Mynd: Mannlíf

Útgerðin í annarri deild

Undanfarinn áratugur hefur verið einn allra besti tíminn í sögu íslensks sjávarútvegs. Fjárhagsstaða margra stærstu útgerðarfyrirtækjanna er orðin það sterk, að þau eru í annarri deild heldur en meginþorri fyrirtækja í íslensku atvinnulífi. Umsvif þeirra í öðrum geirum fara vaxandi, og má búast við að sú þróun haldi áfram. En hvað þýðir það?

Lengi hefur verið deilt um kvóta­kerfið á Íslandi og mörgum sjón­ar­miðum haldið á loft­i.  Það var tekið upp árið 1984 og útgerðir með afla­reynslu þriggja ára þar á undan fengu afhentan kvóta án end­ur­gjalds.  

Þá var afkoman slæm og kvót­inn (afla­heim­ild­ir) lít­ils virði.  

Eftir að fram­sal á kvóta var gefið frjálst juk­ust smám saman við­skipti með kvóta og hægt og bít­andi safn­að­ist kvót­inn til þeirra fyr­ir­tækja sem vildu gera út áfram af ýmsum ástæðum og gerðu út á hag­kvæman hátt.

Sumir útgerð­ar­menn seldu t.d. fyrir ald­urs sakir og aðrir sáu leik á borði þegar kvót­inn varð skyndi­lega orð­inn verð­mætur og inn­leystu hagnað og fjár­festu í öðrum atvinnu­grein­um. Enn aðrir seldu kvóta vegna hjóna­skiln­að­ar.  Og allt þar á milli. 

Hreyf­an­leiki og fjár­fest­ing

Þessi hreyf­an­leiki á afla­heim­ildum leiddi til mik­illar hag­ræð­ingar í grein­inni, og mik­illar auð­söfn­unar eig­enda útgerð­ar­fyr­ir­tækj­anna. Stóru fyr­ir­tækin urðu stærri. Á und­an­förnum ára­tug hefur þró­unin haldið áfram á sömu braut; aukin hag­ræð­ing og sterk­ari efna­hagur fyr­ir­tækj­anna hefur gefið þeim tæki­færi á auk­inni fjár­fest­ingu og tækni­væð­ing­u. 

Algjör kúvend­ing hefur orðið á efna­hags­reikn­ingum helstu útgerð­ar­fyr­ir­tækja lands­ins á ára­tug. Hrun fjár­mála­kerf­is­ins og krón­unn­ar, haustið 2008, var í raun mikil búbót fyrir sjáv­ar­út­veg­inn í land­inu, sem hafði árin á undan glímt við erf­ið­leika vegna sterks gengis krón­unnar gagn­vart helstu við­skipta­mynt­um. Íslensk sjáv­ar­út­vegs­fyr­ir­tæki hafa sínar tekjur í erlendri mynt og því þýddi mikil og hröð veik­ing krón­unn­ar, í kjöl­far hruns­ins, að sam­keppn­is­staða íslensks sjáv­ar­út­vegs batn­aði veru­lega. Nýr rekstr­ar­grund­völlur fyr­ir­tækj­anna varð í raun til við þetta, svo mikil var breyt­ing­in.

Sé horft til áranna 2010 og út árið 2017 þá hefur hagur útgerða­fyr­ir­tækja lands­ins vænkast um 421,3 millj­arða króna. Eig­in­fjár­staða sjáv­ar­út­vegs­ins var nei­kvæð, að með­al­tali, í lok árs 2008 en var jákvæð í lok árs 2017 um 262 millj­arða króna, sam­kvæmt upp­lýs­ingum sem Deloitte hefur tekið sam­an, og byggir á upp­lýs­ingum frá 87 pró­sent af sjáv­ar­út­vegn­um. Frá árinu 2010 hafa eig­endur útgerð­ar­fyr­ir­tækj­anna fengið 80,3 millj­arða króna í arð­greiðsl­ur. 

Tekjur sjáv­ar­út­vegs­ins á árinu 2017 voru um 225 millj­arðar króna og fram­legðin af rekstr­inum um 40 millj­arð­ar. EBIT­DA-hagn­aður (rekstr­ar­hagn­aður fyrir fjár­magns­kostn­að, skatta og afskrift­ir) var 18 pró­sent á árinu 2017, en árin á undan var hann nokkuð meiri, eða ríf­lega 20 pró­sent. 

Skuldir sjáv­ar­út­vegs­fyr­ir­tækja, það er skuldir sjáv­ar­út­vegs­fyr­ir­tækja sem til­heyra grunn­in­um, hækk­uðu í 362 millj­arða króna árið 2017. Það er umtals­verð hækkun á milli ára, eða úr 319 millj­örðum króna. Skuldir eru samt minni 2017 en þær voru árið 2014.

Geir­inn hefur þó lagað skulda­stöðu sína gríð­ar­lega á árunum 2009-2017, eða um 86 millj­arða króna umfram nýjar lang­tíma­skuld­ir. Ein­ungis tví­vegis á því tíma­bili hefur verið stofnað til skulda umfram afborg­an­ir, árið 2015 þegar ný lán voru 18 millj­arða fram yfir afborg­an­ir, og í fyrra þegar þau voru 15 millj­arða fram yfir afborg­an­ir.

Kvóta­verð þok­ast uppá við

Ýmsar hlið­ar­verk­anir hafa verið á þess­ari til­tölu­lega stuttu þróun kvóta­kerf­is­ins, sé litið til hag­sög­unnar íslensku. Eftir því sem árin hafa liðið og verð á kvóta hefur hækkað hefur sífellt orðið erf­ið­ara fyrir venju­legt fólk að fjár­festa í kvóta og kaupa sér bát, en end­ur­nýjun og nýliðun í grein­inni hefur lengi verið hluti af póli­tískri rök­ræðu um grein­ina.

Hin síð­ari ár hefur flest fólk sem byrjar með tvær hendur tómar ekki tök á að kaupa sér nokkra tugi tonna af t.d. þorsk­kvóta og bát með.  Upp­hafs­kostn­aður við slíkt eru millj­óna­tugir og ekki á færi nema sterk­efn­aðra.  Auk þess er stærð­ar­hag­kvæmni í grein­inni orðin svo ráð­andi þáttur að erfitt er að „keppa“ við stærri fyr­ir­tækin þegar kemur að verðum á mark­að­i. 

Í stað þess að það verði mikil end­ur­nýjun eða nýliðun í grein­inni þá selja yfir­leitt eldri útgerð­ar­menn, hvort sem er í smá­út­gerðum eða stærri, sem eiga litla kvóta­pakka, til stóru útgerð­ar­fyr­ir­tækj­anna sem sjá sér hag í að bæta við kvóta og hag­ræða enn frekar í rekstri, enda hafa þau yfir að ráða tækjum og tólum til að nýta kvót­ann bet­ur, með hag­kvæmri vinnslu. 

Risar í mörgum atvinnu­greinum

Á allra síð­ustu hefur sam­þjöpp­unin auk­ist áfram á miklum hraða.  Nokkur af allra stærstu sjáv­ar­út­vegs­fyr­ir­tækj­unum hafa stækkað sífellt meira með hverju árinu sem líð­ur. Arð­semi í grein­inni er vissu­lega mis­mikil eftir því hvernig gengi krón­unnar sveifl­ast og einnig eftir afla­brögðum og fisk­verð­i.  Hin stóru og sterku sjáv­ar­út­vegs­fyr­ir­tæki eru þó vel varin fyrir sveiflum þar sem flest þeirra eiga mik­inn kvóta í mörgum mis­mun­andi teg­und­um.  

Svo bæt­ist við að tækni­fram­farir hafa verið miklar og aukið hag­kvæmni. Skipum hefur fækkað og störfum í landi einnig.  Mörg þessi stærstu fyr­ir­tæki eru veru­lega arð­söm og eig­endur þeirra hafa hagn­ast mikið á síð­ustu árum. 

Tækniframfarir og hagstæðar ytri aðstæður

Það hefur orðið mikil tækniþróun í sjávarútvegi á undanförnm árum sem hefur aukið hagkvæmni við veiðar og vinnslu á fiski. Þau útgerðarfyrirtæki sem eru stærst eru í bestum færum til að nýta sér tækniframfarir til að auka virði þess afla sem fæst uppúr sjó. Stjórnvöld hafa auk þess fylgt ráðgjöf vísindamanna við fiskveiðistjórnun síðustu ár sem leitt hefur til þess að margar af okkur verðmætustu tegundum hafa dafnað vel til hagsbóta fyrir sjávarútveginn og hagkerfið. Þetta er ekki sjálfsagt, enda þekkt í sjávarútvegi á heimsvísu að hrun stofna og ofveiði hefur oft leitt til efnahagsáfalla. Loks hefur breytt ástand sjávar leitt til þess að nýjar tegundir (makríll t.d.) hafa synt inní landhelgina líkt og hálfgerður happadrættisvinningur.

Í tilfelli makrílsins voru stærstu sjávarútvegsfyrirtækin í lang bestri stöðu til að veiða og vinna þá tegund enda áttu þau fyrir skip og búnað til að veiða annan uppsjávarfisk. Sömu aðferðarfræði og við upphaf kvótakerfisins var beitt við nýtingu á makríl – þ.e.a.s. aflareynsla fyrstu áranna leiddi til þess kvótanum er nú útdeilt eftir reglugerð að stærstum hluta til þeirra sem veiddu fyrstu árin eftir að markíll kom inn í lögsöguna. Það gerðist í vaxandi mæli um svipað leyti og fjármálakerfið hrundi og gengisfall krónunnar kom fram. Þannig má segja að koma makrílsins hafi haft enn meiri jákvæðari áhrif á efnahag landsins.

Hafrannsóknarstofnun greindi frá því í liðinni viku, 25. janúar síðastliðinn, að fyrsta alþjóðlega rannsóknin hefði nú staðfest að makríll væri að festast í sessi í íslenskri lögsögu. „Á undanförnum árum hefur makríll gengið bæði norðar og vestar en áður. Samfara því hefur útbreiðsla og magn makríls á Íslandsmiðum aukist verulega og er það talið tengjast hlýnun sjávar og þéttleikaháðum áhrifum samfara stækkun stofnsins. Beinar veiðar hófust hér við land árið 2007. Makríllinn byrjar að hrygna í febrúar við strendur Spánar og Portúgals og síðan flyst hrygningin smám saman norður með Evrópu fram á vor með hækkandi hitastigi. Hrygningin nær venjulega hámarki í apríl-maí úti fyrir vesturströnd Írlands og suðvesturströnd Englands, en á sama tíma er töluverð en dreifðari hrygning allt frá Biscayaflóa og norður fyrir Færeyjar. Á nyrstu svæðunum hefst hrygningin seinna og stendur fram í júlí. Frá árinu 2004 hefur orðið vart við makrílungviði við Suður- og Vesturströnd Íslands.

Í þessari rannsókn var stuðst við niðurstöður úr fjölþjóðlegum rannsóknarleiðöngrum á vegum Alþjóðahafrannsóknaráðsins (ICES) á hrygningu makríls í Norðaustur Atlantshafi árin 2010 og 2013. Hafstraumar við suðurströnd landsins voru kortlagðir með aðstoð hafstraumalíkansins CODE sem þróað hefur verið við Háskóla Íslands. Makrílseiði af Íslandsmiðum voru aldursgreind og líkt var eftir reki ungviðis frá veiðisvæði að klak- og hrygningarsvæði með því að reikna út rek með straumum aftur á bak í tíma. Þannig var, ásamt fyrirliggjandi upplýsingum um hrygningu makríls við Ísland, leiddar líkur að því hvar makrílungviðið klaktist út. Þessi rannsókn sýnir í fyrsta skipti fram á að makríll klekst út, vex og dafnar á íslensku hafsvæði þó vissulega sé aðeins um lítið brot af heildarhrygningu makríls að ræða,“ í sagði um umfjöllun Hafrannsóknarstofnunar. Þetta eru töluverð tíðindi fyrir sjávarútveginn, þar sem þarna eru nú komnar fram vísbendingar, studdar eru með rannsóknum, um makríll sé mögulega kominn til að vera í íslenskri lögsögu.

Arð­semin hjá best reknu sjáv­ar­út­vegs­fyr­ir­tækj­unum er í algerum sér­flokki í sam­an­burði við annan atvinnu­rekstur í land­in­u.  Mörg af stærstu sjáv­ar­út­vegs­fyr­ir­tækj­unum hafa valið að fjár­festa í auknum mæli út fyrir grein­ina til að dreifa áhætt­unni.  

Fjár­fest fyrir utan geir­ann

Nú á t.d. Síld­ar­vinnslan kjöl­festu­hlut í trygg­ing­ar­fé­lag­inu Sjó­vá.  Sam­herji, sem stærsti eig­andi Síld­ar­vinnsl­unn­ar, á kjöl­festu­hlut í Eim­skip (25 pró­sent) og stóran hlut í Högum (tæp­lega 10 pró­sent) og mörgum fleirum fyr­ir­tækjum í ýmsum atvinnu­grein­um.  

Hið sama má segja um Ísfé­lag Vest­manna­eyja, Kaup­fé­lag Skag­firð­inga og Skinn­ey-­Þinga­nes. 

Ísfé­lagið keypti eina stærstu heild­verslun lands­ins, Íslensk/Am­er­íska, árið 2014 og 45 þús­und fer­metra atvinnu­hús­næði, Korpu­torg, árið 2016, svo dæmi séu nefnd. Þá ræður félagið yfir tæp­lega 30 pró­sent hlut í Árvakri, útgáfu­fé­lagi Morg­un­blaðs­ins.

Hvalur hf., þar sem Krist­ján Lofts­son er stærsti eig­andi ásamt systu sinni Birnu Lofts­dótt­ur, hefur einnig látið nokkuð að sér kveða að und­an­förnu. Félagið keypti fyrir um 600 millj­ónir í Arion banka, þegar bank­inn var skráður á markað á Íslandi og í Sví­þjóð, og nýlega keypti Hvalur síðan hlut í Marel fyrir um millj­arð króna og nemur eign­ar­hlutur félags­ins nú um 0,4 pró­sent­um. Eftir söl­una á um þriðj­ungs­hlut í HB Granda í fyrra, sem Útgerð­ar­fé­lag Reykja­víkur (áður Brim) keypti, hefur fjár­hags­staðan styrkst enn frekar, en sölu­verðið var 21,7 millj­arðar króna. 

Aukin umsvif

Flest stærstu fyr­ir­tækin í sjáv­ar­út­vegi hafa því fjár­fest út fyrir grein­ina til að dreifa áhættu og auka umsvif sín. Arð­greiðslur sjáv­ar­út­vegs­fyr­ir­tækj­anna hefðu getað orðið miklu meiri ef þau hefðu ekki valið að fjár­festa í öðrum atvinnu­grein­um, og hafa þær því verið hóf­legar á hefð­bundna rekstr­ar­mæli­kvarða.

Ef fram heldur sem horfir og ytri aðstæður verða áfram góðar hjá stóru sjáv­ar­út­vegs­fyr­ir­tækj­unum í land­inu verða þau mögu­lega alls ráð­andi í atvinnu­rekstri í land­inu áður en langt um líð­ur. Helsta ástæða þessa er hin mikla und­ir­liggj­andi arð­semi hjá þessum fyr­ir­tækj­um, í sam­an­burði við aðra geira. Þá er bann við beinni erlendri fjár­fest­ingu í afla­heim­ildum einnig til þess fallið að þrengja mögu­lega sam­keppni og inn­leið fyrir ný fyr­ir­tæki, enda tak­markað hversu mörg fyr­ir­tæki hafa bol­magn til þess að fara inn á þennan markað í litlu 350 þús­und manna örríki eins og Íslandi.

Stærð­irnar hjá stærstu sjáv­ar­út­vegs­fyr­ir­tækj­un­um, og eig­endum þeirra, eru miklar þegar kemur að fjár­hags­legum styrk. 

Í lok árs 2017 nam eigið fé Sam­herja 754 millj­ónum evra, eða sem nemur um 105 millj­örðum króna. Stærstu eig­end­urnir eru frænd­urnir Þor­steinn Már Bald­vins­son, for­stjóri, og Krist­ján Vil­helms­son, útgerð­ar­stjóri. 

Hjá Ísfé­lag­inu, og Guð­björgu Matth­í­as­dótt­ur, eig­anda þess, er staðan einnig sterk, en eigið fé hjá félag­inu Fram ehf., sem er móð­ur­fé­lag Krist­ins ehf., eig­anda Ísfé­lags­ins, var um 35,5 millj­arðar króna í lok árs 2017. 

Verð­mætin í afla­heim­ildum

Sú mikla verð­mæta­sköpun sem hefur átt sér stað í sjáv­ar­út­vegi á und­an­förnum árum er meðal áhuga­verð­ustu og merki­leg­ustu kafla í hag­sögu lands­ins. 

Kristján Vilhelmsson og Þorsteinn Már Baldvinsson eru á meðal rikustu, og áhrifamestu, manna landsins.
Mynd: Samherji

Á ein­ungis 35 árum hefur mik­ill auður safn­ast upp í sjáv­ar­út­vegi, með mik­illi hag­ræð­ingu og tækni­væð­ingu ekki síst, þar sem allt snýst um afla­heim­ild­ir, kvót­ann. 

Sé miðað við algengt virði á kvót­anum í við­skipt­um, og upp­lausn hans, er heild­ar­virði kvóta um 1.200 millj­arðar króna. Það er upp­hæð sem nemur tæp­lega tvö­földu virði alls eig­in­fjár hjá Arion banka, Íslands­banka og Lands­bank­ans.

Eins og áður segir bendir margt til þess, að áfram­hald­andi upp­bygg­ing verð­mæta í íslenskum sjáv­ar­út­vegi muni auka umsvif stærstu félag­anna í íslensku atvinnu­lífi. Gam­al­kunn­ugt tal um kol­krabba verður þá eflaust ekki langt und­an, enda sjáv­ar­út­vegs­fyr­ir­tækin í allt annarri deild en flest fyr­ir­tækin í land­inu þegar kemur að fjár­hags­legum styrk.

Spurt og svarað um lyk­il­at­riðin í íslenska fisk­veiði­stjórn­un­ar­kerf­inu

Hvernig er úthlutun afla­heim­ilda?

Fiski­stofa úthlutar afla­marki (í tonn­um) til veiða á kvóta­bundnum teg­undum til eins fisk­veiði­árs í senn á grund­velli afla­hlut­deildar hlut­að­eig­andi skips og ákvörð­unar atvinnu­vega- og nýsköp­un­ar­ráð­herra um leyfi­legan heild­ar­afla í ein­stökum teg­undum á fisk­veiði­ár­inu (1. sept. - 31. ág.). Með afla­hlut­deild er átt við það hlut­fall (í pró­sentum talið) af leyfi­legum heild­ar­afla í kvóta­bund­inni teg­und sem fiski­skip má veiða af leyfi­legum heild­ar­afla í teg­und­inni.

Afla­mark flestra teg­unda mið­ast við fisk­veiði­árið en það er tíma­bilið frá 1. sept­em­ber til 31. ágúst ár hvert. Flestir nytja­stofnar á Íslands­miðum eru kvóta­bundnir (98% af heild­ar­afla­verð­mæt­i).

Hvernig er flutn­ingur afla­heim­ilda milli skipa?

Afla­heim­ildir (afla­hlut­deildir og afla­mark) verða lögum sam­kvæmt alltaf að vera bundin við fiski­skip. Að til­teknum skil­yrðum upp­fylltum og með ákveðnum tak­mörk­unum er heim­ilt að flytja afla­heim­ildir á milli fiski­skipa. Flutn­ingur afla­heim­ilda öðl­ast ekki gildi fyrr en Fiski­stofa hefur stað­fest hann.

Lögum sam­kvæmt mega yfir­ráð ein­stakra eða tengdra aðila yfir afla­hlut­deildum almennt og í til­teknum ein­stökum teg­undum ekki fara yfir ákveðin mörk.

Hvernig er sveigj­an­leik­inn í afla­marks­kerf­inu?

Nokkur sveigj­an­leiki er inn­byggður í afla­marks­kerf­ið. Meg­in­mark­miðið með honum er að auð­velda útgerð­ar­mönnum og sjó­mönnum að fara að settum reglum og stuðla að ábyrgri nýt­ingu fiski­stofna. Í því sam­bandi má nefna að heim­ilt er að flytja allt að 15% af afla­marki flestra teg­unda frá einu fisk­veiði­ári yfir á það næsta og þá er heim­ilt að veiða allt að 5% umfram úthlutað afla­mark skips á ein­stöku fisk­veiði­ári og dregst sá afli frá úthlutun á næsta ári.

Með teg­unda­til­færsla er átt við reglu sem heim­ilar að afli í einni teg­und drag­ist að ákveðnu marki frá afla­heim­ildum skips í annarri teg­und. Þessi heim­ild nær þó ekki til veiða á þorski.

Afli undir ákveðnum lengd­ar­mörkum (“und­ir­máls­afli”) til­tek­inna teg­unda, þorsks ýsu, ufsa og karfa dregst ekki að fullu frá afla­marki fiski­skips, enda sé honum haldið aðskildum frá öðrum afla um borð og vigtaður og skráður sér­stak­lega.

Allt að 5% umfram afla­mark fiski­skips má, að til­teknum skil­yrðum upp­fyllt­um, landa sem svoköll­uðum VS-afla og dregst sá afli ekki frá afla­marki hlut­að­eig­andi skips. And­virði þessa afla rennur að stærstum hluta (80%) til Verk­efna­sjóðs sjáv­ar­út­vegs­ins en það sem eftir stendur gengur til útgerðar og áhafnar skips­ins.

Heim­ilt er að stunda tóm­stunda­veiðar til eigin neyslu. Við þær veiðar má ein­göngu nýta hand­færi án sjálf­virkni­bún­að­ar. Óheim­ilt er að selja afla sem fæst við tóm­stund­veiðar eða fénýta hann á annan hátt.

Hvað er afla­mark?

Afla­mark er tvenns kon­ar, þ.e. almennt afla­mark, sem nýta má með veiðum með öllum leyfi­legum veið­ar­færum og króka­afla­mark sem ein­ungis er heim­ilt að nýta með króka­veið­ar­færum (hand­færi og lín­u). Bátar sem stunda veiðar á grund­velli króka­afla­marks eru nefndir króka­bát­ar. Þeir þurfa að vera minni  en 15 brúttó­tonn og er þeim ein­ungis heim­ilt að stunda veiðar með línu og/eða hand­fær­um. Óheim­ilt er að flytja afla­heim­ildir úr króka­afla­marks­kerfi í afla­marks­kerfi. Lið­lega 700 bátar hafa leyfi til veiða með króka­afla­marki.

Hvernig á að standa að vigtun afla?

Það er meg­in­regla í íslenska fisk­veiði­stjórn­un­ar­kerf­inu að allur afli skuli veg­inn í lönd­un­ar­höfn. Lög­giltir vigt­ar­menn ann­ast alla vigtun afla sam­kvæmt ítar­legum reglum sem gilda um vigtun og skrán­ingu sjáv­ar­afla. Fisk­vinnslu­stöðvar og fisk­mark­aðir geta, að til­teknum skil­yrðum upp­fyllt­um, fengið leyfi til þess að end­ur­vigta ísaðan fisk.

Hafn­ar­yf­ir­völd skrá, strax að löndun lok­inni, nið­ur­stöður hverrar vigt­unar í gagna­grunni Fiski­stofu og Lönd­un­ar­hafna (GAFL). Þannig hefur Fiski­stofa alltaf nýjar upp­lýs­ingar um land­anir afla og afla­heim­ilda­stöðu ein­stakra fiski­skipa og fiski­skipa­flot­ans í heild. Þessar upp­lýs­ingar eru birtar jafn­óðum á vef Fiski­stofu.

Það er mik­il­væg meg­in­regla íslenska fisk­veiði­stjórn­un­ar­kerf­inu að allan afla, sem kemur í veið­ar­færi á að koma með að landi og láta vigta í lönd­un­ar­höfn. Brott­kast afla er óheim­ilt og skal veiðum hagað þannig að þess sé gætt að afli skemmist ekki í veið­ar­fær­um.

Við afla­skrán­ingu á afurðum full­vinnslu­skipa er afl­inn reikn­aður til afla­marks sam­kvæmt ein­stak­lings­bundnum nýt­ing­ar­stuðl­um. Nýt­ing­ar­stuðlar byggja á mæl­ingum sem teknar eru um borð í full­vinnslu­skipum sam­kvæmt ákveðnum reglum og aðferðum og með reglu­bundnu milli­bili. Fiski­stofa gerir reglu­lega úttekt á nýt­ing­ar­stuðlum ein­stakra skipa.

Hvenær má loka veiði­svæði?

Ef hlut­fall smá­fisks í afla mælist yfir ákveðnum mörkum er heim­ilt að loka veiði­svæði. Lok­anir geta verið til skamms tíma (skyndi­lok­an­ir) eða til lengri tíma (reglu­gerða­lok­an­ir).

Sér­stakar reglur gilda um útbúnað veiði­færa, s.s. hvað varðar möskva­stærð og smá­fiska­skiljur og er þeim fyrst og fremst ætlað að koma í veg fyrir veiðar á smá­fiski eða aðrar skað­legar veið­ar.

Við þurfum á þínu framlagi að halda

Þú getur tekið beinan þátt í að halda úti öflugum fjölmiðli.

Við sem vinnum á ritstjórn Kjarnans viljum hvetja þig til að vera með okkur í liði og leggja okkar góða fjölmiðli til mánaðarlegt framlag svo við getum haldið áfram að vinna fyrir lesendur, fyrir fólkið í landinu.

Kjarninn varð níu ára í sumar. Þegar hann hóf að taka við frjálsum framlögum þá varð slagorðið „Frjáls fjölmiðill fyrir andvirði kaffibolla“ til og lesendur voru hvattir til að leggja fram í það minnsta upphæð eins kaffibolla á mánuði.

Mikið vatn hefur runnið til sjávar á þeim níu árum sem Kjarninn hefur lifað. Í huga okkar á Kjarnanum hefur þörfin fyrir fjölmiðla sem veita raunverulegt aðhald og taka hlutverk sitt alvarlega aukist til muna.

Við trúum því að Kjarninn skipti máli fyrir samfélagið.

Við trúum því að sjálfstæð og vönduð blaðamennska skipti máli.

Ef þú trúir því sama þá endilega hugsaðu hvort Kjarninn er ekki allavega nokkurra kaffibolla virði á mánuði.

Vertu með okkur í liði. Þitt framlag skiptir máli.

Ritstjórn Kjarnans: Sunna Ósk Logadóttir, Þórður Snær Júlíusson, Erla María Markúsdóttir, Arnar Þór Ingólfsson, Eyrún Magnúsdóttir og Grétar Þór Sigurðsson.


Já takk, ég vil styrkja Kjarnann!
Meira eftir höfundinnMagnús Halldórsson
Meira úr sama flokkiFréttaskýringar