Samstarfshópur, sem skipaður var Ásmundi Einari Daðasyni, félags- og barnamálaráðherra, hefur skilað af sér skýrslu með tillögum um hvernig megi sporna gegn félagslegum undirboðum og brotastarfsemi á íslenskum vinnumarkaði. Að mati hópsins er brýnasta verkefnið að taka markvisst á kennitöluflakki.
Hópurinn leggur til að ríkisskattstjóra fái heimildir til þess að svipta þá einstaklinga sem teljast vanhæfir, vegna óverjandi viðskiptahátta og rökstudds grunar um refsiverði háttsemi í tengslum við atvinnurekstur, tímabundið heimild sinni til að taka þátt stjórn félags. Auk þess telur hópurinn það mikilvægt að komið verði upp föstum samráðshópi stjórnvalda og aðila vinnumarkaðarins sem beri ábyrgð á sameiginlegri stefnumótun um aðgerðir gegn brotastarfsemi á vinnumarkaði.
Engin stofnun safnar tölulegum upplýsingum um kennitöluflakk
Kennitöluflakk er ein birtingarmynd skattundanskota og birtist einna helst í misnotkun á félagaformum sem byggja á takmarkaðri ábyrgð hluthafa. Kennitöluflakk felst meðal annars í stofnun fyrirtækis í sama atvinnurekstri og það félag sem hefur verið úrskurðað gjaldþrota til að losa undirliggjandi rekstur undan fjárhagslegum skuldbindingum en halda eignum.
Í dag safnar engin stofnun á Íslandi tölulegum upplýsingum um eignarhald á félögum og hverjir standa þar að baki. Þórdís Kolbrún R. Gylfadóttir, ferðamála-, iðnaðar og nýsköpunarráðherra, sagði í svari við fyrirspurn þingmanns fyrr í mánuðinum að á meðan slíkar upplýsingar liggi ekki fyrir sé erfitt að meta umfang kennitöluflakks hér á landi.
Ótrúlegt sinnuleysi stjórnvalda gagnvart brotastarfsemi á vinnumarkaði
Samstarfshópurinn leggur því til að ríkisskattstjóri fái heimild til að setja forsvarsmenn fyrirtækja í tímabundið bann við þátttöku í stjórnun félaga, með takmarkaða ábyrgð við tilteknar aðstæður. Í skýrslunni segir jafnframt að lykilatriðið sé að komið sé á sviptingu réttinda með skjótvirkum hætti, að slík mál verði ekki meðhöndluð með sama hætti og sakamál. Forráðamönnum rekstrar sem sætir tilmælum eða stöðvun ætti ekki að vera heimilt að færa reksturinn yfir á aðra kennitölu á meðan á því stendur og halda þar áfram rekstri.
„Það hefur verið alveg ótrúleg þolinmæði stjórnvalda og sinnuleysi gagnvart þessum hlutum. Að mörgu leyti hafa aðilar skellt skollaeyrum við því sem við höfum verið að segja og upplýsa. Sérstaklega varðandi kennitöluflakkið. Þar sem við erum að tala um að ríkissjóður verður af milljarðatugum á hverju ári vegna þess að aðilar eru einfaldlega að nota hlutafélög og einkahlutafélög til þess að ræna peningum af samfélaginu,” sagði Halldór Grönvold aðstoðarframkvæmdastjóri Alþýðusambands Íslands í viðtali við Morgunútvarpið í vikunni, en hann var hluti af samstarfshópnum.
Ríkissjóður fari á mis við milljarða vegna skattundanskota á ári hverju
Á endanum ber almenningur nefnilega tjónið af völdum kennitöluflakks, hvort sem það er í formi hærri skatta, minni opinberrar þjónustu eða með öðrum hætti. Upplýsingar liggja ekki fyrir hversu miklum skatttekjum ríkissjóður hefur orðið af vegna kennitöluflakks eða hvert árlegt tap ríkissjóðsins sé vegna þess. Hins vegar segir í umfjöllun Tíundar, frá janúar 2016, að áætlað sé að ríkissjóður fari á mis við 80 milljarða króna vegna skattundanskota á ári hverju og að kennitöluflakk sé hluti vandans.
Greint hefur verið frá því að atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytið, fjármála- og efnahagsráðuneytið og dómsmálaráðuneytið stefna að því að leggja fram frumvarp um kennitöluflakk á Alþingi síðar í þessum mánuði. Frumvarpið er afrakstur ráðuneytanna eftir að hafa undanfarin misseri haft til skoðunar tillögur Samtaka atvinnulífsins og Alþýðusambands Íslands um leiðir til að sporna við kennitöluflakki í atvinnurekstri.
Vilja að beitt verði þvingunarúrræðum á þau fyrirtæki sem ítrekað brjóta kjaralög
Í skýrslu starfshópsins eru fleiri tillögur reifaðar til að sporna gegn brotastarfsemi á vinnumarkaði. Hópurinn segir að til þess að fyrirbyggja alvarleg og ítrekuð brot gegn starfsmönnum þurfi að útvíkka refsiábyrgð lögaðila og fyrirsvarsmanna. Stjórnvöldum væri þá veittar lagaheimildir til að beita þvingunarúrræðum og stjórnvaldssektum gegn aðilum sem brjóta kjaralög ítrekað. Hópurinn lagði meðal annars að stofnuð yrði einskonar sérsveit, skipuð fólki frá lögreglunni, Ríkisskattstjóra, Vinnueftirlitinu og Vinnumálastofnun, sem hefur það eina markmið að hafa eftirlit með vinnumarkaðnum og grípa inn í. Slík sveit er meðal annars starfrækt í Noregi.
Enn fremur leggur hópurinn mikla áherslu á að bætt verði verulega upplýsingagjöf til erlendra starfsmanna, þar á meðal með stofnun ráðgjafarstofu og aukinni upplýsingagjöf á vef. Einnig verði skipulögð upplýsingagjöf til atvinnurekenda um starfskjör. Hópurinn lagði auk þess áherslu á að stjórnvöld beiti sér fyrir því að koma í veg fyrir brotastarfsemi á vinnumarkaði undir formerkjum starfsnáms eða sjálfboðaliðastarfsemi og markaður skýr rammi um hvað skuli heimilað undir þeim formerkjum.
Í skýrslunni fjallar hópurinn einnig um að endurskoða þurfi skilgreiningu á mansali, að sett verði í lög bann við nauðungarvinnu og refsiákvæði til að tryggja skilvirka framkvæmd. Auk þess verði tryggð verði viðeigandi aðstoð og vernd fyrir fórnarlömb vinnumansals og nauðungarvinnu.
Fastur samráðshópur stjórnvalda og aðila vinnumarkaðsins
Hópurinn leggur jafnframt til að komið verði á formlegu samstarfi ríkisstjórnar, stjórnvalda og aðila vinnumarkaðarins um stefnumótun og upplýsingaskipti um brotastarfsemi á vinnumarkaði, samráðshópi sem hafi það hlutverk að hafa yfirsýn yfir sviðið, móta stefnu og vera ríkisstjórn til ráðgjafar. Í samráðshópi skuli sitja fulltrúar forsætis-, dómsmála-, fjármála-, félagsmála- og atvinnuvegaráðuneytanna, ákæruvalds, heildarsamtaka stéttarfélaga Alþýðusambands Íslands, Bandalags háskólamanna, BSRB, o.s.frv. Samtaka atvinnulífsins, stærstu sveitarfélaga og Sambands íslenskra sveitarfélaga og hugsanlega fleiri aðila.
„Samráðshópurinn skal móta tillögur til ríkisstjórnar um áherslur og aðgerðir og komi þær til endurskoðunar á minnst tveggja ára fresti og sé jafnframt til 11 eftirlits og stefnumótunar gagnvart þeim stjórnvöldum sem sinna málaflokknum. Eðlilegt er að þetta samstarf verði undir forystu forsætisráðuneytisins.“ segir í skýrslunni.