Nágrannaslagur í Texas, 8. desember 2018. Rafmagnað andrúmsloft er í American Airlines Center höllinni í Dallas.
Houston Rockets er með yfirhöndina í leiknum þegar tvær og hálf mínúta eru eftir, 102 - 94. Þá tók einn efnilegasti körfuboltamaður heimsins til sinna ráða.
Dró fram hvert vopnið á fætur öðru. Þriggja stiga skot, gegnumbrot og mögnuð fótavinna og boltameðferð.
Á þessum rúmlega tveimur mínútum skoraði Slóveninn Luka Doncic, sem verður tvítugur 28. febrúar næstkomandi, ellefu stig og tryggði glæstan sigur á nágrönnunum í Rockets, með sjálfan James Harden, besta leikmann síðasta keppnistímabils (MVP), í broddi fylkingar.
Doncic er sonur Sasa Doncic, goðsagnar í körfuboltanum í Slóveníu. Hann lék með landsliði Slóvena árum saman, á sautján ára ferli sem leikmaður á árunum 1993 til 2010. Hann þjálfar nú liðið þar sem hann hóf feril sinn, Ilirija í höfuðborginni Ljúbljana.
Sem nýliði í deildinni hefur Doncic verið hreint stórkostlegur á fyrri helmingi keppnistímabilsins í NBA deildinni. Hann hefur að meðaltali skorað rúmlega 20 stig í leik og verið í lykilhlutverki hjá liði sínu. Fá dæmi eru um að leikmaður sem er ekki orðinn tvítugur hafi jafn mikil áhrif í NBA og Doncic hefur haft.
Nefna má helst Lebron James og Kobe Bryant, tvo af bestu leikmönnum allra tíma, en þeir komu báðir beint úr High School inn í deildina, 18 ára gamlir. Á fyrsta keppnistímabili sínu skoraði James rúmlega 20 stig í leik, svo dæmi sé tekið, og Bryant um 12 stig.
Doncic er nú í öðru sæti yfir þá sem hafa fengið flest atkvæði fyrir stjörnuleikinn 15. febrúar, sem fram fer í Charlotte, á eftir Lebron James. Segja má að hálfgert Doncic æði hafi gripið um sig meðal körfuboltaaðdáenda í Bandaríkjunum. Allir vilja sjá hann leika listir sínar.
Lítur ekki út eins og nýliði
Það sem hefur komið mörgum á óvart er hversu þroskaður körfuboltamaður Doncic er. Hann þykir afburða leikmaður og búa yfir fjölbreyttum sóknarafbrigðum. Tímasetningar ákvarðana í leik hans eru eins hann hafi spilað í mörg ár í deildinni.
Ástæðan kann að vera sú að hann hefur mikla reynslu miðað við aldur. Hann hefur verið valinn besti leikmaður (MVP) Evrópudeildararinnar nú þegar, þegar hann lék með Real Madrid, og var orðinn lykilmaður í sterku liði Slóvena þegar hann var 17 ára.
Doncic sló í gegn á EM í Finnlandi 2017. Þá sást langar leiðir að þarna var sérstakur leikmaður á ferðinni. Gegn Íslendingum, í byrjun leiks, sýndi hann mátt sinn. Meðal annars lenti Hlynur okkar Bæringsson í því að dekka hann í eitt skiptið og Doncic færði hann áreynslulaust nokkra metra í burtu frá sér, steig fimlega skref aftur á bak utan þriggja stiga línunnar - eitthvað sem fáir körfuboltamenn gera betur en hann - og setti niður þriggja stiga skot.
Minnir á Petrovic
Félagi Doncic í landsliði Slóvena, Goran Dragic, sem er einn lykilmanna Miami Heat, er einn þeirra sem hefur ekki látið velgengni Doncic koma sér neitt á óvart. „Ég hef fylgst með honum síðan hann var krakki og velgengni hans kemur mér ekkert á óvart,“ sagði Dragic í viðtali í desember. Hann bætti við að Doncic ætti án nokkurs vafa eftir að verða einn besti körfuboltamaður heimsins. Hann væri nú þegar búinn að þagga niður í efasemdarröddunum sem heyrðust þegar ljóst varð, að Dallas væri að veðja þetta ungan pilt frá Slóveníu.
Luka Doncic is the youngest player with at least 25 points and 10 assists since LeBron James in 2004. pic.twitter.com/OTivsU5v8r
— ESPN (@espn) January 12, 2019
Doncic virðist hafa burði til þess að skrifa nýjan kafla í þeirri sögu, þó enn sem komið er hafi enginn Evrópubúi náð viðlíka árangri í NBA deildinni og Þjóðverjinn Dirk Nowitzki, félagi Doncic hjá Dallas. Hann er nú að verða 41 árs gamall og hefur spilað í deildinni í rúmlega tvo áratugi, en hann kom inn í deildina sem nýliði 1998. Grikkinn Giannis Antetokounmpo er á góðri leið með að verða goðsögn einnig, enda einn besti leikmaður deildarinnar þessi misserin, á sínu sjötta tímabili.
Það verður að koma í ljós hvort Doncic endist jafn lengi og Nowitzki í fremstu röð en hann hefur burði til að ná alla leið á toppinn.
Uppfært: Lebron James skoraði rúmlega 20 stig að meðaltali í leik, þegar hann kom inn í deildina, en ekki rúmlega 18 stig, eins og stóð í fyrstu útgáfu. Þetta hefur nú verið leiðrétt.