Nýtt reiknilíkan hefur verið tekið í notkun hjá menntamálaráðuneytinu þegar ákvarða skal framlög til framhaldsskóla og hefur það líkan ekki reynst öllum skólum vel. Már Vilhjálmsson, rektor Menntaskólans við Sund, gagnrýnir hvernig fjármunum er úthlutað milli skóla og telur hann að verið sé refsa þeim skólum sem halda lengur í nemendur og skila góðum árangri.
Himinn og haf milli skóla
Fjárlög til ársnemenda eru mismunandi eftir skólum. Már segir að Menntaskólinn við Sund sé mjög ódýr og að framlagið í ár sé 1,1 milljón á nemanda. Það sé með því allra lægsta en það hæsta nemur nær þremur milljónum á nemanda.
„Þannig er himinn og haf á milli skóla. Við erum milli 30 og 40 prósent undir meðaltalinu,“ segir Már. Hann bendir á að hið sama eigi við um Menntaskólann í Reykjavík, Menntaskólann í Hamrahlíð og fleiri skóla.
Sérstaða Menntaskólans við Sund er, að sögn Más, að þegar ákveðið var að stytta námið úr fjórum árum í þrjú þá var skólum skylt að skrifa nýja skólanámsskrá. MS fór strax í þá vinnu og segir Már að þau hafi haft Hvítbókina að leiðarljósi en markmiðið var meðal annars að draga úr brottfalli. „Við breyttum líka kerfinu okkar, lögðum niður bekkjakerfið og tókum upp þriggja anna kerfi,“ segir Már.
Ráðuneytið borgar ekki fyrir nemendur sem haldast í námi
Ein afleiðingin af þessum aðgerðum er að snardregið hefur úr brottfalli úr skólanum. Már segir að markmiðum menntamálaráðuneytisins hafi þar með verið náð. „Staðreyndin er aftur á móti sú að góður árangur hefur komið okkur alvarlega í koll,“ segir hann. Ráðuneytið hafi ekki brugðist við með því að borga með þessum nemendum sem haldast lengur í námi.
Staðan er þannig núna að fjölgað hefur í MS – fleiri nemendur taka fleiri áfanga – og er sá árangur vel yfir væntingum, að sögn Más. Hann segir að staðan hafi verið þannig árið 2017 að skólinn fékk ekki fjármagn fyrir 70 til 80 nemendur sem stunduðu nám við skólann. Hann segirað ekki sé tekið tillit til þessara þátta og gagnrýnir ósveigjanleika í ákvörðunum Alþingis varðandi fjárveitingu til framhaldsskólanna.
Már segir að áhersla hafi verið lögð á að styrkja iðn- og verknám og að það sé af hinu góða. Aftur á móti virðist sem svo að fjármunir séu fluttir frá bóknámi yfir í verknám í stað þess að auka þá heilt yfir.
Fá ekki fjárveitingu fyrir forfallakennslu
Margir þættir spila inn í vaxandi fjárhagserfiðleika skólans og ber þar meðal annars að nefna langvarandi veikindi kennara. Ekki er gert ráð fyrir forfallakennslu kennara í fjárveitingu ríkisins en hætt var slíkum fjárveitingum fyrir átta árum. Már segir að skólinn myndi þola þessi auka áföll ef fjárveitingarnar væru ekki svona lágar.
Hann segir að ástandið sé algjörlega óviðunandi. Skólinn sé að ná miklum árangri með litlum tilkostnaði. Honum finnst sem verið sé að refsa þeim fyrir að ganga vel. Á sama tíma sé menntamálaráðuneytið að borga öðrum skólum fyrir nemendur sem ekki eru á staðnum.
Reiknilíkan verður að vera skýrt
Hann spyr sig í framhaldinu hvaða reglur séu notaðar til að skipta fjármagni milli skóla. Hann telur að reiknilíkanið þurfi að vera skýrara um hvernig þessum fjárveitingum er háttað. Hann segir að hann hafi ítrekað reynt að fá svör frá ráðuneytinu varðandi það en að lítið hafi verið um þau. Hann spyr sig enn fremur hvort fjármagnið renni í reynd til nemenda sem stunda nám að staðaldri í framhaldsskóla.
Í svari menntamálaráðuneytisins við fyrirspurn Mannlífs segir að reiknilíkanið sem ákvarði framlög til framhaldsskólanna sé svokallað deililíkan. Undanfarin 20 ár hafi verið stuðst við líkan sem byggir á nákvæmum útreikningum á námseiningum nemenda í einstökum áföngum hvers skóla.
„Taldar eru þær einingar sem nemendur ganga til prófs í eða sæta lokamati á hverri önn. Fjöldi þeirra er lagður saman og síðan deilt með tölu sem mælir fullt nám og útkoman verður ársnemendatala skólans. Miðað er við 35 námseiningar á ári sem er fjórðungur af 140 einingum eða viðmið um stúdentspróf á fjórum árum í gamla kerfinu,“ segir í svarinu.
Nýja líkanið miðar við skráða nemendur í upphafi annar
Þetta líkan hefur nú runnið sitt skeið á enda þar sem nýjar einingar hafa tekið við, eða 60 framhaldsskóla-einingar á ári, og miða þær við vinnu nemenda en í gamla kerfinu var tekið mið af fjölda kennslustunda á viku. Nýja líkanið miðast, samkvæmt ráðuneytinu, við fjölda skráðra nemenda í fullu námi eftir námsbrautum sem skipt er í mismunandi verðflokka eftir því meðal annars hversu mikinn tækjabúnað þarf, hve margir nemendur eru í námshóp o.fl.
Helsti munurinn á þessum tveimur aðferðum er að ekki er reiknuð nákvæmlega hver eining í hverjum áfanga og miðað er við skráða nemendur á námsbrautum í upphafi annar en ekki einingar þeirra í lok annar.
Til viðbótar bendir ráðuneytið á að inn í þessu líkani séu breytur sem hafa áhrif á framlag á nemanda, til að mynda fjármagn fyrir húsnæðiskostnað og sérverkefni skóla. Það skýri hversu ólíkt framlag er milli framhaldsskóla.
Segir jafnframt í svarinu að fjárheimildir framhaldsskólastigsins muni hækka um 4,3 prósent til ársins 2023 samkvæmt nýrri ríkisfjármálaáætlun. Framlög á hvern nema hækkuðu um 6,5 prósent milli áranna 2017 til 2018 og er gert ráð fyrir 8 prósent hækkun á næsta ári.
Niðurskurður framundan
Eina ráðið til að bregðast við aðstæðum er að skera niður, að sögn Más. „Við munum þurfa að fækka nemendum við skólann, draga úr kennslukostnaði og fækka stöðugildum,“ segir hann. Líklegast muni þurfa að fækka nemendum um allt að hundrað.
Már segist vera búinn að leita allra mögulegra löglegra leiða, hann hafi meðal annars sent ráðherra ótal bréf og óskað eftir fundi. Ekki hafi verið brugðist við þeim óskum. Hann segir að við stjórnarskiptin hafi orðið hik í ráðuneytinu og hann upplifir samskiptin eins og það hafi algjörlega verið skorið á þau. „Það er auðveldara að fá fund með ríkisendurskoðanda en með ráðherra,“ segir hann að lokum.