Þingmenn Íslendinga fengu samtals um 4,9 milljónir króna endurgreiddar frá Alþingi vegna aksturs eigin bifreiða á fyrstu sjö mánuðum ársins 2018, eða um 701 þúsund krónur á mánuði samtals.
Ef endurgreiðslur verða sambærilegar síðustu fimm mánuði ársins munu heildargreiðslur vegna aksturs eigin bifreiða nema um 8,4 milljónum króna. Í fyrra, á árinu 2017, fengu þingmenn samtals 29,2 milljónir króna endurgreiddar vegna aksturskostnaðar, eða 2,4 milljónir króna á mánuði. Þar af fékk einn þingmaður, Ásmundur Friðriksson úr Sjálfstæðisflokknum, rúmlega 4,6 milljónir króna. Það þýddi að hann fékk um 385 þúsund krónur endurgreiddar á mánuði.
Alls hafa þingmenn síðan til viðbótar leigt sér bílaleigubíla fyrir 11,3 milljónir króna á fyrstu sjö mánuðum ársins.
Því er ljóst að í kjölfar mikillar umfjöllunar fjölmiðla um aksturskostnað Alþingismanna, sem var opinberaður í fyrsta sinn í byrjun þessa árs, þá hefur endurgreiðslubeiðnum þingmanna vegna notkunar á eigin bílum fækkað verulega. Þetta má sjá í upplýsingum um laun og kostnaðargreiðslur þingmanna sem birtar eru á vef Alþingis.
Leynd hvíldi yfir árum saman
Fjölmiðlar hafa árum saman reynt að fá upplýsingar um hvaða þingmenn fái endurgreiðslu vegna aksturs, en án árangurs. Kjarninn fjallaði til að mynda um málið í fréttaskýringu árið 2015 þar sem fram kom að alls 28 þingmenn hefðu fengið endurgreiðslu á árinu 2014, þar af 18 yfir eina milljón króna. Ekki var hins vegar hægt að fá upplýsingar um hvaða þingmenn var að ræða. Þær upplýsingar þóttu þá of persónulegar.
Skömmu síðar opinberaði Ásmundur í viðtali að hann væri sá sem hefði þegið hæstu greiðslurnar.
Ákveðið að breyta reglum og birta upplýsingar
Upplýsingarnar vöktu upp mikla reiði og ásakanir um mögulega sjálftöku þingmanna. Augljóst væri að það stæðist illa skoðun að Ásmundur væri að keyra 47.644 kílómetra á einu ári, líkt og hann sagðist vera að gera, einungis vegna vinnu sinnar sem þingmaður. Þess utan var sýnt fram á það með útreikningum frá Félagi íslenskra bifreiðareigenda að rekstrarkostnaður bifreiðar sem keyrð er þá vegalengd er einungis um tvær milljónir króna, ekki 4,6 milljónir króna. Af þeim tölum var ljóst að þingmenn gátu hagnast umtalsvert umfram kostnað af því að fá endurgreiðslur vegna aksturs.
Í kjölfarið varð það krafa þings, þjóðar og fjölmiðla að allar greiðslur vegna aksturs yrðu gerðar opinberar og að þær yrðu persónugreinanlegar. Þá varð það einnig krafa að allar aðrar greiðslur sem þingmenn fá vegna starfa sinna yrðu gerðar opinberar, sundurliðaðar og mörg ár aftur í tímann. Hvort sem um væri að ræða húsnæðisstyrk, greiðslur vegna flugs eða kostnaður vegna bílaleigubíla. Allt ætti að koma upp á borðið.
Aksturkostnaður Ásmundar tekið stakkaskiptum
Sá þingmaður sem er með hæstan ferðakostnað innanlands það sem af er ári er Þórunn Egilsdóttir, þingmaður Framsóknarflokks í Norðausturkjördæmi. Alls hefur ferðakostnaður hennar, sem samanstendur af leigu á bílaleigubílum, flugferðum, gisti- og fæðiskostnaði og eldsneytiskaupum, numið tæplega 2,3 milljónum króna.
Sá þingmaður sem hefur hlotið hæstar endurgreiðslur vegna notkunar á eigin bifreið á fyrstu sjö mánuðum ársins er Silja Dögg Gunnarsdóttir, líka úr Framsóknarflokknum. Samtals hefur hún fengið 869 þúsund krónur endurgreiddar, en vert er að taka fram að hún hefur ekki eytt einni krónu í bílaleigubíla og fjölmargir þingmenn eru með hærri heildarendugreiðslur vegna ferðakostnaðar en hún.
Ásmundur Friðriksson hefur fengið 694.090 krónur endurgreiddar vegna notkunar á bifreið sinni á fyrstu sjö mánuðum ársins, eða um 99.156 krónur að meðaltali á mánuði. Þegar kostnaður hans vegar bílaleigubíla er lagður saman við þá tölu kemur í ljós að heildaraksturskostnaður hans er tæplega 1,2 milljónir króna á árinu, eða 168.133 krónur, eða um 44 prósent af þeirri upphæð sem hann fékk mánaðarlega endurgreidda að meðaltali á síðasta ári vegna notkunar á eigin bifreið.