Júlíus Vífill Ingvarsson, fyrrverandi borgarfulltrúi Sjálfstæðisflokksins, viðurkenndi við rannsókn á meintum efnahagsbrotum hans að hann hefði framið skattalagabrot. Þetta kemur fram í ákærðu hendur honum sem héraðssaksóknari gaf út 28. júní síðastlðinn.Í þeirri játningu fólst að Júlíus Vífill viðurkenndi að hann gaf ekki upp til skatts tekjur sem honum hlotnuðust árið 2005, eða fyrr, og geymdar eru á aflandsreikningi. Júlíus Vífill hefur ekki viljað upplýsa um hvenær umræddra tekna var aflað og því er ekki hægt að segja með vissu hver ávinningur hans af skattalagabrotunum hefur verið.
Skattalagabrot fyrnast hins vegar á sex árum. Það þýðir að ef viðkomandi fremur slík, og kemur sér þannig undan að greiða lögbundinn skatt eins og aðrir þegnar ríkja þurfa að gera, en nær að hylja þau í þann tíma þá kemst hann upp með það.
Allmargir þeirra Íslendinga sem földu fé í aflandsfélögum á árunum fyrir bankahrunið, og voru opinberaðir í Panamaskjölunum eins og Júlíus Vífill, munu því sleppa ákæru fyrir þau brot. Í þeim tilfellum sem um er að ræða meiriháttar skattalagabrot liggur allt að sex ára fangelsisvist auk þess sem viðkomandi þarf að greiða háa sekt sé hann sakfelldur.
Ávinningur 49 til 57 milljónir króna
Öðru máli gegnir hins vegar um peningaþvætti. Lögum landsins var breytt árið 2009 þannig að refsivert var að þvætta ávinning af eigin afbrotum. Því er Júlíus Vífill ákærður fyrir peningaþvætti frá þeim tíma sem lögin tóku gildi, eða frá 30. desember 2009.
Sú fjárhæð sem er talin vera ólögmætur ávinningur vegna þvættisins, þ.e. þeir skattar sem Júlíus Vífill átti að greiða og vextir af því fé, er áætluð á bilinu 49 til 57 milljónir króna. Refsiramminn fyrir slík brot er allt að sex ára fangelsi.
Langur aðdragandi
Kjarninn greindi frá því 17. ágúst síðastliðinn að Júlíus Vífill hefði verið ákærður í málinu. Í þeirri umfjöllun kom fram að hann hefði verið einn þeirra stjórnmálamanna sem voru opinberaðir í Panamaskjölunum og greint var frá í sérstökum Kastljósþætti sem sýndur var 3. apríl í 2016. Þar kom meðal annars fram að hann hefði í ársbyrjun 2014 stofnað félagið Silwood Foundation á Panama. Rík áhersla var lögð á það við stofnun félagsins að nafn Júlíusar Vífils kæmi hvergi fram í tengslum við félagið, samkvæmt umfjölluninni.
Tveimur dögum áður en að Kastljósþátturinn var sýndur sendi Júlíus Vífill frá sér yfirlýsingu þar sem hann sagði að tilgangurinn með stofnun aflandsfélagsins væri að stofna eftirlaunasjóð í Sviss. „Allt sem við kemur þessum sjóði er í samræmi við íslensk lög og reglur, enda naut ég sérfræðiráðgjafar til að tryggja að réttilega og löglega væri að málum staðið. Mér var ráðlagt að skrá stofnun sjóðsins í Panama. Ég hef hvorki fengið neitt greitt úr sjóðnum né haft af honum annars konar tekjur og hef ekki heimild til að ráðstafa fjármunum úr honum.”
Systkini Júlíusar Vífils og erfingjar foreldra hans hafa sakað hann og bróður hans, Guðmund Ágúst Ingvarsson, um að komið ættarauð foreldra þeirra undan og geymt hann á aflandsreikningum. Þessum ávirðingum hefur Júlíus Vífill ávallt hafnað með öllu.
Sagði ákæruna vonbrigði
Eftir að Kjarninn birti fréttaskýringu sína um að Júlíus Vífill hefði verið ákærður birti hann yfirlýsingu á Facebook-síðu sinni. Þar sagði hann að ákæran kæmi honum á óvart og væri vonbrigði. Hann teldi „engar lagalegar forsendur vera fyrir ákærunni og mun auðvitað takast á við hana fyrir dómstólum. Það mál verður útkljáð á þeim vettvangi. Það kristallast margt í lífinu við mótlæti og átök. Eftir stendur að lokum það sem er mikilvægast: fjölskyldan, vináttan og kærleikurinn.“
Þar sagði Júlíus Vífill einnig að honum finnist sem að á undanförnum tveimur árum hafi hann staðið í veðurbáli. „Á mig voru bornar ótrúlegar og fráleitar sakir í æsifréttastíl um að fjármunir á erlendum bankareikningum væru illa fengnir og ekki mín eign. Héraðssaksóknari hefur nú kannað sannleiksgildi málsins og komist að þeirri niðurstöðu að ekki sé fótur fyrir þeim ásökunum. Hann hefur hins vegar birt mér ákæru sem snýr að skattamálum.“