Eftir að Jón Gunnarsson tók við formennsku í umhverfis- og samgöngunefnd á fundi hennar í morgun liggur fyrir að Sjálfstæðisflokkurinn stýrir nú helmingi allra fastanefnda á Alþingi. Fyrir hafði flokkurinn formennsku í allsherjar- og menntamálanefnd, þar sem Páll Magnússon er formaður, í efnahags- og viðskiptanefnd, þar sem Óli Björn Kárason gegnir formennsku, og í utanríkismálanefnd, þar sem formaðurinn er Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir.
Hinir tveir ríkisstjórnarflokkarnir hafa einungis formennsku í sitthvorri fastanefndinni. Lilja Rafney Magnúsdóttir situr sem formaður fyrir Vinstri græn í atvinnuveganefnd og Willum Þór Þórsson, þingmaður Framsóknarflokks, er formaður fjárlaganefndar.
Samkvæmt samkomulagi milli stjórnar og stjórnarandstöðu fengu flokkarnir sem sitja í minnihluta formennsku í þremur nefndum við upphaf þingstarfa í kjölfar síðustu kosninga.
Þriðji stærsti stjórnarandstöðuflokkurinn, Miðflokkurinn, fékk svo formennsku í umhverfis- og samgöngunefnd. Í þann formannsstól settist Bergþór Ólason.
Vildu ekki að Klaustursmenn stýrðu nefndum
Bergþór var einn sexmenninganna sem sat við drykkju á Klausturbar 20. nóvember síðastliðinn og hafði sig einna mest frammi við að láta níð og gífuryrði, sum hver klámfengin, falla um meðal annars aðra stjórnmálamenn, sérstaklega konur.
Hann fór í leyfi frá störfum eftir að málið var opinberað vegna upptöku Báru Halldórsdóttur af samtali sexmenninganna en snéri aftur, ásamt Gunnari Braga Sveinssyni, til þingstarfa 24. janúar síðastliðinn.
Fyrsti fundur umhverfis- og samgöngunefndar eftir endurkomu Bergþórs var haldinn 29. janúar. Ljóst var fyrir fundinn að mikil andstaða var hjá hluta nefndarmanna, og hluta þingheims alls, við það að einn af þeim sem sátu á Klaustri myndi gegna nefndarformennsku. Það væri ekki boðlegt að slíkur stýrði nefnd sem þyrfti að boða allskyns gesti fyrir sig og vinna með öllum þingmönnum.
Á fundinum var lögð fram tillaga um að Bergþór myndi víkja sem formaður. Þeirri tillögu var vísað frá af meirihluta nefndarinnar. Það var rökstutt með því að það hlyti að vera mál stjórnarandstöðunnar að ákveða hvernig hún skipti á milli sín formennsku í nefndum sem hún hefði formennsku í.
Enginn vilji er hjá þorra stjórnarandstöðunnar að taka upp samkomulag um skiptingu formennskuembætta, meðal annars vegna þess að innan hennar er hræðsla við að Ólafur Ísleifsson og Karl Gauti Hjartarson, nú þingmenn utan flokka, muni ganga til liðs við Miðflokkinn og gera hann að stærsta stjórnarandstöðuflokknum. Samkvæmt hefð fengi hann þá að velja fyrstu milli formennsku í þeim þremur nefndum sem standa stjórnarandstöðunni til boða. Og fulltrúar Samfylkingar, Pírata og Viðreisnar vilja alls ekki að það gerist, þar sem þeir óttast að þá muni Miðflokkurinn taka við formennsku í stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd, einni valdamestu nefnd þingsins.
Kosið eftir nýjum víglínum
Aftur dró til tíðinda í umhverfis- og samgöngunefnd þegar Bergþór Ólason las upp yfirlýsingu við upphaf fundar þar sem hann tilkynnti að hann myndi víkja sem formaður. Krafa hafði verið uppi hjá meirihluta stjórnarandstöðunnar að Miðflokkurinn myndi einfaldlega skipa annan þingmann flokksins, sem hafði ekki verið á Klaustri í nóvember, sem nýjan formann nefndarinnar.
Því skapaðist sú staða að ný vígstaða skapaðist, sem var ekki eftir stjórnar- og stjórnarandstöðulínum. Ari Trausti Guðmundsson, hinn fulltrúi Vinstri grænna í nefndinni, studdi til að mynda ekki ofangreinda tillögu.
Þess í stað var lögð fram ný tillaga um að Jón Gunnarsson, þingmaður Sjálfstæðisflokks, myndi taka tímabundið við formennsku í nefndinni. Ari Trausti tók við sem 1. varaformaður og Líneik Anna Sævarsdóttir, þingmaður Framsóknarflokks, verður 2. varaformaður.
Þórhildur Sunna Ævarsdóttir, þingflokksformaður Pírata, hafði raunar spáð þessari niðurstöðu í stöðuuppfærslu sem hún birti á Facebook í gær. Þar sagði hún meðal annars að meirihlutinn á Alþingi væri að notfæra sér „óþol okkar fyrir Bergþóri Ólafssyni í formannsstóli með því að taka til sín stólinn og setur þangað Jón Gunnarsson, skuggasamgöngumálaráðherra Íslands.“
Þessa tillögu studdu allir stjórnarþingmenn í nefndinni utan Rósu Bjarkar auk Bergþórs og Karls Gauta. Í stað þess að halda formennsku í umhverfis- og samgöngunefnd, með því að skipa annan þingmann sinn í embættið, studdi Miðflokkurinn það að þingmaður Sjálfstæðisflokksins fengi formannssætið. Sem þýðir að sá flokkur stýrir nú helmingi allra fastanefnda á þingi.
Til viðbótar fer Sjálfstæðisflokkurinn með fimm af ellefu ráðherrastólum, eða 45 prósent allra ráðuneyta. Þar á meðal er fjármála- og efnahagsráðuneytið, stýrt af Bjarna Benediktssyni, sem heldur utan um ríkisbudduna og hefur því áhrif á það fjármagn sem fer til allra hinna ráðuneytana.
Sjálfstæðisflokkurinn fékk 25,3 prósent atkvæða í síðustu kosningum og mældist með 23,4 prósent fylgi í síðustu könnun Gallup á fylgi stjórnmálaflokka.
„Afstaða hins nýja meirihluta liggur nú fyrir“
Upplýsingafulltrúi Vinstri grænna sendi tilkynningu fyrir hönd flokks síns, Framsóknarflokks og Sjálfstæðisflokks vegna formennsku í umhverfis- og samgöngunefnd, í morgun eftir að niðurstaða lá fyrir um að Jón myndi taka við formennsku hennar.
Þar sagði að umhverfis- og samgöngunefnd hefði verið óstarfshæf um tíma og að það hefði truflað störf Alþingis. Þingflokksformenn hefðu leitað leiða til að vinna úr stöðunni en það hefði ekki skilað árangri. Miðflokkurinn hafi auk þess heldur ekki viljað skipta um sinn fulltrúa í nefndinni.
Í tilkynningunni segir síða að að sé hluti af ábyrgð þeirra sem hafi meirihluta á Alþingi að tryggja að störf þingsins geti gengið eðlilega fyrir sig. Því hafi þingmenn stjórnarflokkanna talið eðlilegt að kjósa Jón sem formann á meðan að ekki næðist samkomulag um annað fyrirkomulag. „Það er öllum ljóst að um tímabundna lausn sé að ræða til að koma störfum nefndarinnar í rétt horf. Ef og þegar aðstæður breytast eru stjórnarflokkarnir reiðubúnir að endurskoða þessa stöðu og telja raunar mikilvægt að slíkt endurmat eigi sér stað fyrir þinglok. Þar sem hér er um tímabundna ráðstöfun að ræða líta stjórnarflokkarnir ekki svo á að taka þurfi upp allt samkomulag stjórnar og stjórnarandstöðu um formennsku í fastanefndum Alþingis að svo stöddu.“
Tilkynningin var send út í nafni allra þriggja stjórnarflokkanna þrátt fyrir að Rósa Björk, annar nefndarmaður Vinstri grænna í nefndinni, hefði ekki stutt tillöguna um að gera Jón að formanni hennar.
Síðar í dag var send út tilkynning frá Samfylkingu, Pírötum, Viðreisn og Flokk fólksins vegna formannskipta í umhverfis- og samgöngunefnd. Þar lýstu flokkarnir fjórir yfir „miklum vonbrigðum með að ríkisstjórnarflokkarnir VG, Sjálfstæðisflokkur og Framsókn, hafi stutt tillögu Miðflokksins sem lagði til brot á samkomulagi stjórnar og stjórnarandstöðu um skiptingu á formennsku í nefndum.“
Fulltrúar minnihlutans hefðu margsinnis lagt til að Miðflokkur tilnefndi einhvern þeirra þriggja þingmanna flokksins sem ekki höfðu tekið þátt í samkomunni á Klaustri í formannsstólinn eða að formannsembættið færðist til á næsta flokk í stjórnarandstöðunni, sem væri Viðreisn, á meðan Miðflokkurinn leysti ekki úr sínum málum. „Fulltrúi Miðflokks kaus hins vegar að leggja til að formennska færi heldur til stjórnarliða sem meirihlutinn samþykkti[...]Afstaða hins nýja meirihluta liggur nú fyrir. Stjórnarflokkarnir nýta sér þær fordæmalausu aðstæður sem uppi eru og varða virðingu Alþingis og störf til að ganga á bak orða sinna varðandi samkomulag við stjórnarandstöðuna um skiptingu formennsku í nefndum.“