Upp er komin alvarleg staða innan heilbrigðiskerfisins eftir hópuppsögn fjölda ljósmæðra og yfirvofandi yfirvinnubann þar sem engin lausn er fundin á kjaradeilu þeirra. Þrýstingi er beytt á ríkisstjórnina til að binda enda á deiluna, en samkvæmt henni er staða ljósmæðralauna og þróun hennar síðustu ár nokkuð góð miðað við samanburðarhæfar stéttir. Hvers vegna hefur kjarabarátta ljósmæðra leitt til þessara uppsagna ef laun þeirra eru svona há?
Staðan alvarleg
Í gær birtu stéttarfélögin VR og Efling yfirlýsingu til stuðnings ljósmæðra eftir fund með meðlimum samninganefndar Ljósmæðrafélagsins. Yfirlýsingin kom út í kjölfar uppsagna tólf ljósmæðra og komandi yfirvinnubann sem tekur gildi um miðjan júlí ef ekki hefur verið samið fyrir þann tíma. Í morgun birtist svo tilkynning frá fæðinga-og kvensjúkdómalæknum á Landspítalanum, en þeir hafa miklar áhyggjur af því hvað taki við þegar verulega sé byrjað að kvarnast úr hópi þeirra helstu samstarfsmanna.
Í ljósi uppsagnanna fundaði Velferðarnefnd Alþingis einnig í dag með Landlækni, heilbrigðisráðherra og fulltrúum Landspítalans. Í samtali við Björn Leví Gunnarsson, þingmann Pírata og nefndarmann, segir hann stöðuna alvarlega. Júlí sé erfiður mánuður þar sem margir aðrir starfsmenn eru einnig í fríi og því sé sérstaklega sárt að missa starfsmenn í heilbrigðisþjónustunni núna. Sömuleiðis lagði þingmaður Samfylkingarinnar Guðjón S. Brjánsson fram bókun á fundinum þar sem krafist var þess að ríkisstjórnin beitti öllum tiltækum ráðum til að leiða deilu sinni við ljósmæður til lykta.
Óljósar kröfur
Ekki hefur legið fyrir hverjar kröfur ljósmæðra eru,en Katrín Sif Sigurgeirsdóttir, formaður samninganefndar Ljósmæðrafélags Íslands, hefur ekki gefið upp hversu mikla launahækkun félagið færi fram á í kjaradeilunni. Þó hefur hún sagt að aðaláherslurnar liggi í grunnlaunum ljósmæðra og að þær lækki ekki í launum við það að fara úr starfi hjúkrunarfræðinga í ljósmæðrastarfið.
Í viðtali Katrínar við Vísi í apríl síðastliðnum sagði hún borðleggjandi að ljósmæður hafi orðið á eftir í launaþróun. Enn fremur segir hún ljósmæður hvergi nærri öðrum stéttum með svipaða menntun og ábyrgð og eru á almenna markaðnum.
Hærri laun og meiri hækkun
Staðhæfing Katrínar í apríl eru þó ólíkar nýjum upplýsingum fjármálaráðuneytisins, sem birtar voru í dag vegna fjölmiðlaumfjöllunar um kjarabaráttuna. Samkvæmt tölunum hafa launahækkanir ljósmæðra síðustu tíu ára verið umfram hækkanir heildarlauna sambærilegra stétta.
Tölurnar sýndu einnig fjölda stöðugilda ljósmæðra hjá ríkinu, en þeim fjölgaði um 33% á meðan fæðingum fækkaði um rúm 8% á tímabilinu 2007-2017. Á sama tímabili hafa ljósmæður fengið sömu hækkanir og önnur BHM-félög, að undanskilinni leiðréttingu sem þær fengu árið 2008 vegna viðurkenningar á aukinni menntun.
Þar að auki sýnir ráðuneytið launaþróun dagvinnu-og heildarlauna meðlima Ljósmæðrafélags Íslands til samanburðar við meðlimi BHM og Félags íslenskra hjúkrunarfræðinga. Í þeim samanburði hafa dagvinnulaun ljósmæðra hækkað hlutfallslega mest auk þess sem krónutöluhækkun heildarlauna ljósmæðra hefur einnig hækkað umfram launabreytinga hinna tveggja stéttanna.
Í fyrra stóðu dagvinnulaun meðlima Ljósmæðrafélags Íslands í 573 þúsund krónum, en heildarlaun þeirra námu 848 þúsundum. Bilið milli dagvinnulauna og heildarlauna er nokkuð breitt miðað við önnur félög innan BHM, en þar stendur meðaltal dagvinnulauna í 608 þúsundum og heildarlauna í 718 þúsundum.
Ósanngjarn samanburður
Eftir birtingu fjármálaráðuneytisins fyrr í dag birtu ljósmæður launaseðla sína á facebook-hópnum „Mæður og feður standa með ljósmæðrum,“ og gagnrýna þar framsetningu á heildarlaunum ljósmæðra harðlega. Heildarlaunin geri ráð fyrir 100 prósent vinnu, sem sé sjaldgæf meðal ljósmæðra og í raun erfitt að framkvæma án þess að brjóta lög um hvíldartíma. Frá þessu var greint í Fréttablaðinu. Áslaug Valsdóttir formaður Ljósmæðrafélagsins gagnrýndi framsetningu fjármálaráðuneytisins í samtali við Kjarnann fyrr í dag. Hún sagði ljósmæður vera eina vaktavinnustéttina innan BHM, en þær tækju á sig mikla yfirvinnu og ynnu við mikið álag. Því væri ekki sanngjarnt að bera saman heildarlaun dagvinnustétta og vaktavinnustétta. Ekki náðist í Katrínu Sif Sigurgeirsdóttur, formann samninganefndar Ljósmæðrafélagsins, við vinnslu fréttarinnar.