Mál Landsbankans gegn Borgun hf., fyrrverandi forstjóra Borgunar Hauki Oddssyni, BPS ehf. og Eignarhaldsfélaginu Borgun slf. var tekið fyrir 13. apríl síðastliðinn. Við það tækifæri lagði Landsbankinn fram beiðni um að dómkvaddir yrðu matsmenn til að leggja mat á „tiltekin atriði varðandi ársreikning Borgunar hf.“ Málflutningur um matsbeiðnina fer fram í lok næstu viku, eða 31. ágúst. Þetta kemur fram í nýjasta árshlutareikningi Landsbankans.
Bankinn, sem er í eigu ríkisins, höfðaði málið í janúar 2017 til viðurkenningar á skaðabótaskyldu vegna söluhagnaðar sem hann telur sig hafa orðið af þegar hann seldi 31,2 prósent hlut sinn í Borgun árið 2014. Í tilkynningu sem Landsbankinn sendi frá sér þegar málið var höfðað sagði að hann hefði ekki fengið „upplýsingar sem stefndu bjuggu yfir um að Borgun hf. ætti hlut í Visa Europe Ltd. og réttindi sem fylgdu hlutnum, þ. á m. mögulega hlutdeild í söluhagnaði Visa Europe Ltd. við nýtingu söluréttar í valréttarsamningi Visa Inc. og Visa Europe Ltd.“
Landsbankinn hefur ekki viljað afhenda Kjarnanum stefnuna í málinu né þær greinargerðir sem lagðar hafa verið fram. Í árshlutareikningi bankans er þó staðfest að búið sé að skila greinargerðum í málinu.
Keypt á undirverði
Þegar Landsbankinn seldi Borgun var kaupandinn Eignarhaldsfélagið Borgun. Kaupin áttu sér þann aðdraganda að maður að nafni Magnús Magnússon, með heimilisfesti á Möltu, setti sig í samband við ríkisbankann og falaðist eftir eignarhlutnum fyrir hönd fjárfesta. Á meðal þeirra sem stóðu að kaupendahópnum voru stjórnendur Borgunar.
Enn fremur var ekki gerður neinn fyrirvari í kaupsamningnum um viðbótargreiðslur vegna valréttar Borgunar vegna mögulegrar sölu Visa Europe til Visa Inc.
Þrír stærstu aðilarnir sem stóðu að Eignarhaldsfélaginu Borgun voru gamla útgerðarfyrirtækið Stálskip, félagið P126 ehf. (eigandi er félag í Lúxemborg og eigandi þess er Einar Sveinsson, föðurbróðir Bjarna Benediktssonar forsætisráðherra) og félagið Pétur Stefánsson ehf. (Í eigu Péturs Stefánssonar). Einhver viðskipti hafa síðan verið með hluti í Borgun frá því að Landsbankinn seldi sinn hlut.
Í nóvember 2016 birti Ríkisendurskoðun skýrslu um fjölmargar eignasölur Landsbankans á árunum 2010 til 2016 og gagnrýndi þær harðlega. Á meðal þeirra er salan á hlut í Borgun. Tíu dögum síðar var Steinþóri Pálssyni, bankastjóra Landsbankans, sagt upp störfum.
Arðgreiðslur hærri en kaupverðið
Rekstur Borgunar gekk ótrúlega vel næstu árin. Hagnaður ársins af reglulegri starfsemi var undir einum milljarði króna árið 2013. Árið 2016 var hann rúmlega 1,6 milljarðar króna. En hlutdeildin í sölunni á Visa Europe skiptir auðvitað mestu máli þegar virðisaukning fyrirtækisins er metin. Sá lottóvinningur skilaði Borgun 6,2 milljörðum króna. Þrátt fyrir hana hefur virði Borgunar samt sem áður aukist umtalsvert.
Nýju eigendurnir hafa heldur betur notið þessa. Samtals voru greiddir 7,7 milljarðar króna í arðgreiðslur til eigenda Borgunar vegna áranna 2014-2016. Ef Landsbankinn, sem er nánast að öllu leyti í eigu íslenska ríkisins, hefði haldið 31,2 prósent hlut sínum í fyrirtækinu hefði hlutdeild hans í umræddum arðgreiðslum numið 2,4 milljörðum króna.
Í ljósi þess að hlutur Landsbankans var seldur í nóvember 2014 fyrir 2.184 milljónir króna hafa arðgreiðslurnar sem runnið hafa til nýrra eigenda að hlutnum frá því að hann var seldur verið 218 milljónir króna fram yfir það sem greitt var fyrir hlut ríkisbankans haustið 2014. Þeir eru búnir að fá allt sitt til baka auk 218 milljóna króna og eiga enn hlutinn í Borgun. Virði hans hefur einnig hækkað mikið.
Á síðasta ári hagnaðist Borgun um 350 milljónir króna og eignir þess voru metnar á 31,7 milljarða króna í árslok. Bókfært eigið fé á þeim tíma var 6,8 milljarðar króna.