Argentína hefur valið 35 manna hóp fyrir HM. Þar er góður leikmaður í öllum stöðum, en sóknarherinn hefur aldrei verið sterkari en núna. Skera þarf hópinn niður í 23 leikmenn fyrir 4. júní.
Fátt kom á óvart í vali á hóp Argentínu. Nema þá helst að þjálfarinn, Jorge Sampoli, hafi ákveðið að velja Mauro Icardi frá Inter og Paulo Dybala frá Juventus.
Sagði þá passa illa inn í leikkerfin
Fyrir rúmum mánuði síðan lét hann hafa eftir sér að líklega myndi hann ekki velja þá í hópinn, þar sem þeim hefur gengið illa að aðlagast leikskipulaginu sem Sampoli vill spila. Hann hefur spilað tvö leikkerfi mest á sínum þjálfaraferli hjá Argentínu.
Annars vegar 4-3-3 og hins vegar 3-3-3-1, eða 3-6-1, eftir því hvernig það er skilgreint.
Í því leikkerfi hefur Gonzalo Higuaín, frá Juventus, verið fremsti maður, og Lionel Messi í frjálsu hlutverki, sem dæmigerð argentísk „tía“ sem stýrir sóknarleik liðsins. Í því hlutverki hefur borið liðið á herðum sínum, oft á tíðum, og dregið það áfram til sigurs þegar það nauðsynlega þarf.
Það verður að koma í ljós hvernig lokahópurinn verður, en ljóst er að samkeppnin í sóknarlínunni er hörð.
Raða inn mörkum á Ítalíu...
Icardi og Dybala enduðu tímabilið vel og náðu að tryggja sér sæti í hópnum. Þeir voru báðir meðal þriggja markahæstu manna í ítölsku Sería-A deildinni. Icardi skoraði 28 mörk en Dybala 22. Í heildina skoraði Icardi 29 mörk á tímabilinu, en Dybala 26. Higuaín var sjötti markahæsi maður deildarinnar með 16 mörk en í öllum keppnum voru mörkin 27. Þessir þrír skoruðu því samtals 82 mörk á tímabilinu.
Diego Perotti, leikmaður Roma, er einnig tilkallaður í 35 manna hóp en hann skoraði 11 mörk á tímabilinu, þrátt fyrir að hafa verið lengi vel frá vegna meiðsla.
...og á Englandi
Í ensku úrvalsdeildinni á Argentína einn fulltrúa sem er þegar kominn í hóp goðsagna hjá meisturunum í Manchester City, Sergio Aguero. Hann er markaskorari af guðs náð, hefur raðað inn mörkum í ensku úrvalsdeildinni og er líklega sá Suður-Ameríkumaður sem á hvað glæsilegastan feril í enskum fótbolta.
Á nýafstöðnu tímabili var Aguero þriðji markahæsti leikmaður deildarinnar á eftir Mo Salah hjá Liverpool og Harry Kane hjá Tottenham, með 21 mark. Samtals skoraði hann 31 mark í öllum keppnum.
Argentina's preliminary World Cup squad has been announced! 🇦🇷
— Football Super Tips (@FootySuperTips) May 14, 2018
What are your thoughts?🤔
The defence looks a little fragile😬 pic.twitter.com/Ja6A2zhCD2
Kóngurinn á Spáni
Á Spáni er síðan sjálfur dýrlingur þeirra Argentínumanna - hin eina sanna tía - Lionel Messi hjá Barcelona. Hann var markahæsti leikmaður Evrópu þetta árið með 47 mörk, þar af 34 mörk í deildinni. Það þarf ekki að eyða mörgum orðum í að lýsa snilli þessa leikmanns, enda afrekalistinn á ferli hans með hreinum ólíkindum.
Leikur Argentínu hefur oftar en ekki staðið algjörlega og fallið með framlagi Messi, og þegar hann á slæman dag þá hafa aðrir leikmenn liðsins átt í erfiðleikum með að taka frumkvæðið. Þetta hefur undanfarin ár verið helsti veikleiki liðsins.
Raðaði inn mörkum í Frakklandi
Margir bjuggust ekki við því að Angelo Di Maria, sem lengst af sínum ferli hefur spilað sem vinstri vængmaður, myndi spila stórt hlutverk í liði PSG í frönsku deildinni á þessu tímabili, en annað kom á daginn. Meiðsli lykilmanna, meðal annars Brasilíumannsins Neymars, gáfu honum fleiri tækifæri en búist var við, og hann leysti stöðu í framlínunni og inn á miðri miðjunni.
Di Maria er þrautreyndur, eftir að hafa spilað í fremstu röð meðal annars með Man. Utd. og Real Madrid, áður en hann kom til PSG, og óx hann í hlutverki sínu eftir því sem leið á tímabilið. Hann skoraði 11 mörk í deildinni og lagði upp 6 til viðbótar, en var einnig skæður í öðrum keppnum og urðu mörkin 22 þegar yfir lauk.
Hann er með leikreyndari leikmönnum Argentínu og hefur spilað 93 landsleiki á ferli sínu. Hann er lykilmaður í sóknarleik liðsins.
MOSTRUOSI! Campioni d’Italia 🇮🇹! pic.twitter.com/W7ccnHtSBR
— Paulo Dybala (@PauDybala_JR) May 13, 2018
Þeir sjö leikmenn sem Sampoli valdi í 35 manna hópinn sem sóknarher Argentínu skoruðu samtals 193 mörk í Evrópuboltanum í vetur, sé Di Maria tekinn með í sóknarherinn. Oft hefur sóknin verið sterk hjá Argentínu, en líklega aldrei eins sterk og nú. Hverjir það verða sem þurfa að sitja heim, þegar hópurinn verður skorinn niður í 23 leikmenn, verður að koma í ljós. Sampoli stendur frammi fyrir erfiðum ákvörðunum þegar að þessu kemur.
Það er ýmislegt sem Ísland þarf að varast þegar liðin mætast 16. júní á HM í Rússlandi. Messi er þar einungis hluti af ógnvænlegu vopnabúri Argentínumanna í sóknarleiknum.
Auk Argentínu, eru Króatía og Nígería með Íslandi í riðli.