Lífsháski við Alþingi
Auður Jónsdóttir rithöfundur og Bára Huld Beck blaðamaður Kjarnans slógust í för með flóttamönnum í mótmælum sem krefjast sanngjarnar málsmeðferðar og þess að Dyflinnarreglugerðin verði lögð niður. Þær tóku menn tali á þessum kalda Reykjavíkurdegi en rákust líka á dularfullan mann með rauðan trefil.
Úti var froststilla þegar mótmælaganga flóttafólks lagði af stað frá Hallgrímskirkju niður Skólavörðustíginn. Nokkrir ferðamenn stöldruðu við og munduðu myndavélar sínar en fáir Íslendingar virtust vera á ferli, einhverjir kaupmenn kíktu þó út í gættina við að heyra mótmælaköll og trumbuslátt. Annars virtist gangan ekki vekja mikla forvitni hjá landanum, nema jú, kona með barnavagn staldraði við og virti hana fyrir sér.
Í göngunni voru umtalsvert fleiri karlar en konur, þær mátti jafnvel telja á fingrum annarrar handar.
Við gengum áleiðis með mótmælendum sem var augsýnilega mikið niðri fyrir þrátt fyrir fálátar undirtektir og raunar furðu litla athygli miðað við hvernig gangan stakk í stúf við reykvíska borgarmyndina á miðvikudagseftirmiðdegi í febrúar.
Neðst í Bankastræti staðnæmdumst við á ljósum ásamt erlendum karlmanni sem við gátum okkur til að væri einhver staðar frá Bretlandseyjum, keltnesk hint í hreim hans; með hornspangargleraugu og kaskeiti í síðum frakka með stóran, rauðan trefil.
Maðurinn rak augu í skilti eins mótmælandans með áletruninni Niður með landamæri – vék sér að samferðamanni okkar og spurði: What does landamæri mean?
Samferðmaður okkar svaraði: It means borders. The sign says: No borders.
Þá sagði maðurinn: That's a beautiful dream. Hann tók sér kúnstpásu og muldraði síðan: They're always building walls. But no wall stands forever.
Gangan staðnæmdist á Austurvelli; á að giska sjötíu manns, andspænis lögreglumönnum sem stóðu vörð fyrir framan Alþingi – tóma bygginguna því þingmenn eru nú í kjördæmavikunni á fartinni út um land allt. Mótmælendur hrópuðu: Stop deportations! No borders! No nations!
Við horfðum á hópinn sem, eins og áður sagði, samanstóð að mestu leyti af ungum karlmönnum. Bláköld staðreynd að einhleypir karlmenn í leit að alþjóðlegri vernd eiga ekki mikinn séns, ekki einu sinni ungir strákar. Samúð almennings nær sjaldnast til þeirra þegar hann tekur stök mál í hendur sínar og reynir að knýja þau áfram til endurskoðunar.
Nöturleg staðreynd – líf þeirra.
Í ræðuhöldunum var ekki seinna vænna að taka einhverja mennina tali. Við hittum vin okkar, Ali Rasouli, sem við höfum áður tekið viðtal við og býr nú til frambúðar í Kópavogi ásamt eiginkonu og syni. Hann sagði mikilvægt að Íslendingar sýndu flóttafólkinu stuðning og kynnti okkur fyrir tveimur vinum sínum frá Afganistan, þeim Mohammad Mohammadi og Ali Yaghobi.
Ungir félagar frá Afganistan
Mohammad Mohammadi hefur verið á Íslandi í næstum því sex mánuði. Hann hefur fengið eitt neikvætt svar frá Útlendingastofnun vegna Dyflinnarreglugerðarinnar. Hann kom frá Svíþjóð en þar dvaldi hann í þrjú ár. Þar fékk hann í þrígang neikvæð svör. „Ég fæ alltaf neikvæð svör, í hvert einasta skiptið,“ sagði hann.
Mohammad er uppruninn frá Afganistan en hann yfirgaf heimalandið þegar hann einungis var átta ára gamall, fyrir tíu árum síðan. Á þessu tímabili hefur hann verið í Tyrklandi, Þýskalandi, Íran og núna síðast í Svíþjóð.
„Allt mitt líf hefur verið svona,“ bætti Mohammad við en foreldrar hans búa í Íran og kvaðst hann ekki geta búið þar vegna þess að ungir menn með þennan uppruna – eins og hann sjálfur – væru ofsóttir þar í landi. Þar væri engin framtíð fyrir hann og lífið óbærilegt. Hann gæti heldur ekki snúið til baka til Afganistan þar sem hann er Hazari en þjóðflokkurinn er ofsóttur í Afganistan.
Ég fæ alltaf neikvæð svör, í hvert einasta skiptið.
Hann sagðist hafa verið einn á flótta frá því hann var átta ára gamall og þegar við spurðum hann út í framtíðina hafði hann fá svör. „Ég hef engin plön, það er síðasti sénsinn minn að vera hér,“ útskýrði hann.
Vinur Mohammad, Ali Yaghobi, kom einnig frá Svíþjóð samferða honum. Hann hafði svipaða sögu að segja, fjölskylda hans dvelst nú í Íran. Ali hefur ekki enn fengið svar frá Útlendingastofnun og hann hefur ekki hugmynd um hvernig mál hans muni fara.
Þeir búa báðir á Ásbrú – ásamt öðrum karlmönnum – en þeir lýstu aðstæðum þar frekar bágum. Þeim líður eins og föngum þar, langt frá öllum öðrum og án þess að hafa eitthvað fyrir stafni á daginn. Það eina sem þeir gera er að vakna, borða, bíða og leggjast aftur í rekkju. Svona líða dagarnir, vikurnar og mánuðirnir. „Öryggisverðirnir líta á okkur sem fanga,“ sagði Mohammad en báðum finnst þeir vera einangraðir og án upplýsinga.
Mohammad telur hættulegt fyrir þá að fara til Afganistans vegna uppruna þeirra. „Það yrði ráðist á okkur á hverjum degi. Það er vel hægt að sjá á fréttaflutningi frá Afganistan að ráðist er á Hazara dag hvern. Við munum aldrei eiga afturkvæmt, sérstaklega vegna þess að við höfum dvalið í Evrópu og teljumst þá vera síðri múslimar. Okkur yrði aldrei tekið vel þar.“
Pólitískur aktívisti frá Suður Kamerún
Annar flóttamaður varð á vegi okkar en hann kallar sig Check Elvis og er frá Suður Kamerún í Afríku. Hann hefur verið á flótta síðan í nóvember 2016. Hann arkaði á Austurvöll til að mótmæla brottvísunum og Dyflinnarreglugerðinni. Hann álítur að kerfið sé ekki manneskjulegt og að flóttafólk hafi ekki rými til að útskýra nægilega vel þær ástæður sem liggja að baki því að það flúði til Íslands.
Hann benti á að gallinn við Dyflinnarreglugerðina væri sá að strembið sé að koma til Íslands án þess að koma við í öðru landi í Evrópu, þannig að auðvelt væri fyrir stjórnvöld að neita flóttamönnum og senda þá í síðasta landið sem þeir dvöldu í. Hann sagði að gríðarlega mörgum væri einmitt neitað vegna þessa.
Elvis hefur enn ekki fengið svar og er ekki bjartsýnn. Hann hefur dvalið á Íslandi í um fjóra mánuði núna en hann kom hingað til lands frá Ítalíu.
Hann kvaðst vera pólitískur aktívisti, því hefði honum ekki verið stætt á að vera í heimalandinu og væri í mikilli hættu ef hann snéri aftur. Margir af félögum hans hefðu verið drepnir eða handsamaðir og fangelsaðir. Mikil ólga væri í landinu um þessar mundir. Hann sagðist hafa sofið á götunni á Ítalíu og því ekki getað dvalið þar. Ekkert bíði hans þar ef hann verði sendur aftur.
„Þegar ég er einn í herberginu mínu á fæ ég hryllilegar myndir upp í hugann af morðum sem ég hef orðið vitni að. Ég upplifi að réttlætinu hafi ekki verið fullnægt fyrir mig. Það eru þjóðarmorð í gangi í heimalandi mínu,“ sagði hann.
Fjölskylda hans dvelur nú í skógi en hún hefur flúið herinn og stjórnvöld í Suður Kamerún. Hann hefur engar leiðir til að hafa samband við þau og veit ekki nákvæmlega hvar þau eru stödd núna. „Ég vona auðvitað að þau séu örugg og að það verði í lagi með þau.“
Þetta er pólitísk ákvörðun
Þegar Check Elvis kvaddi okkur og hélt áfram út í óvissuna voru allir horfnir. Við röltum út Austurvöllinn en staðnæmdumst þegar við rákumst á Helgu Völu Helgadóttur, þingkonu og mannréttindalögfræðing.
Hvaða ferð er á þér? spurðum við.
Hún svaraði eitthvað á þá leið að hún hefði verið viðstödd mótmælin til að sýna stuðning sinn.
Viltu segja okkur eitthvað um það? spurði önnur okkar.
Já, já, samþykkti Helga Vala. „Mér finnst að við höfum ekki hugað nægilega vel að mannúðarþættinum þegar kemur að móttöku umsækjenda um vernd. Á sama tíma og við flytjum inn bílfarma af fólki til að vinna hér, vegna þess að við erum ekki nógu mörg, þá neitum við þeim um að vinna sem bíða hér mánuðum og árum saman eftir úrlausn sinna mála. Við neitum þeim að sjá fyrir sér,“ sagði hún og benti á að svoleiðis hefði þetta ekki alltaf verið á Íslandi. „Það er pólitísk ákvörðun að gera þetta þannig.“
Hér áður fyrr gat fólk sótt um að fá útgefið bráðabirgðadvalarleyfi og -kennitölu. „Þá fór fólk af öllum stuðningi – sem og húsnæðisstuðningi. En þetta er bannað í dag,“ sagði hún. Henni finnst þetta fyrirkomulag kjánalegt. „Mér finnst við fara illa með fólk. Sumir skilja enga mannúð, skilja bara peninga. Þá vil ég segja við það fólk: Þarna erum við að fara illa með peninga. Vegna þess að við erum að banna fólki að vinna sem getur bjargað sér – og vill leggja til samfélagsins. Við erum að koma í veg fyrir það.“
Mér finnst við fara illa með fólk. Sumir skilja enga mannúð, skilja bara peninga. Þá vil ég segja við það fólk: Þarna erum við að fara illa með peninga.
Við kvöddum því næst Helgu Völu og gengum sem leið lá framhjá Kaffi París. Þá sáum við að maðurinn með rauða treflinn og skilninginn á því að allir múrar hverfi á endanum var sestur þar við gluggann andspænis Sjón, rithöfundi og formanni Íslandsdeildar PEN-samtakanna.
Þeir slaufuðust saman á svo undarlega skáldlegan hátt að okkur dauðlangaði að vita deili á manninum. Svo Sjón – ef þú lest þessa grein – viltu þá segja okkur hver maðurinn er?
Hvert er allt þetta fólk sem rekur upp á strendur Íslands og hverju skyldi það búa yfir?
Lesa meira
-
6. janúar 2023Dómsmálaráðuneytið áfrýjar dómi í máli Hussein til Landsréttar
-
22. desember 2022Stórefast um að smyglarar láti segjast – Rúandaleiðin líkleg til að mistakast
-
16. desember 2022Segir Múlaþing ekki vera að útiloka flóttafólk frá öðrum ríkjum en Úkraínu
-
12. desember 2022Úrskurður kærunefndar í máli Hussein felldur úr gildi
-
11. desember 2022Reikna með að minnsta kosti 4.900 flóttamönnum til landsins á næsta ári
-
16. nóvember 2022Ráðuneyti og dómsmálaráðherra „komu ekki að ákvörðun tímasetningar“ á brottflutningi flóttafólksins
-
11. nóvember 2022„Ég er á lífi en ég lifi í raun og veru ekki“
-
9. nóvember 2022Sérkennilegt að flokkur sem stóð fyrir brottvísun telji stefnu sína mannúðlega
-
7. nóvember 2022Lýðræðið, frelsið og baðvatnið
-
5. nóvember 202241 lögreglumaður flaug með fimmtán manneskjur úr landi