Nýtt þing hefst fljótlega, nánar tiltekið þriðjudaginn 11. september. Ríkisstjórnin mun leggja fram fjárlög á fyrsta fundi, sem segja má að verði í raun fyrstu fjárlög þessarar ríkisstjórnar þar sem væntanlega má sjá stefnumótun hennar þar sem fjárlög síðasta árs voru lögð fram sérstaklega seint vegna ríkisstjórnarslitanna og kosninga.
Kjarninn tók nokkra þingmenn úr mismunandi flokkum tali um þingveturinn framundan og áherslumál flokkanna þetta árið. Í þetta skiptið var það Hanna Katrín Friðriksson þingflokksformaður Viðreisnar.
Óbærileg vaxtakjör
„Ég held að við munum fara bratt af stað. Efnahagsmálin og þær blikur sem eru á lofti þar verða í brennidepli í allan vetur og munu strax mark sitt á fjárlagaumræðuna. Sérfræðingar eru að vara við að kulnunin geti orðið jafnvel harðari og sneggri en við bjuggumst við,“ segir Hanna Katrín. Hún segir að þau í Viðreisn hafi talið fjármálaáætlun ríkisstjórnarinnar bjartsýna. „Kjaramálin eru síðan líka nátengd þessari umræðu allri. Við í Viðreisn munum halda áfram okkar orðræðu um vaxtakjörin sem fólk og fyrirtæki hér þurfa að búa við og íslenska krónan leiðir af sér. Þessi óbærilegu vaxtakjör sem stjórnvöld þurfa að taka ábyrgð á.“
Vantar stefnu
Hanna Katrín segist eiga von á því í fjárlagafrumvarpinu að sjá áfram áherslu ríkisstjórnarinnar á að leggja meiri peninga í ákveðna málaflokka án þess að því fylgi skýr aðgerðaráætlun eða stefna. „Ég tel til dæmis ástæðu til að hafa töluverðar áhyggjur af þeirri vegferð sem stjórnvöld eru á með heilbrigðiskerfið. Það verður mikil áhersla á þennan málaflolkk í vetur. Við í Viðreisn höfum lagt áherslu á jafnan aðgang fólks að góðri þjónustu sama hvaðan hún kemur. Við teljum að þessu markmiði verði ekki náð nema með skynsamlegri nýtingu þess fjármagns sem fer í gegnum kerfið og ég óttast að frumvarpið muni ekki endurspegla þetta,“ segir Hanna Katrín og bætir því við að sama eigi við um menntamálin. „Við erum með fullt af frábæru fagfólki sem kann til verka í þessum risa málaflokki en einhvern veginn er tilfinningin sú að stjórnvöld flækist frekar fyrir þegar kemur að því að marka skýra framtíðarsýn og aðgerðaráætlun til lengri tíma. Áherslan virðist bara vera á hversu miklir peningar fara í gengum kerfið í stað þess hvernig þeir eru best nýttir.“
Verndartollar skaðlegir fyrir bændur og neytendur
Hún segir landbúnaðarmálin líka munu taka pláss. „Það liggur fyrir að það þarf að fara í markvissan stuðning við bændur. En jafnframt er ég og við í Viðreisn ennþá meira sannfærð um að gamaldags verndartollar séu bara skaðlegir fyrir bæði bændur og neytendur og þetta verður mál sem verður mikið í umræðunni.“
Hanna Katrín segir að ferðaþjónustan þurfi athygli. „Ég hljóma eins og biluð plata þegar ég tala um þetta stefnuleysi endalaust, en stefnuleysi í ferðaþjónustunni verður sífellt meira áberandi. Allir aðilar, þeir sem starfa í ferðaþjónustunni, náttúran, almenningur, fjárfestar, það þurfa allir á því að halda að það séu settar skýrar leikreglur.“
Full harka gegn lækkun álagna á stórútgerðir
Fyrstu dagar þingsins munu fara í hefðbundar umræður um stefnuræðu forsætisráðherra og fjárlögin. „En það er full ástæða til að óttast að stjórnvöld mæti aftur til leiks á fyrstu dögum þingsins með tilraunir til að lækka álögur á stórútgerðina og við munum mæta því a af fullri hörku í þinginu,“ segir Hanna.
Eiga að tryggja viðunandi lífsjör
Kjaramálin munu verða fyrirferðarmikil á þessum þingvetri og segir Hanna Katrín að það séu náttúrulega aðilar vinnumarkaðarins sem séu með boltann hjá sér. „Aðkoma stjórnvalda á náttúrulega fyrst og fremst að vera sú að hafa rammann í lagi. Þar er fullt óunnið. Ekki síst í sambandi við óstöðugleika gengisins og vaxtakjörin. Mér fyndist miklu eðlilegra að stjórnvöld einbeittu sér að þeim verkefnum og leystu þau með hagsmuni almennings í huga. Jákvæðastsa skerfið sem stjónvöld gætu komið með inn í kjaraviðræðurnar er að tryggja hérna viðunandi lífskjör fyrir almenning sem er á pari við það sem gerist í nágrannalöndunum okkar.“
Ábyrgð í meðferð opinberra fjármuna
Um þau mál sem Viðreisn hyggst leggja áherslu á í vetur vill Hanna Katrín lítið segja, það verði kynnt sérstaklega síðar. „Við erum að leggja lokahönd á þau mál núna. Við munum leggja áherslu á frelsi, jafnrétti, skynsemi og viljum að gegnsæi og ábyrgð í meðferð opinberra fjármuna endurspeglist í öllum þeim málum sem við munum leggja fram.“