Eitt af því sem ríkisstjórn Íslands, og flestar aðrar, ræða hvað helst um þessar mundir er fjórða iðnbyltingin og hvernig sé best að undirbúa samfélögin fyrir ótrúlega hraðar breytingar. Heimurinn breytist og við með. Fjórða iðnbyltingin er núna. Eitt af því sem tekur hröðum breytingum er neysla á afþreyingarefni.
Þessi neysla hefur nú þegar tekið stakkaskiptum undanfarna áratugi. Ennþá eru á lífi kynslóðir sem muna eftir því þegar tæknileg afþreying fólst einungis í hlustun á útvarp. Síðar kom sjónvarpið, fyrst svart hvítt, síðar í lit og alla daga vikunnar og núna ekki aðeins með óteljandi stöðvum í línulegri dagskrá heldur með efnisveitum sem veita hverjum og einum aðgang að hverju því efni sem hentar þá stundina samstundis. Og nú hefur hver og einn að auki sitt eigið afþreyingartæki í lófanum allan sólarhringinn þar sem hægt er að nálgast bæði hágæða framleiðslu á afþreyingarefni, heimaframleiðslu á miðlum á borð við Snapchat, Instagram og fleiri miðla, útvarpsefni og fræðslu hvers kyns. Möguleikarnir eru endlausir.
Helstu spámenn og framtíðarfræðingar gera ráð fyrir að með fækkun starfa vegna aukinnar tæknivæðingar muni vinnuvikan styttast í vestrænum samfélögum. Og samhliða því munu þeir sem framleiða afþreyingarefni til neyslu fyrir almenning hafa úr enn meiri tíma að moða til að keppast um.
Áhrifavaldarnir verða til
Hingað til hefur lítið verið um duldar auglýsingar í íslensku sjónvarpi eða efnisframleiðslu. Sjónvarpsefni hefur almennt einfaldlega innihaldið hefðbundin auglýsingahlé og þannig aðgreint efnisinnihaldið skýrlega frá auglýsingum. En nýjar miðlunarleiðir bjóða upp á nýja möguleika. Og íslensk ungmenni hafa nýtt sér tækifærin.
Á Íslandi hafa svokallaðir áhrifavaldar farið fremstir í flokki við því sem er í raun ekkert annað en framleiðsla á afþreyingarefni. Og margir þeirra lifa á því. Þau eru nokkuð mörg sem nú reyna að hasla sér völl á þessum miðlum, og tekst mis vel til.
Sólrún Diego komst eins og frægt er orðið með þrifatilburði sína alla leið í áramótaskaupið og hefur þúsundir fylgjenda. Hún á í ýmsu samstarfi við mismunandi fyrirtækjum þar sem hún kynnir fyrir áhorfendum sínum vörur, fatnað, heimilistæki, þrifnaðar- og barnavörur og svo mætti lengi telja. Guðrún Veiga, eða Gveiga eins og hún kallar sig, er önnur með þúsundir fylgjenda sem sýnir raunsæja mynd af lífi tveggja barna móður. RVK fit eru hópur kvenna sem deila áhuga á heilbrigðum lífsstíl og hreyfingu og deila venjum sínum og dagskrá með áhorfendum. Alda Karen Hjaltalín, sem er 23 ára, fyllti á dögunum Eldborgarsal Hörpu á fyrirlestri sínum Leyndarmálin mín, þar sem hún miðlaði í raun jákvæðri sálfræði sem hún hefur komið sér upp. Hún deilir „lifehack“ eða ráði dagsins daglega á sínum miðli þar sem hún veitir áhorfendum innblástur og ráð til að takast á við erfiðleika sem flestir nútíma samfélagi þurfa að takast á við.
Þau eru miklum mun fleiri áhrifavaldarnir, bæði karlkyns og kvenkyns, sem hafa náð vinsældum á síðustu árum.
Nær til nýrra kynslóða
Unga fólkið, sem les dagblöðin minna en eldri kynslóðir og eyðir minni tíma yfir línulegri dagskrá sjónvarpsstöðvanna, er augljós markhópur í gegnum þessa miðla. Fyrirtæki leita í auknum mæli í markaðssetningartilgangi til þessara samfélagsmiðlastjarna, sem fá gríðarlega mikið áhorf, sérstaklega hjá yngri kynslóðum en sumir hjá áhorfendum á öllum aldri.
Sérstök fyrirtæki hafa þegar orðið til sem sérhæfa sig í markaðssetningu með þessum hætti, það er að segja, tengja saman auglýsendur og áhrifavalda. Má þar nefna fyrirtækið Ghostlamp, Zahara og Eylenda og gera má ráð fyrir að þeim eigi aðeins eftir að fjölga. Talið er að markaðssetning af þessu tagi hafi velt um 1,6 milljörðum Bandaríkjadala árið 2016 sem jafngilda 167 milljörðum króna.
Markaðsstjóri í tæknifyrirtæki segist aðspurður greiða 50 þúsund fyrir hvert tilefni þar sem vara fyrirtækisins er nefnd af þeim áhrifavöldum sem það starfar með. Alls um 150 til 200 þúsund krónur eftir atvikum. Þannig er ljóst að áhrifavaldur þarf ekki að starfa með mjög mörgum fyrirtækjum í hverjum mánuði til að ná meðallaunum.
Jafnvægisdans afþreytingar og auglýsinga
En málið er ekki svo einfalt að hver sem er geti opnað samfélagsmiðil sinn öllum og þar með farið að raka inn fjármunum. Sem dæmi má nefna að til að vera áhrifavaldur í augum fyrirtækisins Ghostlamp þarf viðkomandi að vera með þúsund fylgjendur á samfélagsmiðlum.
Og dansinn milli markaðssetningar og framleiðslu á áhugaverðu afþreyingarefni sem fær áhorfendur til að velja það að halda áfram að horfa er listgrein. Of mikið af auglýsingum er líklegt til að þreyta áhorfendur, með sama hætti og of löng auglýsingahlé í sjónvarpi eða vefsíður með of mörgum eða áberandi auglýsingaborðum. Lykillinn virðist vera að gefa nægilega af sér á milli þess sem að hvers kyns vörur eru auglýstar. Sumir einfaldlega hafa það sem til þarf, aðrir ekki og uppskriftin að velgengni á þessu miðlum mun aldrei liggja ljós fyrir og fer einfaldlega eftir persónuleika hvers og eins.
Samfélagsábyrgð
Samfélagsmiðlastjörnur og vinsældir þeirra hafa undanfarin misseri rokið upp. Mikið af því sem þar má sjá er glansmynd sem á sér litla stoð í raunveruleikanum og sýnir mjög bjagaða mynd af lífi hvers og eins. Áhrifin geta þannig verið neikvæð og hafa nú þegar verið tengd kvíða og þunglyndi hjá unglingum.
Ábyrgð samfélagsmiðlastjarnanna er þannig mikil. Ekki aðeins ber þeim að fylgja öllum lögum og reglum sem gilda um neytendavernd og auglýsingar, heldur einnig samfélagsleg. Sú ábyrgð og hvernig ber að umgangast hana er enn í mótun og gera má ráð fyrir að lagaumhverfið muni slípast til samhliða áframhaldandi hröðum tæknilegum breytingum.
En það má vel segja að íslenskir áhrifavaldar, konur í miklum meirihluta, séu á undan sinni samtíð og nú þegar byrjaðar að nýta tækifærin sem fjórða iðnbyltingin og þannig auknir möguleikar á framleiðslu og hvers kyns sölu afþreyingarefnis mun hafa í för með sér. Áhorfendurnir virðast vera til staðar og þeim fer fjölgandi.