„Braggablúsinn“ ekki kominn að lokanótunni
Náðhús, höfundaréttavarin strá, hönnunarljósakrónur og kostnaðaráætlun sem fór langt yfir öll mörk eru hluti af þeim farsa sem einkennir endurbætur á gömlum bragga við Nauthólsveg 100 sem Reykjavíkurborg stóð fyrir. Kjarninn fer yfir þetta einkennilega mál.
Bragginn í Nauthólsvík hefur aldeilis valdið fjaðrafoki síðastliðnar vikur og ekki að undra þar sem kostnaður við framkvæmdir endurgerðar hans fóru langt fram úr áætlun. Kostnaður við framkvæmdirnar nemur nú rúmlega 400 milljónum króna en upphaflega var gert ráð fyrir að hann yrði 158 milljónir.
Hæsti reikningurinn við framkvæmdirnar hljóðaði upp á 105 milljónir króna og grasstrá sem gróðursett voru í kringum bygginguna kostuðu 757 þúsund krónur. Framkvæmdum er enn ólokið en töluverð vinna er eftir í viðbyggingunni, þar sem til stendur að opna frumkvöðlasetur.
Bragginn og sambyggð skemma voru byggð af Bretum og voru hluti af svokölluðu „Hótel Winston“ á stríðsárunum en höfðu til ársins 2015 legið undir skemmdum. Bragginn nýtur verndar í deiliskipulagi borgarinnar enda er hann talinn vera kennileiti og minjar um hernámsárin í borginni.
Aðstaða fyrir nemendur HR
Ari Kristinn Jónsson, rektor Háskóla Reykjavíkur og Dagur B. Eggertsson, borgarstjóri, skrifuðu undir í Nauthólsvík samning þann 25. september 2015 þess efnis að braggi frá stríðsárunum og tengdar byggingar í Nauthólsvík myndu ganga í endurnýjun lífdaga sem félagsaðstaða fyrir nemendur Háskólans í Reykjavík og nýsköpunar- og rannsóknarsetur.
Stefnt var að því að nýting húsnæðisins yrði tvíþætt. Annars vegar yrði félagsaðstaða og veitingasala á vegum stúdenta við HR. Hins vegar yrði sköpuð aðstaða fyrir nýsköpun og sprotafyrirtæki innan Háskóla Reykjavíkur og meðal samstarfsaðila. Alls er húsnæðið um 450 fermetrar og var stefnt að því að taka fyrsta hluta þess í notkun strax um vorið.
Ari Kristinn sagði við undirskriftina árið 2015 að aðstaðan myndi nýtast nemendum sem vinna að fjölbreyttum nýsköpunarverkefnum innan háskólans í samstarfi við fyrirtæki. Þetta væri hluti af metnaðarfullum áætlunum þeirra um að byggja upp nýsköpunargarð að erlendri fyrirmynd við Háskólann í Reykjavík, með aðstöðu fyrir fjölbreytt nýsköpunarverkefni og framsækin fyrirtæki sem vilja njóta góðs af nálægð við stærsta tækni- og viðskiptaháskóla landsins.
Dagur sagði þetta vera enn eitt jákvætt skref í samstarfi borgarinnar og Háskólans í Reykjavík. „Þetta verkefni snýr beint að stúdentum og því að skapa skemmtilegt námsumhverfi en það snýst einnig um að skapa aðstöðu fyrir nýsköpunarhugmyndir sem er kjarnaþáttur í starfsemi Háskólans í Reykjavík. Ástæðan fyrir því að borgin vill leggja þessu lið er að við viljum að borgin sé spennandi staður, þar sem verða til nýjar hugmyndir og ný fyrirtæki og þetta verkefni passar mjög vel inn í þá mynd,“ sagði borgarstjórinn við tilefnið.
Meiri kostnaður við að gera upp en byggja frá grunni
Lítið heyrðist í fjölmiðlum næstu misserin en á meðan gekk bragginn góði í endurnýjun lífdaga. Í júní síðastliðinn dró til tíðinda þegar fréttist að nýr veitingastaður hefði verið opnaður við Nauthólsvík. Sá ber nafnið Bragginn bar & bistró og var staðurinn hugsaður til að sinna útivistarfólki sem þarna fer um auk þess að vera heimavöllur háskólastúdenta, að sögn Dalmars Inga Daðasonar, veitingastjóri á Bragganum, í samtali við mbl.is í sumar.
Dró enn til tíðinda þegar hausta tók og byrjuðu fjölmiðlar að fjalla um umframkostnað verkefnisins.
Í frétt RÚV frá byrjun september kom fram að upphafleg kostnaðaráætlun hafi hljóðað upp á 158 milljónir en framkvæmt hefði verið fyrir rúmlega 400 milljónir, samkvæmt upplýsingum frá Reykjavíkurborg. Borgarráð hefði samþykkt aukinn kostnað við framkvæmdirnar en innkauparáð borgarinnar skoðaði hvers vegna kostnaður hljóp fram úr áætlun.
„Það vill því miður vera þannig oft, ekki alltaf, að það er meiri kostnaður þegar maður er að gera upp og er með miklu fleiri óvissuþætti heldur en þegar maður er að rífa og byggja nýtt frá grunni,“ sagði Margrét Leifsdóttir, arkítekt við verkefnið, í samtali við RÚV. „Það er ótrúlega sterkt og mikilvægt í þessu verkefni að hafa ákveðið að halda í þessi hús og gera þau upp eins og þau eru.“
Í fundargerð borgarráðs frá 20. september síðastliðnum er að finna öll gögn málsins ásamt greinargerð frá skrifstofu eigna- og atvinnuþróunar. Þar er heildartalan og kostnaðurinn sundurliðaður og þau fyrirtæki nefnd sem fengu greitt fyrir vinnu við verkið. Í svari upplýsingastjóra Reykjavíkurborgar við fyrir spurn Kjarnans var verkið ekki boðið út en eins og komið hefur fram í fjölmiðlum þá hefur borgarstjórn ákveðið að innri endurskoðun Reykjavíkurborgar muni fara yfir málið.
Innri endurskoðun fer yfir málið
Kolbrún Baldursdóttir, borgarfulltrúi Flokks fólksins, segir í samtali við Kjarnann að henni lítist hræðilega á þetta allt saman og að stórkostleg mistök hafi verið gerð. Hún telur að borgarbúum og fjármunum borgarinnar hafi verið sýnd mikil vanvirðing.
Borgarráð samþykkti að fela Innri endurskoðun Reykjavíkurborgar að ráðast í heildarúttekt á öllu því ferli sem endurgerð braggans fól í sér á fundi sínum síðastliðinn fimmtudag. Í tillögunni segir að enginn angi málsins skuli vera undanskilinn og allt skuli upplýst í þessu máli frá upphafi til enda. Einnig er óskað eftir því að Innri endurskoðun Reykjavíkur geri tillögur að umbótum í tengslum við það sem aflaga hefur farið og í bága við vandaða stjórnsýsluhætti.
Kolbrún segir að sama hvað kemur út úr úttektinni þá breyti það engu um að einn maður beri ábyrgð á verkinu, borgarstjórinn Dagur B. Eggertsson. Og þrátt fyrir að hann fordæmi hversu mikið framkvæmdin hafi farið yfir áætlun þá sé þetta á hans ábyrgð.
Hvernig er borgarstjóra stætt á að halda áfram?
Hún finnur fyrir mikilli reiði hjá fólki vegna málsins, jafnvel innan Samfylkingarinnar og það sé sama hvar fólk stendur í pólitíkinni.
Kolbrún mótmælir innri endurskoðuninni harðlega. Hún telur að of mikil tenging sé milli eftirlitsaðilans og þeirra sem hann á að rannsaka. Þess í stað vill hún fá óháðan aðila til að gera úttektina. „Auðvitað kostar það, en hvað er hægt að gera þegar svona er komið?“ spyr hún.
Hún spyr sig jafnframt hvernig borgarstjóra sé stætt á að halda áfram. „Með fullri virðingu fyrir honum sem manneskju en oft þegar fólk er búið að vera svo lengi við völd þá er það ekki gott,“ bætir hún við.
Málið er aftur á dagskrá borgarráðs á þriðjudaginn í næstu viku.
Vildu strandstemningu
Stráin sem gróðursett voru í kringum braggann hafa verið gríðarlega umtöluð en samkvæmt heimildum Eyjunnar er um að ræða sérstök strá sem eru höfundaréttavarin. Voru þau flutt sérstaklega inn til landsins frá Danmörku og heita á íslensku dúnmelur. Dúnmelur er stórvaxið gras og nauðalíkt hinu náskylda melgresi sem er að finna um allt land.
Í samtali við Fréttablaðið þann 11. október síðastliðinn sagði Dagný Bjarnadóttir landslagsarkitekt – sem kom að því að velja hin umtöluðu strá við braggann í Nauthólsvík ásamt garðyrkjumanni – að þessi gróður hefði verið valinn til að skapa strandstemningu.
„Í stað þess að setja þarna gróður, runna eða þess háttar langaði okkur að hafa stemningu sem er meira í ætt við strönd. Þess vegna voru valin strá en ekki hefðbundnir runnar,“ sagði Dagný.
Samkvæmt Fréttablaðinu nam kostnaður við innkaup á plöntunum sjálfum 756 þúsund krónum en niðursetning á þeim síðan 400 þúsund krónur. Alls 1.157 þúsund krónur.
Fleiri kostnaðarliðir hafa vakið athygli, á borð við hönnunarljósakrónur frá Danmörku en hvor um sig kostaði tæpa milljón króna.
Smíðavinna dýrust
Hæsti reikningur við framkvæmdirnar var uppá 105 milljónir króna fyrir smíðavinnu, samkvæmt fréttum RÚV í byrjun október. Ástandsskoðun frá verkfræðistofunni Eflu kostaði tæpar 27 milljónir króna, rif bragga og frágangur tæplega 30 milljónir og arkitektavinna tæpar 28,5 milljónir. Þar fyrir utan er hönnun lóðar sem kostaði til viðbótar rúmlega fimm milljónir og þar til viðbótar kemur svo frágangur lóðar sem er 21 milljón króna.
Raflagnir og vinna við þær voru rúmlega 35 milljónir. Blikkaravinna er tæpar 16 milljónir. Múrverkið hljóðar upp á tæpar 36,5 milljónir. Pípulagnirnar eru tæplega 17 milljónir og smíðavinnan skiptist á fjögur fyrirtæki og er heildarupphæðin rúmlega 126 milljónir – eitt fyrirtæki fær þó meirihlutann af þeirri greiðslu eða rúmlega 105 milljónir. Þá var miðlægur umsýslukostnaður rúmlega 12 milljónir.
Borgarstjóri tjáir sig
Dagur B. Eggertsson borgarstjóri tjáði sig loksins um málið í síðustu viku en á Facebook-síðu sinni sagði hann að endurgerð húsanna og braggans í Nauthólsvík væru alvarlegt dæmi um framkvæmd sem fer langt fram úr áætlun.
„Fregnir af einstaka reikningum og verkþáttum undanfarna daga kalla augljóslega á skýringar og undirstrika mikilvægi þess að málið er komið í hendur innri endurskoðunar Reykjavíkurborgar. Til að undirstrika alvöru málsins leggur meirihlutinn í borgarstjórn fram tillögu til samþykktar í borgarráði á morgun til að árétta að enginn angi málsins skal vera undanskilinn og allt skal upplýst í þessu máli frá upphafi til enda,“ sagði hann í færslunni.
Endurgerð húsanna og braggans í Nauthólsvík er alvarlegt dæmi um framkvæmd sem fer langt fram úr áætlun. Fregnir af...
Posted by Dagur B. Eggertsson on Wednesday, October 10, 2018
Lesa meira
-
11. janúar 2023Er íslenska velferðarkerfið ekki lengur griðarstaður þeirra sem minnst hafa?
-
10. janúar 2023Útvarp Saga telur fjölmiðlastyrki skapa tortryggni og bjóða upp á frændhygli
-
10. janúar 2023Fánabann og refsiaðgerðir í Palestínu í kjölfar niðurstöðu Sameinuðu þjóðanna
-
8. janúar 2023Lífeyrissjóðir hafa ekki lánað meira verðtryggt á einum mánuði frá því fyrir faraldur
-
8. janúar 2023Sögulegur en dýrkeyptur kosningasigur þingforsetans
-
7. janúar 2023BDSM-félagið fagnar því að loksins eigi að afnema klámbann
-
7. janúar 2023Litlu fjölmiðlarnir með eldspýturnar
-
7. janúar 2023Með hverjum stendur þú?
-
6. janúar 2023Tíu stærstu útgerðirnar halda á 56 prósent af öllum kvóta
-
6. janúar 2023Guðrún Hafsteinsdóttir segist taka við dómsmálaráðuneytinu í mars