Óhætt er að fullyrða að aldrei hafi dómsmál í Danmörku hafi vakið viðlíka athygli umheimsins og nýhafin réttarhöld fyrir Bæjarrétti Kaupmannahafnar. Málið sem réttarhöldin snúast um vakti mikla athygli um víða veröld. Ástæður þess eru fleiri en ein: málið sjálft er óhugnanlegt Kim Wall, sú látna, var þekkt blaðakona og Peter Madsen, sá ákærði, var sömuleiðis þekktur vegna uppfinninga sinna, kallaður Raket Madsen, eldflauga Madsen. Hann er sjálflærður uppfinningamaður sem hafði árum saman unnið að tilraunum með eldflaugamótora og síðar fékk hann mikinn áhuga fyrir kafbátum og kafbátasmíði og hefur, einn og í félagi við aðra, smíðað þrjá slíka. Sá nýjasti og stærsti er UC3 Nautilus, 17.5 metra langur, stærsti heimasmíðaði kafbátur í heimi. UC3 Nautilus var vettvangur þeirra atburða sem dómsmálið snýst um.
10. og 11. ágúst 2017
Sænska blaðakonan Kim Wall hafði um nokkurt skeið ráðgert að fá viðtal við Peter Madsen fyrir tímaritið Wired. Hún hafði haft samband við hann vorið 2017 vegna þessa og gefið honum símanúmer sitt. Kim Wall bjó með dönskum unnusta sínum á Refshaleøen í Kaupmannahöfn, skammt frá þeim stað sem Peter Madsen var með verkstæði sitt, og kafbátinn. Að kvöldi 10. ágúst voru gestir hjá Kim Wall og unnustanum, tilefnið var að parið var á förum til Beijing í Kína þar sem unnustinn hafði fengið pláss í háskóla en Kim Wall hugðist starfa þar sem blaðamaður.
Um áttaleytið það kvöld hafði Peter Madsen samband og bauð henni að fara með í siglingu á kafbátnum. Kim Wall var á báðum áttum, var með tíu gesti í heimsókn, en ákvað síðan að þiggja boðið og talaði um það við unnustann að koma líka. Hann vildi ekki skilja gestina eina eftir og Kim Wall fór því ein. Til er mynd af kafbátnum á siglingu í kvöldsólinni og þau Kim Wall og Peter Madsen standa í turninum. Nokkru síðar sendi Kim Wall unnustanum skilaboð og sagði að allt gengi vel, þau væru nú að fara í kaf og „hann tók kaffi og kökur með“. Kim Wall gerði ráð fyrir tveimur klukkutímum í viðtalið og siglinguna. Sími Kim Wall hefur ekki fundist, þrátt fyrir mikla leit og sama gildir um síma Peter Madsen en lögreglu hefur tekist að kalla fram upplýsingar úr síma hans.
Þegar unnustann tók að lengja eftir að Kim Wall sneri heim og ekkert heyrðist frá henni hafði hann samband við lögregluna. Hún hóf þegar að svipast um eftir kafbátnum.
Sökkti bátnum
Að morgni 11. ágúst 2017 hófst leit að kafbátnum. Fljótlega sást til hans á Køgeflóa en þegar bátur leitarmanna nálgaðist stökk Peter Madsen frá borði en kafbáturinn sökk. Peter Madsen sagði að hann hefði sett Kim Wall á land á Refshaleøen og hefði verið einn um borð þegar báturinn sökk. Lögreglan trúði ekki þessari frásögn og handtók Peter Madsen og hann var handtekinn, grunaður um að hafa orðið Kim Wall að bana.
Einum degi síðar var hann úrskurðaður í gæsluvarðhald, en áður en sá úrskurður var kveðinn upp hafði Peter Madsen sagt lögreglunni að Kim Wall væri látin og hann hefði „grafið hana til sjós“, varpað líkinu í sjóinn. Neitaði að hafa orðið henni að bana. Síðar greindi lögreglan frá því að samkvæmt frásögn Peters Madsen hefði þung lúga sem lokar bátnum hefði lent á höfði Kim Wall, hún við það fallið niður á botn bátsins og látist. Báturinn lá á litlu dýpi á Køgeflóa og var hífður upp (vegur tæp 40 tonn) og tekinn á land. Mikil leit hófst þegar í stað að líki Kim Wall, þar naut lögreglan aðstoðar sænsku lögreglunnar, sem kom með sérþjálfaða hunda.
Margsaga
21. ágúst fannst kvenmannslík, án höfuðs og útlima, í fjöru á Amager. Líkið reyndist vera af Kim Wall, síðar fundust, með dyggri aðstoð sænsku hundanna, handleggir hennar og fætur og enn síðar höfuðið. Þung járnrör höfðu verið bundin við alla líkamshlutana, lögreglan telur að það hafi Peter Madsen gert til að líkamshlutarnir sykkju til botns. Síðar kom fram að mörg stungusár voru á búknum, að mati lögreglu gerð til að gas sem myndaðist í búknum slyppi út og hann flyti síður upp.
Peter Madsen hefur setið í gæsluvarðhaldi síðan 11. ágúst í fyrra. Gæsluvarðhaldsúrskurðurinn hefur margsinnis verið framlengdur án mótmæla hans.
Upphaf réttarhaldanna
Eins og áður sagði hófust réttarhöldin yfir Peter Madsen í Bæjarrétti Kaupmannahafnar (lægsta dómstig) fimmtudaginn 8. mars sl. Fréttamenn víða að voru komnir til Kaupmannahafnar af þessu tilefni og fyrir utan þá 130 sem fengu að vera í dómhúsinu (flestir sátu í matsalnum) voru tugir fréttamanna utandyra. Samtals er reiknað með 12 dögum í réttarhöldin og dómur verði kveðinn upp 25. apríl nk. Yfirvofandi verkfall, eða verkbann, opinberra starfsmanna gæti þó orðið til þess að sú dagsetning breytist. Alls hafa rúmlega 200 manns verið yfirheyrðir vegna málsins og 37 þeirra munu bera vitni fyrir dóminum. Í stuttum pistli er engin leið að gera nákvæma grein fyrir þessum fyrsta degi réttarhaldanna og því skulu einungis nefnd nokkur atriði sem að dómi sérfróðra töldust sérstaklega athyglisverð.
Fyrst skal nefna að saksóknarinn (Jacob Buch-Jepsen) greindi frá niðurstöðum geðrannsókna á Peter Madsen. Þar kom fram að Peter Madsen væri ekki geðveikur, en hins vegar algjörlega siðblindur, sjúklegur, og samviskulaus lygari. Auk þess væri hann óeðlilegur (pervers) varðandi kynhegðun. Nánar verður greint frá niðurstöðum geðrannsóknarinnar síðar í réttarhöldunum.
Í öðru lagi kom fram í máli saksóknara að sár í andliti og á búk Kim Wall kæmu ekki heim og saman við þær útskýringar Peter Madsen að hún hefði látist vegna eitrunar.
Í þriðja lagi skýringar Peter Madsen á því hvers vegna hann hefði bútað líkið sundur. Ástæðuna sagði hann þá að þegar honum var ljóst að hann kæmi ekki líkinu í heilu lagi fyrir borð hefði hann brugðið á það ráð að búta það sundur.
Í fjórða lagi vakti athygli skýring Peter Madsen á því hvers vegna hann hefði upphaflega sagt að Kim Wall hefði dáið af völdum höfuðhöggs. Ástæðu þess sagði Peter Madsen að hann hefði viljað hlífa fjölskyldu hennar við þeirri vitneskju að hún hefði liðið þann kvalafulla dauðdaga að deyja úr gaseitrun. En sagði jafnframt að ef líkið hefði ekki fundist hefði hann haldið sig við upphaflegu frásögnina (með hlerann).
Dómstóll götunnar á ekki að ráða
Betina Hald Engmark, verjandi Peter Madsen lagði höfuðáherslu á að ákæruvaldinu hefði ekki tekist að sýna fram á dánarorsök Kim Wall og „dómstóll götunnar“ ætti ekki að ráða niðurstöðu málsins.
Varðandi dómara við bæjarréttinn eru tveir möguleikar. Annars vegar sá að dómarar séu þrír talsins og auk þess sex meðdómarar (ólöglærðir) hinn möguleikinn er einn dómari og tveir (ólöglærðir) meðdómendur. Sá ákærði getur í raun ráðið hvort fyrirkomulagið gildir. Peter Madsen valdi seinni kostinn. Undir lok þessa fyrsta dags réttarhaldanna sagði Peter Madsen við saksóknarann „viltu ekki segja til ef þú treystir ekki einhverju af því sem ég segi“. Saksóknari svaraði um hæl „ég trúi ekki sérlega mörgu af því sem þú segir“.
Réttarhöldunum verður fram haldið 21. mars.