Hlaup njóta sívaxandi vinsælda hjá landsmönnum og hefur til að mynda þátttaka í maraþonum hér á landi aukist síðastliðin ár. Íþróttabandalag Reykjavíkur sér um sex stóra íþróttaviðburði á Íslandi: Reykjavíkurmaraþon Íslandsbanka í ágúst, Laugavegshlaupið í júlí, WOW Tour of Reykjavik og Miðnæturhlaup Suzuki í júní, WOW Northern Lights Run í febrúar og WOW Reykjavik International Games í janúar.
Kjarninn skoðaði þátttökugjald hjá tveimur af þessum vinsælu hlaupum og hvað fælist í því gjaldi, sem og hverjir kostnaðarliðir eru hjá Íþróttabandalagi Reykjavíkur varðandi þá íþróttaviðburði sem það sér um.
Hagnaði skipt í tvennt
Heildarkostnaður viðburðanna fyrir utan laun var 86.974.000 krónur fyrir árið 2016, segir í svari ÍBR við fyrirspurn Kjarnans og var hagnaður af viðburðunum rúmar 14 milljónir.
„Hér er miðað við ársreikning árið 2016 en það er síðasti samþykkti ársreikningur ÍBR. Ársreikningur 2017 hefur verið kynntur á formannafundi og verður lagður fyrir til samþykktar á þingi í ÍBR í byrjun næsta árs ásamt ársreikningi 2018. Þess ber jafnframt að geta að fyrsta Norðurljósahlaupið fór fram í janúar 2017 og er því ekki inni í þessum tölum,“ segir í svarinu.
Jafnframt kemur fram að hagnaði síðustu ára hafi verið skipt í tvennt. Helmingur hafi verið settur í að byggja upp hlaupin svo sem með kaupum á búnaði og/eða með þróun og hinn helmingurinn notaður til að styðja starf íþróttafélaganna í Reykjavík í gegnum tvo sjóði sem aðildarfélögin geta sótt um styrki í, Verkefnasjóð ÍBR og Afrekssjóð ÍBR.
Áætlaður launakostnaður vegna viðburða var 66,4 milljónir króna. Í svarinu segir að áætlaður fjöldi stöðugilda vegna viðburða ÍBR sé sjö en föst stöðugildi á skrifstofu ÍBR átta. Yfir sumarið bætist við starfsmenn sem vinna við viðburði. Heildarfjöldi stöðugilda er þrettán, samkvæmt ÍBR.
Hvað kostar að taka þátt í Reykjavíkurmaraþoninu?
Til þess að fá að taka þátt í Reykjavíkurmaraþoninu þarf einstaklingur að borga þátttökugjald. Í forskráningu kostar 2.900 krónur að hlaupa 3 kílómetra, 6.500 krónur 10 kílómetra, 7.900 krónur hálfmaraþon og 12.900 krónur maraþon.
Á vefsíðu maraþonsins stendur að innifalið í þátttökugjöldum Reykjavíkurmaraþons Íslandsbanka sé meðal annars rásnúmer, leiga á tímatökuflögu og tímataka í keppnisvegalengdum, þátttökuverðlaun, sundferð í einhverja af sundlaugum Reykjavíkur, drykkir frá Powerade í marki og á drykkjarstöðvum.
Enn fremur stendur að ÍTR bjóði öllum þátttakendum í sund í sundlaugum Reykjavíkur á hlaupadaginn eða daginn eftir. Sérstakur aðgöngumiði fylgi hlaupagögnum sem þurfi að afhenda í sundlaugunum.
Þátttakendum gefst einnig færi á að velja sér bol í boði hlaupsins á skráningarhátíðinni á meðan birgðir endast.
Þátttökugjald tæpar 50.000 krónur
Laugavegshlaupið er 55 kílómetra langt utanvegahlaup sem haldið verður í 22. sinn þann 14. júlí næstkomandi en Laugavegurinn tengir saman Landmannalaugar og Þórsmörk á sunnanverðu hálendi Íslands. Þátttökugjaldið er heldur hærra en í Reykjavíkurmaraþoninu. Skráning í Laugavegshlaupið er frá 12. janúar og til 30.júní. Þann 28. mars hækkar þátttökugjaldið úr 35.200 krónum í 46.800 krónur.
Samkvæmt upplýsingum á vefsíðu hlaupsins er innifalið í þátttökugjaldinu bolur frá Cintamani, brautar- og öryggisgæsla, drykkir á drykkjarstöðvum í Hrafntinnuskeri, Álftavatni, Emstrum, Ljósá og í Húsadal, salernisaðstaða í Hrauneyjum, Landmannalaugum, Hrafntinnuskeri, Álftavatni, Emstrum og Húsadal, flutningur á farangri í Bláfjallakvísl og í Húsadal, þátttökuverðlaun, sigurverðlaun, aldursflokkaverðlaun, sveitaverðlaun og sturtuaðstaða í Húsadal ásamt húsaskjóli í tjaldbúðum hlaupsins til að matast og hafa fataskipti, tímataka og númer. Einnig er læknir og hjúkrunarfólk til staðar ef á þarf að halda í Húsadal.
Rútuferðir frá Reykjavík í Landmannalaugar og til Reykjavíkur frá Þórsmörk, morgunverður í Hrauneyjum og heit máltíð að hlaupi loknu eru ekki innifalin í þátttökugjaldinu.