurfum að skýla fyrir okkur svo hvorki sársauki né samlíðan nái að trufla lífstakt hversdagsins. Við verjum okkur með því að forðast fréttir af börnum í lífshættulegum aðstæðum til að geta lifað okkar eðlilega lífi frá degi til dags. Til að við slysumst ekki til að spegla þau í börnunum okkar.
En hvert barn á heimtingu á því að við sem eldri erum gefum því allt sem það þarf til að komast til manns. Það hlýtur að vera siðferðileg skylda okkar að gangast við rétti barns til mannsæmandi lífs. Hlutverk hinnar fullorðnu manneskju er að veita börnum skjól, næringu og öryggi. Og hjálpa þeim, svo fremi sem það er mögulegt, að búa í skjóli með foreldrum sínum.
Að upplifa samlíðan með náunganum er ekki sjúkdómsástand eða veikleiki. Þvert á móti sýnir það styrk. Samkenndin ber vott um að manneskjan sé tilbúin til að setja sig í spor annarra og finna til. Sá sem það gerir tekur tilfinningalega áhættu, ef svo má að orði komast. Að líta ekki undan þýðir að viðkomandi sé reiðubúinn til að gefa eitthvað af sér fyrir einhvern annan.
Rétt eins og við myndum öll vilja að aðrir gerðu ef við værum í sporum þeirra sem eiga ekkert heimili, ekkert land, engan samastað.
Samkenndin er viðurkenning á lífi annarrar manneskju; upplifun hennar og aðstæðum. Og börnum hennar. Það er varla hægt að gefa manneskju stærri gjöf en viðurkenningu á því að líf hennar og barnanna hennar skipti máli. Að framtíð barnsins skipti máli.
Hvert eiga börn í hættu að fara annað en í skjól, hlýtt rúm og í öryggi? Hvert fara flóttabörnin þegar við, sem samfélag, segjum að þau eigi ekki lengur heima hérna? Hvað verður um þau? Í hvert skipti sem barn er sent úr landi er mögulega verið að svipta það von um mannsæmandi framtíð.
Á hverjum degi notar íslenska ríkið efnishyggjurök til að réttlæta það að íslenskt samfélag – við öll – reki barn burt úr skjóli og út í óvissu og hættu. Kannski ræður hræðsla að einhverju leyti för. Ótti okkar við hið óþekkta og um leið óþægindin við að setja okkur í spor annarra.
Við hittum móður og föður drengs í þessum sporum. Móðirin er á flótta undan fjölskyldu sinni sem vill láta hana upp í skuld og ef þau verða send út aftur á hún mögulega á hættu að verða aðskilin frá syni sínum og eiginmanni – sem eiga heldur ekkert skjól – til að verða ambátt karlmanns. Við, tvær sjálfstæðar mæður með litlu drengina okkar í Austurbæjarskóla og í samfélagi þar sem ríkir eitt mesta kvenfrelsi í heiminum, getum aldrei skilið veruleika hennar til fullnustu.
En við getum speglað okkur í henni og um leið veruleikann eins og við þekkjum hann. Veruleika þar sem bróðurpartur samfélagsins tekur því fagnandi þegar konur rísa upp í byltingu kenndri við metoo og mótmæla hvers konar kynbundnu ofbeldi og misrétti á vinnustöðum samfélagsins og í daglegu lífi. En er þessi bylting aðeins fyrir útvaldar konur? Getum við sem samfélag hunsað konur í öðrum eins ofbeldisaðstæðum, sem rekja má beint í fornfálegt feðraveldi, á sama tíma og við drögum upp fána metoo á íslenska fánastöng?
Móðirin sem við hittum frá fjarlægu landi á það skilið að hlustað verði á hana. Við hvetjum og dáum konur í samfélaginu okkar sem stigið hafa fram og sýnt hugrekki og þor að segja frá reynslu sinni af áreiti, ofbeldi og mismunun. Styrkur þessarar móður er hinn sami og allra kvenna sem brotið hafa þagnarmúrinn og hann kemur frá sama stað innra með henni. Hún sýnir það í verki með því að flýja þau örlög sem okkur allar óar við.
Besta leiðin til að hjálpa barni er að hjálpa foreldrum þess. Metoo-byltingin leiðir af sér betri veröld því hún fæðir af sér foreldra með frjálslyndari viðhorf en áður tíðkaðist, viðhorf sem bera með sér virðingu fyrir manneskjunni og mannréttindum hennar. Það kemur sér vel fyrir alla.
Elskum náungann eins og öll jólabörn, fyrr og síðar, skora á okkur að gera. Virðum hann – og hana.
Móður barnsins.
Lesa meira
-
29. desember 2022Öfga uppgjör
-
25. desember 2022Hátíðarhugvekja: Heimilisofbeldi um jólin og gerendameðvirkni í lok árs
-
27. september 2022Stjórn Ferðafélags Íslands hafnar lýsingum fráfarandi forseta
-
27. september 2022Fyrsti kvenkyns forseti Ferðafélagsins segir af sér vegna framferðis stjórnarkarla
-
20. ágúst 2022Teymi þjóðkirkjunnar hætt að kanna mál konu sem ásakaði prest um kynferðisbrot
-
7. júlí 2022Vítalía búin að gefa skýrslu hjá lögreglu
-
5. júní 2022Vítalía um fráfarandi forstjóra Festi: „Ég á Eggerti mikið að þakka“
-
25. maí 2022Einstaklingar sem eru til rannsóknar skuli stíga til hliðar
-
24. maí 2022„Á meðan helvítis eftirspurnin er þá er framboð“
-
28. apríl 2022„Var ólofaður og ógiftur þegar þetta átti sér stað“