Mynd: Þórður Snær Júlíusson

Kaupþing: Bankinn sem átti sig sjálfur

Kaupþing var allra banka stærstur á Íslandi fyrir bankahrun. Og dómstólar hafa komist að þeirri niðurstöðu að helstu stjórnendur hans hafi framið fordæmalausa efnahagsglæpi á meðan að bankinn var á lífi. Í bókinni Kaupthinking: Bankinn sem átti sig sjálfur, sem kom út í nóvember 2018, er saga hans rakin. Höfundur hennar, ritstjóri Kjarnans, var í gær tilnefndur til Blaðamannaverðlauna Íslands fyrir hana.

Ég hef kannað þetta ítar­lega og kom­ist að því að þetta tengd­ist ekk­ert fjár­málakreppu, þetta voru alger Ponzi-­svik og úti­lokað að það hefði haldið velli. Það hefði bara þurft einn mann innan bank­ans til að taka upp sím­ann og segja „Þessi banki á sig sjálf­ur“ og þá hefði hann hrun­ið. Merki­legt að það gerð­ist ekki.“

Þetta sagði Kevin Stan­ford, einn stærsti við­skipta­vinur Kaup­þings banka fyrir hrun í yfir­heyrslum hjá emb­ætti sér­staks sak­sókn­ara. Þar sagð­ist hann líka hafa haft ein­stakan aðgang að stjórn­endum Kaup­þings. Aðgang sem hann hefði ekki fengið hjá öðrum alþjóð­legum bönk­um. „Ég gat hringt í for­stjóra bank­ans. […] Okkur fannst gaman að stunda við­skipti og hafa aðgang að pen­ing­um.“ Stan­ford kall­aði enn fremur hin svoköll­uðu CLN-við­skipti sem hann tók þátt í að und­ir­lagi Kaup­þings  „kjarn­orku­sprengju í fjár­mál­u­m“. Aðspurður af hverju hann hefði verið „val­inn“ til að vera eig­andi eins félags­ins sem notað var í þau við­skipti sagði Kevin að hann héldi að það hefði verið vegna þess að hann „var eini hvíti mað­ur­inn í þorp­in­u“. Það hafi verið mik­il­vægt að hann væri útlend­ing­ur, ekki Íslend­ing­ur, svo að það liti út fyrir að alþjóð­legur fjár­festir væri að kaupa.

Yfir­heyrsl­urnar eru hluti af tug­þús­undum skjala sem fjallað er um í bók­inni Kaupt­hink­ing: Bank­inn sem átti sig sjálfur eftir Þórð Snæ Júl­í­us­son, rit­stjóra Kjarn­ans, sem kom út í nóv­em­ber 2018 og var í gær til­nefnd til Blaða­manna­verð­launa Íslands.

Þú getur það, þú þarft bara að halda að þú getir það

Kaup­þing var allra banka stærstur á Íslandi, menn­irnir sem stjórn­uðu honum voru álitnir nokk­urs konar hálf­guðir og sjálfs­mynd þeirra og margra ann­arra sem störf­uðu fyrir bank­ann var nátengd árangri hans. Ekk­ert verk­efni var of stórt til að takast á við og engin mark­mið voru of umfangs­mik­il. Allt var hægt. Þangað til að bank­inn féll með látum haustið 2008 ásamt öllu íslenska banka­kerf­inu og með til­heyr­andi áhrifum á íslenskt sam­fé­lag.

Kaupt­hink­ing er nefnd eftir hug­mynda­fræði sem sett var fram í hvatn­ing­ar­mynd­bandi fyrir starfs­menn bank­ans, þar sem dimm­radd­aður þulur lýsti því yfir hvernig væri hægt að vaxa hratt með því að vera sveigj­an­leg­ur, hreyfa sig hraðar og vera snjall­ari en skrifræð­ið. Og að það væri hægt að skemmta sér kon­ung­lega á með­an. „Ef þú vilt breyta heim­in­um, þá get­urðu það. Þú þarft bara að halda að þú getir það.“

Bókin byggir á tíu ára vinnu höf­undar og á miklu magni trún­að­ar- og rann­sókn­ar­gagna, íslenskum og erlend­um, sem hann fékk aðgang að snemma á árinu 2018. Á meðal þeirra gagna eru, ógrynni tölvu­pósta, frum­gögn innan úr Kaup­þingi, yfir­heyrslur yfir sak­born­ingum og vitn­um, grein­ar­gerðir rann­sak­enda í risa­vöxnum málum og hlust­anir í síma sem flestar áttu sér ann­að­hvort stað um það leyti sem skýrsla rann­sókn­ar­nefndar Alþingis birti skýrslu sína í apríl 2010 eða um mán­uði síðar í kjöl­far þess að helstu stjórn­endur Kaup­þings voru hnepptir í gæslu­varð­hald vegna gruns um stór­fellda brota­hegð­un. Flestir þeirra hlutu síðar fang­els­is­dóma fyrir efna­hags­brot sem eiga sér enga hlið­stæðu í Íslands­sög­unni.

Það er eins og þú sért að tala kín­versku

Gögnin sýna meðal ann­ars hvernig margir af helstu við­skipta­vinum og milli­stjórn­endur Kaup­þings upp­lifðu bank­ann í bak­sýn­is­spegl­in­um. Á meðal þeirra sem tekin var skýrsla af er Sheikh Mohammed Bin Khalifa Al Thani, úr kon­ungs­fjöl­skyld­unni í Kat­ar. Al-T­hani var kynntur sem kaup­andi að rúm­lega fimm pró­sent hlut í Kaup­þingi í sept­em­ber 2008. Síðar kom í ljós að Kaup­þing hafði fjár­magnað kaupin sjálft og við­skiptin leiddu til þess að þrír af  æðstu stjórn­endum bank­ans, ásamt einum helsta eig­anda hans, voru dæmdir til fang­els­is­vistar í febr­úar 2015 fyrir mark­aðs­mis­notk­un, umboðs­svik eða hlut­deild í þeim brot­um. Til við­bótar stóð til að Al Thani myndi taka þátt í svoköll­uðum CLN-við­skiptum sem höfðu þann til­gang að reyna að ná niður skulda­trygg­inga­á­lagi bank­ans.

Þegar Al Thani var spurður út í þau við­skipti af rann­sak­endum sér­staks sak­sókn­ara við skýrslu­gjöf sagði hann: „„Getur þú útskýrt þetta, ég skil ekki hvað þú ert að segja[...]það er eins og þú sért að tala kín­versku.“

Annar stór við­skipta­vinur Kaup­þings, sem tók þátt í CLN-við­skipt­unum án tap­á­ættu og með fjár­magn frá bank­anum sjálf­um, var Tony Yer­olemou. Sá sat um tíma í stjórn Kaup­þings.

Við yfir­heyrslur sagði hann: „Ég hafði sjálfur enga hug­mynd um hvað bank­inn var að gera, ég hefði ekki getað vitað það. Ég gerði ráð fyrir að stjórn­endur hans vissu hvað þeir væru að gera. […] Þeir voru mjög bjart­sýnir og alltaf að reyna að kaupa aðra banka og ég held að það hafi verið mis­tök að menn héldu að með því að kaupa aðra myndu hlut­irnir hækk­a.“

Enn annar við­skipta­vin­ur, Vincent Tchengu­iz, sagði að íslensku bank­arnir hefðu ekki verið raun­veru­legir bankar, heldur vog­un­ar­sjóð­ir.

„Ég var að vona að þið mynduð ekki fatta þetta“

Margir hátt­settir starfs­menn voru ekki síður skept­ískir á það sem átt hafði sé stað innan Kaup­þings síð­ustu miss­erin í til­veru bank­ans. Það kom ber­sýni­lega í ljós í sím­tölum þeirra á milli sem voru hlust­uð. Afrit af mörgum þeirra sím­tala eru birt í bók­inni.

Hver á Dekhill Advisors?

Í skýrslu rannsóknarnefndar Alþingis um aðkomu Hauck & Aufhäuser að kaupunum á 45,8 prósent hlut í Búnaðarbankanum í janúar 2003, sem birt var í fyrra, kom fram að aflandsfélagið Dekhill Advisors Limited, skráð á Tortóla, hafi hagnast um 46,5 milljónir Bandaríkjadala, 2,9 milljarða króna á þávirði, á fléttu sem ofin var í kringum kaupin á bankanum. Á núvirði er upphæðin um 5,8 milljarðar króna.

Niðurstöður rannsóknarinnar sýndu að ítarleg gögn styðji að Hauck & Aufhäuser, Kaupþing hf. á Íslandi, Kaupthing Bank Luxembourg og hópur manna sem vann fyrir og í þágu Ólafs Ólafssonar fjárfestis hafi notað leynilega samninga til að fela raunverulegt eignarhald þess hlutar sem Hauck & Aufhäuser átti í Búnaðarbankanum í orði kveðnu.

Engar upplýsingar fengust um hver væri eigandinn hjá helstu stjórnendum Kaupþings. Þeir virtust ekki hafa neina hugmynd um hverjum þeir færðu milljarða króna í fléttu sem þeir hönnuðu og framkvæmdu. Í bréfi Hreiðars Más Sigurðssonar, forstjóra Kaupþings, til rannsóknarnefndarinnar kvaðst hann aldrei hafa heyrt minnst á þetta félag fyrr en í bréfi frá henni. Svör Bjarka Diego og Magnúsar Guðmundssonar, tveggja lykilstjórnenda hjá bankanum fyrir hrun, í bréfum þeirra voru á sömu leið.

Í svarbréfum Sigurðar Einarssonar, Kristínar Pétursdóttur og Steingríms Kárasonar var spurningum nefndarinnar, sem öll voru einnig um tíma í lykilhlutverkum hjá Kaupþingi áður bankinn fél,l um Dekhill Advisors ekki svarað sérstaklega. Þá svöruðu þeir Lýður og Ágúst Guðmundssynir, bræður sem voru stærstu eigendur og á meðal stærstu viðskiptavina Kaupþings, fyrirspurnum nefndarinnar um félagið á þann veg að þá „reki ekki minni til atriða sem því tengjast“.

Í bókinni er greint frá því að fyrir liggi að einhver hafi enn að notast við Dekhill Advisors mörgum árum eftir hrun. Í desember 2009 gerði félagið handveðssamning við svissneska bankann Julius Bäer vegna fjármálagjörnings sem það var að taka þátt í. Gögn sýna síðan að Dekhill Advisors var enn til og í virkni í lok september 2016.

Það er því skýrt að einhverjir hafa haft aðgang að og notað fjármunina sem greiddir voru inn í Dekhill Advisors í janúar 2006, á árunum eftir hrun. Og félagið var enn í starfsemi haustið 2016. Á árinu 2018 fékk embætti skattrannsóknarstjóra þau svör frá svissneskum yfirvöldum að það myndi ekki fá upplýsingum um hver væri eigandi Dekhill Advisors frá þeim. Ástæðan væri sú að eigendur félagsins lögðu fram vottorð þess efnis að þeir væru ekki skattskyldir á Íslandi,og þar af leiðandi töldu yfirvöld í Sviss sig ekki geta veitt embættinu upplýsingarnar. Sá aðili sem veitti staðfestinguna, sem það vottorð byggir á, er Ríkisskattstjórinn á Íslandi.

Í svari Bryndísar Kristjánsdóttur skattrannsóknarstjóra við fyrirspurn Kjarnans um málið sagði:„Skattrannsóknarstjóri telur sig hafa trúverðugar vísbendingar um það hvaða aðili/aðilar þarna er um ræða og hefur upplýst skattyfirvöld viðkomandi ríkis um málið. Eftir atvikum geta þau þá fylgt málinu eftir telja þau ástæðu til.“

Í Kaupthinking var, í fyrsta sinn, opinberað að þeir sem starfsmenn skattrannsóknarstjóra telja að séu endanlegir eigendur Dekhill Advisors eru bræðurnir Ágúst og Lýður Guðmundssynir.

Í Panamaskjölunum var opinberað að bræðurnir áttu að minnsta kosti sex félög á Tortóla-eyju. Eitt þeirra félaga sem bræðurnir eiga þar heitir Alloa Finance Limited. Það félag á síðan íslenskt félag sem heitir Korkur Invest ehf. og í árslok 2014 hafði Alloa Finance lánað Korki Invest tæplega 4,4 milljarða króna til að kaupa bréf í Bakkavör.

Fjármunirnir voru fluttir til landsins í gegnum fjárfestingarleið Seðlabanka Íslands, sem tryggði virðisaukningu upp á að minnsta kosti 20 prósent þegar fjármununum var skipt í íslenskar krónur.

Á meðal þeirra sem ræddu saman í síma í apríl 2010, rétt eftir að skýrsla rann­sókn­ar­nefndar Alþingis um orsök og afleið­ingar falls bank­anna var birt, voru Helgi Sig­urðs­son, fyrr­ver­andi for­stöðu­maður lög­fræðis­viðs Kaup­þings, og Bjarki Diego, fyrr­ver­andi fram­kvæmda­stjóri útlána hjá Kaup­þingi. Bjarki hlaut síðar tveggja og hálfs árs fang­els­is­dóm í stóra mark­aðs­mis­notk­un­ar­máli Kaup­þings. Í sím­tal­inu ræða þeir meinta mark­aðs­mis­notkun út frá þeim upp­lýs­ingum sem komu fram í rann­sókn­ar­skýrsl­unni, sér­stak­lega kaup félags­ins Desulo Tra­d­ing, sem var í eigu Egils Ágústs­son­ar, á hluta­bréfum í Kaup­þingi sem fjár­mögnuð voru að fullu af sama banka. Þau kaup voru á meðal þeirra sem voru undir í áður­nefndu mark­aðs­mis­notk­un­ar­máli, þar sem níu manns voru dæmdir sekir í Hæsta­rétti í októ­ber 2016.

Í sím­tal­inu sagði Helgi, sem í dag er hér­aðs­dóm­ari, orð­rétt: „Þarna er bók­staf­lega verið að „plass­era“ bréf­um. Þetta eru svo aug­ljós­lega sýnd­ar­við­skipti ef það átti ekk­ert fé að koma til þarna og það var ekki einu sinni rætt.“

Sumir starfs­menn virt­ust geta séð spaugi­legu hlið­ina á því sem var að ger­ast á loka­metr­unum í lífi Kaup­þings banka, og var síðar dæmt sem mark­aðs­mis­notk­un. Einn við­skipta­stjóri á lána­sviði hafði verið kall­aður til fundar við við ytri end­ur­skoð­endur Kaup­þings vegna lána til eign­ar­lausra eða eigna­lít­illa félaga til að kaupa bréf í bank­an­um. Þetta var gert með tölvu­pósti sem var sendur 19. sept­em­ber 2008. Hann átti meðal ann­ars að svara því hvernig áður­nefnt Desulo Tra­d­ing ætl­aði að greiða upp lán sem var á gjald­daga í des­em­ber 2008.

Afrit af póst­inum var meðal ann­ars sent til Bjarka Diego sem svar­aði: „Good luck[…], það verður auð­velt fyrir þig að svara þessu!“ Við­skipta­stjór­inn svar­aði að bragði og sagði: „hehe … Það kemur víst alltaf að skulda­dögum – ég segi bara líkt og Nick Leeson sagði við end­ur­skoð­endur Bar­ings banka: „ég var að vona að þið mynduð ekki fatta þetta …“

Misst algjör­lega trú á þessum mönnum sem ráku þennan banka

Hall­dór Bjarkar Lúð­vígs­son, fyrr­ver­andi við­skipta­stjóri á útlána­sviði Kaup­þings, var ekki síður myrkur í máli við yfir­heyrsl­ur. „Ég hef misst algjör­lega trú á þessum mönnum sem að ráku þennan banka og áttu þennan banka og hérna[…]og á öllu sem þarna var gert,“ sagði hann við rann­sak­end­ur. 

Við fyrstu yfir­heyrsl­unum sem fóru fram yfir Hall­dóri Bjark­ar, sem var lyk­il­vitni sak­sókn­ara í hluta Kaup­þings­mála, sagð­ist hann hafa ætlað að hætta í banka­geir­anum við hrun­ið. Fyrir því hefðu verið tvær ástæð­ur: „Ann­ars vegar það sem ég varð vitni að í bank­anum svona vik­urnar og mán­uð­ina fyrir fall varð nú eig­in­lega til þess að ég varð mjög frá­hverfur þessu bankaum­hverfi og hitt það að þetta var bara hætt að vera gam­an.“ Hann hætti þó ekki og var lengi vel lyk­il­stjórn­andi innan Arion banka. Hall­dór Bjarkar starfar nú hjá Valitor, dótt­ur­fé­lagi Arion banka.

Við þurfum á þínu framlagi að halda

Þú getur tekið beinan þátt í að halda úti öflugum fjölmiðli.

Við sem vinnum á ritstjórn Kjarnans viljum hvetja þig til að vera með okkur í liði og leggja okkar góða fjölmiðli til mánaðarlegt framlag svo við getum haldið áfram að vinna fyrir lesendur, fyrir fólkið í landinu.

Kjarninn varð níu ára í sumar. Þegar hann hóf að taka við frjálsum framlögum þá varð slagorðið „Frjáls fjölmiðill fyrir andvirði kaffibolla“ til og lesendur voru hvattir til að leggja fram í það minnsta upphæð eins kaffibolla á mánuði.

Mikið vatn hefur runnið til sjávar á þeim níu árum sem Kjarninn hefur lifað. Í huga okkar á Kjarnanum hefur þörfin fyrir fjölmiðla sem veita raunverulegt aðhald og taka hlutverk sitt alvarlega aukist til muna.

Við trúum því að Kjarninn skipti máli fyrir samfélagið.

Við trúum því að sjálfstæð og vönduð blaðamennska skipti máli.

Ef þú trúir því sama þá endilega hugsaðu hvort Kjarninn er ekki allavega nokkurra kaffibolla virði á mánuði.

Vertu með okkur í liði. Þitt framlag skiptir máli.

Ritstjórn Kjarnans: Sunna Ósk Logadóttir, Þórður Snær Júlíusson, Erla María Markúsdóttir, Arnar Þór Ingólfsson, Eyrún Magnúsdóttir og Grétar Þór Sigurðsson.


Já takk, ég vil styrkja Kjarnann!
Meira eftir höfundinnÞórður Snær Júlíusson
Meira úr sama flokkiFréttaskýringar