Mynd: Mannlíf

Jón Ásgeir snýr aftur

Jón Ásgeir Jóhannesson var andlit íslensku útrásarinnar. Hann hefur alla tíð verið feykilega umdeildur og yfirvöld hafa meira og minna verið að rannsaka hann vegna meintra efnahagsbrota þorra þessarar aldar. Nýverið bauð hann sig fram í stjórn Haga, félagsins sem hann stofnaði ásamt föður sínum fyrir 30 árum. Það framboð markaði tímamót. Jón Ásgeir er formlega farinn að taka þátt í íslensku viðskiptalífi aftur.

Jón Ásgeir Jóhann­es­son, einn þekkt­asti og umdeild­asti kaup­sýslu­maður lands­ins, snéri aftur á form­legan vett­vang íslensks við­skipta­lífs í síð­ustu viku með fram­boði til stjórnar Haga.

Þótt hann hafi ekki haft erindi sem erf­iði þá mark­aði fram­boð hans tíma­mót. Jón Ásgeir, sem hefur verið til rann­sóknar vegna meintra efna­hags­brota meira og minna í 16 ár, og þegar hlotið tvo dóma í Hæsta­rétti fyrir slík vegna svo­kall­aðra Baugs­mála, hefur lítið sést í opin­berum skipu­ritum þeirra fyr­ir­tækja sem hann og eig­in­kona hans, fjár­festir­inn Ingi­björg Stef­anía Pálma­dótt­ir, hafa átt og stjórnað frá hrun­i. 

Eftir að Hæsti­réttur ákvað að taka ekki fyrir áfrýjun á Aur­um-­mál­inu svo­kall­aða, þar sem Jón Ásgeir var sýkn­aður af ákæru um hlut­deild í umboðs­svik­um, í des­em­ber síð­ast­liðnum lá fyrir að hann myndi ekki hljóta neinn dóm vegna hrun­mála. Engin frek­ari mál sem snúa að Jóni Ásgeiri, sem var aðal­eig­andi Glitnis og fjár­fest­inga­veld­is­ins Baugs, eru til rann­sókn­ar.  

Sá tími sem hann mátti ekki sitja í stjórnum félaga vegna fyrri dóma í Baugs­mál­inu svo­kall­aða er lið­inn fyrir nokkrum árum. Samt hefur Jón Ásgeir haldið sig opin­ber­lega til hlés, og stýrt úr aft­ur­sæt­inu. Þar til nú.

Stofn­aði Bónus sem varð að Högum

Hag­ar, félagið sem Jón Ásgeir sæk­ist nú eftir áhrifum í, er ekki bara eitt­hvað fyr­ir­tæki fyrir hann og fjöl­skyldu hans. Það var krúnu­djá­snið í eign­ar­safni Baugs, fjár­fest­inga­fé­lagi þeirra. 

Upp­haf Haga má rekja til 8. apríl 1989 þegar hinn 21 árs gamli Jón Ásgeir og faðir hans Jóhannes Jóns­son stofn­uðu fyrstu Bón­usversl­un­ina í 400 fer­metra hús­næði í Skútu­vogi. Sér­staða Bónus var ein­föld: hún var ódýr­ari en hinir aðil­arnir á mark­að­i. 

Bónus óx of dafn­aði og í ágúst 1992 keypti Hag­kaup, sem þá var ráð­andi á íslenskum mat­vöru­mark­aði, helm­ings­hlut í fyr­ir­tæk­inu. Ári síðar var stofnað nýtt fyr­ir­tæki til að sam­hæfa inn­kaup fyrir versl­anir Bónus og Hag­kaupa. Það fyr­ir­tæki fékk nafnið Baug­ur. 

Árið 1998 vildu bræð­urnir Sig­urður Gísli og Jón Pálma­syn­ir, sem stýrðu Hag­kaups­veld­inu, fá að kaupa þann helm­ings­hlut í Bónus sem þeir áttu ekki. Það var rök­rétt að þeir myndu gera slíkt ef breyt­ingar áttu að verða á eign­ar­hald­inu, enda mun stærri aðil­inn í sam­band­in­u. 

Jón Ásgeir var hins vegar ekki á þeim bux­un­um. Hann leit­aði til Kaup­þings, sem þá var lítið fjár­mála­fyr­ir­tæki í örum vexti og fékk fjár­mögnun til að kaupa bræð­urna út. 

Eftir að gengið hafði verið frá kaup­unum var starf­semin sam­einuð undir Baugs-­nafn­inu. Inn­kaupa­hlut­inn sem áður hafði borið það nafn var nefndur Aðföng. Í við­skipt­unum var Hag­kaupum skipt upp þannig að Jón Ásgeir, með lið­sinni Kaup­þings og ann­arra, keypti rekst­ur­inn en Hag­kaups­fjöl­skyldan átti áfram stórt fast­eigna­safn sem var inni í fyr­ir­tæk­inu. Jón Ásgeir og fjöl­skylda hans stækk­aði síðan ört við sig í Baugi, í gegnum fjár­fest­inga­fé­lagið Gaum, og var í ráð­andi stöðu innan félags­ins. Vorið 1999 var Baugur síðan skráður á mark­að.

Það stóð þó ekki lengi. Vorið 2003, fjórum árum eftir að félagið var skráð, gerðu Jón Ásgeir, fjöl­skylda hans og tengdir aðilar yfir­tökutil­boð í Baug, eign­uð­ust 92 pró­senta hlut og afskráðu félagið af mark­aði.

Eftir afskrán­ingu Baugs varð vöxt­ur­inn ævin­týra­leg­ur. Í rann­sókn­ar­skýrslu Alþingis segir að „sá fyr­ir­tækja­hópur sem umfangs­mestur var í við­skiptum við íslensku bank­ana var Baugur Group hf. og tengdir aðil­ar. Útlán til Baugs­hóps­ins voru veru­leg í öllum þremur bönk­un­um; Glitni, Kaup­þingi og Lands­bank­an­um“.

Baugur var all­staðar

Á þessum árum varð Baugur Group allt um lykj­andi í íslensku sam­fé­lagi. Sá sem vildi kaupa sér mat­vöru, aðra dag­vöru, tísku­fatn­að, íþrótta­vör­ur, bygg­ing­ar­efni, raf­lagn­ir, hús­gögn, blóm, trygg­ing­ar, banka­þjón­ustu, tölvu eða tölvu­leik, far­síma­þjón­ustu, sjón­varps­á­skrift eða bók átti varla kost á öðru en að versla við Baug. Ef ein­hver fór í kvik­mynda­hús, hlust­aði á útvarp, las blað, fór á tón­leika, keypti sér plötu eða DVD-disk eða horfði á sjón­varps­þátt sem fram­leiddur var á Íslandi þá var sá hinn sami lík­leg­ast að borga Baugi fyr­ir. Ef fjöl­skylda fór í Smára­lind eða Kringl­una þá var hún í heim­sókn hjá Baugi. Ef ein­hver gisti á Nor­dica hót­el­inu, leigði íbúð í Skugga­hverf­inu, skrif­stofu­að­stöðu í B26-­hús­inu í Borg­ar­túni, kíkti í heim­sókn til Kaup­hall­ar­innar eða steig bara fæti inn í atvinnu­hús­næði á rúm­lega 130 mis­mun­andi stöðum þá var við­kom­andi í fast­eign sem Baugur átti. Það var ekki einu sinni hægt að fara í Bláa lónið til að kom­ast undan Baugs­hend­inni. Félagið átti einnig óbeinan hlut í því. Baugur var alltum­lykj­andi og neyt­endur voru í hendi hans. 

Lífeyrissjóðir töpuðu miklu á Baugi og tengdum félögum

Lífeyrissjóðir eru stærstu eigendur Haga. Þeir hafa margháttaða reynslu af viðskiptum við Jón Ásgeir og tengda aðila. Í úttektarskýrslu á starfsemi lífeyrissjóðanna í aðdraganda efnahagshrunsins, sem var gefin út í febrúar 2012, kom fram að lífeyrissjóðir landsins hefðu tapað samtals 77.182 milljónum króna á hluta- og skuldbréfum sem þeir höfðu keypt á Baug og tengda aðila. Tapið nam samtals um 20 prósentum af heildartapi þeirra vegna slíkra bréfa. Einungis einn fyrirtækjahópur kostaði sjóðina meiri peninga en Baugur og tengdir aðilar og sá hópur var Exista/Kaupþings-hópurinn.

Þetta var á meðal þeirra ástæðna sem urðu til þess lífeyrissjóðirnir sögðu að þeir myndu ekki kaupa hluti í Högum þegar endurskipulagning félagsins átti sér stað eftir hrunið, og til stóð að láta Baugsfjölskylduna fá stóran hlut í Högum en selja rest í gegnum hlutabréfamarkað. Í bókinni Ísland ehf. - Auðmenn og áhrif eftir hrun, sem kom út árið 2013, var haft eftir einum forsvarsmönnum eins stærsta lífeyrissjóðs landsins að stærstu sjóðirnir hafi sameiginlega gefið „þau skilaboð að það væri ekki efst á óskalistanum okkar að fara aftur í gang að fjárfesta með mönnum sem við höfðum þegar fjárfest með en ekkert gengið. Ef við horfum á Bónus-fjölskylduna þá höfum við átt skuldabréf á fyrirtæki sem tengjast henni og höfum lent í vandræðum með að fá endurgreitt. Það er því ekki vilji fyrir því að fara í sama farið. Fyrirtækjaráðgjöf Arion banki hefur alveg heyrt það á okkur að það væri ekki efst á baugi hjá okkur að fjárfesta aftur með sömu aðilum og höfðu verið ráðandi í ýmsum fyrirtækjum sem gefið höfðu út skuldabréf.“

Á meðal eigna á Íslandi sem Baugur og tengd félög áttu í, að hluta til í gegnum Haga, voru Bón­us, Hag­kaup, 10-11, Úti­líf, Zara, Tops­hop, Oas­is, Karen Mil­len, Warehou­se, Evans, Coast, Whist­les, The Shoe Studio, Dorothy Perk­ins, All Saints, Húsa­smiðj­an, Ískraft, Egg, Blóma­val, Stöð 2, Frétta­blað­ið, Bylgj­an, Vís­ir.is, Birtíng­ur, DV, Skuggi For­lag, Saga Film, Voda­fo­ne, Sko, Kög­un, EJS, Skýrr, Lands­steinar Streng­ur, Humac (sem var með upp­boð fyrir Apple vörur á Íslandi og í Skand­in­av­íu), Trygg­inga­mið­stöð­in, Geysir Green Energy (og þar af leið­andi HS Orka), Landic Proper­ty, Íslenska fast­eigna­fé­lag­ið, Fast­eigna­fé­lagið Eik, Þyrp­ing fast­eigna­fé­lag og auð­vitað Glitnir banki.

Haustið 2007 voru inn­lendar eignir Baugs, sam­kvæmt mati félags­ins sjálfs, metnar á tæp­lega 100 millj­arða króna. Þrátt fyrir það voru ein­ungis 35 pró­sent af umsvifum félags­ins á þessum tíma á Íslandi. Það sem eftir stóð var að mestu leyti í Bret­landi þar sem Baugur fór mik­inn í að kaupa ýmsar versl­un­ar­keðj­ur. Þegar best lét átti Baugur hluti í um 3.700 versl­unum og um 70 þús­und manns störf­uðu hjá sam­steyp­unni. Baugur var því alþjóð­legur risi á þessum tíma.

Hold­gerv­ingur útrás­ar­innar

Jón Ásgeir var hold­gerv­ingur þess ástands sem ríkti í íslenskum við­skiptum frá einka­væð­ingu bank­anna og fram að banka­hruni haustið 2008. Hann var „götu­strák­ur“, með sítt að aft­an, í leð­ur­jakka og ákafa­lega djarfur í við­skipta­á­kvörð­un­um. Við­skipta­módel hans gekk að mörgu leyti út á að skuld­setja fyr­ir­tæki upp í topp, jafn­vel eftir að virði þeirra hafði verið end­ur­met­ið, til að geta losað fé fyrir nýjar fjár­fest­ing­ar. Svo var leik­ur­inn end­ur­tek­inn aftur aftur og aft­ur.

Pálmi Har­alds­son, einn nán­asti við­skipta­fé­lagi hans á upp­gangs­ár­un­um, lýsti Jóni Ásgeiri með eft­ir­far­andi hætti í blaða­grein árið 2005: „Fyrir mér er ekki vafi á því að Jón Ásgeir hefur á umliðnum árum gert meira fyrir íslenskt sam­fé­lag en aðrir sam­tíma­menn hans og þótt aftar í sög­una væri far­ið. [...] Jón Ásgeir var og er alfa og omega þeirrar útrásar og upp­bygg­ingar sem ein­kennt hefur íslenskt við­skipta­líf á umliðnum árum. Hann hefur verið leið­andi í útrás íslenskra fyr­ir­tækja sem hefur haft gríð­ar­leg áhrif á lífs­kjör og sjálfs­traust okkar litlu þjóð­ar.“

Í lok árs 2007 kaus Mark­að­ur­inn, fylgi­rit Frétta­blaðs­ins um efna­hags­mál og við­skipti, eig­anda sinn sem við­skipta­mann árs­ins. Í apríl tók hann svo við, fyrir hönd Baugs Group, útflutn­ings­verð­launum þáver­andi for­seta Íslands, Ólafs Ragn­ars Gríms­son­ar, fyrir for­ystu­hlut­verk sitt og árangur í útrásinni.

Þrátt fyrir alla þessa við­ur­kenn­ing­ar­súpu var ljóst að Baugs­veldið var þegar komið í mikil vand­ræði, þótt það næði að fela það út á við fyrir flest­um.

Í upp­sveiflu, þar sem aðgengi að fjár­magni var nán­ast tak­marka­laust, þá gekk þessi leikur nefni­lega upp. Í mót­vindi fór fljótt að fjara undan glans­mynd­inni.

Baugur í þrot

Við banka­hrunið tap­að­ist eign­ar­hlutur FL Group, sem þá hafði tekið upp nafnið Stoð­ir, í Glitni. Baugur var á þessum tíma stærsti ein­staki eig­andi Stoða og hafði fall Glitnis eðli­lega mikil áhrif á stöðu félags­ins. Því var lagt upp með sér­staka áætlun um end­ur­reisn Baugs, sem kölluð var Project Sun­rise. Hún var kynnt í jan­úar 2009 og sam­kvæmt yfir­liti sem henni fylgdi voru skuldir Baugs umfram eignir 148 millj­arðar króna. Til að gera langa sögu stutta féllust kröfu­hafar Baugs ekki á þessar hug­myndir og fóru fram á að félagið yrði tekið til gjald­þrota­skipta.

Þann 11. mars 2009, nítján árum og ell­efu mán­uðum eftir opnun fyrstu Bón­usversl­un­ar­inn­ar, synj­aði Hér­aðs­dómur Reykja­víkur Baugi um áfram­hald­andi greiðslu­stöðvun og í kjöl­farið var óskað eftir því að félagið yrði tekið til gjald­þrota­skipta. Við gjald­þrot Baugs tap­að­ist stærsti hluti veld­is­ins sem þeir feðgar, Jón Ásgeir Jóhann­es­son og Jóhannes Jóns­son, og fylgi­hnettir þeirra höfðu byggt upp. Kröfur í búið námu á þriðja hund­rað millj­örðum króna en ein­ungis var gert ráð fyrir að um sjö millj­arðar króna myndu fást upp í þær.

Fjöl­miðlum skotið undan

Tvennt stóð þó eft­ir, utan eigna Ingi­bjarg­ar, eig­in­konu Jóns Ásgeirs, sem voru umtals­verð­ar. Fjöl­miða­veld­inu 365 hafði verið komið í skjól með ótrú­legri fléttu og Hög­um, sem hélt á inn­lenda versl­un­ar­rekstri fjöl­skyld­unn­ar, hafði verið skotið út úr Baugi sum­arið 2008 og inn í 1998 ehf., sem fjöl­skyldan átti einnig.

365 miðlar var lengi vel stærsta einkarekna fjölmiðlafyrirtæki landsins.
Mynd: Kjarninn

Byrjum á fjöl­miðl­un­um. Afskipti Jóns Ásgeirs að fjöl­miðlum hófust sum­arið 2002 þegar hann keypti frí­blaðið Frétta­blað­ið. Næstu árin var ráð­ist í hverja skuld­settu yfir­tök­una á fjöl­miðlum á fætur öðru. Í byrjun árs 2004 keypti Jón Ásgeir Norð­ur­ljós, eig­anda Stöðvar 2, Bylgj­unnar og fleiri miðla, af Jóni Ólafs­syni. Þessar eign­ir, ásamt vef­síð­unni Vísi.is, voru sam­ein­aðar Frétta­blað­inu og úr varð fjöl­miðl­arisi sem síðar hlaut nafnið 365.

Þessi upp­kaup höfðu verið dýr. Vik­urnar eftir hrunið haustið 2008 lá fyrir að 365 stefndi í gjald­þrot vegna yfir­skuld­setn­ing­ar. Þótt Jón Ásgeir réði sam­steyp­unni og væri langstærsti eig­andi hennar ásamt helstu við­skipta­fé­lögum sín­um, þá voru hlut­hafar nokkur hund­ruð.

Í lok októ­ber 2008 var blásið til stjórn­ar­fundar í 365. Tekin var ákvörðun um að selja alla fjöl­miðla 365 til Rauð­sólar ehf. Eig­andi þess félags var Jón Ásgeir Jóhann­es­son. Kaupin voru að mestu greidd með láni frá Hög­um, sem Jón Ásgeir stýrði enn á þessum tíma.

Hann greiddi ekki sjálfur atkvæði um til­lög­una en þrír við­skipta­fé­lagar hans sem sátu í stjórn­inni sam­þykktu hana. Einn stjórn­ar­mað­ur, Árni Hauks­son, greiddi atkvæði á móti og sagði sig í kjöl­farið úr stjórn­inni.

Hefði átt að fara í þrot

Nafni Rauð­sólar var svo breytt í 365 og gamla 365 fékk nafnið Íslensk afþrey­ing, og sett í þrot. Dóm­kvaddir mats­menn í einka­máli á hendur því komust síðar að þeirri nið­ur­stöðu að félagið hefði verið ógjald­fært og því hefði í raun átt að gefa 365 upp til gjald­þrota­skipta áður en fjöl­miðla­hlut­inn var seldur út. Þegar skipti fóru fram á búinu kom einnig í ljós að stjórn­endur nýja og gamla 365 höfðu ákveðið að veita Rauð­sól afslátt af sölu á hlut­unum þegar end­ur­skoðun fór fram á kaup­verði þeirra.

Skipta­stjóri þrota­bús­ins taldi að um kláran gjafa­gern­ing væri að ræða, enda var Jón Ásgeir stjórn­ar­for­maður í félag­inu sem var að selja félagi í hans eigu fjöl­miðl­ana, sömu lyk­il­stjórn­endur voru í báðum félög­um, sátu stjórn­ar­fundi í þeim og und­ir­rit­uðu samn­ing­ana sem veittu umræddan afslátt. Hér­aðs­dómur var sam­mála skipta­stjór­anum og dæmdi Rauð­sól, sem þá hafði verið sam­einuð dótt­ur­fé­lag­inu 365 miðlum undir nafni þess síð­ar­nefnda, til að greiða þrota­bú­inu 160 millj­ónir króna til baka. 365 miðlar þurftu því að greiða þrota­búi 365 vegna kaupa á bréfum í 365 miðl­um.

Áttu fé í Panama

Þrátt fyrir að Ingibjörg Stefanía Pálmadóttir hafi sjálf verið umsvifamikill fjárfestir fyrir hrun og tekið þátt í mörgum áhættusömum fjárfestingaævintýrum í slagtogi við eiginmann sinn eða ein síns liðs þá virðist hún hafi komið nokkuð vel utan hrunvetrinum.

Að minnsta kosti hefur henni tekist að halda mörgum af sínum helstu eignum á Íslandi og í krafti auðs síns tekið yfir aðrar eignir, sem Jón Ásgeir átti áður en lenti í erfiðleikum með að halda vegna þrýstings kröfuhafa, rannsókna sérstaks saksóknara og uppþornaðs lánshæfis. Þar ber helst að nefna 365 miðla, sem Ingibjörg tók yfir eftir að Jón Ásgeir hafði tryggt sér áframhaldandi stjórn á því vikurnar eftir bankahrunið. Skiptastjórar í þrotabúum félaga sem tengjast hjónunum hafa lengi skoðað alls kyns tilfærslur á eignum sem áttu sér stað innan þeirra á lokametrunum fyrir hrun eða á misserunum eftir það. Með litlum árangri. Í apríl 2016 var þó opinberað að hluti peninganna sem voru í eigu hjónanna fór til Panama. Í október 2007 stofnaði panamska lögfræðistofan Mossack Fonseca félag fyrir Landsbankann í Lúxemborg, sem kom fram við skráninguna fyrir hönd viðskiptavinar sínar. Félagið átti að heita OneOOne Entertainment S.A.

Í fundargerð stjórnar hins nýstofnaða félags, sem er dagsett 2. október 2007, kemur fram að prókúruhafar félagsins séu Ingibjörg Pálmadóttir og Jón Ásgeir Jóhannesson. Þ.e. öll völd yfir eignum þess eru í höndum þessara tveggja aðila frá stofnun. Þau máttu taka lán eða lána fé félagsins án nokkurra takmarkanna. Vald stjórnarmanna í félaginu var að fullu framselt til þeirra tveggja í þrjú ár, fram til ársins 2010. Strax í janúar það ár var sendur tölvupóstur þar sem óskað var eftir því að starfsmenn Mossack Fonseca, sem sátu í stjórn OneOOne, fylltu út skráningareyðublað til að heimila Ingibjörgu að opna bankareikning fyrir félagið hjá svissneska bankanum Credit Suisse í Lúxemborg. Í kjölfarið var einnig farið fram á að nafni félagsins yrði breytt í Moon Capital S.A. Það nafn hljómar ugglaust kunnuglega í eyrum margra, enda er meirihlutaeignarhald Ingibjargar á 365 miðlum að mestu í gegnum félag sem ber sama nafn, Moon Capital, en er skráð í Lúxemborg.

Síðar var nafninu breytt í Guru Invest S.A. Þetta félag hefur fjármagnað fjöldamörg verkefni í Bretlandi og á Íslandi á undanförnum árum.

Þegar Kjarninn spurði Jón Ásgeir og Ingibjörgu út í hvaðan þeir fjármunir sem vistaðir voru í Guru Invest í Panama hafi komið, hverjar eignir félagsins væru og hvort að fé úr Guru Invest hafi runnið til félaga eða einstaklinga á Íslandi. Þar var einnig spurt hvort eignir Guru Invest hafi verið á meðal þeirra eigna sem tilgreindar voru í umfangsmiklum skuldauppgjörum þeirra við kröfuhafa á Íslandi sem fram hafa farið á undanförnum árum og beðið um upplýsingar um hvar Guru Invest greiddi skatta og gjöld. Þá var einnig spurt af hverju félagið væri skráð með heimilisfesti á Panama.

Engin efnisleg svör bárust við fyrirspurninni.

Alls töp­uðu kröfu­hafar Íslenskrar afþrey­ing­ar, gamla 365, 3,7 millj­örðum króna. Þeir voru að uppi­stöðu íslenskir líf­eyr­i­s­jóðir og rík­is­bank­inn Lands­bank­inn. Sjóð­stýr­ing­ar­fyr­ir­tæki bank­ans, Landsvaki, stefndi Jóni Ásgeiri og stjórn­ar­mönn­unum þremur sem sam­þykktu söl­una á fjöl­miðl­unum haustið 2008. í jan­úar 2013 náð­ist sátt í mál­inu með því að menn­irnir fjórir greiddu nokkra tugi millj­óna króna. Rík­is­bank­inn hefur neitað að upp­lýsa um á hvaða grund­velli ráð­ist var í þá sátt.

Við­skipti árs­ins 2017

Eign­ar­haldið á 365 var síðar fært yfir til Ingi­bjarg­ar, eig­in­konu Jóns Ásgeirs. Hún er eini eig­andi félags­ins í dag. Rekstur fjöl­miðla 365 var sann­ar­lega eng­inn dans á rósum síð­asta ára­tug­inn. Breyt­ingar í neyt­enda­hegð­un, tækni- og upp­lýs­inga­bylt­ing og auð­vitað efna­hags­sam­dráttur í kjöl­far banka­hruns gerðu það að verkum að helstu tekju­stoð­irn­ar, aug­lýs­inga­sala og sjón­varps­á­skrift, áttu undir högg að sækja. Tapið á síð­ustu árum var gríð­ar­legt, hljóp á millj­örðum króna. Sam­hliða hefur starfs­manna­velta verið gríð­ar­leg, aðhalds­að­gerðir að minnsta kosti árlegar og ýmis hneyksl­is­mál tengdum afskiptum eig­anda að rit­stjórn miðla skotið upp koll­in­um, sem hafa rýrt trú­verð­ug­leika sam­steypunn­ar.

Samt sem áður tókst Jóni Ásgeiri að selja útvarps- og sjón­varps­miðla 365 ásamt frétta- og afþrey­ing­ar­vefnum Vísi.is og fjar­skipta­sviði 365 til Voda­fone á árinu 2017 fyrir 8,3 millj­arða króna. Þetta gerði 365 kleyft að greiða upp þorra lang­tíma­lána sinna og eign­ast ell­efu pró­sent hlut í Voda­fo­ne. Yfir­færslan á miðl­unum átti sér stað í byrjun des­em­ber 2017. Um var að ræða ótrú­leg við­skipti fyrir Jón Ásgeir og Ingi­björgu. Margir við­mæl­endur Kjarn­ans telja þau vera ein bestu við­skipti síð­ustu ára, þar sem hjónin fengu mjög mikið fyrir lít­ið.

Nafni Fjar­skipta, móð­ur­fé­lags Voda­fo­ne, var síðar breytt í Sýn. Félagið er skráð á markað og stærstu eig­endur þess eru íslenskir líf­eyr­is­sjóð­ir, í ein­hverjum til­fellum þeir sömu og áttu skulda­bréf á gamla 365 sem var sett í 3,7 millj­arða króna þrot.

For­sendur ekki gengið eftir

Þegar til­kynnt var um við­skiptin kom fram í kynn­ingu frá kaup­anda til fjár­festa að sam­legð­ar­á­hrif vegna kaupana yrði um 1,1 millj­arður króna á ári. Á meðal helstu áhættu­þátta voru mögu­leg fækkun við­skipta­vina í áskrift­ar­sjón­varpi.

Enn sem komið er hafa kaupin ekki reynst gæfu­leg fyrir Sýn. Alls lækk­aði mark­aðsvirði þess um 38,3 pró­sent á síð­asta ári, meira en í nokkru öðru skráðu félagi. Dag­skrár­kostn­aður reynd­ist hærri, aug­lýs­inga­sala og sala sjón­varps­á­skrifta lægri og kostn­aður við sam­þætt­ingu meiri en ætlað var. Þetta leiddi til þess að tveir stjórn­endur Sýnar voru látnir fara í byrjun árs 2019, þar á meðal Björn Víglunds­son, sem var yfir miðlum félags­ins. Sýn sendi tvær afkomu­við­var­anir frá sér á síð­ustu mán­uðum árs­ins 2018 og hækk­aði verð á sjón­varps- og fjar­skipta­þjón­ustu félags­ins um allt að 30 pró­sent um mán­aða­mótin nóv­em­ber/des­em­ber.

Enn ein blóð­takan varð þegar Sím­inn tryggði sér rétt­inn af sýn­ingu á enska bolt­anum frá og með næsta keppn­is­tíma­bili. Í sam­runa­skrá vegna kaupa á miðlum 365, sem var óvart birt á vef Sam­keppn­is­eft­ir­lits­ins með trún­að­ar­upp­lýs­ingum vorið 2017, kom fram að um þrjú þús­und áskrif­endur væru að Sport­pakka Stöðvar 2 og tæp­lega 1.400 manns með Risa­pakk­ann, sem inni­heldur einnig íþrótta­stöðv­arn­ar. Hluti þess­ara áskrif­enda gæti verið í hættu þegar enski bolt­inn er ekki lengur í boði innan henn­ar. Í nýlegri grein­ingu Arion banka á Sýn er áætlað að um fimm þús­und við­skipta­vinir gætu farið frá félag­inu sam­hliða því að það missir enska bolt­ann.

Enski boltinn flyst yfir til Símans næsta haust. Það verður töluverður höfuðverkur fyrir Sýn
Mynd: EPA

Í októ­ber seldu 365 miðlar allt hluta­féð sem þeir fengu Sýn fyrir söl­una á miðl­unum og not­uðu ágóð­ann til þess að kaupa hluta­bréf í Hög­um. Eina stóra fjöl­miðla­eign þeirra í dag er frí­blaðið Frétta­blað­ið, sem hefur verið í óform­legu sölu­ferli mán­uðum saman hjá Kviku banka.

Undið ofan af end­ur­kom­unni

Baugs­fjöl­skyldan hafði, líkt og áður sagði, skotið Högum út úr Baugi á árinu 2008. Það var gert með því að stofna félagið 1998 ehf., félagi stýrt af Baugs­fjöl­skyld­unni, og láta það kaupa Haga á 30 millj­arða króna. Hluti af pen­ing­unum sem Baugur fékk fyrir söl­una var svo not­aður til að kaupa hluta­bréf í Baugi af Baugs­fjöl­skyld­unni.

En fjöl­skyldan hafði enn yfir­ráð yfir Högum vegna þess­arar fléttu. Arion banki átti þó veð í nán­ast öllu félag­inu og gat leyst það til sín. Það gerð­ist í nóv­em­ber 2009 og í febr­úar 2010 var greint frá því að  Jó­hannes og stjórn­endur félags­ins fengju að kaupa 15 pró­sent í Hög­um. Afgang­ur­inn yrði seldur í gegnum Kaup­höll­ina eftir að Hagar yrðu skráðir á mark­að. Jóhannes átti áfram að vera stjórn­ar­for­maður Haga.

Nið­ur­staðan horfði sér­kenni­lega við mörg­um. Arion banki þurfti enda að afskrifa yfir 30 millj­arða króna vegna fjöl­skyld­unn­ar, þótt það tap lenti reyndar að öllu leyti á þrota­búi Kaup­þings. Fólk átti erfitt með að skilja hvernig fjöl­skylda gat sett félag svo rosa­lega á höf­uðið en samt haldið hluta af eignum sín­um.

Síð­ar, eftir að Hösk­uldur H. Ólafs­son tók við starfi banka­stjóra Arion banka sum­arið 2010, var undið ofan af þessu sam­komu­lagi. Í lok ágúst til­kynnti Arion banki að Jóhann­esi Jóns­syni hefði verið vikið úr stjórn Haga, að for­kaups­réttur hans á hlutafé í félag­inu hefði verið felldur úr gildi og að sölu­ferli Haga yrði í kjöl­farið end­ur­hugs­að.

Við þessa aðgerð missti fjöl­skyldan tökin á Hög­um. Tök sem hún er nú að reyna að ná aft­ur.

Jóhannes Jóns­son lést árið 2013.

Jón Ásgeir kemur aftur upp á yfir­borðið

Frá haustinu hafa félög í eigu Ingi­bjargar Stef­aníu Pálma­dóttur verið að fjár­festa í Hög­um. Nú eiga tvö félög hennar sam­tals 4,3 pró­sent í Hög­um.

Það var á grunni þess­arar eignar sem form­leg end­ur­koma Jóns Ásgeirs var reynd. Í henni fólst að bjóða hann fram til stjórnar Haga í stjórn­ar­kjöri Haga sem fram fór 18. jan­ú­ar. Við­mæl­endur Kjarn­ans segja að hann hafi reynt að afla stuðn­ings víða en ekki hlotið náð fyrir til­nefn­ing­ar­nefnd Haga, sem til­nefndi sínar í stjórn að mestu leyti á sam­ráði við stærstu hlut­hafa. Stærstu hlut­hafar Haga eru stærstu líf­eyr­is­sjóðir lands­ins (Gildi, LSR, Líf­eyr­is­sjóður verzl­un­ar­manna, Birta, Stapi, Frjálsi líf­eyr­is­sjóð­ur­inn og Söfn­un­ar­sjóður líf­eyr­is­rétt­inda eiga sam­tals 52 pró­sent í Hög­um) og tveir sjáv­ar­út­vegs­risar, Sam­herji (9,95 pró­sent) og FISK-­seafood, útgerð­ar­armur Kaup­fé­lags Skag­firð­inga (4,57 pró­sent). Stærsti einka­fjár­festir­inn er Ingi­björg.

Þegar ljóst var að Jón Ásgeir var ekki á meðal þeirra sem til­nefndir voru í stjórn­ina hófst bar­átta hans fyrir því að þrýsta á kjör sitt með öðrum hætti, ann­ars vegar með því að vísa til kosta sinna og hins vegar með því að reyna að knýja fram marg­feld­is­kosn­ingu.

Frétta­blaðið sýndi þessu máli mik­inn áhuga og birti fjölda frétta, skoð­anapistla og nafn­lausra skoð­ana­greina um mál­ið. Þann 12. jan­úar fjall­aði blaðið gagn­rýnið um að til­nefn­ing­ar­nefndin hefði ein­ungis leitað til sex stærstu hlut­hafa og sagt að vana­lega sé leitað til 20 stærstu. Félög í eigu Ingi­bjargar eru sam­an­lagt sjö­undi stærsti hlut­haf­inn. Í Mark­aðn­um, fylgi­riti Frétta­blaðs­ins um efna­hags­mál og við­skipti, sem kom út mið­viku­dag­inn 16. jan­úar var síðan frétt um hversu lítið hefði vantað upp á að marg­feld­is­kosn­ingu yrði beitt og haft eftir ónafn­greindum hlut­höfum að þeir væru óánægðir með þessa nið­ur­stöðu. Í sama blaði birt­ist skoð­ana­grein eftir blaða­mann Mark­að­ar­ins þar sem til­vera til­nefn­ing­ar­nefnda var gagn­rýnd og á bak­síðu hans fjall­aði hinn nafn­lausi pistla­höf­undur „Stjórn­ar­mað­ur­inn“ um sama efni auk þess sem hann sagði það erfitt að „halda því fram að stofn­andi Haga hafi ekki hæfni, þekk­ingu eða reynslu til að sinna stjórn­ar­störfum fyrir félag­ið.“

Dag­inn sem kosn­ingin fór fram, 18. jan­ú­ar, var skrifuð frétt í Frétta­blaðið þar sem fram kom að nokkur kurr væri á meðal smærri hlut­hafa Haga vegna lít­ils sam­ráðs við til­nefn­ingu stjórn­ar­manna, sam­kvæmt heim­ildum blaðs­ins. Þegar nið­ur­staða stjórn­ar­kjörs­ins lá fyrir var Jón Ásgeir til við­tals við vef Frétta­blaðs­ins þar sem hann dró til­nefn­ing­ar­nefndir í efa og sagð­ist velta því fyrir sér hvort þær væru af hinu góða, eða hvort þær væru að skerða rétt smærri hlut­hafa.

Laug­ar­dag­inn 19. jan­úar skrif­aði svo annar rit­stjóri Frétta­blaðs­ins frétt í blaðið þar sem Jón Ásgeir var til við­tals. Inn­tak frétt­ar­innar var að félag Ingi­bjargar Pálma­dóttur og aðrir ónafn­greindir smærri hlut­hafar ætl­uðu að setja fram til­lögu fyrir aðal­fund Haga um að marg­feld­is­kosn­ing yrði fram­kvæmd í stjórn­ar­kjöri í Högum á aðal­fundi félags­ins, sem fram fer í júní næst­kom­andi.

Síð­ast­lið­inn mið­viku­dag, 23. jan­ú­ar, birt­ist fimm dálka skoð­ana­grein eftir Jón Skafta­son, bróður Ólafar Skafta­dótt­ur, ann­ars rit­stjóra Frétta­blaðs­ins og sonar útgef­anda blaðs­ins, Krist­ínar Þor­steins­dótt­ur, í Mark­aðn­um. Jón starfar sem fram­kvæmda­stjóri fjár­fest­inga hjá 365 og er nán­asti sam­starfs­maður Jóns Ásgeirs. Í grein­inni setti Jón fram gagn­rýni á til­nefn­ing­ar­nefnd Haga og stjórn­ar­kjörið í félag­inu og sagði mik­il­vægt að Hagar dragi lær­dóm af ferl­inu. Þar sagði hann að nokkuð „óum­deilt hlýtur að vera að Jón Ásgeir hefur ein­staka þekk­ingu á verslun bæði hér heima og erlend­is. Þá hefur hann sem stofn­andi Bón­uss og síðar for­stjóri Haga og stjórn­ar­for­maður ágæta inn­sýn í félag­ið. Þrátt fyrir þetta, og þá stað­reynd að Jón Ásgeir virt­ist fljótt á litið skora hátt á nán­ast öllum þeim mæli­kvörðum sem bar að leggja til grund­vall­ar, hlaut hann ekki náð fyrir augum nefnd­ar­inn­ar.“

Full­yrða má að Jón Ásgeir hafi ekki verið jafn títt til við­tals í fjöl­miðl­um, hvorki þeim sem hann stýrir né öðrum, vegna við­skipta­mála frá því fyrir hrun.

Og ljóst má vera að hann ætlar sér ekki lengur að sigla undir yfir­borð­inu í við­skipta­veldi þeirra hjóna, heldur að stíga á ný fram í dags­ljós­ið.

Dómur Mannréttindadómstóls sem hafði víðtækar afleiðingar

Þann 18. maí 2017 komst Mann­rétt­inda­dóm­stóll Evr­ópu að þeirra nið­ur­stöðu að íslenska ríkið hefði brotið gegn Jóni Ásgeiri Jóhann­essyni og Tryggva Jóns­syni þegar þeir voru dæmdir í skil­orðs­bundið fang­elsi fyrir skatta­laga­brot í rekstri Baugs og fjár­fest­inga­fé­lags­ins Gaums árið 2013, ásamt Krist­ínu Jóhann­es­dótt­ur.

Þeir kærðu þann dóm til Mann­rétt­inda­­dóm­stóls­ins á þeim for­­sendum að þeir hefðu þegar hlotið dóm fyrir sömu brot. Þeir höfðu verið dæmdir til að greiða álag ofan á end­ur­á­kvörðun skatta af yfir­­skatta­­nefnd árið 2007. Málin tvö hefðu verið byggð á sama grunn­i. Og því væri verið að refsa þeim tví­vegis fyrir sama brot­ið.

Fram að þeim tíma hafði það tíðkast hér­lendis að þeir sem sviku stór­fellt undan skatti skyldu greiða hátt álag ofan á þá van­goldnu skatta sem þeir skyldu end­ur­greiða. Ef um meiri­háttar brot var að ræða þá var við­kom­andi einnig ákærður fyrir meiri háttar skatta­laga­brot, en við slíkum brotum liggur allt að sex ára fang­elsi auk þess sem viðkomandi þarf að að greiða sekt.

Þegar Mann­rétt­inda­dóm­stóll­inn hafði kom­ist að nið­ur­stöðu þá þurfti að falla dómur í Hæsta­rétti um sam­bæri­legt efni til að fram komi hver áhrif nið­ur­stöð­unnar verði á íslenska dóma­fram­kvæmd. Sá dómur féll í lok september 2017.

Niðurstaðan hafði áhrif á fjöldamörg önnur mál og varð til þess að héraðssaksóknari þurfti að fella niður að að minnsta kosti 66 mál þar sem grunur var um að einstaklingar hefðu framið skattsvik. Stór hluti málanna snerist um einstaklinga sem geymdu fjármuni utan Íslands til að komast hjá skattgreiðslum.

Við þurfum á þínu framlagi að halda

Þú getur tekið beinan þátt í að halda úti öflugum fjölmiðli.

Við sem vinnum á ritstjórn Kjarnans viljum hvetja þig til að vera með okkur í liði og leggja okkar góða fjölmiðli til mánaðarlegt framlag svo við getum haldið áfram að vinna fyrir lesendur, fyrir fólkið í landinu.

Kjarninn varð níu ára í sumar. Þegar hann hóf að taka við frjálsum framlögum þá varð slagorðið „Frjáls fjölmiðill fyrir andvirði kaffibolla“ til og lesendur voru hvattir til að leggja fram í það minnsta upphæð eins kaffibolla á mánuði.

Mikið vatn hefur runnið til sjávar á þeim níu árum sem Kjarninn hefur lifað. Í huga okkar á Kjarnanum hefur þörfin fyrir fjölmiðla sem veita raunverulegt aðhald og taka hlutverk sitt alvarlega aukist til muna.

Við trúum því að Kjarninn skipti máli fyrir samfélagið.

Við trúum því að sjálfstæð og vönduð blaðamennska skipti máli.

Ef þú trúir því sama þá endilega hugsaðu hvort Kjarninn er ekki allavega nokkurra kaffibolla virði á mánuði.

Vertu með okkur í liði. Þitt framlag skiptir máli.

Ritstjórn Kjarnans: Sunna Ósk Logadóttir, Þórður Snær Júlíusson, Erla María Markúsdóttir, Arnar Þór Ingólfsson, Eyrún Magnúsdóttir og Grétar Þór Sigurðsson.


Já takk, ég vil styrkja Kjarnann!
Meira eftir höfundinnÞórður Snær Júlíusson
Meira úr sama flokkiFréttaskýringar