Svona ætlar ríkisstjórnin að leysa húsnæðisvandann
Átakshópur forsætisráðherra um bætta stöðu á húsnæðismarkaði hefur skilað 40 tillögum til úrbóta. Þær fela m.a. í sér aukin stofnfjárframlög í almenna íbúðakerfið, auknu samstarfi um frekari uppbyggingu húsnæðis fyrir tekjulága og hröðun á lagningu Borgarlínu. Þá stendur til að einfalda regluverk, lækka byggingarkostnað og auka leiguvernd.
Átakshópur sem forsætisráðherra skipaði um aukið framboð á íbúðum og aðrar aðgerðir til að bæta stöðu á húsnæðismarkaði hefur skilað af sér tillögum. Þær voru kynntar á fréttamannafundi í Hannesarholti klukkan 14 í dag. Skýrslunnar hefur verið beðið með umtalsverðri eftirvæntingu enda þykja mögulegar aðgerðir yfirvalda í húsnæðismálum vera lykilbreyta í því að höggva á þann hnút sem er til staðar í kjaraviðræðum. Fulltrúar stórra launþegahreyfinga hafa ítrekað sagt að ríkið verði að koma að borðinu í þeim viðræðum með aðgerðir í húsnæðis-, skatta- og bótamálum ef draga eigi úr þeim launakröfum sem fram hafa verið settar í kröfugerðum. Því veltur mikið á því hver viðbrögð verkalýðshreyfingarinnar verða við tillögunum.
Í tengslum við vinnu hópsins var unnin greining á þörf fyrir íbúðir á landsvísu. Niðurstaðan var sú að óuppfyllt íbúðaþörf á landinu öllu sé nú á bilinu fimm til átta þúsund íbúðir. Mikil uppbygging sé hins vegar fyrirhuguð á næstu árum og er áætlað að um tíu þúsund íbúðir verði byggðar á árunum 2019 til 2021. Það muni skila því að íbúðaþörf muni minnka, en verði samt sem áður um tvö þúsund í byrjun árs 2022.
Fyrir liggur að mikið af þeim íbúðum sem nú eru í byggingu henta ekki þeim hópum sem eru í mestum vandræðum á húsnæðismarkaði, þ.e. tekju- og eignalágum. Til merkis um það er til að mynda stór hluti lítilla íbúða sem eru í byggingu á höfuðborgarsvæðinu í hverfum þar sem fermetraverð er hvað hæst. Í sveitarfélögum höfuðborgarsvæðisins þar sem fermetraverð er lægra eru hins vegar byggðar stærri íbúðir, sem henta viðkvæmasta hópnum ekki heldur.
Hópurinn hóf störf 5. desember síðastliðinn. Hann skipuðu fulltrúar heildarsamtaka á vinnumarkaði, fulltrúar sveitarfélaga og fulltrúar forsætis-, fjármála- og efnahags- og félagsmálaráðuneytis. Formenn hópsins voru Anna Guðmunda Ingvarsdóttir, aðstoðarforstjóri Íbúðalánasjóðs, og Gísli Gíslason, hafnarstjóri Faxaflóahafna.
Tillögurnar sem hópurinn setur fram eru 40 talsins í sjö mismunandi flokkum. Að uppistöðu er um að ræða tillögur sem hafa áður komið fram í umræðunni um húsnæðisvandann, annað hvort formlega eða óformlega, eða eru þegar komnar í framkvæmd að einhverju leyti. Hér að neðan verða tillögur hvers flokks raktar sérstaklega.
Almennar íbúðir
Almenna íbúðakerfið er tilraun til að endurreisa einhvern vísi að félagslega húsnæðiskerfinu sem var aflagt undir lok síðustu aldar með þeim afleiðingum að félagslegum íbúðum fækkaði um helming milli áranna 1998 og 2017.
Almennar íbúðir fá stofnframlög samkvæmt lögum og tilgangur þeirra er að auka húsnæðisöryggi efnaminni fjölskyldna. Hugmyndin er að skapa framboð af íbúðum sem hægt er að leigja þannig að kostnaðurinn verði ekki umfram 25 prósent af tekjum.
Í skýrslunni kemur skýrt fram að hjá Bjargi íbúðafélagi, sem er stórtækast í uppbyggingu almennra íbúða, sé það þannig að umsækjendur séu margir hverjir það tekjulágir að það markmið náist ekki. Til að ýta húsnæðiskostnaði þeirra niður fyrir fjórðung af tekjum þá þarf annað hvort hagkvæmari fjármögnun á uppbyggingu húsnæðisins eða að hækka stofnframlagið.
Tillögur hópsins í þessum flokki eru nokkrar. Hann leggur til að að ríki og sveitarfélög auki stofnframlög sín til almennra íbúða á næstu árum, að verkefni sem eru í námunda við góðar almenningssamgöngur verði sett í forgang við ráðstöfun slíkra framlaga, að lögfesta skyldu sveitarfélaga til að taka þátt í uppbyggingu á almennum leiguíbúðum og að ráðstafa í skipulagi fimm prósent af byggingamagni á nýjum reitum til uppbyggingar á félagslegu leiguíbúðahúsnæði., að tekjumörk þeirra sem geta nýtt sér almenna íbúðakerfið verði endurskoðuð og muni taka mið af tveimur lægstu tekjufimmtungum, að fjármagnskostnaður stofnframlaga verði lækkaður, að stærri hluti þeirra komi til útgreiðslu við samþykkt umsóknar og að stofnframlagshöfum verði heimiluð að fjármagna sig með útboði sértryggðra skuldabréfa.
önnur uppbygging fyrir tekjulága
Þá verður leitað eftir samstarfi stéttarfélaga, Samtaka atvinnulífsins og lífeyrissjóða um fjármögnun á húsnæðisfélaginu Blæ, sem er óhagnaðardrifið leigufélag sem stofnað var af ASÍ og BSRB til að tryggja framboð á viðunandi húsnæði á viðráðanlegu verði fyrir millitekjuhópa til leigu eða kaups.
Engin útfærsla er þó lögð til um hvernig það félag verði fjármagnað en gert er ráð fyrir því að óhagnaðardrifin húsnæðisfélög verði hluti af uppbyggingu húsnæðismarkaðar á næstu árum, meðal annars með því að koma að uppbyggingu íbúða sem henta úrræðum stjórnvalda um sértækar aðgerðir til að auðvelda ungu og tekjulágu fólki að kaupa sér íbúðarhúsnæði.
Leiguvernd
Um 35 þúsund heimili á Íslandi eru á leigumarkaði og heimilum sem eru á honum fjölgaði um 60 prósent milli áranna 2006 og 2016 á meðan að heildarfjöldi heimila í landinu jókst um 14 prósent. Því liggur fyrir að þeim sem eru á leigumarkaði hefur fjölgað gríðarlega á örfáum árum og flestir þeirra sem þar eru myndu helst ekki vilja vera á þeim markaði.
Ástæða þess er tvíþætt: annars vegar er húsnæðisöryggi mun minna á leigumarkaði en eignamarkaði og hins vegar hefur leiguverð hækkað mikið á undanförnum árum sem hefur komið verst við tekjulægstu hópa samfélagsins. Þá hópa sem þurfa að vera á leigumarkaði.
Tillögur átakshópsins miða að því að auka leiguvernd og tryggja þar með öruggari leigumarkað. Hann leggur til að ákvæði húsaleigulaga verði endurskoðuð þannig að réttarstaða leigjenda verði bætt, að hafið verði fræðsluátak um réttindi og skyldu leigjenda og leigusala, að áhersla verði lögð á skráningu leigusamninga í opinbera gagnrunna, að sveigjanleiki í útleigu á hluta húsnæðis verði aukinn, veita sveitarfélög um heimil til að breyta flokkun íbúða og auka stuðning við hagsmunasamtök leigjenda.
Skipulags- og byggingarmál
Hópurinn telur að stórauka þurfi samvinnu stjórnvalda og annarra sem koma að skipulags-, byggingar- og húsnæðismálum, meðal annars með því að auka þátt rafrænnar stjórnsýslu. Þá þurfi að ráðast í sértækar aðgerðir til að lækka byggingarkostnað og að sveitarfélögum verði gert heimilt að setja skilyrði um hlutfall leiguhúsnæðis líkt og þekkist í Danmörku. Í skýrslunni segir að fyrir liggi „að talsverður fjöldi fólks býr við óviðunandi aðstæður í ósamþykktu og óskráðu húsnæði og heimilisleysi hefur aukist til muna. Nauðsynlegt er að bregðast við þessari stöðu og í því skyni er lagt til að heimildir í lögum fyrir búsetuúrræði sem geti gagnast til skamms tíma verði auknar“.
Hópurinn leggur til að myndaður verði samstarfsvettvangur stjórnvalda og annarra hagsmunaaðila til að auka yfirsýn yfir skipulags- og byggingarmál og rafræna stjórnsýslu, að ráðist verði í einföldun á regluverki skipulags- og byggingarmála, að hið flókna ferli á breytingum á deiliskipulagi verði einfaldað, að sveigjanleiki í deiliskipulagi og skipulagsmálum verði aukinn, að ákvæði byggingarreglugerðar verði færð nær því sem þekkist á Norðurlöndunum og að hönnunargögnum verði skilað rafrænt, til dæmis í gegnum byggingargátt.
Þá er lagt til að mat á þörf fyrir rýni hönnunar og framkvæmdaeftirlit verði látið styðjast við ákveðna flokkun mannvirkja, að komið verði á útvistun byggingaeftirlits að fyrirmynd Norðmanna, að í skipulagslöggjöf verði skilgreint og heimilt að útbúa íbúðarhúsnæði til skammtímanota á athafnasvæðum, að endurgreiðsla virðisaukaskatts af vinnu á verkstað verði aukin í 100 prósent og að sveitarfélögum verði tryggðar heimildir í lögum til að gera kröfu um að allt að 25 prósent af byggingarmagni samkvæmt nýju deiliskipulagi verði fyrir almennar íbúðir, félagslegar íbúðir eða aðrar leiguíbúðir.
Samgöngur
Hópurinn kemst að þeirri niðurstöðu að það þurfi að huga að hagkvæmri samgönguþjónustu með auknu og betra framboði á almenningssamgöngum. ÞAð dragi úr umhverfisáhrifum, kostnaði við bílastæði og samgöngukostnaði íbúa.
Hann leggur því til að uppbygging leiguíbúða fyrir tekjulága taki fyrst og fremst mið af þörfum fjölskyldna og einstaklinga með tilliti til atvinnu og hagkvæmni búsetu, að uppbyggingu borgarlínu verði hraðað í ljósi mikillar uppbyggingar íbúa á höfuðborgarsvæðinu og vaxtasvæðum á næstu árum, að framkvæmdum á stofnbrautum umhverfis höfuðborgarsvæðið verði hraðað, að gjaldsvæði almenningssamgangna á vaxtarsvæðum verði samræmd og einfölduð og að tekinn verði upp sérstakur samgöngupassi sem veittur sé námsmönnum og leigjendur undur tekju- og eignarmörkum almenna húsnæðiskerfisins.
Ríkislóðir
Hópurinn horfir, líkt og aðrir hafa áður gert, til Keldna og Keldnaholts, stórs landsvæðis innan borgarmarka Reykjavíkur sem er í eigu ríkisins, sem þróunarsvæðis fyrir íbúðarbyggð.
Hann leggur til að ríkið og Reykjavíkurborg nái samkomulagi um að hefja skipulagningu Keldnalands, m.a. með markmið um félagslega blöndun, og semji í framhaldi um eignarhald og framkvæmdir. Tekið verði mið af því að hefja skipulagningu á landinu á árinu 2019 og að til byggingar komi samhliða öðrum áfanga Borgarlínu.
Upplýsingamiðlun
Að lokum leggur hópurinn til að utanumhald og söfnun upplýsinga um húsnæðismál verði bætt. Þær upplýsingar liggi nú og víða og séu oft ósamanburðarhæfar eða óaðgengilegar.
Lagt er til að samstarf opinberra stofnana sem safna slíkum upplýsingum verði aukið, að notkun byggingargáttar Mannvirkjastofnunar verði gerð að lagaskyldu, að stjórnvöld og sveitarfélög leggi sérstaka áherslu á vinnslu húsnæðisáætlana og að hafið verði átak til að safna upplýsingum um fjölda óskráðra íbúða og að hagrænir hvatar sem leiða til þess að eigendur óskráðra íbúða sjái sér haf í því að íbúð komi fram í opinberum skráningum verði skilgreindir.
Þá e lagt til að lögfestar verði byggingargáttar Mannvirkjastofnunar verði gerð að lagaskyldu, að skilgreiningar á matsstigum og byggingarstigum verði yfirfarnar með einföldun í huga og að almennar húsnæðiskannanir á landsvísu verði reglubundinn þáttur í upplýsingaöflun hins opinbera sem hægt verði að leggja til grundvallar við þarfagreiningu.
Lestu meira:
-
8. janúar 2023Lífeyrissjóðir hafa ekki lánað meira verðtryggt á einum mánuði frá því fyrir faraldur
-
2. janúar 2023Seðlabankinn gleymdi að telja séreignarsparnaðinn með í minnisblaði um greiðslubyrði
-
24. desember 2022Segja verðtryggða íbúðalánavexti mögulega vera orðna hagkvæmari en óverðtryggða
-
23. desember 2022Allir helstu lánveitendur búnir að hækka íbúðalánavexti eftir ákvörðun Seðlabankans
-
20. desember 2022Hvers vegna Efling þarf öðruvísi samning
-
17. desember 2022Ríkasta 0,1 prósentið skuldaði nánast ekkert en átti eignir upp á 330 milljarða
-
14. desember 2022Biðst afsökunar á að tilkynning um 30 prósent leiguhækkun hafi ekki verið nærgætnari
-
12. desember 2022Borgin eignast og endurselur 19 íbúðir af 81 í nýju fjölbýli í Laugarnesi
-
10. desember 2022Umdeilt leigufélag ratar enn og aftur í fréttir vegna frásagna af okri á leigjendum
-
30. nóvember 2022Leigufélagið Bríet gefur 30 prósent afslátt af leigu í desember