Í átt að nýrri þjóðarsátt
28 ár eru liðin frá svokallaðri þjóðarsátt á íslenskum vinnumarkaði sem lækkaði verðbólgu og jók samráð milli verkalýðshreyfingarinnar, atvinnurekenda og ríkisstjórnarinnar. Hversu líklegt er að sambærileg sátt náist í næstu kjarasamningum?
„Það getur ekki ríkt þjóðarsátt um þjóðarskömm,“ skrifaði Sólveig Anna Jónsdóttir, formaður Eflingar, í pistli sínum í Kvennablaðinu síðasta vor og fjallaði um ástandið á vinnumarkaðnum. Pistill Sólveigar var einn af mörgum fyrirboðum um aukna hörku í samningsgerð verkalýðsfélaga við atvinnurekendur.
Ræst hefur úr þeim fyrirheitum, en búist er við meiri átökum í komandi kjaraviðræðum vetrarins en sést hefur um árabil. Samhliða harðari kröfum verkalýðsfélaga óttast hagfræðingar að sá efnahagslegi árangur sem náðst hefur vegna 28 ára gamallar þjóðarsáttar á íslenskum vinnumarkaði sé í hættu. En hvers vegna ríkir svo mikil ólga á vinnumarkaðnum núna og hvernig væri hægt að róa hana niður?
Þjóðarsáttin
Umrædd þjóðarsátt á vinnumarkaði átti sér stað í kjarasamningum árið 1990. Að þeim samningum komu fulltrúar atvinnurekenda, verkalýðshreyfingarinnar og ríkisstjórnarinnar, en markmið þeirra var að binda enda á þá óreiðu sem ríkt hafði í efnahagsmálum síðustu áratuga.
Drifkraftur óstöðugleikans voru reglubundnar gengisfellingar stjórnvalda á áttunda og níunda áratugnum sem réðust af afkomu sjávarútvegsins hverju sinni. Þessar gengisfellingar leiddu svo til hærra verðs innfluttra vara, en í kjölfar þess kröfðust launþegar hærri launa. Hærri laun þrengdu loks að sjávarútvegsfyrirtækjum, sem leiddi til annarrar gengisfellingar að hálfu stjórnvalda.
Til viðbótar við þessa víxlverkun magnaðist verðbólgan svo enn frekar þar sem verkalýðshreyfingin var óviss um framtíðarverðlag og uppfærði því kröfur sínar með stuttu millibili og tíðum verkföllum. Með stuttum kjarasamningum, gengisfellingum og nafnlaunahækkunum rauk svo verðbólgan stjórnlaust upp og náði hámarki árið 1983 í 84,3 prósentum.
Kjarasamningunum árið 1990 var ætlað að kippa fótunum undan þessari þróun. Gegn því skilyrði að ríkisstjórnin lækkaði nafnvexti og felldi ekki gengi krónunnar fyrir atvinnurekendur samþykktu verkalýðsfélög hóflegar launahækkanir til lengri tíma sem byggðu á verðbólguspám. Með þessu móti yrði lífskjarahruni afstýrt sem blasti við, samkvæmt verkalýðsforingjarnum Guðmundi „Jaka“ Guðmundssyni í viðtali við RÚV.
Með skilyrðum samningsins tók hlutverk verkalýðshreyfingarinnar stórum breytingum og deildi þannig ábyrgðinni um fjármálastöðugleika með atvinnurekendum og ríkisstjórninni. Þannig mildaðist tónn hreyfingarinnar gagnvart talsmönnum atvinnulífsins auk þess sem svokölluðum „teknókrötum“ með sérþekkingu sem stuðla átti að stöðugleika fjölgaði innan hennar.
Ætlunin tókst og verðbólgan snarlækkaði á tíunda áratugnum samhliða stöðugum kaupmáttarvexti og færri verkföllum. Góður árangur sáttarinnar vatt upp á sig og styrkti traust milli verkalýðshreyfingarinnar og atvinnurekenda, sem leiddi til þess að kjarasamningar voru gerðir til lengri tíma.
Hriktir í stoðunum
Mikið hefur gengið á í íslensku efnahagslífi frá árinu 1990, en samkvæmt innanbúðarmönnum úr verkalýðshreyfingunni hefur þó lengst af ríkt gagnkvæmur skilningur í samskiptum hennar við ríkisstjórnina og atvinnurekendur. Þrátt fyrir tíð ósætti þeirra á milli lögðu fulltrúar vinnumarkaðarins sitt af mörkum til að viðhalda verðstöðugleika, meðal annars með því að taka mið af verðbólguvæntingum í kjarasamningum og biðja ekki um of háar launahækkanir þegar kreppti að.
Á síðustu árum hefur þó hrikt nokkuð í stoðum þessa samkomulags, en samkvæmt Höllu Tinnu Arnardóttur stjórnsýslufræðingi færðist aukin harka í samskiptum milli ríkisstjórnarinnar og verkalýðsfélaga milli 2011 og 2014. Á því tímabili fór meira að bera á verkföllum og verkfallshótunum auk þess sem mörgum úr verkalýðshreyfingunni þótti erfitt að vinna með ríkisstjórn Jóhönnu Sigurðardóttur annars vegar og Sigmundar Davíðs Gunnlaugssonar hins vegar.
Tónninn í verkalýðshreyfingunni hefur svo orðið enn beittari á síðasta einu og hálfu ári með nýrri forystu innan stærstu stéttarfélaga hennar. Kjarninn hefur áður fjallað um breyttar áherslur Ragnars Þórs Ingólfssonar og Sólveigar Önnu Jónsdóttur, nýrra formanna VR og Eflingar, en Ragnar hefur boðað til „átaka sem hafa ekki sést í áratugi“ verði kröfum stéttarfélaganna ekki mætt og Sólveig Anna lýsti sig sem „byltingarmanneskju“ í viðtali við Mannlíf í síðustu viku.
Sömuleiðis er búist við harðari afstöðu frá ASÍ í kjölfar nýafstaðins landsþings sambandsins, en þar tók Drífa Snædal við af Gylfa Arnbjörnssyni sem forseti auk þess sem Vilhjálmur Birgisson var kjörinn fyrsti varaforseti. Sólveig Anna og Ragnar Þór hafa bæði stutt nýja forystu ASÍ, en samkvæmt Ragnari Þór gengur verkalýðshreyfingin óklofin til leiks í komandi kjarasamningaviðræðum með kjöri Drífu og Vilhjálms.
Breyttar áherslur kristallast í nýjum kröfum VR og Starfsgreinasambandsins fyrir komandi viðræður, en þar er þess krafist að lágmarkslaun verði 425 þúsund á mánuði í ársbyrjun 2021. Einnig gera félögin annars konar kröfur á stjórnvöld, meðal annars um 42 þúsund króna árlega launahækkun, vaxtalækkun, styttingu vinnuvikunnar og afnám verðtryggingar á neytendalánum.
Stöðugleikinn í hættu
Kröfur VR og Starfsgreinasambandsins gætu reynst hættulegar verðstöðugleika ef marka má skýrslu sem Gylfi Zoëga hagfræðiprófessor við Háskóla Íslands skrifaði fyrir forsætisráðuneytið í ágúst síðastliðnum. Samkvæmt skýrslunni er svigrúm til 4% launahækkana fyrir næsta árið að óbreyttum viðskiptakjörum, en kröfur stéttarfélaganna munu leiða til þess að heildarlaun hækki um að minnsta kosti 5,6%.
Hækki laun umfram áætlaða verð-og framleiðniþróun má búast við því að Seðlabankinn hækki stýrivexti sína til að verðbólgumarkmiðinu sé náð. Enn fremur er sennilegt að vextir á neytendalánum hækki enn frekar ef kröfur VR og Starfsgreinasambandsins um afnám verðtryggingarinnar ná fram að ganga.
Vegna mikillar launahækkunar og afnáms verðtryggingarinnar yrði því erfitt að framkvæma þá vaxtalækkun sem verkalýðsfélögin krefjast án þess að verðbólga aukist verulega og rýri þannig kaupmátt nýhækkaðra launa. Rannveig Sigurðardóttir aðstoðarseðlabankastjóri benti á þetta í viðtali við kvöldfréttir Stöðvar 2, en þar sagði hún það vera lögmál að laun geti ekki hækkað umfram framleiðniaukningu.
Í skýrslu sinni nefnir Gylfi einnig þau slæmu áhrif sem of mikil verðbólga gæti haft á ferðaþjónustuna í landinu. Hátt innlent verðlag gæti þannig valdið fækkun erlendra ferðamanna, en slíkt myndi valda gengislækkun krónunnar og enn frekari verðbólgu vegna hækkun á verði innflutnings.
Með öðrum orðum gætu kröfur um of háar launahækkanir og vaxtalækkanir á sama tíma raskað viðkvæmt jafnvægi hagkerfisins og leitt til keðjuverkunar sem lætur verðbólguna rjúka upp. Fari svo gæti orðið erfitt að ná aftur þjóðarsátt um verðstöðugleika, líkt og ríkt hefur milli verkalýðshreyfingarinnar, atvinnurekenda og ríkisstjórnarinnar síðustu áratugi.
Ójafn leikur
En hvers vegna hefur tónn verkalýðshreyfingarinnar breyst svona mikið á undanförnum mánuðum og af hverju taka nýjar kröfur minna tillit til verðstöðugleika á sama tíma sem búist við meiri aðgerðum að hálfu stjórnvalda?
Fulltrúar atvinnurekenda og síðasta stjórn ASÍ hafa báðar gefið í skyn að afstöðubreytingin sé ekki í samræmi við hagtölur. Samkvæmt þeim hefur verkalýðsforystan aldrei náð jafnmiklum árangri og eftir Þjóðarsáttina árið 1990, þar sem stöðug kaupmáttaraukning fylgdi ágætum hagvexti og lágri verðbólgu.
Stefán Ólafsson, félagsfræðiprófessor við Háskóla Íslands og starfsmaður Eflingar, hefur hins vegar gagnrýnt þennan málflutning og segir kaupmáttaraukningu launþega, að teknu tilliti til ráðstöfunartekna og einkaneyslu, í raun hafa minnkað frá árinu 1990 miðað við árin á undan. Einnig bendir Stefán á að ójöfnuður hafi aukist á síðustu 28 árum og þannig hafi hlutdeild tekjulágra í heildartekjum þjóðar lækkað á tímabilinu. Í aðsendri grein á Kjarnanum í síðasta mánuði greindi Stefán einnig frá breytingum í skattbyrði á tímabilinu, en með rýrnun persónuafsláttar og ýmissa bóta auk lægri skattprósentu á fjármagnstekjur hafi hún færst frá hærri tekjuhópum og yfir á þá lægri.
Drífa Snædal tók í sama streng og Stefán í viðtali við Kjarnann síðasta mars og sagði hinn vaxandi ójöfnuð hafa rofið samfélagssáttmálann milli verkalýðshreyfingarinnar og ríkisstjórnarinnar. Enn fremur sagði Drífa að nýlegar hækkanir á launum æðstu embættismanna og ofurlaunum forstjóra fyrirtækja í einkageiranum væru sem olía á eldinn. Viðtalið má sjá í spilaranum hér að ofan.
Kjarninn hefur fjallað ítarlega um þessi mál á undanförnum dögum. Í leiðara gærdagsins benti Þórður Snær Júlíusson á að verkalýðsforystan sæki rökstuðning sinn íslenskar aðstæður sem studdar séu með rauntölum. Magnús Halldórsson fjallaði svo sérstaklega um hækkanir kjararáðs á launum þingmanna og ráðherra í leiðara sínum fyrr í vikunni á Kjarnanum, en þar benti hann á að ákvörðun stjórnvalda um að samþykkja og verja þessar hækkanir hafi átt stóran hlut í að skapa þá ólgu sem nú ríkir á vinnumarkaði.
Ýmsar leiðir mögulegar
Því er ljóst að stöðugleiki í hagkerfinu er í hættu, bæði vegna aðgerða ríkisstjórnarinnar og harðari krafna verkalýðshreyfingarinnar. Ákall stéttarfélaganna um miklar launahækkanir samhliða vaxtalækkun, banni við verðtryggingu og styttingu vinnuvikunnar gætu hæglega kynt undir verðbólgubál sem erfitt væri að slökkva. Á hinn bóginn spruttu þessar kröfur ekki upp að þurru, þær eru afleiðingar vaxandi ójöfnuðar og mikilla tekjuhækkana hinna efnameiri sem stjórnvöld samþykktu með aðgerðum og aðgerðarleysi.
Í áðurnefndri skýrslu Gylfa Zoëga eru ýmsar leiðir nefndar þar sem hægt er að komast til móts við kröfur verkalýðshreyfingarinnar án þess að ógna verðstöðugleika. Þar ber hæst að nefna vaxtalækkun með hagræðingu í bankakerfinu, þar sem samkeppni er ábótavant og vaxtamunur mun meiri en í nágrannalöndum. Einnig telur Gylfi að sporna megi við vaxandi ójöfnuði að einhverju leyti ef persónuafsláttur hækkar í samræmi við meðallaun í landinu og nefnir einnig að stytting vinnuvikunnar gæti leitt til hærri framleiðni.
Hver sem niðurstaðan verður við næstu kjaraviðræður liggur fyrir að mikið þurfi til að nýtt samkomulag muni líta dagsins ljós. Með gagnkvæmum skilningi verkalýðshreyfingarinnar, atvinnurekenda og ríkisstjórnarinnar yrði að minnsta kosti auðveldara að koma í veg fyrir mögulega þjóðarskömm með vaxtahækkunum og verðbólguskoti líkt og á níunda áratugnum.