Svíinn Erik Hamrén er tekinn við íslenska karlalandsliðinu í fótbolta og verður Freyr Alexandersson, sem þjálfað hefur kvennalandsliðið, honum til aðstoðar. Þetta var formlega tilkynnt í dag en fótboltavefurinn Fotbolti.net greindi fyrstur miðla frá viðræðum við Hamrén.
Nýju fólki fylgja strax breytingar. Helgi Kolviðsson, sem var Heimi Hallgrímssyni til aðstoðar, er hættur og Guðmundur Hreiðarsson, sem verið hefur markmannsþjálfari landsliðsins, hættir einnig.
Nýtt teymi er komið í brúna. Nýtt upphaf er staðreynd.
Reynslan vegur þungt
Guðni Bergsson, formaður KSÍ, nefndi reynslu Hamrén sérstaklega þegar hann var kynntur til leiks. Hamrén er 61 árs og meðal reynslumestu þjálfara Norðurlandanna. Hann hefur þjálfað í 35 ár og náð góðum árangri í Danmörku, Noregi og Svíþjóð.
Hann gerði AaB að dönskum meisturum árið 2008 og Rosenborg árið 2009 og 2010. AIK varð sænskur bikarmeistari undir hans stjórn árin 1996 og 1997 og Örgryte árið 2000.
Hann var landsliðsþjálfari Svía í sex ár og kom. Eftir að hafa tekið við liðinu 2010 kom hann sænska landsliðinu á EM árin 2012 og 2016. Árið 2014 féll sænska liðið út í umspili gegn Portúgal, þar sem Cristiano Ronaldo og Zlatan Ibrahimovic voru í aðalhlutverkum fyrir sín lið. Vinningshlutfall Hamrén með Svía var 54 prósent sem telst nokkuð gott.
Stærsta áskorunin
Það segir sína sögu að Hamrén skuli nefna það sérstaklega, á sínum fyrsta blaðamannafundi, að hans stærsta áskorun á ferlinum sé að taka við Íslandi.
Árangurinn undir stjórn Heimis Hallgrímssonar og Lars Lagerback hefur verið hreint út sagt ótrúlegur, og enginn gat séð það fyrir, áður en Lars og Heimir tóku við stjórnartaumunum, að Íslandi yrði með í úrslitakeppni EM í Frakklandi og HM í Rússlandi.
Það kann að vera, að margir hafi séð mikla hæfileika í leikmönnum liðsins, en staðreyndin er sú að þetta afrek Íslands var lítið annað en draumur í huga flestra landsmanna, þegar Lars og Heimir tóku við taumunum. Leikmenn liðsins og þjálfarar eiga allt hrós skilið fyrir stórkostlegt afrek á liðnum árum.
En klysjan um að allt sé komið á upphafspunkt, þegar næsti leikur hefst, er oft sögð í heimi fótboltans af ástæðu. Árangurinn á undanförnum árum hefur komið kastljósinu á Ísland og á sama tíma sett ný viðmið. Hamrén er að taka við liðinu á algjörum hápunkti í íslenskri knattspyrnusögu og það eitt og sér skapar pressu.
Mun hann ná að bæta leik liðsins? Eru kjarninn í liðinu kominn yfir sitt besta? Eru ungu leikmennirnir tilbúnir í slaginn?
Ýmsar spurningar vakna við þessi tímamót.
Leikmenn vilja festu
Eftir HM var ljóst að leikmenn Íslands vildu halda í þá umgjörð og festu sem skapast hefur í kringum landsliðið á undanförnum árum. Leiðtogar liðsins, Aron Einar Gunnarsson fyrirliði og Gylfi Þór Sigurðsson, sögðu báðir í viðtölum eftir HM að þeir vildu ekki breyta of miklu. Nú þyrfti að byggja ofan á árangurinn og halda áfram. Gera betur.
Engin ástæða er til þess að draga þá ályktun, að kjarninn í landsliðinu sé kominn yfir sitt besta. Vörnin þarfnast vissulega endurnýjunar en þar eigum við leikmenn sem ættu að geta stigið upp og fyllt í skarðið fyrir aðra leikmenn. Sumir leikmanna liðsins hafa lík elst vel og orðið að betri leikmönnum með hækkandi aldri.
Má nefna leikmenn eins og Birki Má Sævarsson sem hefur verið stórkostlegur með íslenska landsliðinu í mörg ár, og vart stigið feilspor í leikjum liðsins.
Aron Einar og Gylfi eru á besta aldri fyrir miðjumenn og munu vafalítið gefa allt sitt fyrir landsliðið og sýna Hamrén mikilvægi sitt. Þeir eru báðir fæddi 1989 og eiga því mörg ár eftir enn, ef meiðsli setja ekki of mikinn strik í reikninginn.
Emil Hallfreðsson er annar sem hefur spilað feykilega vel með landsliðinu þó hann sé kominn vel inn á seinni hluta ferilsins. Emil er fæddur 1985. Þá yrði mikill styrkur fyrir liðið ef Kolbeinn Sigþórsson næði að yfirstíga meiðsli og koma með hæfileika sína inn í liðið á nýjan leik.
Í bland við yngri leikmenn munu þessir leikmenn vafalítið verða í stórum hlutverkum, en yngri leikmenn þurfa þó að taka meiri ábyrgð. Þeirra er ekki aðeins framtíðin heldur nú nútíðin.
Geta komið á óvart - aftur
Hvað sem öðru líður þá verður ekki framhjá því horft, að Hamrén og Freyr munu vafalítið þurfa að þola stanslausan samanburð við Lars og Heimi, frá fyrsta degi. Freyr þekkir vel þá umgjörð sem sköpuð hefur verið um liðið og Hamrén mun vafalítið njóta góðs af því. En þeir munu einnig þurfa að setja mark sitt á liðið og sýna að þeir séu réttu mennirnir til að koma liðinu enn lengra en það hefur farið nú þegar.
Ef það tekst þá verða Hamrén og Freyr á sama stalli og Lars og Heimir í sögubókunum.