18. desember sl. hófust í Landsréttinum í Viborg á Jótlandi réttarhöld. Stefnandinn er Finn Andersen-Fruedahl landeigandi, búsettur í Møborg á Vestur-Jótlandi en þar eð sá stefndi, bjórinn, kann hvorki að lesa né skrifa, hvað þá að hlýða, er danska Umhverfisstofnunin fulltrúi hans við réttarhöldin.
Landeigandinn tapaði málinu fyrir bæjarrétti en ætlar ekki að gefast upp fyrir bjórnum. Eða betur sagt bjórunum, því kæran beinist gegn fleirum en einum.
Kom fyrst til Danmerkur fyrir 10 – 12 þúsund árum
Talið er að bjórinn (Castor fiber á latínu, evrópski bjórinn) hafi komið frá Þýskalandi til Danmerkur um það leyti sem síðustu ísöld lauk eða fyrir 10 til 12 þúsund árum. Hann var ekki eini landneminn því ásamt honum komu birnir, elgir og líklega fleiri dýr. Sérfræðingar telja öruggt að bjórinn hafi verið víðsvegar um Danmörku, þar á meðal á Borgundarhólmi. Ekki er vitað um stærð stofnsins, en talið að hann hafi verið mjög stór.
Bjórinn er grænmetis- og trjáæta nærist einkum á berki og laufblöðum, hrifnastur af birki. Hann fellir tré til að ná sér í fæðu, og stíflugerðarefni, velur gjarna lítil og grannvaxin tré en vílar ekki fyrir sér að fella tré allt að sextíu sentimetrum í þvermál. Þegar hann ræðst til atlögu við stærri tré nagar hann oftast mjög nákvæmlega út frá „byrjunarreitnum“ í hring bæði ofan og neðan þannig að nagsvæðið líkist helst stundaglasi. Sérfræðingar róma snilli hans við þessa iðju og segja nákvæmni hans við nagið aðdáunarverða.
Bjórinn vill helst halda sig á sama svæði en flytur sig til ef nauðsyn krefur, til dæmis vegna fæðuöflunar. Bjórinn gætir þess ætíð að inngangurinn að „heimilinu“ sé undir vatnsborði, þannig koma engir óboðnir og óæskilegir gestir í heimsókn.
Var næstum útrýmt fyrir þúsund árum
Fyrir um það bil þúsund árum var bjórnum útrýmt í Danmörku eins og reyndar mörgum öðrum löndum. Dýrin voru eftirsótt vegna kjötsins og ekki síður feldsins (bjórsins) sem er bæði þykkur og hlýr.
Snemma á síðustu öld var bjórinn alfriðaður í Evrópu, þá var einungis vitað um tilvist hans í Noregi, Rússlandi, Þýskalandi og Frakklandi, lítill stofn í hverju landi. Eftir friðunina náði stofninn sér smám saman á strik og telur nú í heild um það bil 350 þúsund dýr.
18 dýr til Danmerkur árið 1999
Dönsk stjórnvöld fengu, árið 1999, leyfi hjá þýskum stjórnvöldum til að flytja níu bjórpör, sem haldið höfðu til við Saxelfi, til Vestur-Jótlands, á svæði við Klosterhede. Röksemdin fyrir því að fá þessi dýr til Danmerkur var fyrst og fremst sú að auka fjölbreytni dýralífsins. Nokkrum árum síðar voru nokkur dýr, einnig frá Þýskalandi, flutt til Norður-Sjálands.
Landeigandi fer í mál
Þegar bjórarnir átján voru fluttir til Vestur-Jótlands var þeim komi fyrir á stóru náttúruverndarsvæði í eigu ríkisins við Klosterhede. Hafi það verið ætlun stjórnvalda að bjórarnir héldu sig einungis á þessari ríkisjörð og ætu og nöguðu einungis tré í eigu danska ríkisins varð fljótlega ljóst að bjórarnir virtu slíkar hugmyndir að vettugi.
Fjórum árum eftir komuna til Klosterhede voru þeir farnir að sækja í tré og runna á landi Finn Andersen- Fruedahl, þrettán hektara trjáræktarsvæði, skammt frá Klosterhede. Hann kvartaði til dönsku Umhverfisstofnunarinnar, starfsmaður þaðan kom og staðfesti að kvörtunin væri á rökum reist, bjórarnir létu sér ekki nægja ríkisgróðurinn heldur sæktu í tré á landareign Finn Andersen- Fruedahl.
Þegar landeigandinn spurði hvað væri til ráða var fátt um svör, annað en að bjórinn væri friðuð skepna. Ítrekaðar kvartanir Finn Andersen- Fruedahl báru engan árangur, bjórarnir kunnu bersýnilega vel við trjágróður hans og föllnu og nöguðu trjánum fjölgaði sífellt. Að lokum fór svo að Finn Andersen-Fruedahl var nóg boðið og ákvað að stefna bjórunum, eða réttara sagt fulltrúa þeirra, danska ríkinu, og fara fram á bætur.
Tapaði í bæjarréttinum
Stefna Finn Anderen- Fruedahl gegn dönsku Umhverfisstofnuninni (fyrir hönd ríkisins og bjóranna) kom fyrir Bæjarrétt í Holstebro fyrir rúmu ári. Þar tapaði Finn Andersen- Fruedahl málinu og í niðurstöðu dómara sagði að þar sem bjórinn væri friðuð skepna bæri ríkinu ekki að greiða bætur vegna skemmda og tjóns sem hann kynni að valda. Við réttarhöldin kom fram að ef Finn Andersen- Fruedahl hefði sett girðingar á tiltekna staði á landareigninni, væri ólíklegt að bjórarnir hefðu valdið tjóni á trjágróðri.
Landeigandinn gaf lítið fyrir þessa röksemdafærslu, sagði engar sannanir fyrir því að bjórarnir létu af háttsemi sinni þótt einhverjar girðingar væru til staðar. Auk þess hefði aldrei verið á það minnst að hann þyrfti að girða tiltekin svæði á landareigninni. Hann myndi áfrýja niðurstöðu Bæjarréttarins.
Ætlar ekki að gefast upp
Eins og áður var getið hófust málaferlin fyrir Landsrétti í Viborg 18. desember. Finn Andersen- Fruedahl sagðist í viðtali við Lemvig Folkebladet vera mjög bjartsýnn á að Landsrétturinn myndi snúa niðurstöðu Bæjarréttarins við.
Dómurinn í Landsrétti verður kveðinn upp 15. janúar 2019.