Jón Ásgeir Jóhannesson, einn þekktasti og umdeildasti kaupsýslumaður landsins, snéri aftur á formlegan vettvang íslensks viðskiptalífs í síðustu viku með framboði til stjórnar Haga.
Þótt hann hafi ekki haft erindi sem erfiði þá markaði framboð hans tímamót. Jón Ásgeir, sem hefur verið til rannsóknar vegna meintra efnahagsbrota meira og minna í 16 ár, og þegar hlotið tvo dóma í Hæstarétti fyrir slík vegna svokallaðra Baugsmála, hefur lítið sést í opinberum skipuritum þeirra fyrirtækja sem hann og eiginkona hans, fjárfestirinn Ingibjörg Stefanía Pálmadóttir, hafa átt og stjórnað frá hruni.
Eftir að Hæstiréttur ákvað að taka ekki fyrir áfrýjun á Aurum-málinu svokallaða, þar sem Jón Ásgeir var sýknaður af ákæru um hlutdeild í umboðssvikum, í desember síðastliðnum lá fyrir að hann myndi ekki hljóta neinn dóm vegna hrunmála. Engin frekari mál sem snúa að Jóni Ásgeiri, sem var aðaleigandi Glitnis og fjárfestingaveldisins Baugs, eru til rannsóknar.
Sá tími sem hann mátti ekki sitja í stjórnum félaga vegna fyrri dóma í Baugsmálinu svokallaða er liðinn fyrir nokkrum árum. Samt hefur Jón Ásgeir haldið sig opinberlega til hlés, og stýrt úr aftursætinu. Þar til nú.
Stofnaði Bónus sem varð að Högum
Hagar, félagið sem Jón Ásgeir sækist nú eftir áhrifum í, er ekki bara eitthvað fyrirtæki fyrir hann og fjölskyldu hans. Það var krúnudjásnið í eignarsafni Baugs, fjárfestingafélagi þeirra.
Upphaf Haga má rekja til 8. apríl 1989 þegar hinn 21 árs gamli Jón Ásgeir og faðir hans Jóhannes Jónsson stofnuðu fyrstu Bónusverslunina í 400 fermetra húsnæði í Skútuvogi. Sérstaða Bónus var einföld: hún var ódýrari en hinir aðilarnir á markaði.
Bónus óx of dafnaði og í ágúst 1992 keypti Hagkaup, sem þá var ráðandi á íslenskum matvörumarkaði, helmingshlut í fyrirtækinu. Ári síðar var stofnað nýtt fyrirtæki til að samhæfa innkaup fyrir verslanir Bónus og Hagkaupa. Það fyrirtæki fékk nafnið Baugur.
Árið 1998 vildu bræðurnir Sigurður Gísli og Jón Pálmasynir, sem stýrðu Hagkaupsveldinu, fá að kaupa þann helmingshlut í Bónus sem þeir áttu ekki. Það var rökrétt að þeir myndu gera slíkt ef breytingar áttu að verða á eignarhaldinu, enda mun stærri aðilinn í sambandinu.
Jón Ásgeir var hins vegar ekki á þeim buxunum. Hann leitaði til Kaupþings, sem þá var lítið fjármálafyrirtæki í örum vexti og fékk fjármögnun til að kaupa bræðurna út.
Eftir að gengið hafði verið frá kaupunum var starfsemin sameinuð undir Baugs-nafninu. Innkaupahlutinn sem áður hafði borið það nafn var nefndur Aðföng. Í viðskiptunum var Hagkaupum skipt upp þannig að Jón Ásgeir, með liðsinni Kaupþings og annarra, keypti reksturinn en Hagkaupsfjölskyldan átti áfram stórt fasteignasafn sem var inni í fyrirtækinu. Jón Ásgeir og fjölskylda hans stækkaði síðan ört við sig í Baugi, í gegnum fjárfestingafélagið Gaum, og var í ráðandi stöðu innan félagsins. Vorið 1999 var Baugur síðan skráður á markað.
Það stóð þó ekki lengi. Vorið 2003, fjórum árum eftir að félagið var skráð, gerðu Jón Ásgeir, fjölskylda hans og tengdir aðilar yfirtökutilboð í Baug, eignuðust 92 prósenta hlut og afskráðu félagið af markaði.
Eftir afskráningu Baugs varð vöxturinn ævintýralegur. Í rannsóknarskýrslu Alþingis segir að „sá fyrirtækjahópur sem umfangsmestur var í viðskiptum við íslensku bankana var Baugur Group hf. og tengdir aðilar. Útlán til Baugshópsins voru veruleg í öllum þremur bönkunum; Glitni, Kaupþingi og Landsbankanum“.
Baugur var allstaðar
Á þessum árum varð Baugur Group allt um lykjandi í íslensku samfélagi. Sá sem vildi kaupa sér matvöru, aðra dagvöru, tískufatnað, íþróttavörur, byggingarefni, raflagnir, húsgögn, blóm, tryggingar, bankaþjónustu, tölvu eða tölvuleik, farsímaþjónustu, sjónvarpsáskrift eða bók átti varla kost á öðru en að versla við Baug. Ef einhver fór í kvikmyndahús, hlustaði á útvarp, las blað, fór á tónleika, keypti sér plötu eða DVD-disk eða horfði á sjónvarpsþátt sem framleiddur var á Íslandi þá var sá hinn sami líklegast að borga Baugi fyrir. Ef fjölskylda fór í Smáralind eða Kringluna þá var hún í heimsókn hjá Baugi. Ef einhver gisti á Nordica hótelinu, leigði íbúð í Skuggahverfinu, skrifstofuaðstöðu í B26-húsinu í Borgartúni, kíkti í heimsókn til Kauphallarinnar eða steig bara fæti inn í atvinnuhúsnæði á rúmlega 130 mismunandi stöðum þá var viðkomandi í fasteign sem Baugur átti. Það var ekki einu sinni hægt að fara í Bláa lónið til að komast undan Baugshendinni. Félagið átti einnig óbeinan hlut í því. Baugur var alltumlykjandi og neytendur voru í hendi hans.
Lífeyrissjóðir töpuðu miklu á Baugi og tengdum félögum
Lífeyrissjóðir eru stærstu eigendur Haga. Þeir hafa margháttaða reynslu af viðskiptum við Jón Ásgeir og tengda aðila. Í úttektarskýrslu á starfsemi lífeyrissjóðanna í aðdraganda efnahagshrunsins, sem var gefin út í febrúar 2012, kom fram að lífeyrissjóðir landsins hefðu tapað samtals 77.182 milljónum króna á hluta- og skuldbréfum sem þeir höfðu keypt á Baug og tengda aðila. Tapið nam samtals um 20 prósentum af heildartapi þeirra vegna slíkra bréfa. Einungis einn fyrirtækjahópur kostaði sjóðina meiri peninga en Baugur og tengdir aðilar og sá hópur var Exista/Kaupþings-hópurinn.
Þetta var á meðal þeirra ástæðna sem urðu til þess lífeyrissjóðirnir sögðu að þeir myndu ekki kaupa hluti í Högum þegar endurskipulagning félagsins átti sér stað eftir hrunið, og til stóð að láta Baugsfjölskylduna fá stóran hlut í Högum en selja rest í gegnum hlutabréfamarkað. Í bókinni Ísland ehf. - Auðmenn og áhrif eftir hrun, sem kom út árið 2013, var haft eftir einum forsvarsmönnum eins stærsta lífeyrissjóðs landsins að stærstu sjóðirnir hafi sameiginlega gefið „þau skilaboð að það væri ekki efst á óskalistanum okkar að fara aftur í gang að fjárfesta með mönnum sem við höfðum þegar fjárfest með en ekkert gengið. Ef við horfum á Bónus-fjölskylduna þá höfum við átt skuldabréf á fyrirtæki sem tengjast henni og höfum lent í vandræðum með að fá endurgreitt. Það er því ekki vilji fyrir því að fara í sama farið. Fyrirtækjaráðgjöf Arion banki hefur alveg heyrt það á okkur að það væri ekki efst á baugi hjá okkur að fjárfesta aftur með sömu aðilum og höfðu verið ráðandi í ýmsum fyrirtækjum sem gefið höfðu út skuldabréf.“Á meðal eigna á Íslandi sem Baugur og tengd félög áttu í, að hluta til í gegnum Haga, voru Bónus, Hagkaup, 10-11, Útilíf, Zara, Topshop, Oasis, Karen Millen, Warehouse, Evans, Coast, Whistles, The Shoe Studio, Dorothy Perkins, All Saints, Húsasmiðjan, Ískraft, Egg, Blómaval, Stöð 2, Fréttablaðið, Bylgjan, Vísir.is, Birtíngur, DV, Skuggi Forlag, Saga Film, Vodafone, Sko, Kögun, EJS, Skýrr, Landssteinar Strengur, Humac (sem var með uppboð fyrir Apple vörur á Íslandi og í Skandinavíu), Tryggingamiðstöðin, Geysir Green Energy (og þar af leiðandi HS Orka), Landic Property, Íslenska fasteignafélagið, Fasteignafélagið Eik, Þyrping fasteignafélag og auðvitað Glitnir banki.
Haustið 2007 voru innlendar eignir Baugs, samkvæmt mati félagsins sjálfs, metnar á tæplega 100 milljarða króna. Þrátt fyrir það voru einungis 35 prósent af umsvifum félagsins á þessum tíma á Íslandi. Það sem eftir stóð var að mestu leyti í Bretlandi þar sem Baugur fór mikinn í að kaupa ýmsar verslunarkeðjur. Þegar best lét átti Baugur hluti í um 3.700 verslunum og um 70 þúsund manns störfuðu hjá samsteypunni. Baugur var því alþjóðlegur risi á þessum tíma.
Holdgervingur útrásarinnar
Jón Ásgeir var holdgervingur þess ástands sem ríkti í íslenskum viðskiptum frá einkavæðingu bankanna og fram að bankahruni haustið 2008. Hann var „götustrákur“, með sítt að aftan, í leðurjakka og ákafalega djarfur í viðskiptaákvörðunum. Viðskiptamódel hans gekk að mörgu leyti út á að skuldsetja fyrirtæki upp í topp, jafnvel eftir að virði þeirra hafði verið endurmetið, til að geta losað fé fyrir nýjar fjárfestingar. Svo var leikurinn endurtekinn aftur aftur og aftur.
Pálmi Haraldsson, einn nánasti viðskiptafélagi hans á uppgangsárunum, lýsti Jóni Ásgeiri með eftirfarandi hætti í blaðagrein árið 2005: „Fyrir mér er ekki vafi á því að Jón Ásgeir hefur á umliðnum árum gert meira fyrir íslenskt samfélag en aðrir samtímamenn hans og þótt aftar í söguna væri farið. [...] Jón Ásgeir var og er alfa og omega þeirrar útrásar og uppbyggingar sem einkennt hefur íslenskt viðskiptalíf á umliðnum árum. Hann hefur verið leiðandi í útrás íslenskra fyrirtækja sem hefur haft gríðarleg áhrif á lífskjör og sjálfstraust okkar litlu þjóðar.“
Í lok árs 2007 kaus Markaðurinn, fylgirit Fréttablaðsins um efnahagsmál og viðskipti, eiganda sinn sem viðskiptamann ársins. Í apríl tók hann svo við, fyrir hönd Baugs Group, útflutningsverðlaunum þáverandi forseta Íslands, Ólafs Ragnars Grímssonar, fyrir forystuhlutverk sitt og árangur í útrásinni.
Þrátt fyrir alla þessa viðurkenningarsúpu var ljóst að Baugsveldið var þegar komið í mikil vandræði, þótt það næði að fela það út á við fyrir flestum.
Í uppsveiflu, þar sem aðgengi að fjármagni var nánast takmarkalaust, þá gekk þessi leikur nefnilega upp. Í mótvindi fór fljótt að fjara undan glansmyndinni.
Baugur í þrot
Við bankahrunið tapaðist eignarhlutur FL Group, sem þá hafði tekið upp nafnið Stoðir, í Glitni. Baugur var á þessum tíma stærsti einstaki eigandi Stoða og hafði fall Glitnis eðlilega mikil áhrif á stöðu félagsins. Því var lagt upp með sérstaka áætlun um endurreisn Baugs, sem kölluð var Project Sunrise. Hún var kynnt í janúar 2009 og samkvæmt yfirliti sem henni fylgdi voru skuldir Baugs umfram eignir 148 milljarðar króna. Til að gera langa sögu stutta féllust kröfuhafar Baugs ekki á þessar hugmyndir og fóru fram á að félagið yrði tekið til gjaldþrotaskipta.
Þann 11. mars 2009, nítján árum og ellefu mánuðum eftir opnun fyrstu Bónusverslunarinnar, synjaði Héraðsdómur Reykjavíkur Baugi um áframhaldandi greiðslustöðvun og í kjölfarið var óskað eftir því að félagið yrði tekið til gjaldþrotaskipta. Við gjaldþrot Baugs tapaðist stærsti hluti veldisins sem þeir feðgar, Jón Ásgeir Jóhannesson og Jóhannes Jónsson, og fylgihnettir þeirra höfðu byggt upp. Kröfur í búið námu á þriðja hundrað milljörðum króna en einungis var gert ráð fyrir að um sjö milljarðar króna myndu fást upp í þær.
Fjölmiðlum skotið undan
Tvennt stóð þó eftir, utan eigna Ingibjargar, eiginkonu Jóns Ásgeirs, sem voru umtalsverðar. Fjölmiðaveldinu 365 hafði verið komið í skjól með ótrúlegri fléttu og Högum, sem hélt á innlenda verslunarrekstri fjölskyldunnar, hafði verið skotið út úr Baugi sumarið 2008 og inn í 1998 ehf., sem fjölskyldan átti einnig.
Byrjum á fjölmiðlunum. Afskipti Jóns Ásgeirs að fjölmiðlum hófust sumarið 2002 þegar hann keypti fríblaðið Fréttablaðið. Næstu árin var ráðist í hverja skuldsettu yfirtökuna á fjölmiðlum á fætur öðru. Í byrjun árs 2004 keypti Jón Ásgeir Norðurljós, eiganda Stöðvar 2, Bylgjunnar og fleiri miðla, af Jóni Ólafssyni. Þessar eignir, ásamt vefsíðunni Vísi.is, voru sameinaðar Fréttablaðinu og úr varð fjölmiðlarisi sem síðar hlaut nafnið 365.
Þessi uppkaup höfðu verið dýr. Vikurnar eftir hrunið haustið 2008 lá fyrir að 365 stefndi í gjaldþrot vegna yfirskuldsetningar. Þótt Jón Ásgeir réði samsteypunni og væri langstærsti eigandi hennar ásamt helstu viðskiptafélögum sínum, þá voru hluthafar nokkur hundruð.
Í lok október 2008 var blásið til stjórnarfundar í 365. Tekin var ákvörðun um að selja alla fjölmiðla 365 til Rauðsólar ehf. Eigandi þess félags var Jón Ásgeir Jóhannesson. Kaupin voru að mestu greidd með láni frá Högum, sem Jón Ásgeir stýrði enn á þessum tíma.
Hann greiddi ekki sjálfur atkvæði um tillöguna en þrír viðskiptafélagar hans sem sátu í stjórninni samþykktu hana. Einn stjórnarmaður, Árni Hauksson, greiddi atkvæði á móti og sagði sig í kjölfarið úr stjórninni.
Hefði átt að fara í þrot
Nafni Rauðsólar var svo breytt í 365 og gamla 365 fékk nafnið Íslensk afþreying, og sett í þrot. Dómkvaddir matsmenn í einkamáli á hendur því komust síðar að þeirri niðurstöðu að félagið hefði verið ógjaldfært og því hefði í raun átt að gefa 365 upp til gjaldþrotaskipta áður en fjölmiðlahlutinn var seldur út. Þegar skipti fóru fram á búinu kom einnig í ljós að stjórnendur nýja og gamla 365 höfðu ákveðið að veita Rauðsól afslátt af sölu á hlutunum þegar endurskoðun fór fram á kaupverði þeirra.
Skiptastjóri þrotabúsins taldi að um kláran gjafagerning væri að ræða, enda var Jón Ásgeir stjórnarformaður í félaginu sem var að selja félagi í hans eigu fjölmiðlana, sömu lykilstjórnendur voru í báðum félögum, sátu stjórnarfundi í þeim og undirrituðu samningana sem veittu umræddan afslátt. Héraðsdómur var sammála skiptastjóranum og dæmdi Rauðsól, sem þá hafði verið sameinuð dótturfélaginu 365 miðlum undir nafni þess síðarnefnda, til að greiða þrotabúinu 160 milljónir króna til baka. 365 miðlar þurftu því að greiða þrotabúi 365 vegna kaupa á bréfum í 365 miðlum.
Áttu fé í Panama
Þrátt fyrir að Ingibjörg Stefanía Pálmadóttir hafi sjálf verið umsvifamikill fjárfestir fyrir hrun og tekið þátt í mörgum áhættusömum fjárfestingaævintýrum í slagtogi við eiginmann sinn eða ein síns liðs þá virðist hún hafi komið nokkuð vel utan hrunvetrinum.
Að minnsta kosti hefur henni tekist að halda mörgum af sínum helstu eignum á Íslandi og í krafti auðs síns tekið yfir aðrar eignir, sem Jón Ásgeir átti áður en lenti í erfiðleikum með að halda vegna þrýstings kröfuhafa, rannsókna sérstaks saksóknara og uppþornaðs lánshæfis. Þar ber helst að nefna 365 miðla, sem Ingibjörg tók yfir eftir að Jón Ásgeir hafði tryggt sér áframhaldandi stjórn á því vikurnar eftir bankahrunið. Skiptastjórar í þrotabúum félaga sem tengjast hjónunum hafa lengi skoðað alls kyns tilfærslur á eignum sem áttu sér stað innan þeirra á lokametrunum fyrir hrun eða á misserunum eftir það. Með litlum árangri. Í apríl 2016 var þó opinberað að hluti peninganna sem voru í eigu hjónanna fór til Panama. Í október 2007 stofnaði panamska lögfræðistofan Mossack Fonseca félag fyrir Landsbankann í Lúxemborg, sem kom fram við skráninguna fyrir hönd viðskiptavinar sínar. Félagið átti að heita OneOOne Entertainment S.A.Í fundargerð stjórnar hins nýstofnaða félags, sem er dagsett 2. október 2007, kemur fram að prókúruhafar félagsins séu Ingibjörg Pálmadóttir og Jón Ásgeir Jóhannesson. Þ.e. öll völd yfir eignum þess eru í höndum þessara tveggja aðila frá stofnun. Þau máttu taka lán eða lána fé félagsins án nokkurra takmarkanna. Vald stjórnarmanna í félaginu var að fullu framselt til þeirra tveggja í þrjú ár, fram til ársins 2010. Strax í janúar það ár var sendur tölvupóstur þar sem óskað var eftir því að starfsmenn Mossack Fonseca, sem sátu í stjórn OneOOne, fylltu út skráningareyðublað til að heimila Ingibjörgu að opna bankareikning fyrir félagið hjá svissneska bankanum Credit Suisse í Lúxemborg. Í kjölfarið var einnig farið fram á að nafni félagsins yrði breytt í Moon Capital S.A. Það nafn hljómar ugglaust kunnuglega í eyrum margra, enda er meirihlutaeignarhald Ingibjargar á 365 miðlum að mestu í gegnum félag sem ber sama nafn, Moon Capital, en er skráð í Lúxemborg.
Síðar var nafninu breytt í Guru Invest S.A. Þetta félag hefur fjármagnað fjöldamörg verkefni í Bretlandi og á Íslandi á undanförnum árum.
Þegar Kjarninn spurði Jón Ásgeir og Ingibjörgu út í hvaðan þeir fjármunir sem vistaðir voru í Guru Invest í Panama hafi komið, hverjar eignir félagsins væru og hvort að fé úr Guru Invest hafi runnið til félaga eða einstaklinga á Íslandi. Þar var einnig spurt hvort eignir Guru Invest hafi verið á meðal þeirra eigna sem tilgreindar voru í umfangsmiklum skuldauppgjörum þeirra við kröfuhafa á Íslandi sem fram hafa farið á undanförnum árum og beðið um upplýsingar um hvar Guru Invest greiddi skatta og gjöld. Þá var einnig spurt af hverju félagið væri skráð með heimilisfesti á Panama.
Engin efnisleg svör bárust við fyrirspurninni.
Alls töpuðu kröfuhafar Íslenskrar afþreyingar, gamla 365, 3,7 milljörðum króna. Þeir voru að uppistöðu íslenskir lífeyrisjóðir og ríkisbankinn Landsbankinn. Sjóðstýringarfyrirtæki bankans, Landsvaki, stefndi Jóni Ásgeiri og stjórnarmönnunum þremur sem samþykktu söluna á fjölmiðlunum haustið 2008. í janúar 2013 náðist sátt í málinu með því að mennirnir fjórir greiddu nokkra tugi milljóna króna. Ríkisbankinn hefur neitað að upplýsa um á hvaða grundvelli ráðist var í þá sátt.
Viðskipti ársins 2017
Eignarhaldið á 365 var síðar fært yfir til Ingibjargar, eiginkonu Jóns Ásgeirs. Hún er eini eigandi félagsins í dag. Rekstur fjölmiðla 365 var sannarlega enginn dans á rósum síðasta áratuginn. Breytingar í neytendahegðun, tækni- og upplýsingabylting og auðvitað efnahagssamdráttur í kjölfar bankahruns gerðu það að verkum að helstu tekjustoðirnar, auglýsingasala og sjónvarpsáskrift, áttu undir högg að sækja. Tapið á síðustu árum var gríðarlegt, hljóp á milljörðum króna. Samhliða hefur starfsmannavelta verið gríðarleg, aðhaldsaðgerðir að minnsta kosti árlegar og ýmis hneykslismál tengdum afskiptum eiganda að ritstjórn miðla skotið upp kollinum, sem hafa rýrt trúverðugleika samsteypunnar.
Samt sem áður tókst Jóni Ásgeiri að selja útvarps- og sjónvarpsmiðla 365 ásamt frétta- og afþreyingarvefnum Vísi.is og fjarskiptasviði 365 til Vodafone á árinu 2017 fyrir 8,3 milljarða króna. Þetta gerði 365 kleyft að greiða upp þorra langtímalána sinna og eignast ellefu prósent hlut í Vodafone. Yfirfærslan á miðlunum átti sér stað í byrjun desember 2017. Um var að ræða ótrúleg viðskipti fyrir Jón Ásgeir og Ingibjörgu. Margir viðmælendur Kjarnans telja þau vera ein bestu viðskipti síðustu ára, þar sem hjónin fengu mjög mikið fyrir lítið.
Nafni Fjarskipta, móðurfélags Vodafone, var síðar breytt í Sýn. Félagið er skráð á markað og stærstu eigendur þess eru íslenskir lífeyrissjóðir, í einhverjum tilfellum þeir sömu og áttu skuldabréf á gamla 365 sem var sett í 3,7 milljarða króna þrot.
Forsendur ekki gengið eftir
Þegar tilkynnt var um viðskiptin kom fram í kynningu frá kaupanda til fjárfesta að samlegðaráhrif vegna kaupana yrði um 1,1 milljarður króna á ári. Á meðal helstu áhættuþátta voru möguleg fækkun viðskiptavina í áskriftarsjónvarpi.
Enn sem komið er hafa kaupin ekki reynst gæfuleg fyrir Sýn. Alls lækkaði markaðsvirði þess um 38,3 prósent á síðasta ári, meira en í nokkru öðru skráðu félagi. Dagskrárkostnaður reyndist hærri, auglýsingasala og sala sjónvarpsáskrifta lægri og kostnaður við samþættingu meiri en ætlað var. Þetta leiddi til þess að tveir stjórnendur Sýnar voru látnir fara í byrjun árs 2019, þar á meðal Björn Víglundsson, sem var yfir miðlum félagsins. Sýn sendi tvær afkomuviðvaranir frá sér á síðustu mánuðum ársins 2018 og hækkaði verð á sjónvarps- og fjarskiptaþjónustu félagsins um allt að 30 prósent um mánaðamótin nóvember/desember.
Enn ein blóðtakan varð þegar Síminn tryggði sér réttinn af sýningu á enska boltanum frá og með næsta keppnistímabili. Í samrunaskrá vegna kaupa á miðlum 365, sem var óvart birt á vef Samkeppniseftirlitsins með trúnaðarupplýsingum vorið 2017, kom fram að um þrjú þúsund áskrifendur væru að Sportpakka Stöðvar 2 og tæplega 1.400 manns með Risapakkann, sem inniheldur einnig íþróttastöðvarnar. Hluti þessara áskrifenda gæti verið í hættu þegar enski boltinn er ekki lengur í boði innan hennar. Í nýlegri greiningu Arion banka á Sýn er áætlað að um fimm þúsund viðskiptavinir gætu farið frá félaginu samhliða því að það missir enska boltann.
Í október seldu 365 miðlar allt hlutaféð sem þeir fengu Sýn fyrir söluna á miðlunum og notuðu ágóðann til þess að kaupa hlutabréf í Högum. Eina stóra fjölmiðlaeign þeirra í dag er fríblaðið Fréttablaðið, sem hefur verið í óformlegu söluferli mánuðum saman hjá Kviku banka.
Undið ofan af endurkomunni
Baugsfjölskyldan hafði, líkt og áður sagði, skotið Högum út úr Baugi á árinu 2008. Það var gert með því að stofna félagið 1998 ehf., félagi stýrt af Baugsfjölskyldunni, og láta það kaupa Haga á 30 milljarða króna. Hluti af peningunum sem Baugur fékk fyrir söluna var svo notaður til að kaupa hlutabréf í Baugi af Baugsfjölskyldunni.
En fjölskyldan hafði enn yfirráð yfir Högum vegna þessarar fléttu. Arion banki átti þó veð í nánast öllu félaginu og gat leyst það til sín. Það gerðist í nóvember 2009 og í febrúar 2010 var greint frá því að Jóhannes og stjórnendur félagsins fengju að kaupa 15 prósent í Högum. Afgangurinn yrði seldur í gegnum Kauphöllina eftir að Hagar yrðu skráðir á markað. Jóhannes átti áfram að vera stjórnarformaður Haga.
Niðurstaðan horfði sérkennilega við mörgum. Arion banki þurfti enda að afskrifa yfir 30 milljarða króna vegna fjölskyldunnar, þótt það tap lenti reyndar að öllu leyti á þrotabúi Kaupþings. Fólk átti erfitt með að skilja hvernig fjölskylda gat sett félag svo rosalega á höfuðið en samt haldið hluta af eignum sínum.
Síðar, eftir að Höskuldur H. Ólafsson tók við starfi bankastjóra Arion banka sumarið 2010, var undið ofan af þessu samkomulagi. Í lok ágúst tilkynnti Arion banki að Jóhannesi Jónssyni hefði verið vikið úr stjórn Haga, að forkaupsréttur hans á hlutafé í félaginu hefði verið felldur úr gildi og að söluferli Haga yrði í kjölfarið endurhugsað.
Við þessa aðgerð missti fjölskyldan tökin á Högum. Tök sem hún er nú að reyna að ná aftur.
Jóhannes Jónsson lést árið 2013.
Jón Ásgeir kemur aftur upp á yfirborðið
Frá haustinu hafa félög í eigu Ingibjargar Stefaníu Pálmadóttur verið að fjárfesta í Högum. Nú eiga tvö félög hennar samtals 4,3 prósent í Högum.
Það var á grunni þessarar eignar sem formleg endurkoma Jóns Ásgeirs var reynd. Í henni fólst að bjóða hann fram til stjórnar Haga í stjórnarkjöri Haga sem fram fór 18. janúar. Viðmælendur Kjarnans segja að hann hafi reynt að afla stuðnings víða en ekki hlotið náð fyrir tilnefningarnefnd Haga, sem tilnefndi sínar í stjórn að mestu leyti á samráði við stærstu hluthafa. Stærstu hluthafar Haga eru stærstu lífeyrissjóðir landsins (Gildi, LSR, Lífeyrissjóður verzlunarmanna, Birta, Stapi, Frjálsi lífeyrissjóðurinn og Söfnunarsjóður lífeyrisréttinda eiga samtals 52 prósent í Högum) og tveir sjávarútvegsrisar, Samherji (9,95 prósent) og FISK-seafood, útgerðararmur Kaupfélags Skagfirðinga (4,57 prósent). Stærsti einkafjárfestirinn er Ingibjörg.
Þegar ljóst var að Jón Ásgeir var ekki á meðal þeirra sem tilnefndir voru í stjórnina hófst barátta hans fyrir því að þrýsta á kjör sitt með öðrum hætti, annars vegar með því að vísa til kosta sinna og hins vegar með því að reyna að knýja fram margfeldiskosningu.
Fréttablaðið sýndi þessu máli mikinn áhuga og birti fjölda frétta, skoðanapistla og nafnlausra skoðanagreina um málið. Þann 12. janúar fjallaði blaðið gagnrýnið um að tilnefningarnefndin hefði einungis leitað til sex stærstu hluthafa og sagt að vanalega sé leitað til 20 stærstu. Félög í eigu Ingibjargar eru samanlagt sjöundi stærsti hluthafinn. Í Markaðnum, fylgiriti Fréttablaðsins um efnahagsmál og viðskipti, sem kom út miðvikudaginn 16. janúar var síðan frétt um hversu lítið hefði vantað upp á að margfeldiskosningu yrði beitt og haft eftir ónafngreindum hluthöfum að þeir væru óánægðir með þessa niðurstöðu. Í sama blaði birtist skoðanagrein eftir blaðamann Markaðarins þar sem tilvera tilnefningarnefnda var gagnrýnd og á baksíðu hans fjallaði hinn nafnlausi pistlahöfundur „Stjórnarmaðurinn“ um sama efni auk þess sem hann sagði það erfitt að „halda því fram að stofnandi Haga hafi ekki hæfni, þekkingu eða reynslu til að sinna stjórnarstörfum fyrir félagið.“
Daginn sem kosningin fór fram, 18. janúar, var skrifuð frétt í Fréttablaðið þar sem fram kom að nokkur kurr væri á meðal smærri hluthafa Haga vegna lítils samráðs við tilnefningu stjórnarmanna, samkvæmt heimildum blaðsins. Þegar niðurstaða stjórnarkjörsins lá fyrir var Jón Ásgeir til viðtals við vef Fréttablaðsins þar sem hann dró tilnefningarnefndir í efa og sagðist velta því fyrir sér hvort þær væru af hinu góða, eða hvort þær væru að skerða rétt smærri hluthafa.
Laugardaginn 19. janúar skrifaði svo annar ritstjóri Fréttablaðsins frétt í blaðið þar sem Jón Ásgeir var til viðtals. Inntak fréttarinnar var að félag Ingibjargar Pálmadóttur og aðrir ónafngreindir smærri hluthafar ætluðu að setja fram tillögu fyrir aðalfund Haga um að margfeldiskosning yrði framkvæmd í stjórnarkjöri í Högum á aðalfundi félagsins, sem fram fer í júní næstkomandi.
Síðastliðinn miðvikudag, 23. janúar, birtist fimm dálka skoðanagrein eftir Jón Skaftason, bróður Ólafar Skaftadóttur, annars ritstjóra Fréttablaðsins og sonar útgefanda blaðsins, Kristínar Þorsteinsdóttur, í Markaðnum. Jón starfar sem framkvæmdastjóri fjárfestinga hjá 365 og er nánasti samstarfsmaður Jóns Ásgeirs. Í greininni setti Jón fram gagnrýni á tilnefningarnefnd Haga og stjórnarkjörið í félaginu og sagði mikilvægt að Hagar dragi lærdóm af ferlinu. Þar sagði hann að nokkuð „óumdeilt hlýtur að vera að Jón Ásgeir hefur einstaka þekkingu á verslun bæði hér heima og erlendis. Þá hefur hann sem stofnandi Bónuss og síðar forstjóri Haga og stjórnarformaður ágæta innsýn í félagið. Þrátt fyrir þetta, og þá staðreynd að Jón Ásgeir virtist fljótt á litið skora hátt á nánast öllum þeim mælikvörðum sem bar að leggja til grundvallar, hlaut hann ekki náð fyrir augum nefndarinnar.“
Fullyrða má að Jón Ásgeir hafi ekki verið jafn títt til viðtals í fjölmiðlum, hvorki þeim sem hann stýrir né öðrum, vegna viðskiptamála frá því fyrir hrun.
Og ljóst má vera að hann ætlar sér ekki lengur að sigla undir yfirborðinu í viðskiptaveldi þeirra hjóna, heldur að stíga á ný fram í dagsljósið.
Dómur Mannréttindadómstóls sem hafði víðtækar afleiðingar
Þann 18. maí 2017 komst Mannréttindadómstóll Evrópu að þeirra niðurstöðu að íslenska ríkið hefði brotið gegn Jóni Ásgeiri Jóhannessyni og Tryggva Jónssyni þegar þeir voru dæmdir í skilorðsbundið fangelsi fyrir skattalagabrot í rekstri Baugs og fjárfestingafélagsins Gaums árið 2013, ásamt Kristínu Jóhannesdóttur.
Þeir kærðu þann dóm til Mannréttindadómstólsins á þeim forsendum að þeir hefðu þegar hlotið dóm fyrir sömu brot. Þeir höfðu verið dæmdir til að greiða álag ofan á endurákvörðun skatta af yfirskattanefnd árið 2007. Málin tvö hefðu verið byggð á sama grunni. Og því væri verið að refsa þeim tvívegis fyrir sama brotið.
Fram að þeim tíma hafði það tíðkast hérlendis að þeir sem sviku stórfellt undan skatti skyldu greiða hátt álag ofan á þá vangoldnu skatta sem þeir skyldu endurgreiða. Ef um meiriháttar brot var að ræða þá var viðkomandi einnig ákærður fyrir meiri háttar skattalagabrot, en við slíkum brotum liggur allt að sex ára fangelsi auk þess sem viðkomandi þarf að að greiða sekt.
Þegar Mannréttindadómstóllinn hafði komist að niðurstöðu þá þurfti að falla dómur í Hæstarétti um sambærilegt efni til að fram komi hver áhrif niðurstöðunnar verði á íslenska dómaframkvæmd. Sá dómur féll í lok september 2017.
Niðurstaðan hafði áhrif á fjöldamörg önnur mál og varð til þess að héraðssaksóknari þurfti að fella niður að að minnsta kosti 66 mál þar sem grunur var um að einstaklingar hefðu framið skattsvik. Stór hluti málanna snerist um einstaklinga sem geymdu fjármuni utan Íslands til að komast hjá skattgreiðslum.
Lestu meira:
-
9. janúar 2023Fjármálaeftirlitið telur Íslandsbanka mögulega hafa brotið gegn lögum
-
8. janúar 2023Sautján ár á milli ráðninga á konu í forstjórastóli hjá skráðu félagi
-
7. janúar 2023Dreifing Fréttablaðsins fer úr 80 þúsund í 45 þúsund eintök á dag eftir breytingarnar
-
7. janúar 2023Tæknispá 2023: Tími gervigreindar er kominn og samfélagsmiðlar verða persónulegri
-
6. janúar 2023Tíu stærstu útgerðirnar halda á 56 prósent af öllum kvóta
-
4. janúar 2023Hálfgerð Eurovision-stigagjöf hjá matsnefnd Hörpu sögð óhefðbundin
-
4. janúar 202314 félög lækkuðu í virði en fjöldi einstaklinga sem á hlutabréf þrefaldaðist á þremur árum
-
2. janúar 2023Fréttablaðið hætt að koma inn um lúguna hjá fólki – Lestur hríðfallið og kostnaður aukist
-
1. janúar 2023Þrennt sem eykur forskot Íslands
-
30. desember 2022Verslun í alþjóðlegu umhverfi