Mynd: Birgir Þór Harðarson

Ríkisstjórnarflokkarnir græða mikið fylgi á Klaustursmálinu

Samanlagt fylgi þeirra þriggja flokka sem mynda ríkisstjórn jókst um 8,6 prósentustig eftir Klaustursmálið. Mesta fylgisaukningin er hjá Framsókn. Frjálslynda stjórnarandstöðublokkin bætir líka við sig en sameiginlegt fylgi Klausturflokkanna tveggja, Miðflokks og Flokks fólksins, helmingast.

Í könnun sem MMR birti 21. nóv­em­ber síð­ast­liðin var sam­an­lagt fylgi rík­is­stjórn­ar­flokk­anna þriggja, Sjálf­stæð­is­flokks, Vinstri grænna og Fram­sókn­ar­flokks, 38,9 pró­sent. Það var lægsta sam­an­lagða fylgi þeirra frá því að rík­is­stjórn Katrínar Jak­obs­dóttur tók við völdum 30. nóv­em­ber 2017. Allir flokk­arnir þrír áttu í vand­ræð­um. Sjálf­stæð­is­flokk­ur­inn hafði til að mynda mælst með undir 20 pró­sent fylgi í könnun sem birt­ist í nóv­em­ber, Vinstri græn höfðu tapað 40 pró­sent af fylgi sínu frá kosn­ing­unum og Fram­sókn­ar­flokk­ur­inn mæld­ist með ein­ungis 7,5 pró­sent fylgi.

Í nýj­ustu könnun MMR, sem fram­kvæmd var 5-11. des­em­ber 2018, bæta allir stjórn­ar­flokk­arnir við sig. Mestur er við­snún­ing­ur­inn hjá Fram­sókn­ar­flokkn­um, sem fer úr 7,5 pró­sentum í 12,5 pró­sent. Það er 67 pró­sent aukn­ing á milli kann­anna sem birt­ust með 23 daga milli­bili. Nú er sam­an­lagt fylgi rík­is­stjórn­ar­flokk­anna 47,5 pró­sent og jókst um 8,6 pró­sentu­stig. Það er sam­eig­in­leg fylg­is­aukn­ing um 22 pró­sent.

Ástæða þessa er ein­föld: Klaust­urs­mál­ið.

Klaust­ur­málið helm­ingar fylgið

Þann 28. nóv­em­ber síð­ast­lið­inn hófu fjöl­miðlar að birta fréttir upp úr upp­töku af sam­tali sex þing­manna, – fjórum úr Mið­flokknum og tveimur úr Flokki fólks­ins – sem tekin var upp á Klaust­ur­bar 20. nóv­em­ber. Í sam­tali þing­mann­anna, sem var tekið upp að hluta á meðan að þing­fundur stóð yfir, níð­ast þeir og hæð­ast að nafn­greindu fólki stjórn­mál­um. Þeir heyr­ast einnig stæra sig að póli­tískum hrossa­kaup­um, þing­menn Mið­flokks­ins reyna að telja þing­menn Flokks fólks­ins um að ganga til liðs við sig auk þess sem nið­ur­lægj­andi orð eru látin falla um Freyju Har­alds­dótt­ur, fyrr­ver­andi vara­þing­mann og þekktan bar­áttu­mann fyrir auknum rétt­indum fatl­aðra, og þekktan sam­kyn­hneigðan tón­list­ar­mann.

Þing­­­menn­irnir sex sem ræddu saman á fund­inum á Klaustur bar, 20. nóv­­­em­ber, voru Sig­­­mundur Dav­­íð Gunn­laugs­son, for­maður Mið­flokks­ins , Gunnar Bragi Sveins­son, vara­for­maður hans, Anna Kol­brún Árna­dótt­ir, rit­ari flokks­ins, og Berg­þór Óla­son, þing­maður Mið­flokks­ins. Með þeim voru Karl Gauti Hjalta­­­son og Ólafur Ísleifs­­­son úr Flokki fólks­ins. Þeir tveir síð­­­ast­­­nefndu hafa verið reknir úr Flokki fólks­ins, og Berg­þór og Gunnar Bragi eru farnir í leyfi. Eng­inn þing­­­manna hefur sagt af sér, og eng­inn hefur það í hyggju.

Fylgi Mið­flokks­ins gjör­sam­lega hrynur á milli kann­anna. Flokk­ur­inn var á miklu flugi í síð­ustu könnun MMR þar sem fylgi hans mæld­ist 13,1 pró­sent, sem hefði gert Mið­flokk­inn að þriðja stærsta flokki lands­ins ef kosið hefði verið á þeim tíma­punkti. Fylgi flokks­ins hafði aldrei mælst meira.

Nú, í kjöl­far Klaust­ur­máls­ins, mælist fylgið 5,9 pró­sent. Mið­flokk­ur­inn rétt næði inn á þing ef kosið yrði í dag. Flokk­ur­inn, sem stofn­aður var í aðdrag­anda síð­ustu kosn­inga og vann þar glæstan kosn­inga­sigur þegar hann fékk 10,9 pró­sent atkvæða, það mesta sem nýr flokkur hefur nokkru sinni fengið í fyrstu kosn­ingum sínum í Íslands­sög­unni, hefur aldrei mælst með jafn lítið fylgi í mæl­ingum MMR og nú.

Flokkur fólks­ins fær líka útreið og mælist með 4,2 pró­sent fylgi. Það myndi ekki duga honum til að ná inn manni ef kosið yrði í dag.

Flokk­arnir tveir hafa átt sam­leið í mörgum málum og haldið á lofti sam­bæri­legum áhersl­um. Saman er þessi blokk flokka, sem hefur legið undir ámæli um að stunda lýð­skrum í ýmsum málum og voru meðal ann­ars flokk­aðir sem popúlista­flokkar í nýlegri úttekt breska stór­blaðs­ins Guar­dian um ris slíkra í Evr­ópu, nú með 10,1 pró­sent fylgi. Hún var með 20,7 pró­sent fylgi fyrir 23 dögum síð­an. Fylgið hefur því rúm­lega helm­ing­ast.

Fram­sókn upp­lifir end­ur­nýjun líf­daga

Sá flokkur sem græðir mest fylgi á Klaust­ur­mál­inu er Fram­sókn­ar­flokk­ur­inn. Kjör­tíma­bilið hafði verið honum erfitt og fylgið mælst mjög lítið í und­an­förnum könn­un­um. Þann 21. nóv­em­ber sögð­ust 7,5 pró­sent lands­manna að þeir myndu kjósa hann. Það er ansi langt undir kjör­fylgi, sem var 10,7 pró­sent, þrátt fyrir að nið­ur­staðan í síð­ustu kosn­ingum hafi verið versta nið­ur­staða Fram­sókn­ar­flokks­ins í rúm­lega 100 ára sögu hans.

Ástæðan fyrir þess­ari stöðu var fyrst og fremst upp­gangur Mið­flokks­ins, klofn­ings­flokks fyrr­ver­andi for­manns Fram­sókn­ar­flokks­ins, Sig­mundar Dav­íðs Gunn­laugs­son­ar. Bein fylgni var milli vaxtar hans og hnign­unar Fram­sókn­ar.

Eftir Klaust­urs­málið bætir Fram­sókn­ar­flokk­ur­inn við heilum fimm pró­sentu­stigum og mælist með 12,5 pró­sent fylgi. Það sýnir að þorri þess fylgis sem tálg­ast hefur af Mið­flokknum hefur lík­ast til snúið aftur heim til Fram­sókn­ar.

Þar skiptir miklu máli fram­ganga Lilju D. Alfreðs­dótt­ur, vara­for­manns Fram­sókn­ar­flokks­ins og mennta- og menn­ing­ar­mála­ráð­herra, í kjöl­far þess að Klaust­ur­upp­tök­urnar voru gerðar að hluta til opin­ber­ar. Lilja er einn þeirra stjórn­mála­manna sem var mikið rædd, á kyn­ferð­is­legan og niðr­andi hátt, í sam­tali þing­manna Mið­flokks­ins. Á upp­tök­unum heyr­ist Gunnar Bragi meðal ann­ars segja: „Hjólum í hel­vítis tík­ina“ þegar rætt er um Lilju.

Lilja fór í við­tal í Kast­ljósi 5. des­em­ber síð­ast­lið­inn sem hefur mælst afar vel fyrir þvert á póli­tískar lín­ur. Þar var hún mjög afger­andi í afstöðu sinni gagn­vart fram­ferði Klaust­ur­fólks­ins., sagði tal þeirra vera „al­gjört ofbeldi“ og að hún væri „of­boðs­lega“ ósátt við það.

Lilja D. Alfreðsdóttir, mennta- og menningamálaráðherra, var einn þeirra stjórnmálamanna sem rætt var um á niðrandi hátt á Klausturbar.
Mynd: Hringbraut

Vinstri græn, sem leiða rík­is­stjórn, bæta einnig veru­lega við sig á örfáum vik­um. Fylgi flokks­ins mælist nú 12,9 pró­sent en var áður 10,3 pró­sent. Flokk­ur­inn er enn langt frá kjör­fylgi sínu, en hann fékk 16,9 pró­sent í kosn­ing­unum í októ­ber 2017.

Píratar bæta umtals­verðu við sig

Hin blokkin í stjórn­ar­and­stöðu, sú sem skipuð er frjáls­lynd­ari flokk­um, nýtur þess líka í nýju könn­un­inni að Mið­flokk­ur­inn og Flokkur fólks­ins tapi veru­legu fylgi. Sam­eig­in­legt fylgi Sam­fylk­ing­ar, Pírata og Við­reisnar var 36,2 pró­sent í lok nóv­em­ber en er nú 38,9 pró­sent. Í síð­ustu kosn­ingum fékk þessi blokk 28 pró­sent atkvæða. Sam­an­lagt fylgi flokk­anna þriggja hefur því auk­ist um 39 pró­sent á rúmu ári.

Fylgi Við­reisnar stendur nán­ast í stað og mælist 8,5 pró­sent og fylgi Sam­fylk­ing­ar­inn­ar, sem hefur sjálf þurft að takast á við hneyksl­is­mál tengd núver­andi og fyrr­ver­andi þing­mönnum flokks­ins, bætir lít­il­lega við sig milli kann­ana. Hún myndi fá 16,9 pró­sent atkvæða ef kosið yrði í dag sem myndi gera flokk­inn að næst stærsta flokki lands­ins.

Sá þriðji stærsti yrði hins vegar Pírat­ar, sem á eftir Fram­sókn eru mestu hástökkvar­arnir frá því að síð­asta könnun MMR var birt. Fylgi flokks­ins hefur risið úr 11,3 í 14,4 pró­sent.

Við þurfum á þínu framlagi að halda

Þú getur tekið beinan þátt í að halda úti öflugum fjölmiðli.

Við sem vinnum á ritstjórn Kjarnans viljum hvetja þig til að vera með okkur í liði og leggja okkar góða fjölmiðli til mánaðarlegt framlag svo við getum haldið áfram að vinna fyrir lesendur, fyrir fólkið í landinu.

Kjarninn varð níu ára í sumar. Þegar hann hóf að taka við frjálsum framlögum þá varð slagorðið „Frjáls fjölmiðill fyrir andvirði kaffibolla“ til og lesendur voru hvattir til að leggja fram í það minnsta upphæð eins kaffibolla á mánuði.

Mikið vatn hefur runnið til sjávar á þeim níu árum sem Kjarninn hefur lifað. Í huga okkar á Kjarnanum hefur þörfin fyrir fjölmiðla sem veita raunverulegt aðhald og taka hlutverk sitt alvarlega aukist til muna.

Við trúum því að Kjarninn skipti máli fyrir samfélagið.

Við trúum því að sjálfstæð og vönduð blaðamennska skipti máli.

Ef þú trúir því sama þá endilega hugsaðu hvort Kjarninn er ekki allavega nokkurra kaffibolla virði á mánuði.

Vertu með okkur í liði. Þitt framlag skiptir máli.

Ritstjórn Kjarnans: Sunna Ósk Logadóttir, Þórður Snær Júlíusson, Erla María Markúsdóttir, Arnar Þór Ingólfsson, Eyrún Magnúsdóttir og Grétar Þór Sigurðsson.


Já takk, ég vil styrkja Kjarnann!
Meira eftir höfundinnÞórður Snær Júlíusson
Meira úr sama flokkiFréttaskýringar