Nýtt met í arðgreiðslum í sjávarútvegi: Alls 14,5 milljarðar í arð í fyrra
Sjávarútvegur hefur bætt eiginfjárstöðu sína um 341 milljarða króna, greitt sér út yfir 80 milljarða króna í arð, minnkað skuldastöðu sína um 86 milljarða króna og fjárfest fyrir 95 milljarða króna á örfáum árum. Alls hefur hagur sjávarútvegsfyrirtækja batnað um 421,4 milljarða króna á tæpum áratug.
Íslensk sjávarútvegsfyrirtæki greiddu út hærri arðgreiðslur í fyrra en þau hafa nokkru sinni gert áður. Alls fengu eigendur sjávarútvegsfyrirtækja 14,5 milljarða króna greiddan í arð á árinu 2017 vegna frammistöðu ársins á undan.
Frá árinu 2010 hafa arðgreiðslur sjávarútvegsfyrirtækja til eigenda sinna numið 80,3 milljörðum króna. Frá hruni hefur eiginfjárstaða sömu fyrirtækja batnað um 341 milljarða króna, og þar af batnaði hún um 41 milljarð króna í fyrra. Því hefur hagur sjávarútvegarins vænkast um 421,3 milljarða króna á tæpum áratug. Vert er að taka fram að eiginfjárstaða geirans var neikvæð í lok árs 2008 en er nú jákvæð um 262 milljarða króna.
Þetta kemur fram í tölum úr Sjávarútvegsgagnagrunni Deloitte vegna ársins 2017, sem kynntar voru á Sjávarútvegsdeginum sem haldinn var í gær.
Nýtt veiðigjaldafrumvarp komið fram
Sjávarútvegsgrunnurinn inniheldur 87 prósent af rekstrarupplýsingum 2017. Þar kemur fram að tekjur geirans í fyrra hafi verið 225 milljarðar króna og framlegð 40 milljarðar. EBITDA-hagnaður (rekstrarhagnaður fyrir fjármagnskostnað, skatta og afskriftir) var 18 prósent, sem er minna en hann hefur verið undanfarin ár. Þau ár voru þó á meðal þeirra bestu rekstrarlega séð í sögu íslensks sjávarútvegs.
Hagnaður í fyrra var 27 milljarðar króna sem er rúmlega helmingur þess sem hann var árið áður, þegar sjávarútvegur átti sitt besta hagnaðarár í sögunni. Mest munaði um breytingar á gengishagnaði, sem hafði verið 16 milljarðar króna árið 2016 en var enginn árið 2017. Samanlagt hafa íslensk sjávarútvegsfyrirtæki hagnast um 369 milljarða króna eftir hrun.
Bein opinber gjöld sem geirinn greiddi í fyrra voru 15,8 milljarðar króna og lækkuðu um 3,3 milljarða króna á milli ára. Veiðigjöldin ein og sér voru 6,8 milljarðar króna á síðasta ári og hækkuðu um 400 milljónir króna frá árinu á undan. Sjávarútvegur hefur ekki greitt lægri opinber gjöld á einu almanaksári frá árinu 2011.
Samkvæmt nýframlögðu frumvarpi til laga um breytingar á veiðigjöldum í sjávarútvegi er lagt upp með að afkomutengingin í gjaldheimtunni verði færð nær í tíma heldur en nú er. Þannig verða rekstrargögnin sem liggja til grundvallar gjaldheimtunni eins árs gömul í stað tveggja ára eins og verið hefur undanfarin ár.
Með þessu er stefnt að því að gjaldheimtan verði skynsamlegri bæði fyrir atvinnuveginn sem heild, sem og stjórnvöld og almenning. Með fyrrnefndum breytingum verður gjaldheimtan tengdari því sveiflukennda umhverfi sem oft einkennir íslenskt efnahagslíf.
Eiginfjárstaða batnað, skuldir lækkað og fjárfesting aukist
Skuldir sjávarútvegsfyrirtækja sem tilheyra grunninum hækka í 362 milljarða króna. Það er umtalsverð hækkun á milli ára, eða úr 319 milljörðum króna. Skuldir eru samt minni nú en þær voru árið 2014.
Geirinn hefur þó lagað skuldastöðu sína gríðarlega á árunum 2009-2017, eða um 86 milljarða króna umfram nýjar langtímaskuldir. Einungis tvívegis á því tímabili hefur verið stofnað til skulda umfram afborganir, árið 2015 þegar ný lán voru 18 milljarða fram yfir afborganir, og í fyrra þegar þau voru 15 milljarða fram yfir afborganir.
Ástæðan er aukin fjárfesting í geiranum, meðal annars við endurnýjun skipaflota. Fjárfestingar í varanlegum rekstrarfjármunum frá 2014 og til síðustu áramóta nam 95 milljörðum króna. Í fyrra var hlutfall slíkrar fjárfestingar af EBITDA hærri en nokkru sinni fyrr á tímabilinu, eða 48 prósent.
Því hefur sjávarútvegur aukið eiginfjárstöðu sína um mörg hundruð milljarða króna, greitt sér út yfir 80 milljarða króna í arð, minnkað skuldastöðu sína um 86 milljarða króna og fjárfest fyrir 95 milljarða króna á örfáum árum.
Gríðarleg fjárfestingargeta stærstu fyrirtækjanna
Þessi gífurlega bætti hagur sjávarútvegarins lendir að mestu hjá stærstu sjávarútvegsfyrirtækjum landsins. Þannig hefur til að mynda Samherji, samstæða félaga sem starfa á sviði sjávarútvegs hérlendis og erlendis, hagnast um 100 milljarða króna á undanförnum sjö árum. Hagnaður Samherja í fyrra var 14,4 milljarðar króna og eigið fé fyrirtækisins var 94,4 milljarðar króna um síðustu áramót. Um helmingur af starfsemi Samherja er erlendis. Helstu eigendur Samherja eru frændurnir, forstjórinn Þorsteinn Már Baldvinsson og útgerðarstjórinn Kristján Vilhelmsson. Fyrirtækið keypti nýverið 25,3 prósent hlut í Eimskipafélagi Íslands á 11,1 milljarða króna.
Mikil viðskipti hafa líka verið með hluti í stórum sjávarútvegsfyrirtækjum að undanförnu og ljóst að fjárfestingageta eigenda þeirra er gríðarleg. Guðmundur Kristjánsson, lengi kenndur við Brim, keypti um 35 prósent hlut í HB Granda fyrr á árinu. Markaðsvirði þess hluta er í dag um 20 milljarðar króna. Í kjölfarið seldi Brim, sem nú heitir Útgerðarfélag Reykjavíkur, hlut sinn í Vinnslustöðinni í Vestmannaeyjum á 9,4 milljarða króna til FISK, sjávarútvegsarms Kaupfélags Skagfirðinga, og HB Grandi keypti hlut Brim í útgerðarfyrirtækinu Ögurvík á 12,3 milljarða króna. Í kynningu á Ögurvík sem birt var á vef kauphallar Íslands í vikunni kom fram að kvóti þess væri metinn á 14,5 milljarða króna.
Þrátt fyrir ofangreinda stöðu lýsti Heiðrún Lind Marteinsdóttir, framkvæmdastjóri Samtaka fyrirtækja í sjávarútvegi, því yfir í gær að frumvarp sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra um veiðigjöld væru vonbrigði. Veiðigjöld væru enn of há að hennar mati.
Fleiri tengdar fréttir
-
6. janúar 2023Tíu stærstu útgerðirnar halda á 56 prósent af öllum kvóta
-
30. desember 2022Rammi sameinaður Ísfélaginu og til stendur að skrá nýju risaútgerðina á hlutabréfamarkað
-
29. desember 2022Baldvin Þorsteinsson eignast erlenda útgerð Samherja sem metin er á 55 milljarða króna
-
19. desember 2022Hagnaður sjávarútvegs þrefaldaðist milli ára en afkoma tæknifyrirtækja breyttist lítið
-
13. desember 2022Fallið frá því að hækka gjöld á sjókvíaeldi um mörg hundruð milljónir á ári
-
9. desember 2022Prentsmiðjan og skuldir Árvakurs við hana færðar úr útgáfufélagi Morgunblaðsins
-
6. desember 2022Samherji Holding segist ekki líða mútugreiðslur, fyrirgreiðslur og ávinning í skiptum fyrir óeðlileg áhrif
-
30. nóvember 2022Samherjasamstæðan átti eigið fé upp á tæpa 160 milljarða króna um síðustu áramót
-
28. nóvember 2022SFS styðja frumvarp Svandísar um að hækka veiðigjöld á næsta ári en lækka þau árin á eftir
-
23. nóvember 2022Svandís leggur fram frumvarp sem hækkar veiðigjöld um 2,5 milljarða á næsta ári