Nýtt þing hefst fljótlega, nánar tiltekið þriðjudaginn 11. september. Ríkisstjórnin mun leggja fram fjárlög á fyrsta fundi, sem segja má að verði í raun fyrstu fjárlög þessarar ríkisstjórnar þar sem væntanlega má sjá stefnumótun hennar þar sem fjárlög síðasta árs voru lögð fram sérstaklega seint vegna ríkisstjórnarslitanna og kosninga.
Kjarninn tók nokkra þingmenn úr mismunandi flokkum tali um þingveturinn framundan og áherslumál flokkanna þetta árið. Í þetta skiptið var það Oddný Harðardóttir þingflokksformaður Samfylkingarinnar.
Hver talar fyrir stefnu ríkisstjórnarinnar?
„Fjárlögin eru náttúrulega mikilvægasta plagg vetrarins og tengist líka því hver verður raunverulegur talsmaður ríkisstjórnarinnar. Er það forsætisráðherrann, fjármálaráðherrann, er það samgönguráðherrann eða er það kannski formaður atvinnuveganefndar? Hver er það sem er að tala fyrir stefnu ríkisstjórnarinnar af því þetta hefur verið svolítið sundurlaust hingað til,“ segir Oddný.
Hún segist telja að veturinn muni reyna á þolrifin hjá baklandi Vinstri grænna þegar forsætisráðherrann byrji að tala fyrir hönd ríkisstjórnarinnar, ef skilaboðin halda áfram að vera svona út og suður eins og verið hefur í öllum málum.
Ávísun á miklar deilur
„Í fjárlagafrumvarpinu munum við sjá í texta og tölum stefnu ríkisstjórnarinnar. Hvað á að gera á næsta ári og það skiptir náttúrulega verulegu máli hvað á að gera þar.“
Oddný segist munu fylgjast með hvernig farið verði með heilbrigðismálin og húsnæðismálin og þess hvernig tekið verður á málefnum þeirra sem verst standa í samfélaginu. Hvort að jöfnunartækin verða nýtt. „Kjaramálin tengjast þessu líka. Það veltur svolítið á því hvernig tekið verður á þessum málum í frumvarpinu hvernig síðan umræðan þróast við samningaborðið af því hún er ekki bara á milli atvinnurekenda og launþega. Það er ekki þannig. Það eru líka stjórnvöld sem stýra þessu. Ef að niðurstaðan verður sú að það verður ekkert komið til móts við þá sem verst standa en síðan farið að fullu fram með lækkun veiðigjalda þá verður allt brjálað. Það er bara ávísun á miklar deildur.“
Mun þurfa málamiðlanir
Oddný segist vona að stjórnvöld muni hlusta á ráðleggingar um hvernig mæta eigi þeim sem ekki hafa fengið að njóta góðærisins. Til að mynda ungt barnafólk, öryrkjar og aldraðir og þeir sem þurfi að reiða sig eingöngu á greiðslur Tryggingastofnunar. „Ég er að vona að það verði brugðist við þarna og menn sjái að auðvitað verður að snúa þessari þróun við,“ segir Oddný sem segist þó ekkert endilega bjartsýn á að þetta takist. „Þetta er ekki hægri pólitík - þetta er ekki pólitík Sjálfstæðisflokksins þannig að það mun þurfa einhverja málamiðlun þarna milli stjórnarflokkanna en sem jafnaðarmanneskja vona ég auðvitað að það takist.“
Skattahækkanir erfiðar þegar lægðin er komin
Oddný segist hafa áhyggjur af stöðunni í efnahagslífinu. „Að allar þessar fjárfestingar sem búið er að fara í til dæmis í ferðaþjónstunni muni ekki borga sig og þá mun það bara lenda á almenningi. Þetta höfum við veri að benda á alveg síðan vöxturinn byrjaði að ferðaþjónustunni. Að greininni hafi verið leyft að vaxta í skattastyrkjaumhverfi. Maður notar skattastyrki í sprotaumhverfi en ekki til að láta stærstu atvinnugreinina vaxa um of.“ Hún segist hrædd um að niðursveifla sé á leiðinni og að við höfum ekki hagað okkur nógu skynsamlega. „Þó við hefðum átt að haga okkur eins og brennt barn sem forðast eldinn, nýkomin upp úr efnahagshruni. Ég efast um að lægðin verði nálægt því jafn mikil en hættan er sú að þetta verði jafnað út með niðurskurði í velferðarkerfinu og menntakerfinu. Það er svo erfitt að ætla að jafna þetta út með skattahækkunum þegar lægðin er komin. Það eru þarna ár glataðra tækifæra þar sem við hefðum átt að safna í sarpinn. Við erum með örgjaldmiðil og við höfum tekið út endalausar sveiflur. Á meðan við höfum krónuna þá munum við búa við þessar sveiflur og við hefðum átt að búa okkur undir niðursveifluna í stað þess að gera það sem stjórnvöld hafa gert undanfarið að lækka skatta og láta innviðina veikjast.“
Nota skattkerfið til jöfnunar
Oddný segir helstu áherslumál Samfylkingarinnar í vetur snúast um hag barna, hag fatlaðs fólks og stöðu á húsnæðismarkaði. „Þetta eru þrjú stærstu málin sem Samfylkingin leggur áherslu á þennan þingveturinn. Við höfum lagt fram tillögur þess efnis aftur og aftur á hverju ári frá árinu 2013 að það sé bætt í barnabætur og húsnæðisbætur og skattkerfið notað til jöfnunar, en þróunin hefur því miður verið á hinn bóginn eins og nýleg dæmi sýna og skýrslur. Það er miður.“