Spennandi hefur þótt að taka og fá ökupróf í gegnum tíðina og þótti enginn maður með mönnum nema taka bílpróf. Bílaeign þjóðarinnar hefur verið með þeim hærri miðað við höfðatölu sé hún borin saman við aðrar þjóðir. Árið 2016 voru 240.490 fólksbílar skráðir á landinu, samkvæmt tölum Hagstofunnar. Þó ber að hafa í huga að bifreiðar á númerum, þ.e.a.s. þær sem eru í notkun, eru eilítið færri.
En nú virðist sem tímarnir séu að breytast og unglingarnir með, því þeir eru hægt og rólega að fresta því að taka ökupróf þrátt fyrir að þeim standi það til boða 17 ára gömlum. Færri 17 ára unglingar tóku ökupróf á síðasta ári en árið þar á undan, 72,1 prósent árið 2017 og 73,1 prósent 2016 og munaði einu prósenti. Þróunin hefur verið með þessu móti síðustu ár en flestir 17 ára unglingar tóku bílpróf árið 1997 eða 87 prósent.
Ástæðurnar geta verið margar og erfitt reynist að draga ályktun án þess að hafa ákveðinn fyrirvara á. Samkvæmt Samgöngustofu má líta svo á að breytingin sé aðallega fólgin í að algengara er að fresta prófi og það tekið síðar. Þessi fjórðungur unglinga sem taka ekki próf við 17 ára aldurinn gera það síðar á lífsleiðinni, þó langflestir fyrir tvítugt en þá eru um 90 prósent komnir með ökuréttindi.
Ekki sama spenna og áður
Samkvæmt tölum Samgöngustofu tóku 5.344 manns ökupróf á síðasta ári. 543 fleiri tóku ökupróf árið 2017 en fimm árum áður. Gera má ráð fyrir því að um 12 prósent þessara prófa séu þó vegna annarra ástæðna en til öflunar fyrsta ökuskírteinis. Þetta kemur fram í svari Samgöngustofu við fyrirspurn Kjarnans og segir jafnframt í svarinu að ástæður gætu meðal annars verið endurtekningar ökuprófa vegna sviptinga, útskipting erlends ökuskírteinis o.s.frv. Einnig rokki tölur þeirra sem taka bílpróf eftir stærð árganga.
Kolbrún G. Þorsteinsdóttir, fulltrúi í öryggis- og fræðsludeild Samvinnustofu, segist sjá merki þess að viðhorf til bílprófsins og akstur sé að breytast hjá ungu fólki. Hún segir að enginn vafi sé í hennar huga að minni spenna sé fyrir ökuskírteininu en í kringum aldamótin síðustu þegar langflestir tóku bílpróf.
Starfsmenn öryggis- og fræðsludeildar fara í marga framhaldsskóla á ári hverju með forvarnir og þrátt fyrir að hafa ekki skoðað þetta vísindalega þá spyrja þau alltaf hvort krakkarnir ætli að taka bílpróf. Alltaf séu einhverjir sem ætla sér hreinlega ekki að taka það, séu ekki einu sinni farnir að hugsa um það. Það kosti mikið og finnist mörgum gott að taka strætó. Hún segir að þetta sé ekki einu sinni í umræðunni og að þau taki einungis prófið ef þau geta, þ.e. hafi efni á því og áhuga.
Bílprófið kostnaðarsamt
Við ökunám á Íslandi er farið eftir námskrá sem Samgöngustofa setur en allt slíkt nám á Íslandi fer fram á vegum löggiltra ökukennara. Til þess að hefja námið þarf nemandi að fara í ökuskóla 1 og þar á eftir í æfingaleyfi. Við taka ökuskólar 2 og 3 en lágmarkstímar í námi skulu vera 25 bóklegir og 17 verklegir. Eftir þetta ferli er hægt að taka bóklegt og verklegt próf til þess að fá bráðabirgðaökuskírteini sem gildir í 3 ár.
Mikill kostnaður fylgir því að taka bílpróf. Kostnaður við að fá almenn ökuréttindi er að lágmarki 220 þúsund krónur og bendir Kolbrún á að ferlið geti tekið allt að tveimur árum. Hún segir að langflestir taki enn bílprófið en að unglingar virðist bera meiri virðingu fyrir ferlinu og séu yfir höfuð upplýstari en áður.
Slysum fækkar hjá ungu fólki
Árið 2009 var ökuskóli 3 gerður að skyldu en honum var komið á fót vegna þeirrar staðreyndar að ekki hafði verið hægt að veita verðandi ökumönnum alla þá fræðslu sem þeir þurftu á að halda. Kolbrún segir að slysum hafi fækkað í aldurshópnum 17 til 25 ára í kjölfarið. Mikið forvarnarstarf hafi verið unnið sem sé að skila sér færri slysum og segir hún að ástæða sé til að hrósa ungum ökumönnum í dag.
Í þessu samhengi er áhugavert að stærstur hluti þeirra sem taka strætó eru á aldrinum 18 til 24 ára samkvæmt Gallup-könnun sem birt var í maí á síðasta ári. Í henni kemur einnig fram að 53 prósent þessa aldurshóps eru mjög eða frekar jákvæð gagnvart strætó sem var í kringum heildarmeðaltal.
Þannig að með breyttum tímum, upplýstari ungmennum og auknum kröfum í ökunámi hefur áherslan því eilítið skipt um tón. Hugsanlega má einnig rekja minnkandi áhuga ungmenna á ökuprófi til umhverfisvitundar og umræðum um annars konar samgöngur en einkabílinn en tíminn einn mun leiða í ljós hvort þetta hafi í för með sér minni einkabílanotkun, enda miklar breytingar á almenningssamgöngum fyrirhugaðar.
Fréttaskýringin birtist fyrst í Mannlífi.