Rúmlega einn Ísafjörður af erlendum borgurum bæst við Reykjanesbæ
Erlendum ríkisborgurum hélt áfram að fjölga gríðarlega hratt í fyrra. Fjöldi þeirra hefur rúmlega tvöfaldast á sjö árum. Mest er fjölgunin áfram á Suðurnesjum og í Reykjavík. Ef allir Pólverjar sem hér búa byggju í eigin sveitarfélagi væri það fjórða fjölmennasta sveitarfélag landsins.
Næstum fjórði hver íbúi í Reykjanesbæ þann 1. desember síðastliðinn var erlendur ríkisborgari. Alls voru íbúar sveitarfélagsins 18.888 og þar af voru erlendir ríkisborgarar 4.575, eða 24,2 prósent. Í lok árs 2011 voru 1.220 erlendir ríkisborgarar í sveitarfélaginu og þeir 8,6 prósent íbúa. Á sjö árum hefur erlendum ríkisborgurum sem búa Í Reykjanesbæ því fjölgað um 3.355 og fjöldi þeirra tæplega fjórfalt meiri en hann var þá. Ekkert sveitarfélag á landinu hefur upplifað jafn hraða og mikla aukningu og Reykjanesbær á undanförnum árum.
Þetta kemur fram í nýjum tölum Þjóðskrár Íslands um fjölda erlendra ríkisborgarar sem búa á Íslandi.
Mikil fjölgun á öllum Suðurnesjum
Fjölgun útlendinga er yfirhöfuð mjög mikil á Suðurnesjum. Alls bjuggu 6.050 erlendir ríkisborgarar á svæðinu í byrjun desember í fyrra og voru þá orðnir 22,3 prósent allra íbúa þess. Í kringum 19 prósent íbúa Suðurnesjabæjar, sem myndaður er úr Garði og Sandgerði, og Voga eru erlendir ríkisborgarar og um 17 prósent íbúa Grindavíkur.
Í lok árs 2011 var fjöldi erlendra ríkisborgara á Suðurnesjum 1.890. Slíkum hefur því fjölgað um 4.160 á sjö árum. Það er rúmlega einn Ísafjarðarbær, en íbúar hans voru 3.807 1. desember síðastliðinn.
Ástæðan er fyrst og síðast sú mikla aukning í umsvifum sem orðið hefur á Keflavíkurflugvelli sem staðsettur er á Suðurnesjum. Ferðamönnum sem heimsækja Íslands hefur endað fjölgað úr um 500 þúsund árið 2010 og í um 2,5 milljónir í fyrra, samkvæmt spám.
Fjöldi erlendra tvöfaldast á sjö árum
Alls voru 44.276 erlendir ríkisborgarar búsettir hérlendis í byrjun árs 2019. Í lok árs 2011 voru þeir 20.930 talsins og því hefur fjöldi þeirra rúmlega tvöfaldast á sjö árum. Saman myndu erlendu ríkisborgararnir geta myndað næst fjölmennasta sveitarfélag landsins, en í dag er það Kópavogur með 36.930 íbúa.
Árið 2017 var algjört metár í fjölgun erlendra ríkisborgara sem hófu búsetu hérlendis en þá fjölgaði slíkum um 7.570 á tólf mánuðum. Í fyrra var fjölgunin hægari, en þá fjölgaði þeim um 6.326. Það er samt sem áður næst mesta fjölgun erlendra ríkisborgara innan árs í Íslandssögunni.
Alls fjölgaði þeim sem búsettir eru á Íslandi um 8.834 í fyrra. Það þýðir að erlendir ríkisborgarar voru ábyrgir fyrir um 72 prósent af fjölgun íbúa landsins á árinu 2018.
Lykiltölur um erlenda ríkisborgara:
- Erlendir ríkisborgarar á Íslandi í byrjun árs 2019: 44.276
- Erlendir ríkisborgarar í Reykjavík: 18.435 eða 14,3 prósent allra íbúa
- Erlendir ríkisborgarar í Reykjanesbæ: 4.575 eða 24,2 prósent allra íbúa
- Erlendir ríkisborgarar í Garðabæ: 724 eða 4,4 prósent allra íbúa
- Pólverjar sem búa á Íslandi: 19.269 eða fleiri en búa á Akureyri og Reykjanesbæ
Heimild: Þjóðskrá Íslands
Langfjölmennasti hópurinn sem hér býr eru Pólverjar. Þeir eru alls 19.269 talsins og fjölgaði um rúmlega 2.200 í fyrra. Það þýðir að 44 prósent allra erlendra ríkisborgara sem búa á Íslandi eru með pólskt ríkisfang.
Fjölgun þeirra hefur verið mjög hröð. Í byrjun árs 1998 bjuggu 820 einstaklingar sem fæddir voru í Póllandi hérlendis. Fjöldi þeirra hefur því tæplega 24faldast á rúmlega 20 árum.
Ef allir Pólverjarnir sem búa hérlendis byggju saman í einu sveitarfélagi væri íbúafjöldi þess hærri en á Akureyri (18.903) í Reykjanesbæ (18.888) og Garðabæ (16.277). Pólska sveitafélagið væri því fjórða stærsta sveitarfélag landsins.
Reykjavík tekur við langflestum
Mesta fjölgun erlendra ríkisborgara er þó áfram sem áður á höfuðborgarsvæðinu. Erlendir ríkisborgarar þess eru nú 27.213 talsins og fjölgaði um 4.013 í fyrra. Langflestir þeirra settust að í höfuðborginni Reykjavík, en þar fjölgaði um 2.795 útlendinga í fyrra og þeir eru nú 18.435 talsins. Nú eru 14,3 prósent íbúa Reykjavíkur erlendir ríkisborgarar en þeir voru 12,4 prósent íbúa borgarinnar í byrjun árs 2018. Til samanburðar var fjöldi erlendra ríkisborgara í Reykjavík 9.190 í lok árs 2011. Frá þeim tíma hefur fjöldi erlendu ríkisborgaranna tvöfaldast. Sú aukning hefur að mestu átt sér stað á síðustu tveimur árum, 2017 og 2018. Á þeim hefur árum einum saman hefur erlendum ríkisborgurum fjölgað um 5.935, sem þýðir að 65 prósent af aukningunni sem átt hefur sér stað á síðustu sjö árum varð árin 2017 og 2018.
Íbúar Reykjavíkur eru 56,4 prósent af heildaríbúafjölda höfuðborgarsvæðisins en þar búa samt 68 prósent allra erlendra ríkisborgara sem búa á svæðinu. Eina sveitarfélag höfuðborgarsvæðisins utan Reykjavíkur sem nær að vera erlenda ríkisborgara sem yfir tíu prósent íbúa sinna er Hafnarfjörður (10,6 prósent).
Fæstir útlendingar eru að venju í Garðabæ, en 4,4 prósent íbúa sveitarfélagsins eru erlendir ríkisborgarar. Þeim fjölgaði úr 640 í 724 í fyrra. Á Seltjarnarnesi eru síðan 7,4 prósent íbúa erlendir, og þeim fjölgaði úr 330 í 347 á árinu 2018. Mosfellsbær er með svipað hlutfall útlendinga á meðal íbúa, alls 7,8 prósent, og þar fjölgaði þeim úr 650 í 896 í fyrra.
Fáir á Akureyri
Annarsstaðar á landinu er ekki jafn mikil og hröð aukning eins og á höfuðborgarsvæðinu og Suðurnesjum. Þar búa þrír af hverjum fjórum erlendum ríkisborgurum sem sest hafa hér að.
Utan suðvesturhornsins er hlutfall þeirra hæst á Vestfjörðum þar sem 15,5 prósent íbúa eru erlendir. Lægst er það að Norðurlandi vestra þar sem 6,8 prósent íbúa eru útlendingar, eða 491 af 7.227 íbúum alls.
Á Norðurlandi eystra búa alls 2.296 útlendingar sem þýðir að 7,5 prósent íbúa þar eru slíkir. Langfjölmennasta sveitarfélagið þar er Akureyri, þar sem 937 útlendingar búa. Það þýðir að einungis fimm prósent af 18.903 íbúum þess eru útlendingar. Til samanburðar er næst fjölmennasta sveitarfélag svæðisins Norðurþing. Þar búa 3.050 manns og þar af 493 útlendingar. Það þýðir að 16,2 prósent íbúa Norðurþings eru erlendir ríkisborgarar.
Það sveitarfélag sem er með hæst hlutfall erlendra ríkisborgara innan sinna bæjarmarka er þó Mýrdalshreppur á Suðurlandinu. Alls eru 40,2 prósent íbúa hans erlendir ríkisborgarar, en þess ber þó að geta að þar búa 697 manns. Útlendingarnir eru því einungis 280 talsins.
Lestu meira:
-
16. desember 2022Segir Múlaþing ekki vera að útiloka flóttafólk frá öðrum ríkjum en Úkraínu
-
14. desember 2022Hlutverk RÚV ekki „að mála opinbera embættismenn upp sem einhverjar grýlur“
-
13. desember 2022„Í alvörunni vinna engar gribbur hjá Útlendingastofnun“
-
9. desember 2022Segja stjórnarmeirihlutann stilla öryrkjum upp á móti útlendingum
-
8. desember 2022Leggja til að fjölskyldur sem ekki var hægt að senda úr landi fái dvalarleyfi
-
6. desember 2022„Þau hefðu bara átt góðan séns á því að fá hæli á Íslandi“
-
17. nóvember 2022Ítalskir lögregluþjónar hafi undrast komu Antons og Viktoríu
-
17. nóvember 2022Fáum verið vísað frá Noregi og Danmörku til Grikklands á grundvelli verndar þar
-
16. nóvember 2022Telja að heimilislausum muni fjölga og mansal aukast ef útlendingalögum verði breytt
-
15. nóvember 2022Svona varð ég „glæpamaður“ á Íslandi