Fjórir einstaklingar sem allir hafa stöðu sakbornings í yfirstandandi dómsmálum hafa á undanförnum vikum komist til aukinna áhrifa innan umsvifamikilla fjármálafyrirtækja á meðan rannsókn stendur yfir. Enginn þeirra er enn orðinn virkur eigandi neins fyrirtækis en í þremur tilvikum eru þeir með stærstu einstaklingsfjárfestum skráðra fyrirtækja.
Hugsanlega umfangsmestu skattalagabrot Íslands
Í Fréttablaðinu var greint frá dómsmáli Sigurðar Gísla Björnssonar, stofnanda og eiganda fiskútflutningsfyrirtækisins Sæmark ehf., en hann er grunaður um stórfelld skattaundanskot sem eru til rannsóknar hjá Skattrannsóknarstjóra og Héraðssaksóknara. Skattrannsóknarstjóri sagði rannsóknina snúast um eitt af umfangsmestu skattalagabrotum sem upp hafa komið hér á landi.
Í fréttunum var greint frá því að lögmaður Sigurðar Gísla, Andri Gunnarsson, hafði fengið réttarstöðu sakbornings í málinu, en húsleit var framkvæmd á heimili hans annan maí síðastliðinn.
Andri er einn af eigendum eignarhaldsfélagsins Óskabeins ehf. ásamt öðrum fjárfestum, en félagið á 2,05% í VÍS, auk þess sem það á um 10% hlut í Kortaþjónustunni. Sömuleiðis veitti Arion banki Óskabeini fullt umboð til að fara með atvæðisrétt rúmra 4% af VÍS við síðasta hluthafafund, en á þeim fundi ákvað fyrirtækið að lækka hlutafé sitt um 1,8 milljarða króna sem það greiðir með hlutabréfum í Kviku.
Skeljungsfléttan
Annað mál sem er til skoðunar hjá embætti Héraðssaksóknara er hið svokallaða Skeljungsmál, sem Kjarninn hefur áður fjallað um. Skeljungsmálið snýst um meint umboðsvik, meint skilasvik, möguleg mútubrot og möguleg brot á lögum um peningaþvætti þegar olíufélagið Skeljungur og tengd félög voru keypt og seld á árunum 2008 til 2013. Meðal þeirra sem gegna stöðu sakbornings í því máli eru Einar Örn Ólafsson auk hjónanna Svanhildi Nönnu Vigfúsdóttur og Guðmundar Arnar Þórðarsonar. Hjónin Guðmundur og Svanhildur voru handtekin 31. maí síðastliðinn, en Einar Örn var einnig boðaður til skýrslutöku sama dag.
Einar Örn er meðal stærstu eigenda Tryggingamiðstöðvarinnar (TM), en eignarhlutur hans í félaginu nær 2,8%, í gegnum eignarhaldsfélagið sitt Einir ehf.. Auk þess er Einar í hópi eigenda eignarhaldsfélagsins S121, sem á um 59% í Stoðum ehf., sem áður var þekkt sem FL Group. S121 jók nýverið við hlut sinn í Stoðum, en félagið keypti 4,6 prósenta hlut af öðrum hluthöfum fyrirtækisins seint í maí síðastliðnum. Líkt og Kjarninn greindi frá nýverið keyptu Stoðir 0,6% hlut í Arion banka og eru þar með orðnir stærstu íslensku einkafjárfestarnir í bankanum. Stoðir skráðu sig fyrir átta sinnum stærri hlut í útboði bankans, en fengu ekki að kaupa hann allan.
Hjónin Svanhildur Nanna og Guðmundur Örn eiga svo samanlagt um 7 prósenta hlut í VÍS í gegnum eignarhaldsfélögin sín, Heddu ehf. og K2B ehf, og eru því með stærstu einstaklingsfjárfestum félagsins. Þar að auki eiga þau 7,4% beinan eignarhlut í Kviku og 6,7% hlut í Kortaþjónustunni.
Hlutir í Kviku í boði VÍS
Á hluthafafundi VÍS þann 27. júní síðastliðinn var samþykkt að 1,8 milljarðar króna verði greiddar til hluthafa í formi hlutabréfa í Kviku banka. Þar sem eignarhlutdeild VÍS í Kviku var 23,57% og metin á uþb. 2,6 milljarða króna samkvæmt síðasta ársreikningi félagsins má gróflega áætla að hlutdeildin sem þeir gefi eftir verði um 16% í Kviku.
Þar sem Andri, Svanhildur og Guðmundur eru öll hluthafar í VÍS er því víst að með hlutafjárlækkuninni muni þau einnig fá hærri hlutdeild í Kviku. Samkvæmt forsendunum hér að ofan fengju Svanhildur og Guðmundur uþb 1,1% eignarhlut í Kviku til viðbótar við 7,4% hlut sinn og ættu því u.þ.b. 8,5% eignarhlut samanlagt í því fyrirtæki. Einnig, þar sem Kvika á 41% í Kortaþjónustunni myndu eignahlutur hjónanna í fyrirtækinu aukast um 2,9% og því samanlagt ná allt að 9,6 prósentum.
Við hlutafjárlækkun VÍS myndi eignahlutur Óskabeins einnig aukast lítillega fyrirtækjunum tveimur, þ.e. 0,3% í Kviku og 0,14% í Kortaþjónustunni. Þannig gæti óbeinn hlutur Óskabeins í Kortaþjónustunni náð yfir tíu prósentum, séu útreikningar réttir.
Fylgist með virkum eignarhluti
Í svari við fyrirspurn Kjarnans greindi Fjármálaeftirlitið frá því að fylgst væri með hvort myndast hafi virkur eignarhlutur í fjármálafyrirtækjum, en með því sé átt við beina eða óbeina hlutdeild í félagi sem nemur 10% eða meira af hlutafé. Þó geti eignarhlutur einnig verið talinn virkur ef jafna megi áhrifum eiganda við slíkan eignarhlut.
Enn fremur gerir Fjármálaeftirlitið ekki athugasemd við virkan eignarhlut hafi hann gott orðspor, en við mat á því styðst FME eftir ákvæði laga um vátryggingastarfssemi og viðmiðum evrópskra eftirlitsstofnanna.